Hafdís, Eygló, ég og Árný

Djúranið

Ég var ekki í miklu stuði í gær. Ég var þreyttur. Aumur í fótunum. Rétt áður en tónleikarnir byrjuðu þá langaði mig helst að fara heim að sofa. En síðan byrjaði þetta. Ég þekkti ekki fyrsta lagið en það hljómaði ágætlega.

En síðan kom Wild Boys og Hungry Like the Wolf. Ég fattaði allt í einu að ég var farinn að brosa út að eyrum. Þetta var frábært. Þegar lögin komu bara hvert af öðru þá áttaði maður sig á að þeir gætu  samt aldrei spilað öll lögin sem ég vildi heyra. Þeir eiga svo mörg.

Ég saknaði helst The Chauffeur (sem er óumdeilanlega þeirra besta lag) og Is There Something I should Know (sem var uppáhaldið mitt þegar ég var krakki). Mig langaði líka svoltið að heyra Electric Barbarella sem ég hugsa alltaf um sem eitt af þeirra nýrri lögum en er í raun 22 ára. Ef lagið væri barn væri það komið í háskólanám. Lagið er eldra en ég var þegar það kom út.

Hápunktur tónleikana var líklega Planet Earth þar sem þeir saumuðu inn Space Oddity þannig að það virkaði eins og það ætti bara heima þar. En auðvitað var Save A Prayer líka eins frábært og það getur verið. Síðan er Ordinary World alltaf fyrir okkur Eygló. Samkvæmt Spotify er það næstmest spilaða lagið þeirra.

Duran Duran er kannski hallærisleg hljómsveit að mati einhverra en hún er án efa dásamleg. Ég vorkenni fólki sem er of töff að geta fílað þetta. Ég sá ekkert eftir að hafa farið þó ég sé miðaldra og þreyttur.