Vafasöm krafa um hæfileika til styrkumsókna?

Ég sé að Facebook vinir mínir taka þátt í rökræðu um eftirfarandi ummæli Guðmundar Magnússonar fyrrverandi forstöðumanns Þjóðmenningarhússins:

Það er verið að auglýsa eftir lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Fyrir utan hefðbundnar menntunarkröfur og kennslureynslu er ætlast til þess að umsækjendur sýni fram á ‘hæfni til að afla styrkja til rannsókna.’ Svolítið skondið í akademísku starfi í ríkisháskóla. Og hvað felst í þessu? Varla það eitt að kunna að útfylla eyðublöð til að senda á rannsóknarsjóði? Mér finnst að þetta þarfnist nánari skýringa.

Ég get ekki ímyndað mér að nokkur sem þekkir til háskólaumhverfisins geti hneykslast á þessu. Það er einfaldlega stór hluti af starfi háskólakennara að sækja um styrki. Rannsóknir kosta peninga – líka í hug- og félagsvísindum. Ég get ímyndað mér að starf háskólakennara væri töluvert vinsælla ef þeir hefðu áskrift af peningum til að vinna þær rannsóknir sem þeir vildu.

Það að sækja um styrki er líka ekki bara að “fylla út eyðublöð”. Það er t.d. ekki öllum gefið að setja fram rannsóknarverkefni á skýran og greinilegan hátt sem er bráðnauðsynlegt. Það þarf líka oft hæfni við að afla samstarfsaðila og margt fleira. Þetta er ekki einfalt og ég held ég geti fullyrt að þetta sé eitt óvinsælasta, ef ekki alóvinsælasta, verkefni háskólakennara.

Satt best að segja dettur mér helst í hug, út frá orðum Guðmundar, að hann sé að reyna að koma höggi á einhvern. Spurning hvort það sé einhver þarna í sagnfræðinni í HÍ sem kemur nálægt þessari stöðuveitingu eða einhver sem hann grunar að muni sækja um starfið. Allavega er þarna verið að reyna að gera fullkomlega eðlilega auglýsingu vafasama.

Kúkurinn í lauginni

Um daginn kom upp frétt um kúk í heita pottinum í Árbæjarlaug. Þar kom fram að potturinn hefði ekki verið tæmdur. Í athugasemdum við fréttina var hæðst að fólki fyrir að finnast þetta ógeðslegt og bent á að klórinn dræpi alla sýkla eins og skot. Sjálfur á ég erfiðast með að skilja hvers vegna fólki er gert að þvo sér með sápu áður en það fer í sund ef það má síðan kúka í vatnið án þess að skipt sé um það. Mér þykir það eitthvað órökrétt. Ég tek fram að ég styð bæði þvott fyrir sund og einnig að skipt sé um vatn í kúkpottum.

Bleikt og blátt

Með því að gefa fyrstu bekkingum bleika og bláa hjálma þá eru Kiwanis og Eimskip að taka þátt í samfélagslegum þrýstingi sem segir að strákar og stelpur eigi að vera öðruvísi. Nú tel ég reyndar nokkuð augljóst að það sé munur á kynjunum en sá munur brýst ekki út í litavali – sá munur er menningarlegur en ekki eðlislægur. Stelpur eru ekki frá náttúrunnar hendi hrifnastar af bleikum og strákar eru ekki frá náttúrunnar hendi hrifnastir af bláum. Það er hins vegar til fullt af fólki sem heldur að svo sé og það fólk ber líklega mesta ábyrgð á þeim þrýstingi sem er á börn að velja “rétta” liti.

Þetta snýst náttúrulega ekki (bara) um liti. Ef þetta væri eini tilbúni munurinn á kynjunum sem samfélagið þröngvar börnin til að taka upp væri þetta ekkert mikið mál. Þetta er stór pakki af tilbúnum kynhlutverkum og það er nauðsynlegt að henda honum í heild sinni. Til þess er nauðsynlegt að leyfa börnum að velja og jafnvel stundum ýta þeim í áttir sem stangast á við þessi tilbúnu kynhlutverk. Við ættum sumsé í minnsta lagi að nota hlutlausari liti á börnin en helst að brjóta gegn kynjaskiptingunni. Þetta er kannski ekki stórt skref í jafnréttisbaráttunni en þó nauðsynlegt.

Í umræðu um þessi mál virðist fólk ímynda sér að heimur án fyrirfram ákveðinna stelpu- og strákalita sé grár. Ég held að hann sé þvert á móti sérstaklega litríkur. Bleikt og blátt er hins vegar jafn litlaust og svart og hvítt.

