Allraheilagasta hrekkjavakan

Ég hef núna tvisvar séð morgundaginn kallaðan allraheilagramessu. Augljóslega er það rangt. Kaþólikkar halda allraheilagramessu 1. nóvember. Halloween er stytting á “All Hallows’ Eve” sem gæti útlagst sem aðfangadagskvöld allraheilagramessu.

Halloween er náttúrulega aðlögun á keltneskri hátíð sem kallað samhain (en borið fram hér um bil sá(v)en af því að Írar eru klikk). Þar sem sú hátíð markar skil árstíða þá er mjög einfalt að jafna samhain við íslenska dagatalið, sumsé við lok sumars og fyrsta vetrardag. Í fornum heimildum eru þetta veturnætur. Það væri vissulega þjóðlegt og skemmtilegt.

Það væri reyndar gaman að fara í írskan gír á þessum tímamótum. Hafa brennur og grímubúninga og sleppa bandarískum nammipælingum. Almennilega jaðarhátíð (liminal).

En það er einfaldast að kalla þetta hrekkjavöku. Ef maður hugsar um það þá passar þetta orð miklu betur við það hvernig bandaríska hátíðin er haldin heldur en orðið “halloween”. En við Íslendingar höfum ekkert rosalega mikla hefð fyrir hrekkjum á þessum degi. Krakkar hérna vaka ekki heldur neitt sérstaklega langt frameftir. Ég held að hrekkjavaka sé bara eina orðið sem við höfum sem getur keppt við halloween og mér finnst bara svo afskaplega pirrandi að nota slettur þegar góð orð eru í boði.

Skrípanöfn og vítaverðir ósiðir

Ég rakst á grein frá árinu 1898 í Þjóðólfi og, í kjölfarið, á aðra í sama riti frá árinu 1892. Þar fjallar greinarhöfundur (líklega Hannes Þorsteinsson) um ýmis konar nafnaósiði á Íslandi. Ég tók saman nokkra punkta úr þessum tveimur greinum:

Óskandi væri samt, að Jónarnir fækkuðu heldur hér eptir, því að Jón Jónsson t. d. er sama sem ekkert nafn út af fyrir sig, svo að það er jafnvel nauðugur einn kostur að hnýta við það einhverju ættarnafni til leiðbeiningar, enda hafa margir Jónar Jónssynir gjört það,

[…]

Þó eru kvennmannaheitin sýnu lakari t. d. Abela, Abigael, Agata, Albína, Aníka, Anína, Arey, Atfríður, Baldvinía, Barbara, Bárðlína, Batanía, Bersabe, Bóel, Bóletta, Brigget, Daðína, Debóra, Diðrika, Dilja, Drysjana, Dýrunn, Egidína, Einara, Elína, Elínrós, Elísa(!), Elka, Elsabjörg, Emelína, Emerenzíana, Engilmaría, Erlina, Etilríður, Eulalía, Eyjólfína, Feldís, Fídes, Friðjóna, Friðlína, Frugit, Guðanna, Guðbil, Guðjóna, Guðjóný, Guðlína, Guðmunda, Guðrúnbjörg, Gúríe, Gytta o. s. frv.

Ég vil taka skýrt fram að það er höfundurinn sjálfur sem telur nafnið Elísu slíkt skrípi að hann þarf að setja upphrópunarmerki við það. Það eru mörg slæm nöfn í upptalningu hans en Elísa er ekki eitt þeirra.

Það þekkja víst margir söguna um karlinn, sem vildi láta skíra barnið sitt „Jesú Krist”. Og það eru svo ótalmörg dæmi upp á samskonar sérvizku í þessu efni. Móðir Natans Ketilssonar ætlaði að láta hann heita Satan, af því að „sá gamli” hafði vitjað nafns hjá henni í draumi, að mælt var, en það er gömul trú, að hlýða beri slíkum vitrunum. Presti þótti samt Satansnafnið eigi sem viðkunnanlegast skírnarnafn, en til þess að brjóta þó eigi algerlega bág við gamlan átrúnað og styggja ekki myrkrahöfðingjann um skör fram, skírði hann drenginn Natan.

Ég man ekki eftir að hafa heyrt þessa sögu áður, þó það gæti vel verið, en hún verður að teljast ósennileg.

Í seinni greininni er höfundur enn að kvarta meir yfir nöfnum kvenna en í þetta sinn þá eru flest nöfnin sem hann nefnir bara mjög fín.

