Klám í hlaðvarpi

Ég var að hlusta á hlaðvarp sem heitir Once upon a time … in the Valley. Ég gat ekki hætt að hlusta. Yfirleitt er það gott. Ég gefst yfirleitt strax upp á lélegu efni. En ekki núna. Þetta var svo slæmt að ég gat ekki annað en hlustað í gegn.

Þættirnir fjalla um Traci Lords. Ef þið þekkið ekki söguna þá er hún í grunnatriðum þau að þessi unglingsstúlka, 15 ára, náði sér í skilríki til að þykjast vera fullorðin. Hún sat fyrir hjá fullt af blöðum, m.a. Penthouse, og endaði síðan í klámi. Þegar hún var 15-18 ára. Ég man náttúrulega fyrst eftir henni í kvikmyndinni Cry Baby.

Ég hef undanfarið verið að hlusta á þætti sem heita You’re Wrong About sem fjalla oft um konur sem lentu í fjölmiðlasirkúsi. Það er uppfullt af einlægu spjalli og innsæi. Ólíkt Once upon a time … in the Valley.

Það er bara allt að þessi hlaðvarpi. Það er kannski ágætt að líkja þessu við klámmynd. Það er léleg tónlist, léleg framleiðsla og ósannfærandi leikarar. Með leikarar á ég við stjórnendur þáttarins. Þættirnir eru fullir af litlum leikþáttum þar sem stjórnendurnir þykjast vera að spjalla en eru að fara eftir handriti. Frammistaðan er trénuð.

En auðvitað er verst hvernig er farið með Traci Lords. Það er nær algjör skortur á samkennd með henni. Viðhorfið hjá þáttastjórnendum, og mörgum viðmælendum, virðist vera að það sé kannski ólöglegt að framleiða klám með unglingsstúlku en það hafi ekki verið beint ósiðlegt af því að hún virtist njóta þess. Viðmælendur úr klámheiminum er flestir á þeirri línu að Traci hafi verið vergjörn. Það er ótrúlega ógeðfellt þegar þetta fólk er að lýsa kynlífi með henni.

Fólkið úr klámheiminum er upp til hópa tilbúið að úthrópa Traci sem lygara en þáttastjórnendur eru ekki nógu duglegir að benda á að sögurnar frá klámheiminum eru ósannfærandi og í hrópandi mótsögn við hver aðra.

Í stað þess að skilja að unglingar hafi ekki þroska til að vera í þessum heimi þá er Traci máluð sem einhvers konar snillingur sem hafi leikið á alla. Verst er kannski þegar fólk úr klámheiminum lætur eins og að hún skuldi þeim afsökunarbeiðni fyrir að hafa farið svona illa með þau.

Þáttastjórendur eru mjög uppteknir af því að finna dæmi um að Traci sé ekki sjálfri sér samkvæm. Það er í fyrsta lagi enginn skilningur á því að skilningur hennar á því sem átti sér stað hafi breyst með tímanum. En síðan er bara sú einfalda staðreynd að þarna er manneskja að takast á við erfitt tímabil í lífi sínu og geti ekki alltaf verið heiðarleg, bæði til að verja sig og aðra.

Síðan er það þessi ömurlega taktík þáttastjórnenda að vera sífellt og endalaust að segja “eigum við að benda hlustendum á að þetta er ekki alveg satt?” – “nei, við skulum bara leyfa hlustendum að dæma sjálfir”. Þegar fólki segir svona þá er það að gera það sem það segist ekki vera að gera. Það er svo mikill tvískinnungur í þessu.

Þetta er líka dæmigert hlaðvarp sem teygir lopann endalaust. Ótrúlegar endurtekningar. Það þarf ekki alltaf að gera 13 þætti. Það má hætta þegar meginatriðunum hefur verið komið til skila.

Ég skil ekki hvernig þetta hlaðvarp var framleitt árið 2020. Þetta er hræðileg drusluskömmun í garð unglingsstúlku. Þetta er svo mikið drasl að ég gat ekki annað en skrifað aðeins um það.