Ég við vegginn fræga

Fölnuð málning og friðardúfur?

Tákn friðar og ofbeldis á Norður Írlandi

[Skrifað eftir heimsókn til Derry sumarið 2008 og birtist fyrst í tímaritinu Ský]

Derry/Londonderry er næststærsta borg á Norður Írlandi. Þessi tvískipting á nafninu er ákaflega táknræn. Derry er komið af upprunalega írska nafninu en Londonderry vísar til tengsla við höfuðborg Englands. Bæði nöfnin eru í raun opinber, annað frá sjónarhóli breskrar stjórnsýslu en hitt á sveitastjórnarstiginu á Norður Írlandi. Derry er notað af lýðveldissinnum sem eru almennt kaþólikkar en Londonderry af sambandssinnum sem eru almennt mótmælendur. Derry er þó algengara heitið.

Bogside
Bogside

Síðustu ár hefur verið friðsælt í Derry en svo hefur ekki alltaf verið.
Borgin stendur rétt við landmærin að írska lýðveldinu og meirihluti borgarbúa eru kaþólikkar. Á sjöunda áratugnum blossuðu upp óeirðir í borginni. Það voru margar ástæður fyrir óánægjunni. Húsnæðismál voru ofarlega þar á baugi þar sem erfitt var fyrir kaþólikka að komast í húsnæði á vegum borgarinnar. Kosningaréttur var ekki heldur jafn í borginni. Kjördæmi voru afmörkuð þannig að vægi atkvæða kaþólikka var minna en mótmælenda og þar að auki var atkvæðisréttur tengdur því að menn ættu fasteignir.

Ég við vegginn fræga
Ég við vegginn fræga

Á tímabili tóku lýðveldissinnar sig til og notuðu vegatálma til að afmarka hverfi kaþólikka í Derry. Í kjölfarið var máluð setning á vegg sem er enn viðhaldið. “You are now entering Free Derry” – “Þú ert að koma inn í Frjálsu Derry”. Hápunktur átakanna í Derry, og líklega á Norður Írlandi í heild, var að sennilega hinn svokallaði Blóðugi sunnudagur þar sem breskir hermenn skutu 14 óvopnaða borgara til bana og særðu 13 í viðbót.

Bloody Sunday
Bloody Sunday

Í dag er öldin önnur. Götur Derry eru friðsælar. En fortíðin er allsstaðar. Veggmyndir hafa í gegnum tíðina verið algengt tákn í áróðursstríðinu á Norður Írlandi. Frægustu myndirnar í dag eru væntanlega í Derry. Þar eru myndir málaðar af hóp listamanna sem kenna sig við kaþólska hverfið Bogside þar sem þær eru. Myndirnar eru úthugsaðar. Þær sýna sögu baráttunnar í borginni. Þarna eru myndir af fórnarlömbum Blóðuga sunnudagsins ásamt myndum af öðrum sem létust í ofbeldinu. Óhugnanlegustu myndirnir eru af börnum. Annars vegar 14 ára stúlku sem var skotin til bana af breskum hermönnum og hins vegar ungum dreng sem heldur á bensínsprengju.

 

Annette McGavigan, 14 ára, var myrt af breskum hermanni árið 1971.
Annette McGavigan, 14 ára, var myrt af breskum hermanni árið 1971.
Drengur með bensínsprengju
Drengur með bensínsprengju

Þarna má líka sjá mynd af Bernadette Devlin sem stjórnaði baráttunni í Bogside og var kosin á breska þingið. Á þinginu kýldi hún breska innanríkisráðherrann og hárreitti þegar henni var neitað um að tjá sig um ofbeldið á Blóðuga sunnudeginum sem hún hafði orðið vitni að. Einnig er mynd af föngum sem létust í hungurverkfalli í upphafi níunda áratugarins.

Bernadette Devlin
Bernadette Devlin
Fórnarlömb hungurverkfallsins
Fórnarlömb hungurverkfallsins
Friðardúfa
Friðardúfa

Mynd af friðardúfu er síðust í röðinni. Á yfirborðinu er þessi mynd óður til friðarins. Á upplýsingaskilti fyrir framan myndina eru hins vegar skilaboð frá listamönnunum sem sýna að friðurinn er skilyrtur. Þar stendur að friður án frelsis sé ekki mögulegur. Hið umrædda frelsi er þá að öllum líkindum tengt sameiningu við írska lýðveldið. Það er önnur mynd tengd hungurverkfallinu sem ekki er tengd Bogside listamönnunum. Þar eru nöfn þeirra sem létust í hungurverkfallinu rituð á vegg fangaklefa en þakið hefur verið rofið og þar flýgur fugl í frelsið. Hann táknar væntanlega anda þeirra sem létust.