Einkum eru kvennmannaheitin yfirleitt miklu afskræmislegri, en karlmannaheitin. Einkennilegt er það, hversu allskonar samsetningar við »ást eru almennar, t. d. Ástmann, Ástmundur, Ástvaldur, Ástvin, Ástrós o. s. frv. Kvennmannaheitin: Snót, (í Dalasýslu), Fjóla (í Norðurmúlasýslu), Eygló (í Reykjavík), Hugljúf og Sumarrós (í Skagafirði) eru að vísu eigi ljót nöfn, en dálítið óviðkunnanleg eru þau. Sóley, Eyrarós, Baldursbrá, Hrafnaklukka, Ástljúf, Haustrós mundu t. d þykja skrítin eiginnöfn, en þau eru í fullu samræmi við hin fyrnefndu, og engu lakari. Svo óviðkunnanleg og tilgerðarleg, sem þessi nöfn eru, geta þau kallazt sómasamleg í samanburði við önnur verri.

Þarna náði hann sumsé bæði að tala illa um nafn móður minnar og konu.

Að lokum viljum vér skora á alla foreldra (og presta, að svo miklu leyti, sem þeir geta við ráðið), að varast öll útlend nafnskrípi, smekklausar og óliðlegar samsetningar nafna og fleirnefni, skíra börn ekki ættarnöfnum eða fóðurnöfnum manna og helzt aldrei nema einu smekklegu nafni, einkum forníslenzku eða öðru látlausu nafni. Það er enginn hörgull á þeim.

Góða skemmtun gjöra skal

Ég er ennþá að glugga í Íslenzk þjóðlög eftir Bjarna Þorsteinsson. Þar varð fyrir valinu Góða skemmtun gjöra skal sem er oftar sungið sem Góða veislu gjöra skal.


Það vakti athygli mína að það sé til færeysk útgáfa af þessu lagi þannig að ég potaði í félaga Heri Joensen (Týr) og spurði hvaða kvæði það væri. Það stóð ekki á svörum.

Òluvu kvæði
1.

Góða skemtun gera skàl,
hvàr eg gengi í dans:
kvøði um kong Pipping
og Óluvu dottur hans.

Viðgangur:
Stígum fast á várt golv, spàrum ei vár skó!
Gud mann ráða, hvàr vær drekkum onnur jól.

2.

Pipping kongur àf Fraklandi
Gertruð heitir hans frúgv,
væn er Óluva dottir teirra,
higgin og so trúgv.

3.

Karlamagnus Pippingsson
bróðir er hann àt fljóði,
væl eru tey af ættum komin,
Jóhannis hinn góði.

Þetta heldur áfram upp í 178. erindi. Það sem mér fannst áhugaverðast var að þarna er talað um að drekka næstu jól en ekki dansa um næstu jól. Það að drekka jól er auðvitað mjög gamalt orðalag þannig að hvort sem kvæðið hafi verið til í heild sinni á íslensku eða það hafi komið hingað í gegnum Færeyjar þá myndi ég veðja á að “drekka” væri upprunalegra.

En spurningin er auðvitað hver þessi feðgin eru, Pípin og Ólöf. Fyrsta giskið mitt var, áður en ég sá færeyska kvæðið, að þetta væri Pipin faðir Karlamagnúsar og það var rétt. Kvæðið virðist hafa verið ort upp úr riddarasögunni Af frú Olif ok Landres syni hennar sem er hluti af Karlamagnús saga ok kappa hans. Þetta er þýðing af enskri riddarasögu sem er nú glötuð. Ég játa að ég hef ekki farið nægilega vel í gegnum söguna og kvæðið til að þekkja efnið nægilega vel (mér leiðast riddarasögur alveg hrikalega) en bæði sagan og kvæðið endar á að Ólöf gengur í klaustur. Út frá þessu er freistandi að tengja Ólöfu við Gisele systur Karlamagnúsar sem endaði í klaustri.

Mér finnst í raun alveg rosalega skemmtilegt að Íslendingar og Færeyingar skuli syngja um franska konungsdóttur frá áttundu öld. Ég hafði ekkert pælt almennilega í þessu áður.

En ekkert í rannsóknum mínum veitti mér innsýn í það hvers vegna þetta er jólalag.

