Af Lissabonráðstefnu

Ég fór núna í dymbilviku til Lissabon á ráðstefnu SIEF sem eru faktískt  evrópsku þjóðfræðisamtökin þó nafnið tali um alþjóðlegheit og enginn sé útilokaður. Ég fór á ráðstefnu sömu samtaka árið 2008 í Derry.

Ég held að við höfum verið 11 Íslendingar sem fórum. Ég fékk sjálfur styrk frá CCP til að fara og tala um meistararitgerð mína og tók þátt í málstofu sem var tileinkuð netþjóðfræði. Það var vægast samt skemmtilegt og fræðandi að hlusta á þetta fólk. Ég vona innilega að við gefum þetta út saman eins og hefur verið rætt.

Það voru tveir fyrirlestrar í minni málstofu sem vöktu sérstaklega áhuga minn. Annars vegar fjallaði Pat Turner um rasískra orðróma í kjölfar fellibylsins Katrina (ekki Katrínar) sem minnti mig á gamla færslu sem ég skrifaði um ritstjóra AMX og hins vegar fjallaði Rob Howard um bókstafstrúarmenn á netinu. Það sem gerði þessa fyrirlestra öðruvísi er að þau voru í raun bæði að fjalla um hópa á gagnrýnin hátt sem er ekkert sérstaklega algengt í þjóðfræði (en ekkert óþekkt). Þar er líklegra að gagnrýni komi fram sem vörn fyrir þá hópa sem eru skoðaðir og beinist að einhverjum öðrum (ráðandi hópum eða yfirvöldum).

Við fórum öll út að borða eftir málstofuna og þá spjölluðu Rob og Pat aðeins um það hvernig er að stunda slíkar rannsóknir. Það var mjög áhugavert að hlusta á þau tala og sjá hvað þeim var mikilvægt að láta þessa hópa alltaf njóta sannmælis. Þau lýstu því hvernig þau reyndu að ræða um það sem var almennt frekar en að einblína á neikvæðustu þættina. Þau hefðu nefnilega átt ákaflega auðvelt með að safna bara saman því versta sem þau sáu frá þessu fólki en hunsa allt hitt. Ef þau hefðu farið þá leið hefði maður að sjálfsögðu fengið mjög skekkta mynd af þessum hópum. Lukkulega þá eru þetta vandaðir fræðimenn sem er umhugað um að sinna starfi sínu af heillindum.

Þó mín málstofa hafi vissulega verið áhugaverðust af öllu sem ég sá þarna þótti mér líka margt annað gaman. Ég hitti, hlustaði á og spjallaði jafnvel við fræðimenn sem ég hef lesið ýmislegt eftir. Til dæmis var þarna Jack Santino sem skrifaði mjög áhugaverða bók um tákn í deilunum á Norður Írlandi og Charles Briggs sem tók við af Alan Dundes í UC Berkeley. Ég rakst ekki á neinn sem er „stórt nafn“ í fræðunum sem kom ekki bara fram við mig (sem og aðra óþekkta þjóðfræðinga) eins og jafningja.

Mér þótti þó reyndar sérstaklega gaman í kokteilboðinu fyrsta kvöldið að hitta finnskar stelpur frá því í Derry sem mundu eftir mér og voru glaðar að sjá mig (en á sama tíma mjög óglaðar vegna kosningaúrslitana sem voru að berast þeim). Það var gott að finna að maður var ekki bara einn af nemendum Valdimars heldur einnig þarna á eigin forsendum. Ekki það að ég hafi neitt á móti því að fólk þekki mig sem nemenda Valdimars enda var hann voðalega duglegur að kynna mann fyrir áhugaverðu fólki héðan og þaðan.

Ég ætla rétt að vona að ég haldi mér nægilega við í fræðunum til að réttlæta að ég taki svona ráðstefnuferðir reglulega. Það er ákaflega gefandi.

Að flýja úr fangelsi

Þetta er að ganga á netinu:

Amerískur flótti: Notaðu skeið til að grafa göng úr klefanum. Feldu grafninginn í buxnaskálminni og losaðu þig við þegar lítið ber á. Skríddu út fyrir fangelsisvegginn í gegnum holræsakerfið. Gæti tekið nokkur ár. Íslenskur flótti: Fáðu dagleyfi. Ekki koma aftur

Mér þótti þetta nokkuð sniðugt. Verst að þegar svona gengur fyrst og fremst um Facebook er engin leið til að rekja upprunan. Gerir líka erfitt að finna elstu dæmin svo nokkuð gagn sé að. Ég stal þessu annars frá Davíð.

Af söngvaleikjum

Í dag var fyrirlestur hjá Félagi þjóðfræðinga á Íslandi þar sem Una Margrét Jónsdóttir talaði um söngvaleiki en hún gaf nýlega út bókina Allir í leik: Söngvaleikir barna. Fyrirlesturinn var bæði skemmtilegur og fræðandi. Ég, og held ég flestir, hlógu vel og mikið að sumum textunum. Athyglisverðast þótti mér að heyra að elsta heimildin um Fram, fram fylking fjalli um að fullorðið hafi verið að leika hann. Á einhverjum tímapunkti fór fólk að taka sig of alvarlega.

Ég pældi dáltið í fundarstjórahlutverki mínu. Ég held að það sé ágætt að vera sem mest í bakgrunninum.

Una Margrét Jónsdóttir og Söngvaleikir

Una Margrét Jónsdóttir er landsmönnum löngu kunn fyrir störf sín í útvarpi en nú á síðasti ári gaf hún út bókina “Allir í leik: Söngvaleikir barna”. Miðvikudaginn 24. febrúar klukkan 17:00 mun Una flytja fyrirlestur á vegum Félags þjóðfræðinga á Íslandi á Aðalsafni Borgarbókasafnsins í Tryggvagötu.

