(Trans)fólk og fegurð

Það var manneskja sem ég sá oft þegar ég var táningur. Mig minnir að hún (manneskjan) hafi verið á miðjum aldri. Hún leyfði sér uppreisn gegn viðteknum venjum varðandi útlit og klæðaburð. Ekki áberandi. Ekki mikið. Ég vissi ekkert hvað þetta þýddi og ég ætla ekki að giska núna þó ég hafi vissulega greinilegri hugmyndir um hvað var á seyði. En ég get ímyndað mér að litlar uppreisnir hafi kostað mikið hugrekki, sérstaklega á þessum tíma á Akureyri.

Þegar ég var aðeins eldri var önnur manneskja sem kom alveg út úr skápnum með að vera trans á Akureyri. Hún var ótrúlega hugrökk. En maður heyrði fólk í kringum sig tala um hana á mjög niðrandi hátt. “Hvað á maður að kalla hann eða hana eða þetta?” Ég held að samkennd mín með samkyhneigðum hafi yfirfærst á transfólk þannig að ég tók aldrei undir svona tal. En ég sagði aldrei neitt. Ég var kannski réttum megin í skoðunum en ég var ekki hugrakkur.

Ég velti oft fyrir mér öllum þessum hann/hún/þetta bröndurum þegar ég heyri fólk kvarta yfir þeim persónufornöfnum sem transfólk kýs sér. Ætli þessir kvartarar hafi ekki sagt svipaða brandara á sínum tíma?

Þegar ég fór hlusta/horfa á hlaðvarpið Harmontown “kynntist” ég manneskju sem kom hægt og rólega út úr skápnum sem trans. Sérfræðingur í gleri (sbr. glösum og slíku) sem heitir Jane. Á nokkrum árum kom hún reglulega í heimsókn útskýrði fyrir fólki hvernig hún sæi sjálfa sig. Mjög áhugavert. Áhrif hennar á áheyrendur komu síðan í ljós þegar einhver uppistandaragaur sem gestur og fór að segja frekar milda transfóbíska brandara. Áhorfendur voru bara alls ekki í stuði að heyra svona kjaftæði.

Ég er allavega kominn yfir það að hunsa transfóbíska brandara. Ég hef slökkt á nokkrum uppistöndum sem ég hef verið að horfa á af því að ég nennti ekki að hlusta á svona rugl. Ég tek fram að ég er ekki að segja að þessir uppistandarar séu vondar manneskjur. Það er eiginlega frekar að mér finnist þeir vandræðalega hallærislegir. Íhald dulbúið sem uppreisn gegn valdi er bara kjánalegt. Það má hiklaust gera grín að Caitlyn Jenner en transfóbísku brandarar Ricky Gervais eru ekki bara árás á hana heldur á transfólk almennt.

Jane náði að kenna mér, og líklega mörgum öðrum, að hugsa um kyn og transfólk. Til dæmis að pakka þeirri hugmynd að allir sem eru trans þurfi að ganga í gegnum allar skurðaðgerðir sem eru í boði.

Kannski er það Jane að þakka að ég endaði einhvern veginn með fullt af fólk úr transsamfélaginu á Twitter. Það var ekkert með vilja gert. Ég bara fattaði allt í einu að það var fullt af transfólki þarna.

Ég sé reglulega pósta frá transfólki sem er óöruggt með útlit sitt. Þá langar mig að vera týpan sem getur einlæglega tjáð því að það sé fallegt. En málið er að ég er eiginlega aldrei að tjá mig um útlit fólks. Mér finnst það ekki mitt hlutverk. Mér finnst að álit mitt ætti yfirhöfuð ekki skipta neinn máli. Nema kannski mína nánustu.

En þeir sem vilja að aðrar manneskjur upplifi sig ljótar eru týpurnar sem tjá sig mest. Vilja að orðin þeirra særi og minnki sjálfstraust.

Þannig að í staðinn fyrir að kommenta við myndirnar ykkar þá skrifaði ég þessa bloggfærslu, aðallega til að segja: Ég sé fegurð ykkar.

Takmörkuð greindarvísitala

Hvað er mælt með greindarvísitölu. Greind segja margir. Ég held ekki. Greindarvísitala er í raun ágæt í því að mæla þætti í fari fólks sem eru líklegir til þess að hjálpa þeim að komast áfram í okkar samfélagi. En þetta er ekki greind, eða allavega ekki nema mjög þröng skilgreining á greind. Ákaflega þröng skilgreining.

Í stuttu máli þá er fullt af fólki sem myndi án efa mælast með háa greindarvísitölu sem ég myndi hiklaust kalla vitlaust. Síðan er til fólk sem myndi ekki skora mjög hátt á slíkum prófum en er án efa gáfað.

