Queenplötur dæmdar – 5. News of the World (1977)

News of the WorldNews of the World frá 1977 nær fimmta sætinu. Gefin út þegar pönkið var farið að springa út.

We Will Rock You er bara lag sem þið þekkið. Uppáhaldsútgáfan mín er þó BBC upptaka þar sem er líka hraður kafli eins og sá sem var spilaður á tónleikum.

We Are The Champions er bara hið fullkomna popprokklag þrátt fyrir ofspilun. Vísindalega sannað!
Sheer Heart Attack átti víst að vera á samnefndri plötu en var klárað fyrir þessa og hljómar eins og það sé samið til að falla í pönkstemminguna (þó það sé ekki þannig). Ekki lag sem ég elskaði við fyrstu hlustun en er stórskemmtilegt.

All Dead, All Dead fjallar um köttinn hans Brian May. Enn og aftur sést að kattavinir ættu að hlusta á Queen. Einfalt og fallegt lag. Eitt af þeim lögum sem tryggja að platan kemst á topp fimm.

Spread Your Wings er með bestu lögum John Deacon. Það er líka í miklum metum hjá Queenaðdáendum almennt. Stórkostlegt í raun.

Fight from the Inside er næstum sólólag Roger Taylor. Textinn virkar alltaf á mig eins og hann sé ádeila á pönkið. Maður mætti hlusta oftar á þetta lag. Flott rokk.

Get Down, Make Love er kynferðislegt í hljómi og texta. Það eru engir hljóðgervlar hérna þó maður gæti haldið annað, bara Brian að leika sér. Það er næstum vandræðalegt að játa að mér finnst þetta lag skemmtilegt því það er næstum hallærislegt. En húmorinn sko. Annars gerði Nine Inch Nails merkilega skemmtilega útgáfu af laginu.

Sleeping on the Sidewalk er ekki hægt annað en að elska. Saga af tónlistarmanni sem fer af götunni, á toppinn og aftur á götuna. Fyrir utan sönginn var þetta tekið í einni töku. Hér er enginn Freddie. Frábær texti.

Who Needs You er alltaf í svoltlu uppáhaldi. Steríóið vel notað. Klassískur John texti.

It’s Late er eitt af þessu lögum sem er hátt skrifað hjá Queenaðdáendum þó aðrir kannist varla við það. Ein ástæða er mörgum finnst mikið til þess koma að Brian notar “tapping” (hvernig þýðir maður það?) aðferð áður en Eddie van Halen gerði það að sínu einkennismerki. Textinn er ástarsaga. Frábært lag.

My Melancholy Blues er eiginlega djass en ekki blús. Voðalega eru þeir mikið í að rugla mann. En þetta var gjörsamlega eftirlætislagið mitt á plötunni í mörg ár. Það er líka frábært. Píanóið í aðalhlutverki.

Ég var eiginlega búinn að gleyma hve frábær þessi plata er. Það er eiginlega enginn veikur punktur. Vandinn er að hin lögin falla í skugg We-tvíbbanna.