Mín fáfræði eða þín?

Í gær sá ég mynd á Flick My Life (sem mér þykir skemmtilegur vefur). Sá sem sendi myndina inn (og sá sem samþykkti hana) hélt greinilega að sá sem bjó til PACE fánann sem sést þar væri að misrita orðið Peace. Ég man eftir að hafa séð þennan fána á Gay Pride en gerði einfaldlega ráð fyrir að ég þekkti ekki tungumálið sem um ræddi. Ég gúgglaði þetta núna, fann upplýsingar á Wikipediu og útbjó myndina sem er hér til vinstri. Ég sendi hana svo aftur á Flick My Life (með athugasemd um að það væru til fleiri tungumál en íslenska og enska) og við sjáum til hvort þeir birti hana.

Þegar maður sér eitthvað sem manni sýnist vera rangt þá er ágætt að gera ráð fyrir þeim möguleika að fáfræðin sé manns eigin. Nú á tímum er tiltölulega auðvelt að nálgast upplýsingar þannig að þetta þarf ekki mikið þrek.

Ég veit vel að sumir telja það ókost minn að ég “vilji alltaf hafa rétt fyrir” mér en andúð mín á því að hafa rangt fyrir mér veldur því að ég reyni yfirleitt afla mér upplýsinga áður en ég tjái mig. Það hefur ótal sinnum orðið til þess að ég hef komist hjá því að gera mig að fífli. Síðan hefur það líka komið fyrir alltof oft að ég hef gleymt þessu prinsippi og gert mig að fífli.

Að klæmast og adda Öddu

Í vikunni lenti ég ásamt félögum mínum í því að stúlka sem við könnuðumst ekkert við reyndi að vingast við okkur á Facebook. Ég neitaði þeirri vináttu eins og öllum vinarbeiðnum frá fólki sem ég kannast ekki við. Smá eftirgrennslan leiddi í ljós að stúlkan kannaðist ekkert við að hafa sent þessar vinarbeiðnir. Þetta voru ekki einu grunsamlegu netsamskipti vikunnar.

Fyrst að klámhundinum.

Á föstudaginn opnaðist spjallgluggi hjá mér og vinkona mín byrjaði að spjalla við mig. Sú hefur ekki sést á Messenger í lengri tíma og heilsaði mér þar að auki á ensku. Mér þótti því grunsamlegt og nefndi það. Það stoppaði hana ekki. Ég ákvað að sjá hvort einhver greind væri þarna á bak við og það er skemmst frá því að segja að hún stóðst ekki Turing prófið.


Ég hafði samband við þessa vinkonu mína og upplýsti hana um að einhver hefði komist yfir Messenger aðganginn hennar. Ég get vel ímyndað mér að ótal manns hafi verið að fá álíka tilboð og það væri spennandi að vita hve margir falla fyrir þessu. Íslendingar eru alla vega ágætlega varðir fyrir þessu með tungumálamúrinn.

Sama dag kom önnur vinarbeiðni á Facebook frá stúlku sem heitir Adda Baldursdóttir. Ég kannaðist ekkert við hana og myndin hjálpaði mér ekkert að átta mig á því hver væri þar á ferð.


Ég athugaði hvort vinir hennar og áhugamál myndu hjálpa mér að átta mig á hver þetta væri. Svo var ekki. Sameiginlegir vinir okkar fjórir gáfu mér enga vísbendingu. Ég gúgglaði nafnið og fann knattspyrnukonu sem heitir því en mér sýndist það ekki vera þessa fagureygða stúlka sem er á myndinni. Áhugamál þessa væntanlega Facebook vinar míns pössuðu ekki heldur við að þetta væri fótboltakonan.

Ég var farinn að gruna Öddu um græsku og sendi einum sameiginlegum vini okkar fyrirspurn um hver þetta væri og hvort það væru fleiri myndir af henni á Facebook síðunni hennar. Svarið var að hann vissi ekkert hver þetta væri og hefði orðið engu nær því eftir að hafa samþykkt hana sem vin. Ég sendi líka skilaboð á Öddu sjálfa til að athuga hvort það væri einhver greind á bak við prófílinn.

Sæl,
Fyrirgefðu en ég veit ekki alveg hvaðan ég þekki þig – kannski af því að maður sér ekki allt andlitið þitt á myndinni þinni.

kv.

Óli

Merkilegt nokk fékk ég ekkert svar. Ég var líka orðinn nokkuð viss um að þetta væri ekki alvöru manneskja eftir að hafa framkvæmt myndaleit.

