Undir oki amerískrar siðmenningar og feðraveldisins

Þegar Kanasjónvarpið kom til voru margir sem töldu að hér væri kominn banabiti íslenskrar menningar. Þegar hæðst er að þessu þá gleymist hið augljósa að þetta var eiginlega bara rétt. Við tökum meira og minna við menningu okkar frá Bandaríkjunum eða frá öðrum svæðum sem eru undir áhrifum bandarískrar menningar. Ég elska margt af þessu innilega og ég held að margt af því sem við höfðum hér áður fyrr hafi mátt tapast. En ekki allt.

Eitt sem hefur komið á yfirborðið eftir að geirvartan var frelsuð er að viðhorfið sem er að berjast gegn er ekkert endilega svo gamalt á Íslandi. Mér sýnist nefnilega að við höfum verið að taka við bandarískum viðhorfum til geirvörtunnar. Nýjasta leiðin á innleiðingunni er það að Facebook ritskoðar geirvörturnar fyrir okkur. Knúz og Grapevine lentu á svörtum listum. Facebook hefur gríðarlegt og óeðlilegt vald yfir íslenskri umræðu. Ég benti á það í kaldhæðnislegum tón þegar Knúzið birti grein með mynd af konu í búrku að þar væri kominn mynd sem væri Facebook að skapi.

Ég myndi aldrei vilja banna neinni konu að ganga í búrku en ég er efins um að valfrelsið sé raunverulega til staðar. Samfélag þar sem konum leyfðist jafnt að stripplast og að ganga í búrkum væri gott en bara ef við værum viss um að valið væri raunverulega þeirra. Það sem við getum kallað feðraveldið er yfirleitt of sterkt (en það væri einföldun að segja að það væru bara karlmenn sem pössuðu upp á reglur þess).

Sem leiðir okkur að neikvæðu viðbrögðunum sem við höfum séð. Af hverju ætti karlmaður sem hrífst af kvenmannslíkömum að taka því illa að konur séu að sýna meira hold? Ættu þeir ekki bara að gleðjast? Af hverju kemur þess þörf að gera lítið úr þeim? Af hverju er verið að setja upp vef þar sem maður getur gefið geirvörtunum einkunn?
Þetta er augljóslega sama eðlis og að karlmenn og strákar sem vilja komast í bólið með konum taka þátt í að kalla konur eða stúlkur sem sofa hjá, þeim eða öðrum, “druslur” (og auðvitað eru konur líka sekar um þetta). Ef þú vilt að konur sofi frekar hjá þér þá væri þér augljóslega í hag að vinna að viðhorfi þar sem konum er ekki refsað á nokkurn hátt fyrir slíkt.

Eru þá þessir karlmenn sjálfir svo blindaðir af feðraveldinu að þeir vinna gegn eigin “hag”? Þeir setja sig nær bókstaflega í hlutverk hins refsandi föðurs sem á að sjá um að litlu stelpurnar fari ekki út af strikinu. Er það ekki óbærileg heimska? Vilja þeir skipta konum í druslur sem þeir sofa hjá og jómfrúr sem þeir kvænast (og eignast)?
Stelpurnar sem frelsuðu geirvörturnar voru fyrst og fremst að frelsa hug sinn. Strákarnir sem setja upp vef þar sem hægt er að gefa þeim einkunn eru ekki bara að reyna að setja þær aftur í hlekki. Þeir eru líka að festa sjálfa sig í fangelsi hugans.

Þar sem ég hef ekki enn birt geirvörtumynd hér þá finnst Facebook allt í lagi að þú deilir færslunni minni þar.