#Kommentakerfið og fundin ljóð

illska-memeÞegar ég hef verið að safna kommentum fyrir #Kommentakerfið hefur mér ítrekað komið til hugar hugmyndin um fundin ljóð.

Ef þið vitið ekki hvað fundin ljóð eru þá er ég örugglega ekki maðurinn til að útskýra það. En í stuttu máli eru það ljóð sem eru byggð á texta eftir einhvern annan og settur í nýtt samhengi til að búa til ljóð.

Þegar maður tekur komment og fyrirsögn úr sínu rétta samhengi til þess að búa til eitthvað glænýtt þá er það, að einhverju leyti, sambærilegt við fundið ljóð.

Kommentið á myndinni hér er kannski frábært dæmi um þetta. Þarna er kommentari að hrósa bók Eiríks Arnar sem heitir Illska. Ég er hins vegar orðinn svo vanur að sjá útúrsnúninga möguleika að mér datt strax í hug að þetta væri frábært komment við alveg ótal fréttum, bæði fréttir um eitthvað sem er slæmt og einnig það sem er gott. Hið síðarnefnda er í raun fyndara. En hér er ég kannski búinn að eyðileggja brandarann.

Mér finnst þessi skilgreining Lomma á fundnum ljóðum ágæt.

fundin ljóð er þegar ma’ kemur að verki einhvers og segir:
nei, þetta fann ég. ég á.

uppnefnir upprunalega höfundinn frumbyggja og ósiðmenntaðan.

eignar sér öll læk.

ég prufaði svoleiðis í dag.

Nú er ég kannski einmitt á mörkunum að kalla höfunda athugasemdanna “ósiðmenntaða” eða allavega eru einhverjir sem gera það. Þetta rímar líka ágætlega við ýmislegt úr þjóðfræðinni. Við höldum á lofti nafni Jóns Árnasonar sem safnaði saman þjóðsögum hálf-siðmenntaðrar þjóðar en við gleymum öll hverjir það voru sem sögðu og sendu honum sögurnar. Ég er alveg nægilega sjálfsgagnrýninn til þess að sjá sjálfan mig í því hlutverki.

En er þá spilið #Kommentakerfið listrænn gjörningur? Ekki nema í einhverjum póstmódernískum skilningi þar sem allt er list. Í mínum huga er þetta aðallega bara brandari og leið til að hlæja með vinum sínum.