Tólg tekin í sátt

Ég ákvað að gera djarfa tilraun við laufabrauðsgerðina í ár.

Í stað þess að nota bara jurtafeiti til að steikja, eins og fyrri ár, þá keypti ég smá tólg til að hafa með. Lyktin var auðvitað frekar slæm á meðan það var steikt (en um leið uppfullt af nostalgíu) en ég hafði meiri áhyggjur af bragðinu. Ég veigraði mér við að smakka og keypti meira að segja einn dunk af Kristjánslaufabrauði til öryggis.

En áhyggjurnar voru greinilega óþarfar. Bragðið er mjög gott. Ég held ég geri þetta aftur næst en þá minnka ég samt líklega aðeins hlut tólgarinnar.

Laufabrauðsgerð á sunnudag

Við Eygló erum að fara að gera laufabrauð í sjötta skipti núna á sunnudag. Að vanda eru vinir og fjölskylda velkomin. Við höfum yfirleitt haft góða blöndu af þeim sem voru vanir þessum sið heima hjá sér en hafa ekki færi núna og svo þeim sem hafa ekki reynslu af þessu nema hjá okkur. Að venju er það síðan skólafólkið sem lætur sig helst vanta.

Undirbúningurinn er hafinn því til þess að hafa einhverjar veitingar þá er ég búinn að baka brúna lagköku og fer fljótlega  á eftir að gera kremið. Þetta er til að lokka þá sem ekki hafa enn ákveðið sig.

Enn af brauði

Ég áttaði mig á að ég hef ekkert minnst á brauðbakstur í langan tíma. Lesendur gætu haldið að ég hafi gefist upp á þessum brasi. Svo er ekki. Frá því að ég skrifaði síðast um brauðbakstur hef ég bara einu sinni keypt brauð í búð og það var þegar við komum af sjúkrahúsinu. Það brauð endaði raun að miklu leyti í ruslinu.

Ég útbý deig á um fimm daga fresti og baka á um tveggja til þriggja daga fresti. Þetta er ekkert mál og tekur enga stund þegar maður er kominn í æfingu. Ég nota uppskriftina hennar Nönnu að mestu leyti en hef dáltið af heilhveiti og fimm korna blöndu með. Ég mæli alveg með þessu.

Undarlegar fýsnir uppfylltar

Ég verð að játa að ég skil ekki alveg hvað það er sem heillar mig við bakstur. Það er nefnilega eitthvað sem ég fæ út úr því. Vissulega er gaman að búa til eitthvað sem er gott á bragðið og að gefa öðrum slíkt en það er eitthvað meira.

En ég hef verið að gera tilraunir með brauðbakstur í viku. Í dag keypti ég mér almennilegt aflangt form og prufaði. Útkoman var nokkuð góð og í raun stórkostleg miðað við það sem ég bjó til fyrir viku síðan. Í þetta skipti breytti ég engu frá uppskrift Nönnu nema að ég setti með kornblöndu sem við keyptum í Krónunni í gær.

Brauð númer 4
Brauð númer 4

Lengi vel hefur mig langað að læra að búa til almennileg brauð en lítið gengið. Þau hafa vissulega verið æt og jafnvel góð en almennt asnaleg í laginu og mislukkuð að ýmsu leyti. Einfalda uppskriftin frá Nönnu varð mér hvatning til að læra þetta og ég er núna nokkuð öruggur með mig og stefni á að gera fleiri tilraunir í framtíðinni.

Og ég fæ eitthvað skrýtið út úr þessu. Eygló sagði að ég væri að horfa á brauðið eins og þetta væri meistararitgerðin mín en hið augljósa er að ég horfði aldrei svona á ritgerðina mína.

Myndskilaboð – Brauð

Image004.jpgÉg hef gert einstaka tilraunir við brauðbakstur en í kvöld gekk það mun betur en áður.
Ég notaði grunninn frá Nönnu til að gera deig á laugardaginn (fyrir utan að ég setti dáltið af heilhveiti). Það gekk ágætlega en það varð ákaflega klúðurslegt í laginu. Ég tók í dag afganginn  af deiginu og notaði lokaðan leirpott og sleppti því á móti að vera með vatn í ofninum. Þetta var útkoman.
Þetta er mjög gott og var uppistaðan í kvöldmatinum okkar.  Ég stefni á að gera meira af þessu á næstunni. Í dag keypti ég líka EuroShopper hveiti til að þetta verði sem ódýrast.

Brún lagkaka

Ég bakaði brúna lagköku í fyrsta skipti núna. Ég byrjaði reyndar á lítilli uppskrift sem ég fann á netinu en hún var ekki það sem ég vildi. Þetta var svona eins og kryddbiti frekar en lagkaka eins og ég átti að venjast. Mun dekkri og töluvert sterkari. Ég fékk síðan uppskrift frá Árnýju sem er frá mömmu hennar. Ég gerði þá bara heila uppskrift og það svoleiðis svínvirkaði. Ég hélt fyrst að hún væri of hörð en eftir að hún fékk að standa með kreminu var hún orðin mýkri. Þetta er óhóflega jömmí. Kremið líka miklu betra. Eins gott að ég bara frysti 3/4 af henni.