#Frelsaðu hugann

Ég man þegar ég var í skiptinámi á Írlandi þá fór ég á ferðalag með þýskum vinum mínum. Við gistum öll í sama herbergi á farfuglaheimili. Þegar við vorum að fara í rúmið þá tók ein stelpan og vippaði sér úr öllu að ofan og klæddi sig síðan í einhvern þægilegan bol til að sofa í. Það var innilega ókynferðislegt af hennar hálfu. Í mínum reynsluheimi gerðu stelpur og konur ekki svona. Það var alveg smá menningarsjokk.

Á miðvikudagskvöldið datt ég inn á Twitter og sá #FreeTheNipple taka yfir. Ég vissi ekki hvað ég ætti að halda. Það var eitthvað meiriháttar að gerast sem ég fattaði bara ekki. Ég játa alveg að það kom yfir mig smá “hvað eru þær gamlar?” og fleiri hugsanir sem menn voru óhræddir við að tjá í gær. En ég er ekki pabbi (feðraveldið) þeirra. Ég á ekki að hafa vit fyrir þeim. Síðan gerði ég svolítið mikilvægt – ég fór að lesa skilaboðin sem fylgdu #FreeTheNipple. Þá áttaði ég mig á að þetta snerist um völd. Mig langaði innilega að vera með í #FreeTheNipple en ég áttaði mig fljótt á að ég yrði aldrei meira en klappstýra þeirra sem tóku völdin.

Með því að birta myndir af sér voru stúlkurnar að segja að valdið væri þeirra. Það hvort einhverjum karlmönnum þarna úti þyki myndirnar æsandi er bara ekki þeirra vandamál. Ekki frekar en ef pilsið þeirra er of stutt, buxurnar of þröngar eða brjóstaskorann of áberandi. Það er gott að muna að það er ekki einu sinni sammannlegt að hylja brjóst. Kynferðislega spennan er tengd því að hylja frekar en því að sjá – það er ekkert spennandi að sjá það sem er aldrei hulið. Ef konur og stúlkur ættu að setja það sem sitt aðalmarkmið að æsa aldrei neinn karlmann þá eru búrkur fyrirtaks, og afburða heimskuleg, lausn.

Ef það skiptir fólk svona rosalegu máli að æsa ekki neinn þá hlýtur það að vera rökrétt að banna samkynhneigðum, og auðvitað tvíkynhneigðum, að nota skiptiaðstöðu (fata, ekki bleyjuskipti) með fólki af sama kyni. En af einhverjum ástæðum þá eru held ég flestir þannig að þeir jafna sig mjög fljótt á hugmyndinni að fara í sturtu “með” einhverjum sem gæti mögulega þótt æsandi að sjá kroppinn – ef sá er af sama kyni. Þá hef ég ekki tekið eftir því að samkynhneigðir einstaklingar hafi sérstakan áhuga á því að eyða miklum tíma í búningsklefum slefandi yfir kroppunum sem þar sjást. Þegar ég reyni að setja mig í þær aðstæður held ég einfaldlega að það væri bara ekkert spennandi til lengdar.

Það er líka þannig að einhverjir strákar höfðu orð á því á Twitter að það væri alveg hætt að vera spennandi að sjá þessar geirvörtur. Þeir eru hættulega nálægt því að fatta punktinn. Sumir telja að það sé hlutverk kvenna að viðhalda einhverri kynferðislegri dulúð. Það er það bara ekki..

Brjóst eru ekki kynfæri hefur ítrekað verið sagt. Það hefur líka verið sagt í gegnum tíðina að heilinn sé stærsti kynfærið en við hyljum hann ekki til að viðhalda einhverri dulúð. Það er meira líffræðileg nauðsyn. Það er enginn glæpur að finnast geirvörtur, hvort sem það er á karl- eða kvenfólki, æsandi. Ekki frekar en það er glæpur að finnast varir, ökklar eða læri æsandi. En það er aðfinnsluvert að reyna að nota slíkt til að stjórnast í öðrum. Það hvað þér finnst æsandi er þitt mál og þú ættir ekki að gera það að vandamáli annarra.

Í samhengi hefndarkláms hefur oft verið sagt að stelpur eigi ekki að vera senda neinum myndir af sér fáklæddar. Það er innilega ekki vandamálið. Stóra vandamálið er að þeir sem fá þessar myndir skuli vera að deila þeim án leyfis. Stærsta vandamálið er að það sé einhvern veginn túlkað stúlkum í óhag að þær hafi tekið af sér myndir eða látið taka af sér myndir eða gefið einhverjum myndir af sér. Ef stúlkur lenda í því að myndum af þeim er dreift án þeirra leyfis ættu þær að geta borið höfuðið hátt og sagt frá því að það hafi verið fíflið hann Jói sem dreifði myndunum og við hin ættum að segja við Jóa að hann eigi að hætta að vera fífl.

Ef einhver lesandi hefur áhyggjur af því að í framtíðinni muni geirvörturnar koma í bakið á þeim sem tóku þátt í frelsun þeirra þá er lausnin einföld: Ákveddu að þú munir berjast gegn því. Í hópi þeirra sem sýndu geirvörturnar eru ráðherrar, forstjórar og forsetar framtíðarinnar. Þetta eru líka kennarar, hjúkrunarfræðingar og rafvirkjar. Þetta skiptir engu máli í því samhengi. Nema ef okkur þykir hugrekki til að storka órökréttum viðmiðum samfélagsins aðdáunarvert – ég veit að mér finnst það.

Sem þjóðfræðingur velti ég fyrir mér hvort að geirvörtuhátíðin mikla hafi verið jaðartími, ígildi kjötkveðjuhátíðar þar sem öllu er snúið á hvolf, eða upphaf af nýjum viðmiðum. Það skiptir ekki öllu máli. Hver sem niðurstaðan er þá var þetta jákvætt framtak og ég dáist að þátttakendum og lít ekkert niður á þær sem ekki sáu sér fært að vera með. Það sem skiptir máli er að þær eiga sjálfar valið.