Það er líklega nauðsynlegt að taka fram að ég er ekki að tala um hluti eins og tilfinningagreind. Ég er að meina það sem við myndum almennt tala um þegar við segjum að fólk sé klárt eða gáfað.

Það segir líka sitt að greindarpróf eru svo gölluð að það er hægt að æfa sig til að fá hærri niðurstöðu. Niðurstöðurnar eru alltaf háðar einhverju sem hefur ekkert með greind að gera.

Greindarpróf hafa alltaf mótast af reynsluheimi þeirra sem semja þau. Sumsé hvað höfundunum finnst mikilvægt, hvernig þeir tala og hvernig þeir upplifa heiminn. Síðustu áratugi hafa þó orðið töluverðar framfarir í þeim efnum. Þó er rétt að nefna að þó fræðin hafi batnað þá þýðir það ekki að öll próf séu orðin betri.

Þetta leiðir okkur að spurningu sem er, að mínu mati, ekki gagnleg. Markast greind frekar af erfðum eða umhverfi? Undirliggjandi spurning er síðan hvort “kynþáttur” fólks ákvarði greind þess.

Lengst af voru greindarprófin gerð nær eingöngu af hvítum köllum í efri stéttum samfélagsins og áhrif þeirra eru ennþá mikil. Þessir hvítu kallar komust mjög óvænt að því að hvítir karlar í efri stéttum samfélagsins væru klárastir af öllum. Hvítir kallar hafa í gegnum tíðina verið sérstaklega duglegir að finna leiðir til að staðfesta að þeir séu frábærir. Það er eitt af mörgu sem þeir eru bestir í.

Þegar á leið þá kom auðvitað í ljós að meintir yfirburðir hvítra kalla voru hverfandi. Eftir því sem kvenréttindi hafa orðið almennari þá hefur kynjamunurinn nær horfið.

En hvað með þessu meintu “kynþætti”? Sá munur hefur líka minnkað gríðarlega. Að hluta til er það vegna þess að prófin eru ekki lengur hvítukallamiðuð heldur sjáum við nokkuð sem hefur verið kallað Flynn-áhrifin. Flynn er reyndar hvítur kall en hann hefur bent á að fólki gengur sífellt betur í greindarprófum. Er fólk sífellt að verða greindara?

Þegar við höfum Flynn-áhrifin í huga þá verður augjóst að umhverfisáhrif hljóta að vera veigamikill þáttur í því sem er mælt með greindarvísitölu.

Þegar ég heyri fólk tala um að erfðir séu langmikilvægastar þegar kemur að greind þá hugsa ég um Mowgli og önnur börn sem eru alin upp án aðstoðar mannfólks. Ef við myndum leggja greindarpróf fyrir Mowgli um leið og hann kemur úr frumskóginum þá myndi hann ekki skora hátt. Umhverfið hefur því töluverð áhrif.

En það er ekki bara í einhverjum hugarflugsdæmum um frumskógarbörn sem við sjáum áhrif umhverfis. Þau áhrif eru nefnilega alltumlykjandi. Menntun skiptir gríðarlegu máli. Menntun foreldra skiptir máli. Næring skiptir máli. Mengun skiptir máli. Efnahagur skiptir máli.

Vandinn er að það er voðalega erfitt að mæla umhverfisáhrif á greind. Þú getur ekki einangrað þessar breytur. Það hafa verið gerðar rannsóknir á tvíburunum sem hafa verið ættleiddir í sitt hvora fjölskylduna en þær segja okkur lítið. Þetta eru nefnilega svo fá dæmi og það var almennt lítill munur á fjölskyldunum sem ættleiddu tvíburana. Umhverfið var sumsé næri eins.

Þegar fólk heldur því fram að greind fólks sé aðallega mörkuð af erfðum þá er það ekki bara skaðlegt af því að þetta eru léleg vísindi heldur líka vegna þess að fólk hrapar að ályktunum um greind annarra vegna uppruna þeirra.

Þetta leiðir mig að alræmdri bók þessa daganna. The Bell Curve: Intelligence and Class Structure in American Life kom út árið 1994. Á sínum tíma var hún jörðuð enda byggði hún ekki á traustum vísindum eða góðri stærðfræði. Þar sem gagnrýnin á bókina var að mestu leyti byggð á kynþáttahyggjunni sem í henni birtist þá yfirsést mörgum að hún er fyrst fremst ætluð til að réttlæta stéttaskiptingu samfélagsins. Þeir sem eru á neðstu stigum samfélagsins séu það vegna þess að þeir eru heimskari en hinir ríku og menntuðu. Staða þeirra markast af erfðafræðilegum takmörkunum sem þýðir að allar hugmyndir um að bæta stöðu þeirra með menntun sé einfaldlega sóun á peningum.

