Vídeóspólan og heimildarmyndagerð

Orion Xenon VHSÞað að ég hafi ákveðið að gera heimildarmynd um vídeóspóluna frekar en skrifa grein eða bók er kannski dæmi það þar sem efnið stjórnar miðluninni. Ég hef aldrei áður gert heimildarmynd þó ég hafi oft spáð í því. Ég held að það hafi verið 2003 sem ég fékk hugmynd um að gera heimildarmynd um Helga Hóseasson. Við Siggi vinur minn ræddum hugmyndina  en það varð ekkert úr því en af tilviljun var gerð myndin Mótmælandi Íslands sama ár. Stundum virðast hugmyndir liggja í loftinu.

Þegar ég fór af stað með meistararitgerðina mína í þjóðfræði, sem fjallaði um Eve Online, þá spurði ég fyrst væntanlega viðmælendur mína um hvort ég mætti taka um viðtölin með myndbandstökuvél í von um að vinna heimildarmynd úr efninu. Þar sem fyrstu viðmælendur mínir voru myndavélafeimnir gerði ég ekkert í því.

Þjálfun mín í að taka viðtöl er samt mest úr meistaraverkefninu. Mig minnir að ég hafi tekið 16 viðtöl. Ég lærði ótrúlega margt á því. Ég hef auðvitað líka gert útvarpsþætti sem byggja á viðtölum.

Nálgun mín á efnið verður svipuð og þegar ég skrifaði meistararitgerðina í þjóðfræði. Ég kynnti mér efnið vel fyrst og fékk síðan viðmælendur mína til að dýpka þekkingu mína. Ritgerðin var síðan keyrð eins mikið áfram og mögulegt er á orðum viðmælenda minna. Ég geri ráð fyrir að gera það sama núna en taka skref í viðbót.

Ég ætla að reyna eftir fremsta megni að sleppa því að hafa einhvern þul í hlutverki sögumanns, raddar guðs eins og það er stundum kallað (eða bara rödd Guðna Kolbeinssonar). Ef það er mögulega hægt ætla ég að láta viðmælendur mína segja söguna frá upphafi til enda. Sjálfur ætla ég að halda mig til hliðar eins og ég get. Ég verð ósýnilegur og helst vil ég ekki einu sinni láta spurningar mínar heyrast. Ég ætla ekki einu sinni að vera með hljóðnema.

Til þess að lífga upp á myndina ætla ég að nýta mér ljósmyndir og upptökur (endilega sendið mér eða látið mig vita ef þið eigið eitthvað). Þá er ég kominn með mikið magn af efni úr dagblöðum og tímaritum sem mun án efa gera mikið til að skreyta myndina.

Þegar ég fór í hagnýta menningarmiðlun á sínum tíma þá var það meðal annars af því að ég var spenntur fyrir heimildarmyndagerð. Ég lærði ótalmargt þar, bæði varðandi upptöku og klippingu. Ég las líka mikið um kenningar um efnið. Ég var nálægt því að gera heimildarmynd um vídeóspóluna þá en það sem stoppaði mig var að ég hefði þurft að deila tækjum og tólum með öðrum.

Það eru fjögur ár frá því að ég útskrifaðist úr hagnýtri menningarmiðlun. Ég á sjálfur myndavél sem er nógu góð til að taka upp viðtöl. Ég þarf reyndar sérstakt hljóðupptökutæki en ég hef einmitt aðgang að svoleiðis og vona að ég geti keypt eitt slíkt sjálfur. Hljóðnemi til að nota í viðtölunum er á leiðinni til mín. Þá má nefna að frjáls hugbúnaður er orðinn nógu góður til þess að ég get klippt myndina á minni eigin tölvu (sem var reyndar keypt sérstaklega út frá því hve vel hún gæti keyrt svona hugbúnað). Ég get sumsé verið sjálfum mér nægur í flestu. Það hentar minni þjóðfræðilegu (eða etnógrafísku) nálgun ákaflega vel. Ég vona að með söfnuninni á Karolina Fund geti ég keypt mér fleiri tæki og tól til að auðvelda mér verkin en í raun gæti ég farið að taka viðtöl á morgun.

Ef þið viljið vita hvaða heimildarmyndir eru í uppáhaldi hjá mér þá finnst mér serían Seven Up! alveg dásamleg. Síðan er þáttaröð Ken Burns um þrælastríðið í Bandaríkjunum alltaf föst í mér. Það kemur því örugglega engum, sem þekkir yfirhöfuð stíl hans, á óvart hvernig ég mun nota ljósmyndir og annað myndefni.

Söfnunin á Karolina Fund gengur ekki hratt en ég er reyndar ákaflega bjartsýnn að ég nái markmiðinu. Það er því líklega fátt sem kemur í veg fyrir að myndin verði gerð en þið getið gert mér verkið auðveldara með því að styrkja verkefnið. Það er rétt rúm vika eftir.