Íslendingar syngja síðan auðvitað kvæðið Álfadans eftir Jón Ólafsson við sama lag.

Álfadans
Máninn hátt á himni skín,
hrímfölur og grár.

Líf og tími líður
og liðið er nú ár.

Bregðum blysum á loft
bleika lýsum grund.

Glottir tungl og hrín við hrönn
og hratt flýr stund.

Kyndla vora hefjum hátt,
horfið kveðjum ár.

Dátt hér dansinn stígum,
dunar ísinn grár.

Komi hver sem koma vill
komdu nýja ár.

Dönsum dátt á svelli,
dunar ísinn blár.

Ég tók mig til og setti upp nóturnar frá Bjarna í Musescore til að ég gæti spilað fyrir sjálfan mig og jafnvel notað í podcastinu mínu. Ég lét síðan Musescore spila það með flautuhermi til þess að ég gæti látið það fylgja með færslunni án þess að það væri bara í ískrandi midi-formi.


Ég þarf greinilega að láta wordpress samþykkja að setja inn svona staðlaða nótnaskrá en hérna er mynd af þessu sem ég setti upp – sem ég hefði ekki getað gert án Telmu. Nóturnar eru líka á Musescore þar sem hver sem er ætti að geta halað þeim niður og notað að vild.


 

Fram á regin fjallaslóð

Helsti gallinn við að hlusta á tónlist á Spotify er að maður fær engar upplýsingar um lögin, ekki texta og ekki nöfn höfunda. Ég var að hlusta á Þjóðlög Ragnheiðar Gröndal og lagið Fram á Reginfjallaslóð stendur upp úr.

Ég gúgglaði og fékk litlar upplýsingar en fann þessa útgáfu á Ísmús. Í Gegni stendur að þetta sé þjóðvísa og þjóðlag (þær upplýsingar eru væntanlega fengnar úr bæklingnum með disknum).


Kristján Árnason syngur Fram á reginfjallaslóð
Ég tók aðeins dýpri leit og fann að vísuna í handriti leikritsins Skugga-Sveins. Þar eru þrjú erindi en bæði á Ísmús og hjá Ragnheiði er bara eitt.

Fram á regin-fjallaslóð
firðar ljótir búa;
þeirra bygð er þeygi góð,
þyrstir mjög í sauðablóð
eru þeir og engan guð á trúa.

Kunna þeir með kænsku sið
kvikfé ná í haga,
kveykja eld við kletta-rið,
kjötið steikja logann við,
síðan stolnar sauðahnútur naga.

Þegar bóndi burtu frá
býli fer og vífi,
koma fram úr fylgsnum þá
fólin leið og bæjum á
æra fljóð og ota löngum hnífi.

Samdi Matthías öll erindin eða bætti hann tveimur við eldra kvæði? Hvaðan kemur lagið?
Þegar maður hefur áttað sig á að “Reginfjallaslóð” er oft ritað “regin fjallaslóð” eða “regin-fjallaslóð” þá nær maður að kafa dýpra og þá fann ég lagið í Íslenskum þjóðlögum Bjarna Þorsteinssonar.


Bjarni Þorsteinsson fæddist sama ár og Skugga-Sveinn var frumfluttur, árið 1861, og safnaði þjóðlögum sínum á árunum 1880-1905. Það er ólíklegt að hann hafi ekki vitað af tengslum lagsins við Matthías.

En hér sést auðvitað ástæðan fyrir því að ég kafaði aldrei djúpt í þjóðlög. Ég get ekki lesið nótur. Er annað hvort lagið sem Bjarni birtir hér það sama og Ragnheiður og Kristján Árnason syngja? Fjallar kvæðið upprunalega um útilegumenn eða kannski bara tröll?
Viðbót 6. desember
Ég ákvað að læra aðeins á nótur og setti þetta upp í forritinu Musescore (með hjálp frá Telmu). Hérna er lagið með einföldum hörpuhermi.


Hérna eru nóturnar. Ég sett #1 við þær af því að Bjarni hafði líka annað lag við þær.

Fram á regin fjallaslóð nótur

Ég setti nóturnar líka inn á opna gagnagrunn Musescore þar sem er hægt að hala því niður og breyta að vild.

Stories of Iceland – Nýtt hlaðvarp (podcast)

Stories of Iceland
Ísland er kind. Sættið ykkur við það.