Una Margrét hefur rannsakað íslenska leikjasöngva frá árinu 1999 og í þessum fyrirlestri fjallar hún um þá – söngva á borð við „Fram fram fylking“ og „Bimm bamm bimm bamm“ – og tengsl þeirra við sams konar söngva erlendis.

Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Áramótaskaupið

Ég var verulega  sáttur við Skaupið. Ég þekkti ekki þann sem lék Sigmund Davíð en hann vann leiksigur.

Áhugaverðast var þó lokatriðið. Áramótaskaupin hafa í gegnum tíðina þjónað þeim tilgangi að gera upp hið liðna og því fylgir ákveðin útrás og hreinsun tilfinninga. Mér fannst eins og að lokaatriðið væri að vinna gegn því. Hlustandi á þetta var mér skapi næst að fara að grenja. Þetta var eiginlega eins og höfundarnir vildu segja að það væri ekki tímabært að gleyma. Við megum ekki við því Engin tilfinningahreinsun strax. En þó þurfum við að halda áfram. Kannski að Páll Óskar komist næst því að vera þetta fjandans sameiningartákn okkar.

Hólmavíkurreisa

Ég fór til Hólmavíkur í dag. Reyndar hafði ég ekki vit á að sofna snemma og Gunnsteinn var ekki hjálplegur þegar ég loksins var kominn í rúmið. Ég var hundþreyttur þegar ég vaknaði í morgun. Kristinn sótti mig og síðan Vilborgu, Jón Þór og Helgu hans. Ég hafði ætlað að reyna að sofna á leiðinni en Kristinn fór að tala um hve lítið hann hefði sofið um nóttina þannig að mér rann, sem farþegasætismaðurinn, blóðið til skyldunnar og hélt mér vakandi til að fylgjast með honum. Það var reyndar alveg óþarft.

Eftir smá stopp heima hjá Kristni og Kötlu fórum við í Braggann þar sem Jólaspjallið var haldið. Þar var hlaðborð og ég stökk á hangikjöt, jafning, kartöflur, grænar baunir og ágætis laufabrauð (stórt hrós). Ég þurfti samt að gera hlé á átinu til að halda fyrirlestur. Ég hafði engan tilbúinn fyrirlestur heldur bara glærur til að vinna mig frá. Ég fylgdist síðan með áheyrendum til að meta hvernig ég ætti að spinna áfram.  Það gekk vel og ég var mun ánægðari með frammistöðuna í dag heldur en á Þjóðarspeglinum um daginn þar sem ég var fastur við blaðið. Afgangurinn af dagskránni var líka skemmtileg.

Eftir á heyrði ég að Vilborg væri kominn með far heim í dag þannig að ég stalst með. Ingi Björn kom okkur á leiðarenda. Ég hefði raunar að einhverju leyti viljað hanga aðeins lengur en ég er bara orðinn svona kall sem helst vill komast heim til fjölskyldunnar.

Viðtal í Víðsjá í dag – prufa

Það fór eitthvað undarlega af stað viðtalið við mig í Víðsjá um bókina Eve Online: Leikir, sköpun og samfélög (fæst í helstu bókabúðum en síðan er hægt að tala við mig beint líka). Það byrjaði án kynningar, síðan kom kynning og síðan hélt það áfram. Ég klippti það til þannig að kynningin er fyrst en hún er dálítið undarleg af þessum sökum.

[audio:http://www3.gamla.truflun.net/olis/utvarp/vidsjaklippt.mp3]
Ég set þetta örugglega inn aftur á morgun í plöggskyni.

Jólaspjall á Hólmavík á laugardag

Á laugardaginn mun ég kynna bókina mína Eve Online: Leikir, sköpun og samfélag á Jólaspjalli Þjóðfræðistofu á Hólmavík.

Hér er annars plöggið:

Jólaspjall Þjóðfræðistofu 19. desember 2009, kl. 13
Laugardaginn 19. desember mun Þjóðfræðistofa blása til þjóðfræðiþings,
útgáfuhófs og menningardagskrár. Auk þess að miðla af rannsóknum
verður leikin tónlist,sýndar kvikmyndir og haldið upp á nýjar útgáfur.

Þá munu höfundar lesa upp úr nýútgefnum ritum. Jólaspjallið verður
haldið í Bragganum á Hólmavík en Café Riis býður upp á létt
jólahlaðborð á vægu verði.

Sjá nánar um dagskráliði:
www.icef.is
Á dagskrá Jólaspjallsins:
·      Kristinn Schram forstöðumaður Þjóðfræðistofu segir frá
starfseminni á árinu
·      Óli Gneisti Sóleyjarson þjóðfræðingur segir frá nýútkominni bók
sinni Eve Online sem gefin er út af Þjóðfræðistofu
·      Jón Þór Pétursson þjóðfræðingur segir frá doktorsrannsókn sinni
og rannsóknarverkefni Þjóðfræðistofu um íslenska matarhefð
·      Katla Kjartansdóttir verkefnastjóri á Þjóðfræðistofu, segir frá
samtímasöfnun á leikjum íslenskra barna
·      Sigurður Atlason framkvæmdastjóri Strandagaldurs kynnir
samstarfsverkefni um jólaendurminningar Strandamanna
·      Jón Jónsson menningarfulltrúi og þjóðfræðingur flytur jólahugvekju
·      Söngflokkurinn Fúmm fúmm fúmm flytur jólalög
·      Höfundar lesa upp úr jólabókum
o   Vilborg Davíðsdóttir – Auður
o   Eiríkur Örn Nordahl – Gæska
·      Heimildamyndin Leitin að Gísla Suurinpojk