Átak í teiknimyndasögulestri

Ég tek reglulega köst í teiknimyndasögulestri. Ástæðan í þetta skiptið var að ég var að fjalla um sjónvarpsþætti byggða á teiknimyndasögum í Botninum. Ég fann ekki spjaldtölvuna mína, Nook HD plus, enda nota ég hana almennt ekkert. Í staðinn ákvað ég að nota rafbókalesarann minn, Boyue T80 Likebook Mars ( sem er með stærri skjá en flestir lesarar), sem ég hef annars bara notað í að lesa svarthvítar sögur (Bone, Scud o. fl.).

Þó lesarinn sýni bara svart hvíta skalann þá var merkilega þægilegt að lesa teiknimyndasögur í lit með honum. Það var svo fínt að þegar ég fann spjaldtölvuna og prufaði þá gafst ég bara upp. Ástæðan er auðvitað að lesarinn er ætlaður til lestur. Þó ég hafi haft kveikt á baklýsingunni þá er ljósið svo miklu betra fyrir augun en spjaldtölvubirtan.

Á maður að tala um tæknina eða listina? Ég er auðvitað gjarn á að blanda þessu tvennu saman.

Locke and Key kom á Netflix fyrr á árinu þannig að ég tók það á lesaranum. Þetta fellur undir hrollvekjuflokkinn. Margt mjög gott þar.

Ég las smá í The Boys og V-Wars fyrir þætti af Botninum og var ekki að falla fyrir því.

Ég hef ekki enn gert þátt um Daybreak sem var á Netflix í fyrra þó ég hafi verið hrifinn (það voru kannski ekki nógu margir hrifnir því þættirnir halda ekki áfram). Sagan var allt öðruvísi. Mjög einfaldur stíll en mjög áhugaverð nálgun.

Deadly Class voru þættir sem ég féll líka fyrir ólíkt lýðnum (það kemur ekki meira) og lengst af var teiknimyndasagan alveg jafn góð – ef ekki betri – en þættirnir. Mér fannst þetta samt vera farið að dala í síðustu sögunum sem ég las. En það kemur meira af þeim. Ádeilan á Reagan-tímann var mjög góð.

Ég hef aldrei séð Hellboy myndirnar sem tengdafaðir minn (eða tvífari hans) leikur í en ég var áhugasamur um sögurnar. Þær voru margar mjög góðar. Kannski ekki alveg jafn góðar og sumir segja en samt.

Brat Pack er oft nefnd á sama tíma og Watchmen sem ádeila á teiknimyndahetjusögurnar. Hér eru hliðarspörkin tekin fyrir. Það var margt gott þarna en mér fannst þetta ekki eldast jafn vel og Watchmen. En það er auðvitað vonlaust að ætla að standast þann samanburð.

Umbrella Academy er annar sjónvarpsþáttur. Ég verð að segja að mér fannst þættirnir meira heillandi – allavega sem komið er – en sagan var líka mjög góð. Þegar ég horfði á þættina hafði ég ekki hugmynd um að höfundurinn væri söngvarinn í My Chemical Romance. Skondið.

Það er öfugt með Rick and Morty. Þarna hafa verið gerðar teiknimyndasögur í sama heimi og þættirnir. Þær eru mistækar. Ég var næstum hættur þegar ég áttaði mig á að Patrick Rothfuss hefði skrifað Dungeons and Dragons Rick vs. Morty sögur. Ég hef reyndar ekki lesið frægu bækur hans af því að ég er að bíða eftir þeirri síðustu. Mig langar ekki að bíða ef ég fell fyrir þeim. Allavega var Rothfuss sagan best af þeim sem ég las.

Þó Lucifer komi úr sagnaheimi The Sandman hafði ekki lesið þær áður en ég horfði á þættina. Það áhorf ýtti mér af stað í að lesa sögurnar og auðvitað er þetta allt annað. Þættirnir eru að mestu leyti grín en sögurnar í hrollvekjudeildinni. Ég var hrifinn af sögunum að mörgu leyti en ég féll ekki fyrir öllu. Það er t.d. augljós að þegar fjallað er um norræna goðafræði þá hefur Mike Carey ekki sama dýpt þekkingar og Neil Gaiman.

Ég las auðvitað líka Gaiman. Ég fann meira að segja söfn af sögum hans úr DC-heiminum sem ég hafði ekki lesið áður. Fínt en ekkert í samanburði við Sandman. Ég dembi mér líka út í endurlestur á The Sandman. Yndisleg tilfinning þegar ég byrjaði aftur. Æði. Best.

Ég hafði lesið mér til um góðar svarthvítar teiknimyndasögur – sem hentuðu skjánum mínum – og þá hitti Berlin beint í mark. Hún er ólík flestu sem ég hef verið að lesa að því að leyti að þarna er farið mjög strangt eftir þessum hefðbundu römmum á síðunni. Það er því voðalega þægilegt að keyra í gegnum þetta. Bara fletta og fletta, ekkert að rýna í lítinn texta eða stækka og minnka til að sjá betur. Áhrifamikil saga þó mér hafi þótt hún örlítið endasleppt.

Chilling Adventures of Sabrina, sami grunnur og í nýju Netflix þáttunum. Ég byrjaði á því en var ekki að falla fyrir því.

Ég las líka fallega hluti um Batman Noir: The Black Mirror. Spes fyrir fólk eins og mig sem hefur lítið lesið annað en Dark Knight Returns og Killing Joke af því að þarna er Batman ekki Bruce Wayne heldur fyrrverandi hliðarsparkið hans Dick Grayson. Ég féll ekki neitt rosalega fyrir þessu.

Ég gerði tilraun til að lesa fleiri sögur en ég náði því varla. Það voru sumsé annars vegar nokkrar nýlegar ofurhetjusögur og hins vegar Crisis on Infinite Earths. Þær héldu bara ekki áhuga mínum. Mér finnst eins og ég sé of mikill snobbari þegar ég les aðallega sögurnar sem hafa fengið frábæra dóma en þekki ekkert til stærsta hluta menningarkimans.

Hvað er næst? Ég er rétt að byrja á Giant Days. Það er allt öðruvísi en allt annað í þessari upptalningu. Söguhetjurnar eru þrjár ungar konur sem eru nýbyrjaðar í háskóla. Ég kláraði fyrsta bindið í gærkvöldi og ætla að halda áfram.

Ef þið þekkið ekki til haldið þið kannski að þetta séu örfá blöð en þetta eru nokkrir tugir safnbinda af sögum. Samkvæmt GoodReads hef ég lesið 67 bækur og rúmlega 14 þúsund blaðsíður það sem komið er af árinu. Auðvitað eru þarna einhverjar textamiðaðar bækur en flestar eru teiknimyndsögur – enda les maður þær hraðar.

Ég vil ekki gleyma að nefna að Jútúbarinn Comic Tropes hefur verið góður í að “hvetja” mig áfram í þessu. Myndböndin hans eru ákaflega skemmtileg með góðum hallærislegum húmor. Ég ákvað að styrkja hann á Patreon. Það hjálpar mikið að hann er greinilega andfasískur sem virðist ekki sjálfgefið á þessum tímum. Mæli með honum.