Ísland og Íslam

Á Íslandi má enn finna fólk sem er sárt yfir Tyrkjaráninu. Það er svo sárt að því finnst ómögulegt að múslimar komi til Íslands. Það eru næstum fjögurhundruð ára sárindi. Í því samhengi er ágætt að líta til þess að á Íslandi er til brandari um að konur á Íslandi séu fallegar en konur í Bretlandi séu ljótar af því að víkingar hafi rænt öllum fallegu bresku konunum. Nú munar nokkur hundruð árum á þessum atburðum en ef maður ætlar yfirhöfuð að vera sár svona langt aftur í tímann þá skiptir það ekki öll máli. Íslendingar hafa ekki allir verið blindir á þetta. Mig minnir að einhverjir samtímamenn hafi kallað “Tyrkina” víkinga.

Fyrir þrettán árum studdi íslenska ríkisstjórnin innrás í Írak. Sú innrás er ein af rótum þess flóttamannavanda sem nú stendur yfir. Getum við hunsað þetta þegar kemur að því að meta hvernig við ættum að bregðast við núverandi vanda? Mega Sýrlendingar vera sárir yfir einhverju sem íslensk ríkisstjórn gerði fyrir rúmum áratug? Maður myndi halda það, sérstaklega í ljósi þess að umrædd ríkisstjórn var endurkjörin strax í kjölfarið. Það má jafnvel segja að þetta sér enn frekar viðeigandi þar sem sömu stjórnmálaflokkar eru við stjórn í dag.