Eftirlifandi höfundur bókarinnar Charles Murray tilheyrir ekki fræðasamfélaginu. Hann vinnur fyrir íhaldssaman hugsanatank*. Skrif hans eru fyrst og fremst pólitísk og eru fjármögnuð af ríku fólk sem vill borga lægri skatta. Þó meðhöfundur hans (sem drapst um svipað leyti og bókin kom) hafi verið háskólamaður segir það sitt að rannsóknir þeirra voru ekki birtar í ritrýndum fræðiritum. Slík fræðirit hefðu vonandi bent á allavega sumar villurnar áður en að birtingu kom.

Á Íslandi höfum við ekki jafn mikla sögu af kerfisbundinni kynþáttahyggju og Bandaríkin, Frakkland eða Bretland en við höfum ríka sögu af stéttamismunun þó hún hafi lengi verið í þagnargildi. Skólar mismunuðu nemendum á grundvelli uppruna þeirra (og gera líklega enn þó það sé hverfandi). Nemendur af fátækum heimilum voru álitnir heimskir og að það væri ekkert gagn í að mennta þá. Börn hinna ríku fengu forgang í réttu skólana. Þetta var skelfilegt kerfi sem eitraði samfélagið. Við viljum vonandi ekki snúa til baka í þessum málum og um leið hljótum við að sjá hættuna þegar ruslvísindi sannfæra fólk um að stimpla fólk með annan hörundslit heimskt.

Ég held að greindarpróf segi okkur ekki mikið og geri ekki mikið gagn. Þau eru gölluð og hafa haft skaðleg áhrif á ótalmarga. Það er vissulega gaman að fá góða niðurstöðu úr slíku prófi en það hefur ekkert mikið meiri þýðingu en önnur próf sem maður hefur tekið í gegnum tíðina. Það er fátt vandræðalegra en þegar fólk montar sig af greindarvísitölu sinni – sérstaklega þegar þetta “fólk” er maður sjálfur fyrir tuttugu árum.

* Ég veit að margir kalla þetta hugveitur en að mínu mati er þetta tankur.

Einelti til bættra lífshátta?

Dan Harmon, aðalhöfundur Community og meðhöfundur Rick & Morty, talaði nokkrum sinnum í hlaðvarpinu sínu um reynslu sína úr skóla þar sem hann var lagður í einelti af fólki sem fannst hann ekki fara nógu oft í bað. Hans viðbrögð við þessu var að fara enn sjaldnar í bað.

Marc Maron, sem leikur í Glow, hefur mikið talað um það í hlaðvarpinu sínu hvernig móðir hans, sem sjálf er þjáð af anorexíu, náði með tali sínu um þyngd hans að ala með honum lotugræðgi (hún sagði honum m.a. að hún hefði ekki getað elskað hann ef hann væri feitur).

Þetta minnir mig alltaf á kjallaragrein sem Guðbergur Bergsson skrifaði einhvern tímann sem heitir “Um nauðsyn eineltis”. Þið getið giskað hvað gerpinu finnst um einelti. Hann heldur að hann geti læknað offitu með því að níðast andlega á fólki. Það sýnir auðvitað hve litla innsýn hann hefur í sálarlíf annars fólks.

Lexían er auðvitað að þú getur ekki bara ætlast til þess að neikvæð styrking hafi sjálfkrafa einhver ákveðin jákvæð áhrif á fólk. Ætli sé ekki betra að vera heiðarlegur eineltishrotti sem vill bara pína fólk heldur en sadisti sem reynir að afsaka annarlega hegðun sína með góðum ásetningi? Ég held það allavega.

Vídeóspólan á síðasta snúning

Í dag er spennandi að sjá hvort söfnun mín á Karolina Fund fyrir heimildarmyndinni Vídeóspólan nær að klárast. Ef ekki þá fæ ég enga þá peningum sem fólk hefur heitið á verkefnið. Málið er að ég er bara bjartsýnn og sé fram á spennandi dag. Ég veit af framlögum sem eru á leiðinni og mig grunar nokkuð marga um að ætla að vera með.

Það er svolítið skondið að ég hef farið í fjögur útvarpsviðtöl vegna söfnunarinnar og þá er eitt lag sem er svo augljóst að spila. Video Killed the Radio Star með Buggles.

Hin augljósa staðreynd er að útvarpið lifði myndbandsspóluna. En það er skemmtilegt að orðið myndband hefur líka lifað af spóluna. Það eru engin “bönd” í merkingunni þræðir á YouTube en samt tölum við alltaf um myndböndin þar. Ég hugsa kannski meira um þessi bönd því ég dundaði mér oft við að laga spólur, reif þær í sundur, klippti jafnvel til og límdi slitna þræði. Ég hef stundum átt erfitt með það en eftir því sem spólan verður fjarlægari þá finnst mér þetta eðlilegra.

