Háskólinn “í South Wales í Englandi”

Marta smarta skrifar um vísindiÞað er í sjálfu sér skelfilegt að fréttir um vísindarannsóknir séu farnar að birtast á Smartlandi Mörtu á netmogganum en ég læt vera að fjalla um það beint (annars er upprunalega fréttin um þessa rannsókn á The Guardian). Ég staldraði nefnilega við fyrstu línuna í fréttinni þar sem textahöfundur fellur í landafræði.

Vísindamenn við háskólann í South Wales í Englandi gerðu merkilega rannsókn nýverið en þeir vildu kanna hverjum ungabörn líkjast helst.

Það sem glöggir lesendur átta sig á er að Wales er ekki í Englandi. Wales er annað land.

En mér þótti þetta líka undarlegt af því að ég hafði aldrei heyrt um Háskóla Suður Wales (sem er víst samt til). Það sem mig grunaði strax, og fékk staðfest með smá gúggli, er að umrædd rannsókn fór fram í háskóla sem kallast University of New South Wales. Sá háskóli er hvorki í Wales né Englandi heldur Ástralíu. Hann er líka einhver sá besti í heimi ólíkt þessum sem er í suðurhluta Wales (sem er ekki í Englandi).

Annars verður maður að álykta, ef hægt er að færa niðurstöður umræddar rannsóknar yfir á mannfólk, að allar konur sofi fyrst hjá manni sem líkist Winston Churchill af því að öll nýfædd börn líkjast honum.

Uppfært:
Fréttin á Net-Mogganum hefur verið uppfærð og talar um “há­skól­ann í South Wales í Bretlandi”. Þau fá engin prik fyrir rökréttar þýðingar, sumsé að hafa annað hvort nafn háskólans á ensku eða á íslensku. Þetta er þó ennþá rangur háskóli en ég sé reyndar að sú mistök koma úr Guardian greininni þó fréttin sem Guardian vísar á tali um réttan háskóla.