Af portkonum, guðspjöllum og íslenskum Óskarsverðlaunahafa

Um daginn sá ég full af fólki tala um “sex workers” á Twitter. Ég er ekkert rosalegur aðdáandi þess að nota þetta enska hugtak. Einfaldast væri að tala um kynlífsvinnu og kynlífsverkafólk. En það varð til þess að ég fór að pæla í eldri orðum um þetta fyrirbæri á íslensku.

Þegar ég var í áttunda eða níunda bekk sagði íslenskukennarinn okkur sögu af Halldóri Laxness. Ég myndi giska að hún væri flökkusaga en hún hefur allavega tvisvar komið fyrir á prenti. Gísli Jónsson endurtók hana í pistli um íslenskt mál árið 1999.

Frá því er að segja, að á ofanverðum dögum Halldórs Kiljans Laxness var portkona ekki tíðhaft orð. Í elli sinni dvaldist hann í sæmd og æru á Reykjalundi, og einn sunnudag vinnur honum beina ung kona, í pilsum varla niður á þykkvalær og í opinskárri blússu. Verður þá öldunginum að orði: “Fyrirgefið þér fröken, eruð þér portkona?” Frammistöðustúlkan rýkur fram í eldhús, rétt eins og bitin væri af sel, og spyr matseljuna, lífsreynda og ráðsetta: “Hvað þýðir þetta orð portkona? Karlinn sem fékk Óskarinn, sagði þetta við mig.” Ráðskonan skýrði orð Nóbelskáldsins vandlega fyrir hinni ófróðu stúlku.

Ég verð að játa að eftir á þykir mér þetta skrýtin saga til að segja unglingum. En mörgum þótti þetta sniðug athugasemd hjá Halldóri og skemmtilegt skot á unga fólkið sem skortir orðaforða og þekkingu. Í dag myndu margir frekar sjá þetta sem drusluskömmun.

Orðið portkona er áhugavert. Ég held að ég geti fullyrt að almennt skilur fólk orðið þannig að það sé vísun í að þessar konur stunduðu iðju sína í t.d. húsasundum. Ég held að ég hafi fyrst skilið það þannig. En þegar ég fór að hugsa málið þótti mér líklegra að umrætt port væri höfn. Ég sá fyrir mér íslenska sjómenn, á flutninga- eða fiskiskipum, koma við í höfn og hitta umræddar portkonur fyrir þar.

Ég hafði rétt og rangt fyrir mér. Portið er vissulega höfn. Það er hins vegar miklu eldra en ég bjóst við. Fyrsta dæmið sem við eigum um þetta orð á íslensku er úr Nýja Testamenti Odds Gottskálkssonar, fyrst prentað 1540, nánar tiltekið í Lúkasarguðspjalli. Þið kannist kannski við söguna.

En nú eð þessi þinn sonur kom, hver út hafði svælt sínu góssi meður portkonum, þá slátraðir þú honum alinkálf.

Eða, samkvæmt ritmálssafni Árnastofnunar.

… huer vt hafdi suælt sinu godzi medr port konum.

Orðaforði Odds var samt fjölbreyttari þannig að í Matteusarguðspjalli notaði hann annað orð.

Sannlega segi eg yður að tollheimtarar og pútur munu fyrri komast í Guðs ríki en þér.

Það kom mér á óvart að sjá orðið “púta”. Mér hafði ekki dottið í hug að það hefði verið notað í íslensku fyrr á öldum. Ég tengi orðið helst við spænsku þó ég hafi ekki lagst í neina orðsifjafræði beint.

Heiðna-Biblian frá árinu 1908 notar síðan orðið skækja í stað pútu.

… en er þessi sonur þinn, sem sóað hefir eigum þínum með skækjum, er kominn, þá slátraðir þú fyrir hann alikálfinum.

Biblía 21. aldar, umdeild vegna þýðinga sem löguðu til siðfræði hinnar helgu ritningar, hélt sig við orðið skækja.

En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.

Ég verð reyndar að taka fram að það er ótrúlegt metnaðarleysi hjá Hinu íslenska biblíufélagi í framsetningu á texta á vefnum. Það ætti að vera auðvelt að hoppa á milli ólíkra þýðinga í stað þess að smella fram og til baka.

Það sem mér þótti einna áhugaverðast við portkonuna er að það orð þekkist í eldri Biblíuþýðingu. Guðspjöllin frá Lindisfarne eru áhugaverð heimild. Í grunninn er textinn á Latínu en um árið 970 kemur til fræðimaður að nafni Aldred og krassar (eða lét aðra krassa) í handritið. Ef ég tæki mig til og glósaði inn á forn handrit í dag þá yrði ég ekki vinsæll. En Aldred er hálfgerð hetja fyrir sitt uppátæki. Hann var nefnilega að skrifa þýðingar á fornensku.

Í umræddum kafla úr Lúkasi segir hann að glataði sonurinn hafi verið eyða peningum sínum í portcuoene. Þar sem það var engin stöðluð stafsetning á fornenska þá er orðið t.d. líka skrifað port-cwén. Ég held að þetta sé nokkuð skýrt. Kona eða kvenmaður. Ég vildi að ég gæti sýnt ykkar mynd af umræddri orðnotkun úr þessu fræga Lindisfarne-handriti en, talandi um metnaðarleysi, þá virðist það ekki til á stafrænu formi nema einstakar síður. Það er þó hægt að sjá hvernig setningin er umrituð í prentuðum útgáfum.

Ég efast um að Oddur Gottskálksson hafi haft aðgengi að fornenskum þýðingum guðspjallanna. Þannig að við getum ímyndað okkur að portkona hafi verið nokkuð vel þekkt orð. Við höfum þarna rúm fimmhundruð ár á milli. Mér sýnist að í þessu tilfelli sé samt nokkur sátt meðal fræðimanna um að íslenska orðið hafi komið úr enskunni frekar en enska orðið úr norrænu.

Þannig að, ef ég leyfa mér að giska óhóflega í eyðurnar, getum við ímyndað okkur að það hafi verið íslenskir sjómenn sem fluttu orðið með sér eftir að hafa hitt fyrir portkonur. En það gerðist bara miklu fyrr en ég hugsaði mér. Við getum jafnvel séð fyrir okkur víkinga sem hittu fyrir portkonur og víkkuðu um leið orðaforða sinn.

Reyndar liggja leiðir Norrænna manna við Lindisfarne guðspjöllin ekki bara saman í orðaforða. Bókin sjálf er ríkulega myndskreytt en kápan sjálf var bókstaflega verðmæt enda skreytt með gimsteinum. Það er talið líklegt að víkingar hafi stolið þeim fjársjóði líkt og gerðist með Bókina frá Kells. Það er líka rétt að minnast á að árásin á Lindisfarne árið 793 er almennt sögð marka upphaf víkingaaldar.