Kuldahrollurinn mikli eða kælingin mikla

The Big Chill er mín eftirlætismynd. Ég var lengi að fatta það. En ég fór einhverju sinni að pæla hvað það væri sem gæti réttlætt það að kalla mynd eftirlætis eða uppáhaldsmynd. Þarf sú mynd ekki að vera þannig að hún höfðar til manns ekki bara til styttri tíma heldur lengri. Er það ekki mynd sem maður fær alltaf eitthvað nýtt út úr?
Ég held að ég hafi búið í Búðasíðu þegar ég sá myndina fyrst. Það er þó alls ekki víst. Ég hef þá líklega verið 11 ára. Hvað hafði hún að segja mér þá? Kannski af því að hún fjallaði um hippakynslóðina sem var auðvitað fólkið allt í kringum mig. Og þá fann ég líklega helst til samkenndar með börnunum þegar ég sá hana. Síðan gæti verið að ég hafi bara verið svona skotinn í Meg Tilly.

Á framhaldsskóla- og háskólaárum mínum fann ég til augljósrar samkenndar með fólkinu eins og það var þegar það kynntist. Vinstrisinnað lið. Friðarsinnar. Maður sá sjálfan sig og aðra í persónunum. Enginn er einhver einn, allir eru allir.

Í dag er maður bara kominn í samtíð myndarinnar. Persónurnar eiga börn. Þær hafa farið leiðir í lífinu sem samræmast ekki draumum og vonum þeirra. Þá eru persónurnar ósáttar við þær leiðir sem vinirnir hafa valið. Hugmyndin um að selja sig eða sætta sig eða aðlaga sig of mikið. Að nota ekki hæfileika sína.

Þessar hugmyndir og þemu eru auðvitað nátengdar því að dauðinn er lykilatriði í myndinni. Lífið er ekki það sem þú vildir eða vonaðir en dauðinn er verri því hann er tilgangslausari en allt hitt.

Lawrence Kasdan leikstýrði og skrifaði handritið. Hann skýrir titil myndarinnar svona:

The Big Chill is about a cooling process that takes place for every generation when they move from the outward-directed, more idealistic concerns of their youth to a kind of self-absorption, a self-interest which places their personal desires above those of the society or even an ideal.

Spurningin er hvort þessi kæling sé nauðsynleg. Munu allir ganga í gegnum í hana? Ég hef lengi skoðað sjálfan mig með hliðsjón af myndinni. Ég vissi vel af því hvernig hippakynslóðin seldi sig og sætti sig við samfélagið. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort “mín” kynslóð myndi gera það. Og hún gerði það og hún gerði það ekki. Ekkert er eins. En myndin er ágætur spegill.

Kaldhæðnasta persóna myndarinnar leggur til ákaflega góða ræðu um siðfræði. Hún gengur út á nauðsyn þess að geta réttlætt sjálfan sig við sjálfan sig. Eða við aðra svo sem.  Og það er það sem persónurnar eru að gera alla myndina. Síðan er maður að réttlæta sjálfan sig með því að horfa á hana.