Setti upp leikjatölvuhermi á Raspberry Pi dvergtölvu

Það eru hátt í tvö ár síðan ég keypti mér Raspberry Pi tölvu fyrst. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru þetta pínulitlar tölvur sem við fyrstu sín virðast frekar gagnslausar. Það sem gerðist þegar þær fóru á markað var að tölvunördar heimsins fengu kast og byrjuðu að hanna og aðlaga stýrikerfinu og forrit að kostum tölvunnar. Ég sett fyrst upp sjónvarpstölvu með XBMC stýrikerfinu (eða öllu heldur aðlögun sem heitir RASPBMC) og hef notað síðan. Á þeim tíma var reyndar smá maus að setja þetta upp en núna getur maður bara keypt minniskort sem maður setur í tölvuna og velur hvaða stýrikerfi maður vill setja upp. Maður þarf svo sem að hafa vit á tölvum til að klára uppsetninguna en ekkert sérstakt vit á Linux (flestar Pi tölvur keyra á Linux). Pi getur m.a. tengst sjónvarpi með HDMI snúru.

Snemmsumars kom út ný útgáfa af Raspberry Pi sem kallast Model B+. Hún er með fleiri USB raufum, keyrir á minna rafmagni og notar micro SD kort í stað stærri gerðarinnar. Ég beið í smá tíma með að stökkva til en ekki mjög lengi (ég pantaði frá Adafruit en þetta fæst líka í Miðbæjarradíó). Ég setti upp XBMC á nýju tölvuna og ákvað að nota þá gömlu í smá skemmtitæki.

Eitt það fyrsta sem forritarar gerðu með Raspberry Pi var að búa til leikjatölvuherma. Svona hermar eru ekkert nýtt. Ég man eftir að hafa notað Amstrad hermi seint á síðustu öld. En einfaldleikinn sem Pi tölvurnar bjóða upp á gerir þetta skemmtilegra. Flottasta kerfið sem er í boði heitir RetroPie og í því eru ótal leikjatölvuhermar sem maður getur valið úr í einföldu stýrikerfi.

Ég fór eftir leiðbeiningum hjá Life Hacker við uppsetninguna. Það eina sem gæti talist flókið er að skrifa “mynd” með stýrikerfinu á minniskort (eyðir öllu af minniskortinu) en það er einfalt forrit sem maður notar við það.

Til þess að setja upp leiki á tölvunni þarf hún að vera nettengd á meðan. Tölvan birtist á heimanetinu og þegar maður opnar hana þar þá sér maður möppur sem hver um sig táknar ákveðna leikjatölvu. Þar setur maður leikina inn. Einnig er hægt að nota FTP til þess að setja inn leiki og þannig getur maður líka breytt flóknari stillingum.

Vondu fréttirnar eru að það virka ekki allir hermarnir jafn vel. Það á sérstaklega við herma sem þurfa að keyra stærri leiki. Margir Playstation (1) leikir virka í herminum en þá er líka gott að verða sér úti um BIOS skrá sem hjálpar til. Aftur á móti hefur mér ekki enn tekist að láta Nintendo 64 herminn virka að neinu viti. Það er talað um að það sé gott að yfirklukka tölvuna til að leikirnir virki en það eru auðvitað ekki allir sem geta eða vilja standa í slíku. En ef maður er bara í einfaldari leikjum, segjum fram að Super Nintendo eða Sega Genesis (svokölluð fjórða kynslóð leikjatölva) þá er maður í nokkuð góðum málum. Verst er að það er vesen með Amiga herminn eins og er (en það er í vinnslu).

Það að redda sér leikjum kemur auðvitað inn á svið höfundalaga og sýnir hvað þau geta verið úr takti við raunveruleikann. Það er einfaldlega lítill markaður fyrir 20-30 ára gamla tölvuleiki og því hálfvonlaust fyrir menn að græða á því. Um leið er gríðarlegur fjöldi tölvuleikjatitla sem er “munaðarlaus” af því að fyrirtækin sem áttu höfundaréttinn eru löngu farin á hausinn.

Ef þið eruð eins og ég og viljið helst spila leiki sem þið áttuð hér áður fyrr þá er auðvitað ekkert athugavert við að leita að þeim leikjum á netinu. Þið skrifið einfaldlega inn titil leiksins, heiti leikjatölvunnar og orðið “rom”. Það eru til ótal vefir með slíkjum leikjaskrám og þeir virðast fá að hanga uppi af því að höfundarétthöfum virðist meira og minna vera sama (og sumir reyndar styðja það að fólk hafi aðgang að leikjunum þeirra). Auðvitað þarf maður að passa sig á svona síðum. Ef maður fer að hala inn skrá og það stendur að hún sé “exe” (sumsé Windows forrit) þá er best að forða sér. Annars eru skráarendingar á þessum leikjum margskonar t.d. dsk og adf.

Auðvitað virka ekki allir leikir í herminum. Það er líka af því að þessar skrár eru gerðar af áhugafólki en ekki fagfólki. Einnig eru leikjahermarnir misgóðir. Ég get mælt með að velja leikjaskrár sem eru hrópmerktar (!) því þær eiga vera prófaðar og síðan er gott að muna að (E) þýðir evrópsk útgáfa, (U) þýðir bandarísk útgáfa og (J) þýðir japönsk útgáfa.

Fyrst spilaði ég bara með lyklaborði og það er vel hægt. Stundum er það jafnvel betra. En ég vildi prufa líka þannig að ég keypti mér svona Super Nintendo “joypad” (stýrisspjald? fjarstýring?) eftirhermu sem tengist með USB. Ég pantaði akkúrat sömu gerð og er nefnd í Life Hacker greininni (en það er hægt að nota ýmsar aðrar gerðir og þá eru X-Box fjarstýringar oft nefndar). Þær eru mjög ódýrar en vandinn er að þær eru ekki seldar beint til Íslands. Ég þurfti því að senda þetta til MyUS (svipað en ódýrara en ShopUSA miðað við allt sem ég hef séð) og þeir sendu þetta áfram til Íslands. Ef maður ætlar bara að kaupa eina þá borgar þetta sig varla.

Til að stilla inn fjarstýringar þarf maður að fara úr aðalstýrikerfinu og keyra smá forrit eins og lýst er neðarlega í Life Hacker greininni (ég var lengi að fatta það af því stýringarnar komu dáltið eftir að ég hafði sett þetta upp og hafði ekki greinina við höndina þegar ég var að stilla þær).

Ég endurnýjaði kynni mín af Mortal Kombat 4 og það virkaði mun betur að nota fjarstýringuna heldur en lyklaborðið. Sensible Soccer hins vegar mun þægilegri með lyklaborði.

Í stuttu máli þá er þetta ódýrt og bráðskemmtilegt. Ef þið farið í þetta munið að kaupa Model B+ frekar en hinar gerðirnar og passið að straumbreytirinn sé sem öflugastur (helst allavega 1 amper). Ég þarf sjálfur að nota USB höbb tengdan við rafmagn til að hafa fjarstýringarnar og lyklaborðið í sambandi en ég er líka með gömlu Model B. Það væri gaman að vita hvort fjarstýringarnar virki beintengdar í Model B+ sem er með svona margar USB raufar og betri rafmagnsnýtingu. Annars getur maður stjórnað flestu í stýrikerfinu með fjarstýringunni en gott er að hafa lyklaborð líka þegar maður þarf að fara í stillingar. Það er voða gott að læra aðeins að tengjast tölvunni með ssh (sem er líka hægt úr Windows og Mac tölvum) en það er engin nauðsyn.