Það eru ekki bara unglingar sem geta horft á myndbönd í símum án þess hugsa sífellt um þessa horfnu þræði sem gáfu þessum fyrirbærum nöfn sín.

Gullni meðalvegurinn afpantaður

Sumir virðast vera háðir hugmyndinni um gullna meðalveginn þegar þeir eru að tjá sínar skoðanir. Þeir ná að afgreiða tvo póla sem öfgar á meðan þeirra eigin skoðun er rökrétti og hófsami millivegurinn. Ég á voðalega erfitt með sjálfan mig þegar ég upplifi mig á þann hátt. Mér finnst ég vera, á einhvern undarlegan hátt, að reyna að koma mér undan því að taka afstöðu. Ég held að betri leið til að sjá skoðanir sínar fyrir sér í einhvers konar hnitakerfi þar sem manns eigin skoðun liggur ekki beint milli tveggja andstæðra póla heldur er hún bara staðsett einhvers staðar annars staðar á ásunum. Allavega þá er vert að muna að skoðun sem virðist fara milliveg tveggja geggjaðra skoðana getur líka verið geggjuð.

Kyn, einkunnir, þroski og árgangar

Best að byrja á því að taka fram að þetta eru meira pælingar heldur en niðurstöður.

Í kjölfar Gettu betur umræðunnar fór fólk að tala um þá staðreynd að kynjakvóti er notaður til þess að hleypa fleiri strákum að í Verslunarskólanum. Strákarnir eru sumsé að meðaltali með lægri einkunnir en stelpurnar. Þetta þykir ósanngjarnt gagnvart stelpunum sem komast ekki að þó þær séu með hærri einkunnir.

Þetta leiddi huga minn að einu sem ég hef hugsað reglulega um síðan við heimsóttum Árnýju og fjölskyldu í Þýskalandi fyrir nokkrum árum. Þar var skólakerfið þannig uppbyggt að það var ekki hrein árgangaskipting í bekki heldur byrjuðu börnin skólagöngu þegar þau virtust vera komin með þroska til þess. Ég tek fram að ég er að endurorða eitthvað sem ég heyrði en ekki eitthvað sem ég kynnti mér sérstaklega.

En mér þótti þetta allavega rökrétt. Í fyrsta lagi út frá eigin reynslu þar sem ég man eftir miklum mun á þroska bekkjarfélaga minna. Sumir hefðu mátt vera í næsta bekk fyrir ofan en aðrir í næsta bekk fyrir neðan. Þetta var mun almennara en bara þannig að það dugi að færa til einn eða tvo. Ég held ég geti fullyrt að það hafi líka oftar verið strákar sem voru aftarlega og þó ég sé ekki sérfróður á þessu sviði held ég að þetta sé almennt.

Börn þroskast sumsé ekki í beinu samhengi við fæðingarár sitt  og mögulega er það þannig að drengir komi aðeins verr úr þessari beinhörðu árgangaskiptingu. Síðan er það víst þannig að meðaleinkunn barna er líka í samhengi við það hvenær á árinu þau fæðast. Þau sem fæðast síðar á árinu fá lægri einkunnir. Það gæti haft gríðarlega jákvæða áhrif á skólakerfið okkar að beygja frá hreinni árgangaskiptingu í bekki.

En ef við snúum aftur að Versló. Ef strákar eru að fara illa út úr skipulagningu skólakerfisins þá ættu framhaldsskólar að taka tillit til þess þegar verið er að taka nemendur inn. Væri annað ekki ósanngjarnt?
En rétt er að taka fram að þessar pælingar mínar væru líklega aðeins dýpri ef ég hefði menntun á sviðinu.

Rafbækur eða nýtt miðlunarform?

Hér er kynning á nýrri “rafbók” um Queen. Hún er voðalega flott en ég fór að velta fyrir mér hvort þetta væri bók. Verst að helvítis Apple er á undan öðrum með lokað form þannig að þeir sem eiga öðruvísi spjaldtölvur geta ekki keypt svona. En kíkið aðeins á þetta.

Er hægt að kalla svona margmiðlunarverk bók? Mér finnst það ekki. Í raun er þetta frekar eins og gagnvirk sýningartækni sem t.d. Gagarín hefur verið að búa til fyrir íslensk söfn og setur undanfarin ár. Þetta er eiginlega ekki áframhald af bókinni sem upplýsingamiðli. Ég velti fyrir mér hvort það séu mistök að flokka þetta nýja form með rafbókum sem eru fyrst og fremst að miðla textum og myndum.