Stórhættulegur hjólamaður

Open Street MapUm daginn var ég, sem oft áður, að hjóla. Ég merkti með grænu hvar ég var að hjóla. Ég var á stíg og að koma á stað sem er ætlaður til þess að tengja stíga sem eru sitt hvorum megin við götu þó þetta sé ekki merkt gangbraut. En þegar ég kem þarna sé ég bíl sem er að koma niður Arnarbakkann (rauði liturinn).

Ég fylgist með og honum tek eftir að hann gjóar ekki einu sinni augun í áttina að mér. Ég hægi því á mér og stoppa við götuna. Þegar hann keyrir þarna framhjá sé ég að ökumaðurinn sér mig og honum dauðbregður og bremsar meira að segja. Þó var ég alveg kyrrstæður. Ég er alveg sannfærður um að hann hefur haldið að þarna hafi næstum orðið slys út af stórhættulegum hjólamanni. Það er svo sem ágætt því þá mun þessi ökumaður kannski líta aðeins betur í kringum sig í framtíðinni.

Annars þá er ég áhugasamur um hvað ökumönnum er kennt um hjólreiðar í ökunáminu sínu. Ég man satt best að segja ekki eftir að hafa lært neitt. Það er allavega makalaust að heyra fólk kvarta yfir því að 1) hjól séu á götum 2) hjól séu á gangstéttum og 3) hjól fari yfir á gangbrautum þegar hjólreiðafólk er í fullum rétti á öllum þessum stöðum.

Auðvitað eiga hjólreiðamenn að sýna gangandi vegfarendum tillitssemi – það er frumskylda þess sem hjólar á gangstéttum. Hins vegar er bjallan afskaplega vafasamt öryggistæki og afskaplega sjaldan sem hún virkar eins og hún á að gera. Þegar maður hringir bjöllunni er allra líklegast að gangandi fólk fríki út og fari út í kant. Ef margir eru saman þá verður hrein ringulreið. Fólk tekur sumsé hringingunni þannig að hjólreiðamaðurinn sé að öskra “drullaðu þér í burtu” þegar maður er í raun að segja “bara að láta þig vita að ég er að koma”.

Reyndar er á einu hjólinu mínu afskaplega einföld bjalla sem kemur bara með eitt “ding” sem virðist virka miklu betur en háværari bjöllur, einmitt af því hún er svona hógvær. Síðan er líka bara hægt að segja “afsakið”. En ég hjóla afskaplega lítið (og ekki hratt) á þröngum gangstígum eða stéttum þar sem sambúð hjólafólks og gangandi er erfið.

Annars sá ég áðan bút úr Bílar 2 (Cars 2) og þar bjuggu bílarnir í borg sem var alveg eins og í okkar heimi fyrir utan að hún var búin til fyrir bíla. Auðvitað leit hún nákvæmlega út eins og flestar borgir heims gera hvort eð er því þær eru búnar til fyrir bíla.