Nextcloud er yndislegt – ólíkt Office 365/Dropbox/Google Drive

Ég er búinn að vera að leita að góðri veflausn fyrir reksturinn. Ég hef verið með eitt og annað í Dropbox og ég hef verið með hitt og þetta í Google og Google Drive og svo hef ég verið að nota Trello í verkefnaskipulag. Ég vildi reyna að fá þetta allt undir sama hatt, helst í opna lausn og helst þannig að ég hafi fulla stjórn á þessu öllu og geti auðveldlega tekið afrit.

Ég setti upp sýndarvél og prufaði nokkrar lausnir. Það kom fljótt í ljós að Nextcloud væri best af þeim. Flest sem tilheyrir kerfinu er auðuppsett, það eru verkefnaskipulagslausnir, dagatöl, spjallkerfi og textaumsýsla. Þetta var flest auðvelt að tengja bæði við snjalltæki og tölvur. Það eru líka til lausnir fyrir Apple og Microsoft sem ættu að vera jafn einfaldar.

Ég þarf hins vegar líka á því að halda að hafa einhverskonar “Office” pakka. Það var smá basl en ég náði fljótlega að koma Collabora í gang á skýinu mínu. Það er veflæga útgáfan af LibreOffice sem er kerfið sem ég nota á eigin tölvu. Það virkar alveg dásamlega (hvort sem það eru Microsoft skjöl eða Open Office). Ég bara skil ekki hvers vegna tölvudeildir eru að setja nota Google eða Microsoft lausnir þegar Nextcloud+Collabora er svona frábært.

Það sem mér líkar einna best við Nextcloud er hve auðveldur aðgangurinn er í eigin tölvu. Sumsé, ég þarf ekki að nota vafra til að vinna í skjölunum ef ég vil það ekki en ég geti síðan haldið áfram að vinna með skjalið í vafra næst þegar það hentar betur. Ég held að maður þurfi reyndar að nota vafraútgáfuna til að vera í samvinnuham (það er ekkert mál að deila aðgangi að skjölum til fólks sem er ekki skráð á skýið manns).

Þetta er líka allt svo opið og dásamlegt að það er ekkert mál að tengja aðrar lausnir inn í þetta. Ég bara elska þetta.

2 thoughts on “Nextcloud er yndislegt – ólíkt Office 365/Dropbox/Google Drive”

  1. Microsoft Office365 lausnin er frábær. Kostar lítið, færir þér forritin öll sem þú þarft og 1gb af skýjageymslu.

    Það kann að vera að þér finnist pólitískt betra að nota eitthvað annað en fyrir þægindi og traust þá er OneDrive frábært

  2. Ég hef ekki bara þurft að nota Office365 í vinnunni, ég hef þurft að kenna fólki á það. Það er ekki frábært.

Lokað er á athugasemdir.