Fangar sem létust í hungurverkfalli
Fangar sem létust í hungurverkfalli

Bogside hverfið er hlaðið táknum. “Free Derry” veggurinn stendur þarna enn. Á svæðinu eru líka ótal írskir fánar á ljósastaurum sem flestir eru málaðir grænir, hvítir og appelsínugulir. Sömu litir eru á gangstéttarbrúnum. Á leikvöllum við skóla eru írsku fánalitirnir líka notaðar til að afmánaarka leiksvæðin. Þetta eru skýr tákn um að íbúarnir telji að svæðið eigi að tilheyra írska lýðveldinu. En það sjást fleiri fánar.

Karlsvagninn
Karlsvagninn
Fánar Palestínumanna og Baska
Fánar Palestínumanna og Baska

Meðal þeirra er blár fáni með stjörnumerkinu karlsvagninum en hann er tákn lýðveldissinnaðra sósíalista (IRMA) sem bera ábyrgð á ýmsum ofbeldisverkum á Norður Írlandi. Rétt hjá hangir fáni basknesku sjálfsstæðishreyfingarinnar ETA.

Stutt frá má sjá veggmynd af Che Guevera þar sem lögð er áhersla á írskt ætterni hans. Á sama svæði má líka sjá margar vísanir í baráttu Palestínumanna. Á einum stað má sjá fána Írlands og Palestínu renna saman í eitt.

Önnur tákn á svæðinu eru óformlegri. Krass og krot innihalda oft grófari skilaboð. Á húsþaki sem snýr að hverfi mótmælenda stendur RIRA RULES.
Skammstöfunin stendur fyrir Real Irish Republican Army og er klofningshópur úr írska lýðveldishernum sem ekki vildi leggja niður vopn eftir friðarsamkomulögin á tíunda áratugnum. Samtökin eru þekktust fyrir sprengingar í bænum Omagh á Norður Írlandi þar sem tuttugu og níu manns létust og yfir tvöhundruð slösuðust.

“SINN FEIN SCUM” og aðrar áletranir með nafni stjórnmálaflokksins benda til þess að margir telji að flokkurinn hafi svikið lit með þátttöku sinni í friðarferlinu. BRY er algengt krot, það stendur fyrir Bogside Republican Youth, ungir lýðveldissinnar í Bogside hverfinu.

Borgarmúrar verja "Fountain" hverfi mótmælenda.
Borgarmúrar verja “Fountain” hverfi mótmælenda.

Í öðrum borgarhluta er hægt að sjá hina hliðina. Borgarmúrarnir og háar girðingar takmarka aðgang að Fountain hverfinu. Þar búa sambandssinnar af mótmælendatrú. Táknin þar vísa til Bretlands og sambandsfáninn blaktir víðsvegar.

Fánar Englands, Skotlands, Wales and Ulster umkringja breska fánann
Fánar Englands, Skotlands, Wales and Ulster umkringja breska fánann

Kantsteinar eru málaðir bláir, hvítir og rauðir. Á svæðinu eru veggmyndir eins og í Bogside. Sumar eru þær þó áberandi fölnaðar. Mynd af Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseta og tilvitnun þar sem hann áréttar að forfeður hans hafi verið mótmælendur sem börðust við kaþólikka á Írlandi.

Teddy Roosevelt
Teddy Roosevelt

Þarna má líka sjá myndir þar sem vísað í bandalag Ulster (héraðið sem Norður Írland tilheyrir samkvæmt fornri írskri skiptingu) og Bretlands.

No Surrender
No Surrender

Þær veggmyndir sem best er viðhaldið í Fountain hverfinu eru við æskulýðsklúbb (Cathedral Youth Club) á svæðinu. Meðal mynda þar er merki Ulster Defence Association sem eru samtök sambandssinna sem stunduðu vopnaða baráttu.

