Neverwhere – Aldrei verið þar…

Ég byrjaði í gær að endurlesa Neverwhere eftir Neil Gaiman. Ég held að þetta hafi verið fyrsta skáldsagan sem ég las eftir hann (minnir að Siggi hafi hafi lánað mér hana). Ég hef ekki lesið hana síðan.

Ég fékk voðalega skrýtna tilfinningu þegar ég byrjaði að lesa. Sagan byrjaði að rifjast upp fyrir mér en ég áttaði mig á að ég er ekki samur og ég var síðast. Ástæðan er kannski hálf-yfirborðskennd.

Bókin hefst í Skotlandi en gerist aðallega í London. Þegar ég las hana síðast hafði ég varla farið til útlanda og alls ekki til Bretlandseyja. Síðan þá hef komið til London nokkrum sinnum, ferðast um Skotland og búið á Írlandi (sem, fyrir mér, tilheyrir sama menningarheimi þrátt fyrir að öll löndin hafi sína sérstöðu). Þannig að í stað þess að textinn veki upp hjá mér myndir úr sjónvarpi, kvikmyndum og bókum þá hugsa ég um staði sem ég hef heimsótt. Súla Nelsons er fullkomlega raunveruleg fyrir mér því ég hef setið á stallinum og horft á mannlífið á Trafalgartorgi.

Þegar ég skrifa þetta finn ég vanmátt minn að tjá mig um þessar skrýtnu tilfinningar sem þetta vakti með mér…