Eftir miklar vangaveltur og vesen varðandi Vídeóspólu-heimildarmyndina þá er ég loksins kominn með góða aðstöðu til upptöku. Það er í fundarherbergi í kjallara blokkarinnar okkar. En ég get ekki haldið áfram að taka upp viðtöl strax því að það eru núna háværar framkvæmdir í gangi. Það er slæmt að bjóða einhverjum í viðtal þegar hætta er á að borar yfirgnæfi viðmælandann.

Þannig er ég svona fræðilegu skapandi tómi. Ég hef gert nokkra útvarpsþætti og hef því verið nokkuð spenntur að prufa að gera svona hlaðvarpsþætti. Vandinn var auðvitað að finna nálgun sem er ekki löngu kominn. Síðan tók ég upp puttaferðalang og sagði honum endalausar sögur af Íslandi og þá var hugmyndin komin.

Í hlaðvarpsþáttunum Stories of Iceland ætla ég að fjalla um íslenska sögu, menningu og þjóðfræði á ensku. Þættirnir eru ætlaðir útlendingum sem hafa áhuga á Íslandi og ég ætla að reyna að fara aðeins dýpra og vera með aðeins öðruvísi vinkil en þessi hefðbundna landkynning.

Fyrsti þátturinn kallast Troublemaker-Valley og er umfjöllunarefnið Svarfaðardalur og sögur tengdar honum.

Vídeóspólan og heimildarmyndagerð

Orion Xenon VHSÞað að ég hafi ákveðið að gera heimildarmynd um vídeóspóluna frekar en skrifa grein eða bók er kannski dæmi það þar sem efnið stjórnar miðluninni. Ég hef aldrei áður gert heimildarmynd þó ég hafi oft spáð í því. Ég held að það hafi verið 2003 sem ég fékk hugmynd um að gera heimildarmynd um Helga Hóseasson. Við Siggi vinur minn ræddum hugmyndina  en það varð ekkert úr því en af tilviljun var gerð myndin Mótmælandi Íslands sama ár. Stundum virðast hugmyndir liggja í loftinu.

Þegar ég fór af stað með meistararitgerðina mína í þjóðfræði, sem fjallaði um Eve Online, þá spurði ég fyrst væntanlega viðmælendur mína um hvort ég mætti taka um viðtölin með myndbandstökuvél í von um að vinna heimildarmynd úr efninu. Þar sem fyrstu viðmælendur mínir voru myndavélafeimnir gerði ég ekkert í því.

Þjálfun mín í að taka viðtöl er samt mest úr meistaraverkefninu. Mig minnir að ég hafi tekið 16 viðtöl. Ég lærði ótrúlega margt á því. Ég hef auðvitað líka gert útvarpsþætti sem byggja á viðtölum.

Nálgun mín á efnið verður svipuð og þegar ég skrifaði meistararitgerðina í þjóðfræði. Ég kynnti mér efnið vel fyrst og fékk síðan viðmælendur mína til að dýpka þekkingu mína. Ritgerðin var síðan keyrð eins mikið áfram og mögulegt er á orðum viðmælenda minna. Ég geri ráð fyrir að gera það sama núna en taka skref í viðbót.

Ég ætla að reyna eftir fremsta megni að sleppa því að hafa einhvern þul í hlutverki sögumanns, raddar guðs eins og það er stundum kallað (eða bara rödd Guðna Kolbeinssonar). Ef það er mögulega hægt ætla ég að láta viðmælendur mína segja söguna frá upphafi til enda. Sjálfur ætla ég að halda mig til hliðar eins og ég get. Ég verð ósýnilegur og helst vil ég ekki einu sinni láta spurningar mínar heyrast. Ég ætla ekki einu sinni að vera með hljóðnema.

Til þess að lífga upp á myndina ætla ég að nýta mér ljósmyndir og upptökur (endilega sendið mér eða látið mig vita ef þið eigið eitthvað). Þá er ég kominn með mikið magn af efni úr dagblöðum og tímaritum sem mun án efa gera mikið til að skreyta myndina.

Þegar ég fór í hagnýta menningarmiðlun á sínum tíma þá var það meðal annars af því að ég var spenntur fyrir heimildarmyndagerð. Ég lærði ótalmargt þar, bæði varðandi upptöku og klippingu. Ég las líka mikið um kenningar um efnið. Ég var nálægt því að gera heimildarmynd um vídeóspóluna þá en það sem stoppaði mig var að ég hefði þurft að deila tækjum og tólum með öðrum.

