Furðusögur kvenna

Fyrir nokkrum árum skoðaði ég kynjahlutfallið í bókahillunni minni (sem er eiginlega ekki alvöru bókahilla heldur Goodreads/Calibre). Það var skelfilegt. Ég las miklu fleiri bækur eftir karla en konur.

Það væri hægt að skýra þetta á mismunandi vegu. Í fyrsta lagi gæti verið að karlar skrifuðu einfaldlega betri bækur á þeim sviðum sem ég les helst (furðusögur af ýmsu tagi). Í öðru lagi gæti verið að skrif kvenna höfði ekki til mín. Í þriðja lagi gæti verið að það séu einfaldlega miklu færri konur sem skrifa slíkar bækur. Í fjórða lagi gæti verið að eitthvað sé athugavert við það hvernig ég finn mér bækur til að lesa.

Mér fannst fyrsta skýringin … ólíkleg. Önnur skýringin er mögulega bara umorðun á þeirri fyrstu. Þriðja skýringin er að vissu leyti líkleg en jafnvel þó færri konur skrifi furðusögur þá gæti þýtt að þær konur sem skrifa bækur í þessum geira hafi þurft að leggja meira á sig til að koma sér á framfæri og þær séu þá jafnvel betri en meðalkarlinn. Fjórða skýringin hafði þann kost að hún varpaði ábyrgðinni á mig. Ég þurfti að leggja mig fram til að lesa fleiri furðusögur eftir konur.

Ég held að það sé ekki endilega þannig að ég hafi forðast bækur eftir konur heldur að markaðsetning bóka – líkt og markaðsetning á til dæmis leikföngum – sé mjög kynskipt.

Þegar ég fór að lesa furðusögur þá leiddu hillurnar í bókabúðunum mig mjög einfaldlega frá Douglas Adams til Terry Pratchet yfir í Neil Gaiman. Ég man ekki eftir konum þarna inn á milli. Ég man allavega ekki eftir að hafa séð til dæmis Ursula K. Le Guin þarna þó hún hefði augljóslega passað við hliðina á Gaiman. Þetta lagaðist ekkert þegar bókabúðirnar sem ég verslaði í færðust á vefinn.

Þannig að ég fór að leita eftir fleiri bókum eftir konur. Reyndar hrasaði ég fljótlega þegar ég ályktaði að Kim Stanley Robinson væri kona (þrátt fyrir að Community hafi verið með góðan brandara um karlinn Kim).

Hérna kemur ófullkominn listi yfir konur í furðusagnageiranum sem ég hef verið að lesa undanfarið (C. L. Polk er ekki á listanum enda er ég nýbyrjaður að lesa bók eftir hana).

  • Naomi Novik
  • Silvia Moreno-Garcia
  • N.K. Jemisin
  • Ann Leckie 
  • Maggie Stiefvater
  • Sarah Monette/Katherine Addison

Eftir þennan lestur get ég allavega afskrifað þá skýringu að karla skrifi almennt betri bækur en konur. Sömuleiðis kveð ég þá hugmynd að bækur eftir konur höfði ekki til mín. Það hefur líklega eitthvað verið athugavert við það hvernig ég hef valið mér lesefni í gegnum tíðina, hvort sem sökin var mín eða bara afleiðing markaðsetningar.

Allar konurnar sem ég listaði þarna hafa skrifað mjög góðar bækur sem allir furðusagnalesendur myndu njóta þessa að lesa. En ég ég breiðleitraði nöfn tveggja kvenna af því að ég mun í framtíðinni reyna að lesa allt sem þær skrifa.

Fyrst skal nefna Ann Leckie. Imperial Radch bækurnar hennar eru stórkostlegar vísindaskáldsögur og nýjasta bókin hennar The Raven Tower er frábærlega óvenjuleg fantasía.

Síðan er það Sarah Monette sem stundum notar höfundanafnið Katherine Addison. Hún er sá höfundur sem ég er glaðastur að hafa fundið. Ég spændi í mig Doctrine of Labyrinths bækurnar. Kyle Murchison sögurnar eru dásamlega Lovecraftlegar en – ólíkt Lovecraft – lausar við þennan óþægilega rasistaundirtón. Smásagnasöfnin hennar eru frábær. En The Goblin Emperor er algjörlega uppáhalds.

Ef þú lest bækur eftir konurnar sem ég hef nefnt og ert ekki hrifinn af neinu þá ertu kannski ekki aðdáandi furðusagna – þú ert aðdáandi karla.