Stjórnarráðið: Hvað er spunnið í opinbera vefi?

Stjórnarráðið var að opna nýjan vef. Í þeirri aðgerð var framinn helsti glæpur sem hægt er að fremja í vefbreytingum. Öllum vefslóðum var breytt og almennt er engin sjálfkrafa aðgerð sem sendir fólk áfram á rétta síðu. Allir hlekkir sem vísuðu á ákveðnar síður hjá íslenskum ráðuneytum eru núna ónýtir.

Ég var ekki hissa þegar ég sá að Sjá, sem hefur séð um “Hvað er spunnið í opinbera vefi?”, segist hafa séð um “að framkvæma notendaprófanir á honum í þróunarferlinu og eins aðgengisúttekt”. Ástæðan er sú að verkefnið “Hvað er spunnið í opinbera vefi?” er að miklu leyti gagnslaust.

Ég var nefnilega örlítið í þessum málum fyrir nokkrum árum og fór meira að segja á einhverja fyrirlestra hjá þessu fólki. Það sem ég sá var að röðunin á topplistann þeirra var algjörlega galin. Vefir sem uppfylltu yfirborðskennd skilyrði gátu fengið háa einkunn þrátt fyrir að þeir væru illa uppfærðir og illa skipulagðir. Síðan átti þetta að teljast einhver gæðastimpill.

Ég var aðeins að skoða vefinn hjá “Sjá” og tók hérna skjáskot af einni síðu. Þarna eru margt að. Byrjum á titlinum, sumsé á flipanum. Þar stendur bara Pistlar. Það hjálpar ekki þeim sem er með ótal flipa opna í vafranum sínum. Það hjálpar ekki þegar þú ert að leita í niðurstöðum leitarvéla (Google bjargar þessu reyndar en aðrar leitarvélar sýna bara “Pistlar”).

Ef þið lítið á dagsetninguna þá er hún DESEMBER 1, 2015 (sem sýnir vanvirkni vefsins). Þarna hefur mánaðarheitið verið þýtt en dagsetningin er sýnd á bandvitlausan hátt. Þetta ætti auðvitað að vera 1. desember 2015. Það er ótrúlega einfalt að gera þetta rétt í WordPress sem er vefumsjónarkerfið sem þarna er notað.

Neðst á skjáskotinu sjáið þið síðan að ef þið viljið lesa meira þá smellið þið bara á “Continue reading”. Ég get ekki sagt að það sé til fyrirmyndar. Neðst á síðunni er svo hægt að smella á “Older posts”. Það er ákaflega einfalt að laga svona. Ótrúlega einfalt raunar.

Það sem ég meina er: Hvernig ætti fólk sem getur ekki einu sinni séð um eigin vef sagt öðrum til verka? Annars þá var svolítið kaldhæðnislegt að ég lenti í svolitlum vandræðum með að finna upplýsingar um verkefnið “Hvað er spunnið í opinbera vefi?” af því að það er búið að henda öllum síðunum, eða allavega slóðunum. En þá er auðvitað hægt að kíkja á Vefsafnið.