Rangur texti í Stubbaþætti

Sjónvarpsáhorf sem lestrarkennsla

Það eru margir að tala um lestrarkunnáttu* íslenskra barna. Eitt mikilvægt atriði sem fólki yfirsést almennt er textun á erlendu sjónvarpsefni og kvikmyndum.

Mín kynslóð hafði kannski ekki jafn mikinn aðgang að afþreyingarefni á ensku og kynslóð barna minna en við höfðum mun meiri aðgang en áður hafði þekkst. Það sem ég held að aðgreini okkur sé ekki fyrst og fremst magnið heldur textun.

Ástæðan fyrir því að ég lagði hart að mér að læra að lesa var ekki til að lesa bækur heldur til að lesa texta. Ég þurfti að læra að lesa nógu hratt til að missa ekki af textanum. Þetta var ótrúlegur hvati.

Í dag er hverfandi aðgangur að textuðu efni. Við erum með barnaefni á íslensku og síðan erum við með ótextað efni á ensku. Það er hverfandi aðgangur að textuðu efni fyrir krakka.

Ef við lítum framhjá lestrarþættinum og pælum í málkunnáttu þá veldur þetta auðvitað því að krakkar læra ensku fljótt og örugglega. En ég held að skortur á textun valdi um leið ákveðnu rofi milli íslenskukunnáttunnar og enskunnar. Í stað þess að læra ensku með hliðsjón af íslensku, eins og mín kynslóð gerði að miklu leyti, þá læra krakkar mörg ensk orð án tengingar við íslenskuna. Það verður til þess að sum hugtök skilja þau bara á ensku. Þau finna sumsé ekki alltaf svar á íslensku. Mig grunar að þetta verði jafnvel líka til þess að enskuskilningurinn verði ekki jafn góður og hann gæti orðið.

Þetta er reyndar ekki endilega nýtt vandamál. Það var ekki endilega stór kynslóð sem fékk mikið af textuðu barnaefni. Það kom nefnilega fljótt upp krafa um talsetningu sem var skiljanleg og jafnvel nauðsynleg fyrir yngstu börnin en olli því að krakkar sem voru að læra að lesa fengu ekki jafn mikla æfingu í að lesa – og lesa hratt. En um leið og talsetningarkynslóðin vildi horfa á eitthvað meira en barnaefni þá fékk hún textað efni.

Núna er aðgangur að ótextuðu barnaefni á ensku nær endalaus og aðgangur að textuðu barnaefni hverfandi. Þegar krakkarnir eldast þá tekur síðan við enn meira af ótextuðu efni.

Þannig að ef ráðamenn vilja efla lestur, ensku- og íslenskukunnáttu þá ættu þeir að reyna að koma íslenskum texta á sem mest af því efni sem krakkarnir okkar eru að horfa á.

* Það þarf auðvitað að auka fjárframlög til bókaútgáfu, bókasafna og skóla. Það eiga allir að vita. Ég held hins vegar að færri átti sig á mikilvægi textunnar.