Það eru fjögur ár frá því að ég útskrifaðist úr hagnýtri menningarmiðlun. Ég á sjálfur myndavél sem er nógu góð til að taka upp viðtöl. Ég þarf reyndar sérstakt hljóðupptökutæki en ég hef einmitt aðgang að svoleiðis og vona að ég geti keypt eitt slíkt sjálfur. Hljóðnemi til að nota í viðtölunum er á leiðinni til mín. Þá má nefna að frjáls hugbúnaður er orðinn nógu góður til þess að ég get klippt myndina á minni eigin tölvu (sem var reyndar keypt sérstaklega út frá því hve vel hún gæti keyrt svona hugbúnað). Ég get sumsé verið sjálfum mér nægur í flestu. Það hentar minni þjóðfræðilegu (eða etnógrafísku) nálgun ákaflega vel. Ég vona að með söfnuninni á Karolina Fund geti ég keypt mér fleiri tæki og tól til að auðvelda mér verkin en í raun gæti ég farið að taka viðtöl á morgun.

Ef þið viljið vita hvaða heimildarmyndir eru í uppáhaldi hjá mér þá finnst mér serían Seven Up! alveg dásamleg. Síðan er þáttaröð Ken Burns um þrælastríðið í Bandaríkjunum alltaf föst í mér. Það kemur því örugglega engum, sem þekkir yfirhöfuð stíl hans, á óvart hvernig ég mun nota ljósmyndir og annað myndefni.

Söfnunin á Karolina Fund gengur ekki hratt en ég er reyndar ákaflega bjartsýnn að ég nái markmiðinu. Það er því líklega fátt sem kemur í veg fyrir að myndin verði gerð en þið getið gert mér verkið auðveldara með því að styrkja verkefnið. Það er rétt rúm vika eftir.

Kommentakerfið og slagurinn við Bryndísi

BryndísSíðustu vikur hafa verið skrýtnar. Ég hef verið reglulega í fjölmiðlum en það sem er skrýtnara er að Bryndís vinkona mín er á sama tíma á fullu. Hún stendur fyrir málefnið sem ég hef samviskubit fyrir að vera ekki að helga mér af því að ég er upptekinn við að auglýsa #Kommentakerfið.

Sumsé, rétt eftir að #Kommentakerfið fór af stað og Svarthöfðagötunafnið fór út um allan heim þá fer Bryndís af stað með átak að vekja athygli á nauðsyn þess að taka við fleiri flóttamönnum til landsins. Þá er skondin tilviljun að myndin sem birtist hve oftast af henni var tekin af mér um daginn þegar hún fékk að prufa #Kommentakerfið. Stuttu eftir birtist líka tilvitnun í mig, víða um heim, af flóttamannaviðburðinum hennar Bryndísar.

Um daginn spjallaði ég við blaðamann Grapevine um Kommentakerfið og í gær hafði hann samband við mig, hálfmiður sín, og sagði mér að ég hefði ekki komist í blaðið sem var að koma út. Þetta fer á netið þannig að ég er ekkert miður mín. En ég hló þegar ég sá að Bryndís er framan á Grapevine. Ekki af því að mér finnist málefnið hlægilegt enda erum við Bryndís á sömu línu. En Bryndís og flóttamennirnir bömpuðu mér úr prentútgáfunni. Sem er auðvitað fínt af því að það er miklu mikilvægara efni.

Maður hefur þá tilfinningu að Ísland sé pínulítið. Ekki hverfur sú tilfinning þegar maður sér Vilborgu og Emil Hjörvar saman á Bókmenntahátíð að tala við David Mitchell.

En fræga vinkona mín á athugasemd í Kommentakerfinu. Hún dúndraði henni á mig, óvart, þegar ég var að segja henni frá hugmynd minni um spilið. Ég held að hún hafi meiraðsegja náð að setja sína athugasemd út þegar við vorum að spila um daginn.

Ef þið hafið áhyggjur af því að ég sé ekki nóg í fjölmiðlum þá komst ég í viðskiptafréttir Mbl í dag. Það er í fyrsta skipti sem ég er í viðskiptunum.

Rakhníf Occam beitt í þjóðsögu

Í dreifða prófarkalestri Rafbókavefsins er ég að lesa yfir Þjóðsögur Jóns Árnasonar og mér þótti þessi saga hér alveg drepfyndin.

