Einelti til bættra lífshátta?

Dan Harmon, aðalhöfundur Community og meðhöfundur Rick & Morty, talaði nokkrum sinnum í hlaðvarpinu sínu um reynslu sína úr skóla þar sem hann var lagður í einelti af fólki sem fannst hann ekki fara nógu oft í bað. Hans viðbrögð við þessu var að fara enn sjaldnar í bað.

Marc Maron, sem leikur í Glow, hefur mikið talað um það í hlaðvarpinu sínu hvernig móðir hans, sem sjálf er þjáð af anorexíu, náði með tali sínu um þyngd hans að ala með honum lotugræðgi (hún sagði honum m.a. að hún hefði ekki getað elskað hann ef hann væri feitur).

Þetta minnir mig alltaf á kjallaragrein sem Guðbergur Bergsson skrifaði einhvern tímann sem heitir „Um nauðsyn eineltis“. Þið getið giskað hvað gerpinu finnst um einelti. Hann heldur að hann geti læknað offitu með því að níðast andlega á fólki. Það sýnir auðvitað hve litla innsýn hann hefur í sálarlíf annars fólks.

Lexían er auðvitað að þú getur ekki bara ætlast til þess að neikvæð styrking hafi sjálfkrafa einhver ákveðin jákvæð áhrif á fólk. Ætli sé ekki betra að vera heiðarlegur eineltishrotti sem vill bara pína fólk heldur en sadisti sem reynir að afsaka annarlega hegðun sína með góðum ásetningi? Ég held það allavega.

Vídeóspólan á síðasta snúning

Í dag er spennandi að sjá hvort söfnun mín á Karolina Fund fyrir heimildarmyndinni Vídeóspólan nær að klárast. Ef ekki þá fæ ég enga þá peningum sem fólk hefur heitið á verkefnið. Málið er að ég er bara bjartsýnn og sé fram á spennandi dag. Ég veit af framlögum sem eru á leiðinni og mig grunar nokkuð marga um að ætla að vera með.

Það er svolítið skondið að ég hef farið í fjögur útvarpsviðtöl vegna söfnunarinnar og þá er eitt lag sem er svo augljóst að spila. Video Killed the Radio Star með Buggles.

Hin augljósa staðreynd er að útvarpið lifði myndbandsspóluna. En það er skemmtilegt að orðið myndband hefur líka lifað af spóluna. Það eru engin „bönd“ í merkingunni þræðir á YouTube en samt tölum við alltaf um myndböndin þar. Ég hugsa kannski meira um þessi bönd því ég dundaði mér oft við að laga spólur, reif þær í sundur, klippti jafnvel til og límdi slitna þræði. Ég hef stundum átt erfitt með það en eftir því sem spólan verður fjarlægari þá finnst mér þetta eðlilegra.

Það eru ekki bara unglingar sem geta horft á myndbönd í símum án þess hugsa sífellt um þessa horfnu þræði sem gáfu þessum fyrirbærum nöfn sín.

Gullni meðalvegurinn afpantaður

Sumir virðast vera háðir hugmyndinni um gullna meðalveginn þegar þeir eru að tjá sínar skoðanir. Þeir ná að afgreiða tvo póla sem öfgar á meðan þeirra eigin skoðun er rökrétti og hófsami millivegurinn. Ég á voðalega erfitt með sjálfan mig þegar ég upplifi mig á þann hátt. Mér finnst ég vera, á einhvern undarlegan hátt, að reyna að koma mér undan því að taka afstöðu. Ég held að betri leið til að sjá skoðanir sínar fyrir sér í einhvers konar hnitakerfi þar sem manns eigin skoðun liggur ekki beint milli tveggja andstæðra póla heldur er hún bara staðsett einhvers staðar annars staðar á ásunum. Allavega þá er vert að muna að skoðun sem virðist fara milliveg tveggja geggjaðra skoðana getur líka verið geggjuð.

Kyn, einkunnir, þroski og árgangar

Best að byrja á því að taka fram að þetta eru meira pælingar heldur en niðurstöður.

Í kjölfar Gettu betur umræðunnar fór fólk að tala um þá staðreynd að kynjakvóti er notaður til þess að hleypa fleiri strákum að í Verslunarskólanum. Strákarnir eru sumsé að meðaltali með lægri einkunnir en stelpurnar. Þetta þykir ósanngjarnt gagnvart stelpunum sem komast ekki að þó þær séu með hærri einkunnir.

Þetta leiddi huga minn að einu sem ég hef hugsað reglulega um síðan við heimsóttum Árnýju og fjölskyldu í Þýskalandi fyrir nokkrum árum. Þar var skólakerfið þannig uppbyggt að það var ekki hrein árgangaskipting í bekki heldur byrjuðu börnin skólagöngu þegar þau virtust vera komin með þroska til þess. Ég tek fram að ég er að endurorða eitthvað sem ég heyrði en ekki eitthvað sem ég kynnti mér sérstaklega.