Ef þið færið músarbendilinn yfir andlitið á Öddu þá getið þið séð að hún á sér tvífara úr hópi Hollywood leikkvenna.

Ég hef enga hugmynd hver er þarna á ferð eða þá hvað liggur að baki. Ég er hins vegar nokkuð sannfærður um að stefna mína að vingast ekki við fólk á Facebook sem ég þekki ekki er góð. En nafnið er vel valið – það er skondið að fá fólk til að adda Öddu.

Orðfæri og trúin á hið illa

Hvað veldur því að menn drepa fólk sem er ósammála þeim? Ég held að í þessu samhengi sé hættulegast að hafa algjörlega svarthvíta heimsmynd. Þá er ég ekki að tala um að telja sig hafa rétta skoðun og aðra ranga heldur að telja andstæðu skoðunina illa. Ekki rétt/rangt heldur gott/illt. Andstæðingurinn hefur ekki dregið rangar ályktanir, hann er ekki illa upplýstur, heimskur, siðlaus, óheiðarlegur eða gráðugur heldur hefur hann til að bera undirliggjandi vonsku.

Fox í Bandaríkjunum er ágætt dæmi um svona málflutning. Við sáum líka birtingarmynd þessa í IceSave umræðunni þar sem sumir töldu rétt að gera andstæðingum sínum upp illar hvatir sem skýrðu málflutning þeirra. Þetta var ekki fólk sem hafði komist að rangri niðurstöðu um hvað væri best fyrir Íslendinga eða hvað væri siðferðislega rétt heldur voru þeir vísvitandi að reyna að gera landsmönnum illt.

Ég þurfti reyndar ekki að bíða lengi eftir því að fá dæmi um svona málflutning. Í umræðum á bloggsíðu þar sem fjallað er um voðaverkin í Noregi kemur þessi athugasemd frá Vilhjálmi nokkrum Eyþórssyni.

Eins og ég hef bent á annars staðar er kjarni allrar vinstri mennsku hatur á eigin umhverfi og þjóðfélagi, sem oft er réttlætt með hugmyndafræði og fögrum orðum.

Sumir nota svona orðfæri án þess að trúa því í raun, mögulega í hita umræðunnar, en þá er alltaf hættan á að lesendur, hlustendur eða áhorfendur taki þetta alvarlega – sérstaklega þegar þetta er endurtekið nógu oft. Hvers vegna ekki að drepa fólk sem berst fyrir stefnu sem byggir á hatri á eigin umhverfi og þjóðfélagi? Hvers vegna ekki að ná í hríðskotabyssu og myrða þetta illa fólk? Það hlýtur að vera til þess eins að bæta heiminn.

Ég trúi ekki á hið illa og ég tel að slík trú sé stórhættulegt fyrirbæri. Ef maður er sannfærður um illsku þeirra sem hafa aðra skoðun en maður sjálfur þá er voðinn vís.

Gleði taparans

Ég verð að segja að mér þykir sú krafa að fólk sem er að heyra að það hafi tapað eigi að sýna gleði. Ég sé slíkt fyrst og fremst sem hvatningu til fólks um að vera óeinlægt. Ef þú heldur að þú eigir möguleika á að vinna þá er fullkomlega eðlilegt að verða fyrir vonbrigðum þegar annað kemur í ljós. Svo einfalt er það.

Eldur í Vatnsmýrinni

Í gær kviknaði í sinu í Vatnsmýrinni og menn segjast ekki hafa áttað sig á hættunni. Ég hefði haldið að hún væri nokkuð augljós.

Fyrir sjö árum sá ég einmitt að það var kviknað í sinu þarna. Ég hljóp til og náði að slökkva eldinn (einhver kom reyndar og hjálpaði mér að klára það).

Í gær sást sumsé vel hve mikið Eggertsgatan hefur misst við að ég flutti þaðan.

Af nútímaþrælahaldi

Ég rak augun í þessa staðhæfingu á bloggsíðu áðan:

Verðtrygging (í hvaða formi sem er, þ.á.m. gengistrygging) er ekkert annað en nútíma þrælahald.

Það væri stundum gott að geta gefið fólk rauða spjaldið almennt í umræðum: “Núna sagðir þú nokkuð sem er svo óbærilega heimskulegt að þú verður að sitja og þegja í hálft ár á meðan þú hugsar þinn gang.”
Fyrir þá sem ekki vita þá er alveg til þrælahald í nútímanum og það snýst ekki um að hafa áhyggjur af því að þurfa að borga meira af húsnæðislánum.

Og að sjálfsögðu fjallar þessi færsla ekki um verðtryggingu ef einhver þjáist af þeim misskilningi.