EGGJASKÁLIN Í VIÐEY
Einu sinni þegar Magnús Stephensen konferenzráð var á gangi úti
á Viðey kom til hans kona og fékk honum fulla skál af eggjum. Hann
tók lítið eftir þessu, en hélt þetta væri einhver vinnukonan sín sem hefði
verið í eggjaleit um eyna. Þegar vinnufólkið kom heim um kvöldið kannaðist enginn við
þetta enda sýndi það sig að skálin var umfram. Þá sáu menn fyrst að það hefði verið
álfkona sem hefði mætt húsbóndanum.

Ef þetta er raunsönn mynd af því hvernig Íslendingar drógu ályktanir hér á öldum áður þá get ég vel trúað að álfatrú hafi verið almenn.

Stóra 9/11 Einstein tilvitnunarsamsærið

Ég hef ekkert neina nennu til að rífast við 9/11 samsærissinna. En þessi notkun samsærissinna á tilvitnun í athugasemdakerfi DV þótti mér of fyndin til þess að stríða honum ekki.

Condemnation without investigation is the hight of ignorance – Einstein#

Ég spurði, kurteisislega, hvar og hvenær Einstein hefði sagt þetta og fékk frábært svar.

Prófaðu að gúgla tilvitnunina og athuga það. Kanski hefðurðu komist að samsæri um að fólk sé að setja Einstein orð í munn???? Var það eitthvað fleira, Herra Ad Hominem?

Ég vissi ekki að það væri leyndarmál að fólk eignaði oft frægu fólki s.s. Mark Twain, Oscar Wilde, Winston Churchill og að sjálfsögðu Albert Einstein tilvitnanir til þess að gefa þeim meiri vigt. Til þess þarf ekki samsæri heldur einungis leti við að leita uppi frumheimildir.

Það sem er reyndar merkilegt við þessa fölsku tilvitnun er í fyrsta lagi hve mörgum hún hefur verið eignuð og í öðru lagi að það hefur verið skrifuð heil “ritgerð” um hana. Sú ber hið viðeigandi heiti The Survival of a Fitting Quotation. Þar eru dæmin rakin mjög ítarlega sem sýna þróun hennar. Ég sá þó ekki í fljótu bragði að það væri rekin tengslin við 9/11 samsærissinnana sem nota hana greinilega mjög mikið.

Upprunalega er tilvitnunin úr bók eftir guðfræðinginn William Paley (m.a. frægur fyrir úrsmíðameistara líkingu sína). Þið getið skoðað hana í bókinni A View of the Evidences of Christianity.

En hvað gæti verið meira viðeigandi en að nota falska tilvitnun til þess að hreykja sér af því að hafa skoðað málin ítarlegar en aðrir?

Tveir áfangar

Þessa daganna tel ég afrek mín helst vera tengd hjólreiðum (tók 18.6 km hring upp í kringum Elliðavatn í dag). Veðrið hefur líka verið gott til slíks. Vonandi meira um það seinna.

En það eru aðrir áfangar sem ég ætlaði að nefna.

Í síðustu viku fékk ég lokaeinkunn fyrir meistaraverkefni mitt í hagnýtri menningarmiðlun, þ.e. Rafbókavefurinn og greinargerðin um hann. Ég fékk níu og er mjög sáttur. Meðaleinkunnin er þá tæplega 8,6 í náminu. Það er næstum að maður sjái eftir að hafa ekki lagt meira á sig til að keyra þetta upp í ágætiseinkunn. Reyndar lagði ég langmest á mig í námskeiði þar sem var bara gefin einkunnin “staðið”. Ég geri ráð fyrir að skólagöngu minni sé lokið nema ef ég fæ tækifæri til þess að fara í launað doktorsnám.

Í dag fékk ég í hendurnar bókina Shaping Virtual Lives. Í henni eru greinar byggðar á erindum flestra þeirra sem tóku þátt í málstofunni “minni” í Lissabon í fyrra. Það er mikil gleði að vera með í þeirri bók enda er þetta mín “stærsta” birting sem fræðimaður. Þarna er ég að skrifa í ritrýnda bók m.a. með fólki sem ég las greinar eftir í þjóðfræðináminu og vitnaði jafnvel í í lokaritgerðinni minni.