Morð frá sjónarhorni

Það væri áhugavert að búa til tvær myndir. Í annarri myndinni væru löggur sem eru sannfærðar um að morðingi sé að sleppa og telja sig tilneyddar að búa til sönnunargögn gegn honum. Í hinni myndinni er saklaus maður að verja sig gegn spilltum löggum sem eru að reyna að búa til sönnunargögn gegn honum.
 
Þetta væru nákvæmlega sömu persónur og leikarar og mörg atriðin gætu verið alveg eins. Það þyrfti bara að bæta við nokkrum atriðum sem gefa áhorfendum leið til að kynnast þeim persónum sem eru í aðalhlutverki og að sjá eitthvað sem gefur til kynna að staðreyndir séu aðeins öðruvísi en í hinni útgáfunni.
 
En auðvitað þá eru ótal svona kvikmyndir og sjónvarpsþættir. Kannski ekki nákvæmlega sömu persónur og leikarar en mjög svipaðar aðstæður. Val handritshöfunda og leikstjóra stjórna síðan því hvernig áhorfandinn bregst við. Sami áhorfandinn, ég til dæmis, get stutt lögguna sem er bara að reyna að koma morðingja í fangelsi en um leið hneykslast á því hvernig löggan kemur fram við saklausan mann ef ég sé þetta frá því sjónarhorni.
 
Þetta snýst náttúrulega ekki bara um glæpamál, uppdiktuð eða raunverulega, heldur öll mál sem fólk sér frá mismunandi sjónarhornum.