Könnun VR

Könnun VR á viðhorfi starfsfólks til fyrirtækisins sem það vinnur hjá er nokkuð heillandi. Fyrirtækið mitt er nokkuð fyrir ofan meðallag á þessum lista. Það kom mér svoltið á óvart að það kemur ekki há einkunn fyrir starfsanda miðað við að flestir hafa tekið mér vel. Einnig finnst mér það til marks um góðan starfsanda að í kaffitímum og mat þá sest fólk við nær hvaða borð sem er í stað þess að vera eltast við ákveðna klíku. Útlendingarnir halda sig að vísu svoltið saman (þó er það enginn regla, oft eru þeir bara með okkur hinum) en þeir eru líka þarna sameinaðir í tungumálum sínum, eldra fólk og hið yngra er einnig yfirleitt í sitt hvoru lagi. Stolt af fyrirtækinu er ekki mikið og sveigjanleiki vinnutíma er greinilega ekki mikill.

Aco Tæknival hefur ekki stolt starfsfólk og maður er hissa að starfsmenn gangi ekki með skíðagrímur, einkunn fyrir stolt er 1 af 100. Ekki sækja um vinnu hjá Fossberg (en farðu þangað að kaupa skrúfur) eða Útfaraþjónustu kirkjugarðanna sem fá aðeins 7% í starfsanda.

The Edge

Ekki gítarleikari U2 heldur nýjasta lag Týs (sem hægt er að nálgast á www.tyr.net). Í stuttu máli má segja að það rokkar, ef ég væri maður til að segja að það rokkaði feitt þá myndi ég gera það en þar sem ég nota ekki orðið feitur í þessari merkingu mun ég ekki gera það. Textinn virðist vera mjög góður og heillandi saga á bak við hann. Best að gera líma hér inn óþýddri lýsingu af heimasíðu Týs:
„The Edge“ tells the tale of Floksmennirnir or the Gangmen – four men who in medival times tried to conquer all eighteen Islands of the Faroes.

Sjúrður við Gellingará was forced to be part of this quest. When Floksmennirnir failed their quest and were captured, all except Sjúrður had been sentenced to death by the Thing. They were to be thrown of the cliffs Valaknúkar.

Because of guilt, Sjúrður chose to follow Floksmennirnir, over The Edge“
Heri er mjög fínn söngvari, betri en Allan var (ég heyrði bara tvö lög með honum) en ekki eins góður og Pól (hann er líka alveg eðal) þó ég muni líklega endurskoða það mat mitt þegar ég heyri meira af nýju plötunni. Það er allavega alveg ljóst að brotthvarf Pól verður ekki til þess að hljómsveitin deyr einsog ég hef heyrt suma spá.

Ég hlakka mjög til að heyra restina af plötunni Eric the Red.

Almennilegur sjálfstæðismaður

Ég var að ná í Eygló á bókasafnið þar sem hún vinnur (furðuleg þessi árátta að vanhelga bókasöfn með að byggja kirkjur oná þau). Þar rakst ég á bók sem ég kíkti strax í, hún heitir Þeir máluðu bæinn rauðann og fjallar um vinstri hreyfinguna á Norðfirði. Ég gluggaði í nafnaskránna og fann Reyni Zoëga sem er afi Eyglóar.

Reynir er ekki í bókinni af því hann deilir stjórnmálaskoðunum okkar Eyglóar heldur af því að hann var í bæjarstjórn á Norðfirði í mörg ár fyrir Sjálfsstæðisflokkinn. Þar sem minnst er á hann er sagt að hann hafi verið einstaklega samkvæmur sjálfum sér að því leyti að hann studdi mál meirihlutans ef honum þótti málið gott. Hann var víst ekki vinsæll fyrir þetta meðal flokksfélaga sinna og jafnvel kallaður sjötti maður Alþýðubandalagsins í bæjarstjórn. Þetta er afskaplega skemmtilegt og mjög ólíkt stjórnarandstöðustílnum sem Davíð Oddsson þróaði með sér í borgarstjórn og Guðlaugur Þór (Sori) hefur notað mikið, það er vera á móti öllu sem kemur frá meirihlutanum.

Annars má geta þess að Reynir sá einu sinni mynd af mér í Chebolnum mínum og lét þess getið að honum finndist Che enginn hetja og frekar væri við hæfi að ganga í bol með mynd af Ólafi Thors. Það er einmitt á stefnunni hjá okkur Eygló að gefa Reyni bol með mynd af Ólafi.

Rankin fyrir svefninn

Svaf ágætlega í nótt enda píndi ég sjálfan mig til að sofna ekki almennilega fyrr um kvöldið (svaf reyndar í hálftíma en það hefur enginn áhrif), ég hefði samt viljað sofa lengur.

Fyrir svefninn var ég að lesa bókina The Fandom of the Operator eftir Robert Rankin, hún er ein af betri bókum hans að því leyti að maður skilur hana eftirá. Manni leiðist aldrei að lesa Rankin en stundum getur verið að bækurnar séu þannig að maður lokar þeim og spyrji þá sjálfan sig:“Hvað var ég að lesa?“ Það á hins vegar við um allar Rankin bækur að þegar maður opnar bókina þá er ekki von til þess að maður viti hvert hann sé að fara og það er gott.

