Einelti til bættra lífshátta?

Dan Harmon, aðalhöfundur Community og meðhöfundur Rick & Morty, talaði nokkrum sinnum í hlaðvarpinu sínu um reynslu sína úr skóla þar sem hann var lagður í einelti af fólki sem fannst hann ekki fara nógu oft í bað. Hans viðbrögð við þessu var að fara enn sjaldnar í bað.

Marc Maron, sem leikur í Glow, hefur mikið talað um það í hlaðvarpinu sínu hvernig móðir hans, sem sjálf er þjáð af anorexíu, náði með tali sínu um þyngd hans að ala með honum lotugræðgi (hún sagði honum m.a. að hún hefði ekki getað elskað hann ef hann væri feitur).

Þetta minnir mig alltaf á kjallaragrein sem Guðbergur Bergsson skrifaði einhvern tímann sem heitir “Um nauðsyn eineltis”. Þið getið giskað hvað gerpinu finnst um einelti. Hann heldur að hann geti læknað offitu með því að níðast andlega á fólki. Það sýnir auðvitað hve litla innsýn hann hefur í sálarlíf annars fólks.

Lexían er auðvitað að þú getur ekki bara ætlast til þess að neikvæð styrking hafi sjálfkrafa einhver ákveðin jákvæð áhrif á fólk. Ætli sé ekki betra að vera heiðarlegur eineltishrotti sem vill bara pína fólk heldur en sadisti sem reynir að afsaka annarlega hegðun sína með góðum ásetningi? Ég held það allavega.

One thought on “Einelti til bættra lífshátta?”

Lokað er á athugasemdir.