Lindsey Mooney meðlimur UDA lést árið 1973 þegar sprengja sprakk of snemma.
Lindsey Mooney meðlimur UDA lést árið 1973 þegar sprengja sprakk of snemma.
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)

Orrustan við Somme í Seinni heimstyrjöldinni er sterk táknmynd sambandssinna. Í orrustunni létust margir írskir sjálfboðaliðar sem flestir voru úr röðum sambandssinna. En vísunin er einnig tengd páskauppreisn írskra lýðveldissinna í Dublin sem lýðveldissinnar vísa oft í. Sú uppreisn var álitin gróf svik enda var tilgangur hennar að nýta sér bága stöðu Breta vegna heimsstyrjaldarinnar. Þessir atburðir áttu báðir sér stað árið 1916.

Í hverfi mótmælenda
Í hverfi mótmælenda

Á einum vegg er málaður fáni Óraníureglunnar, appelsínugulur með fjólublárri stjörnu, litlum enskum fána í horninu og áletruninni “In God We Trust”. Óraníureglan fagnar árlega sigri Vilhjálms af Óraníu yfir Jakobi II.

West Bank Loyalist Youth
West Bank Loyalist Youth

Á næsta vegg við er mynd með merki West Bank Loyalist Youth sem eru ungir sambandssinnar á svæðinu. Krotið í Fountain hverfinu er sem fyrr segir oft tengt við umsátrið um Derry.

Taigs out
Taigs out

Einnig má sjá áletrunina “Taigs out” en Taig er niðrunarorð yfir kaþólikka. Mikið er um niðrandi vísanir í IRA. Þar að auki má sjá neikvæðni í garð lögreglunnar: “Ef svín gætu flogið væri lögreglustöðin við Strand road flugvöllur”. Annað krot vísar í ýmis samtök, sum vopnuð en önnur minna þekkt. Á einum vegg á niðurníddu húsi er rauð skuggamynd af vopnuðum meðlim Ulster Freedom Force sem eru samtök nátengd Ulster Defense Association. Einhver hefur teiknað bros á þessa óhuggulegu fígúru.

Í hverfi mótmælenda
Í hverfi mótmælenda

Það sem er mest áberandi í Fountain hverfinu er ekki krot og myndir heldur almenn niðurníðsla. Mörg hús eru yfirgefin og mörg þeirra sem enn er búið í eru fátækleg. Þeir sem vilja búa í Fountain hverfinu þurfa líka að búa við stimplunina mótmælandi og sambandssinni í borg sem er að meirihluta byggð kaþólikkum. Það er ekki skrýtið að þeir flytji annað.

Lögreglumenn vakta hverfið. Fölnuð málning og hús í niðurníðslu
Lögreglumenn vakta hverfið. Fölnuð málning og hús í niðurníðslu

Nýlega var afhjúpuð ný veggmynd í Derry, sú tólfta í seríu Bogside listamannanna. Á henni er kaþólikkinn John Hume sem hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir hlut sinn í friðarferlinu ásamt Móður Teresu, Nelson Mandela og Martin Luther King sem einnig hlutu verðlaunin. Sambandssinninn og mótmælandinn David Trimble sem hlaut verðlaunin með Hume fær hins vegar ekki að vera með á myndinni. Enn er friðurinn skilyrtur.

Veggmynd sem var verið að mála þegar ég heimsótti borgina
Veggmynd sem var verið að mála þegar ég heimsótti borgina

Enginn veit hver framtíðin verður í Derry og Norður Írlandi. Tákn baráttunnar eru enn þarna. Hve djúpt rista þessar ögranir? Eru þær bara táknrænnar fyrir fortíðina, menningararfinn, eða þýða þær að ofbeldið gæti blossað upp aftur? Eru myndirnar aðallega fyrir túristana sem vilja sjá minnismerki um ofbeldið? Hvað eru íbúarnir að hugsa?

Saga ofbeldsins í Derry vekur allavega suma til meðvitundar um almenn áhrif vopnaframleiðslu
Saga ofbeldsins í Derry vekur allavega suma til meðvitundar um almenn áhrif vopnaframleiðslu

Hættan er aðallega fólgin í því að ungt fólk sjái ofbeldið í rómantísku ljósi. Menjar óróans eru yfirþyrmandi en hugsanlega koma þær því ekki til skila hve hræðilegt ástandið raunverulega var. Nokkrum dögum eftir að ég yfirgaf Derry var pizzasendill myrtur og upp blossaði ótti við að hér væri afturhvarf til obeldis fyrri ára. Real IRA sem var sakað um morðið neitaði hins vegar sök og líklega var þetta hversdagslegt ofbeldi sem teljast líklega góðar fréttir í Derry.

Myndasafn