Skógarhöggsjónurnar

Þar sem ég lék mér með Masters of the Universe á unga aldri ákvað ég að prufa að horfa á endurskotið á systur He-Man, She-Ra (She-Ru?), á Netflix. Ég féll alveg fyrir þeim. Ég las mér til um konuna á við þættina, Noelle Stevenson og komst að því að hún hefði líka verið með teiknimyndasögur sem heita Lumberjanes.

Ég var mjög hrifinn. Kannski ekki alveg jafn hrifinn og af t.d. Giant Days (sem ég las næst á undan) en það skýrist kannski af því að Lumberjanes miðar við aðeins yngri aldurshóp en þær sögur.

Í stuttu máli snúast sögurnar um ævintýri stúlkna í skátasumarbúðum. Það kemur fljótt í ljós að margt dularfullt er á seyði í kring. Það er kannski hægt að líkja þessu við þættina Gravity Falls eða kannski Stranger Things án hryllingsins.

Fyrir utan að berjast og/eða vingast við skrýmsli fjalla sögurnar um vináttu stúlknanna. Tvær þeirra [HÖSKULDUR!!] byrja líka saman. Þá kemur við sögu transeinstaklingur.

Ég mæli hiklaust með Lumberjanes fyrir unglingastig og lengra komna nemendur á miðstigi (enskukunnátta auðvitað nauðsynleg). Kannski yngstu í framhaldsskóla en mögulega finnst þeim þetta of barnalegt. Síðan mega fullorðnir lesa þetta líka.

Annars má geta þess að ég er enn að lesa í svarthvítu og fattaði því t.d. ekki að ein persónan fékk bláan lit í hárið fyrren það var nefnt í textanum.