Í Fandom þá er Rankin líka eins grófur og hann getur verið, ósmekklegheitin leka af henni, nóg til að hneyksla flesta held ég. Ég er bara svona forhertur að ég get lesið þessa bók tvisvar. Í henni kemur líka greining á hagkerfi nútímans og nauðsyn þess að ákveðinn hluti almennings verði að vinna algerlega tilgangslaus störf (þó hugsanlega fæst séu jafn tilgangslaus og starf aðalpersónunnar lítur út fyrir). Athugasemdir hans um hvað einkenndi lífið á hverjum áratugi seinna hluta tuttugustu aldarinnar eru líka snilld.

Rankin er alltaf þess virði, þó snilld hans sé geðveiki stundum.

Nigella

Ég var að horfa á Nigellu í eldhúsinu, ekki sérstalega spennandi. Undarlegt hve oft virtist passa vel að hafa brjóstin hennar í mynd. Hún eldaði eitthvað jukkittíjukk með ótal hráefnum en hélt því fram að þetta væri svipað flókið og spagetti í tómatssósu. Síðan var að hún var með eitthvað sem var alveg einsog spagetti en var ekki spagetti, greinilega margt sem ég veit ekki.

Í kjölfarið þá hitaði ég hrísgrjón upp og fékk súrsæta sósu út á. Amm.

Fallega síðan

Síðan mín er orðinn nokkuð ágæt, sérstaklega miðað við hve ryðgaður ég er í html. Ótrúlega skrýtið að rifja upp hvernig litirnir eru táknaðir (svartur #000000) og annað svoleiðs. Eitt atriði á síðunni er fyrir slysni inni en ég ákvað að leyfa því að vera áfram.

Tók áðan og misþyrmdi síðunni einsog mér datt í hug, prufaði hana í eins lélegum gæðum og tæknin leyfði. Sá hvað gerðist í bæði IE og Opera, bæði ásættanlegt. Ég hefði hins vegar getað gengið skrefi lengra með því að ná í Bláskjá en lét það vera í bili.

Undirsíðurnar mínar eru komnar inn en ekki í endanlegri mynd, þarf að gera það betur. Queensíðan er í minna rugli en áður, Týssíðan verður hins vegar löguð um helgina.

Ég læt þetta líklega duga í bili, rugla kannski meira í síðunni seinna.

Ef þið sjáið vandamál þá skrifið þið athugasemdir eða ekki.

Athugasemdir og Tilvísanir

Ég er hugsanlega að linast varðandi hörðu stefnuna í athugasemdunum. Eygló benti mér á svoltið sem skiptir máli í þessu, ég get lokað athugasemdakerfinu á þann hátt að ég get alltaf haft síðasta orðið. Þetta skiptir náttúrulega miklu máli því ég er hrikalegur með það að geta ekki hætt og ef ég lendi í rimmu við einhvern sem er eins þá fer allt til helvítis. Þetta sást til dæmis þegar ég gerði einu sinni tilraun til að hafa athugasemdakerfi og við Ásgeir entumst alveg heilllengi í rifrildi.

Ég hef algert vald yfir athugasemdakerfinu mínu, það er ekkert lýðræði þar og ef þú skrifar þar áttu að vita að þú ert á mínu valdi, ég get eytt athugasemdum þínum, breytt þeim og svo framvegis. Það gildir einfaldlega að ef þú vilt skrifa níð um mig þá gerirðu það á eigin síðum (þar sem ég get hunsað þau skrif). Vildi bara taka það fram (og tel mig heiðarlegan fyrir það).

Svipað með Tilvísanir (sem er íslenskun á orðinu Trackback sem ég mun taka upp á síðunni bráðum), ég get eytt út því sem mér líkar ekki. Mér finnst Múrinn hugaður fyrir það að ætla að fara nota Tilvísanir og ég vona að það muni ekki verða of mikil geðveiki, hér er um að ræða líklega mest lesna vefrit landsins og það eru ekki allir sem lesa það af því þeir eru svo sammála því sem þar stendur. Göfug tilraun, ég fer í kjölfarið að gera göfuga tilraun (með níðingslegum skilyrðum).

Svefn og ömurlegustu draumar heims

Ég sef asnalega þessa dagana, sef illa á nóttunni en sofna á kvöldin eftir að ég kem úr vinnunni. Þetta væri hægt að laga ef ég næði að halda út án þess að sofna. Ég gæti þá sofið vel og yrði ekki þreyttur eftir vinnuna.

Það kemur samt annað inn í hvað ég sef illa og það eru ömurlegustu draumar heims. Ömurlegustu draumar heims snúast hjá mér um að stafla kössum og raða vörum, áður snerust þeir um að selja perur til heimskra viðskiptavina. Mig hefur einnig dreymt drauma um að stafla koddum og sængum, víbra steypu og margt fleira.

Þessir draumar eiga vitaskuld rætur sínar að rekja til vinnunnar. Svona kaflar í draumförum koma alltaf yfir mig þegar ég er nýbyrjaður í vinnu en hverfa svo smásaman, vonandi fer það að gerast.

Eftirleikur flutningsins

Merkilegt hvað fólk er duglegt að elta mig á nýjan stað, heimsóknir eru bara rétt undir meðallagi. Það munar miklu að Bloggari Dauðans og Illi tvíburinn hafa báðir uppfært hlekki sína á mig fljótt og vel. Margir gestir virðast líka koma í gegnum aðalsíðu Kaninku (kíkið þangað til að sjá fallega mynd af mér).

Ég hef enn trú á að Bjarni lagi tengingarnar á okkur sem fluttum á Kaninkuna, samt erfitt fyrir hann að finna sér tíma þegar alheimsfrægð (með tilheyrandi vinnu) bíður.