En mér þótti þetta allavega rökrétt. Í fyrsta lagi út frá eigin reynslu þar sem ég man eftir miklum mun á þroska bekkjarfélaga minna. Sumir hefðu mátt vera í næsta bekk fyrir ofan en aðrir í næsta bekk fyrir neðan. Þetta var mun almennara en bara þannig að það dugi að færa til einn eða tvo. Ég held ég geti fullyrt að það hafi líka oftar verið strákar sem voru aftarlega og þó ég sé ekki sérfróður á þessu sviði held ég að þetta sé almennt.

Börn þroskast sumsé ekki í beinu samhengi við fæðingarár sitt  og mögulega er það þannig að drengir komi aðeins verr úr þessari beinhörðu árgangaskiptingu. Síðan er það víst þannig að meðaleinkunn barna er líka í samhengi við það hvenær á árinu þau fæðast. Þau sem fæðast síðar á árinu fá lægri einkunnir. Það gæti haft gríðarlega jákvæða áhrif á skólakerfið okkar að beygja frá hreinni árgangaskiptingu í bekki.

En ef við snúum aftur að Versló. Ef strákar eru að fara illa út úr skipulagningu skólakerfisins þá ættu framhaldsskólar að taka tillit til þess þegar verið er að taka nemendur inn. Væri annað ekki ósanngjarnt?
En rétt er að taka fram að þessar pælingar mínar væru líklega aðeins dýpri ef ég hefði menntun á sviðinu.

Rafbækur eða nýtt miðlunarform?

Hér er kynning á nýrri „rafbók“ um Queen. Hún er voðalega flott en ég fór að velta fyrir mér hvort þetta væri bók. Verst að helvítis Apple er á undan öðrum með lokað form þannig að þeir sem eiga öðruvísi spjaldtölvur geta ekki keypt svona. En kíkið aðeins á þetta.

Er hægt að kalla svona margmiðlunarverk bók? Mér finnst það ekki. Í raun er þetta frekar eins og gagnvirk sýningartækni sem t.d. Gagarín hefur verið að búa til fyrir íslensk söfn og setur undanfarin ár. Þetta er eiginlega ekki áframhald af bókinni sem upplýsingamiðli. Ég velti fyrir mér hvort það séu mistök að flokka þetta nýja form með rafbókum sem eru fyrst og fremst að miðla textum og myndum.

Vafasöm krafa um hæfileika til styrkumsókna?

Ég sé að Facebook vinir mínir taka þátt í rökræðu um eftirfarandi ummæli Guðmundar Magnússonar fyrrverandi forstöðumanns Þjóðmenningarhússins:

Það er verið að auglýsa eftir lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Fyrir utan hefðbundnar menntunarkröfur og kennslureynslu er ætlast til þess að umsækjendur sýni fram á ‘hæfni til að afla styrkja til rannsókna.’ Svolítið skondið í akademísku starfi í ríkisháskóla. Og hvað felst í þessu? Varla það eitt að kunna að útfylla eyðublöð til að senda á rannsóknarsjóði? Mér finnst að þetta þarfnist nánari skýringa.

Ég get ekki ímyndað mér að nokkur sem þekkir til háskólaumhverfisins geti hneykslast á þessu. Það er einfaldlega stór hluti af starfi háskólakennara að sækja um styrki. Rannsóknir kosta peninga – líka í hug- og félagsvísindum. Ég get ímyndað mér að starf háskólakennara væri töluvert vinsælla ef þeir hefðu áskrift af peningum til að vinna þær rannsóknir sem þeir vildu.

Það að sækja um styrki er líka ekki bara að „fylla út eyðublöð“. Það er t.d. ekki öllum gefið að setja fram rannsóknarverkefni á skýran og greinilegan hátt sem er bráðnauðsynlegt. Það þarf líka oft hæfni við að afla samstarfsaðila og margt fleira. Þetta er ekki einfalt og ég held ég geti fullyrt að þetta sé eitt óvinsælasta, ef ekki alóvinsælasta, verkefni háskólakennara.

Satt best að segja dettur mér helst í hug, út frá orðum Guðmundar, að hann sé að reyna að koma höggi á einhvern. Spurning hvort það sé einhver þarna í sagnfræðinni í HÍ sem kemur nálægt þessari stöðuveitingu eða einhver sem hann grunar að muni sækja um starfið. Allavega er þarna verið að reyna að gera fullkomlega eðlilega auglýsingu vafasama.

Kúkurinn í lauginni

Um daginn kom upp frétt um kúk í heita pottinum í Árbæjarlaug. Þar kom fram að potturinn hefði ekki verið tæmdur. Í athugasemdum við fréttina var hæðst að fólki fyrir að finnast þetta ógeðslegt og bent á að klórinn dræpi alla sýkla eins og skot. Sjálfur á ég erfiðast með að skilja hvers vegna fólki er gert að þvo sér með sápu áður en það fer í sund ef það má síðan kúka í vatnið án þess að skipt sé um það. Mér þykir það eitthvað órökrétt. Ég tek fram að ég styð bæði þvott fyrir sund og einnig að skipt sé um vatn í kúkpottum.