Er næsta ár árið sem við getum sleppt tvöþúsund?

Ég var að skrifa vísun í árið 2012 og ég hugsaði með sjálfum mér: Gæti ég skrifað, eða sagt, bara ’12. Ekki séns. Við höfum ekki getað gert svoleiðis síðan ’99. Það væri gaman að vita hvað stoppar okkur. Ég veit það bara ekki nákvæmlega.

Vissulega er það þannig að þegar ég segi bara tólf þá líður mér eins og ég sé að tala um tíma dags frekar en ár. Það er líka þannig ef maður ætlar að tala um árabil. Ef maður skrifar eða segir 12-14 þá líður manni eins og maður sé að taka sér langan hádegisverð en ekki að tala um tímabil í lífi manns. Ef maður segir árin 12 til 14 er það eins og maður sé að tala um unglingsár Jesú.

Þegar er verið að tala um þá sem fæddust fyrstu níu ár aldarinnar, sérstaklega þegar þau sjálf eru að tala, þá eru þetta núll-fimm módel, núll-sex módel og svo framvegis. Kannski að maður ætti að benda þeim á að núll-núll-sjö módel sé svalara en bara núll-sjö en þá þyrfti maður líka að útskýra fyrir þeim hver þessi James Bond sé.

Ég er ekki viss um að þetta kerfi virki jafnvel á fyrsta tuginn. Er einhver ellefu módel? Hljómar ekki vel. Ég veit ekki hvernig yngsta kynslóðin reddar sér. Kannski hefði ég átt að spyrja afa mína og ömmu. Ekki ömmur.

Virkar ’20? Það er vissulega ennþá á klukkustundabilinu en ekki alvarlega. En ég held ekki. Ég held að það séu enn smá óþægindi í máltilfinningunni. Tuttugu hljómar ekki eins og ár.

Ég held að næsta ár sé árið. Hægt og rólega verður auðveldara að tala um fortíðina. Þau sem fæðast á næsta ári geta andað rólega og sagt að þau sé fædd tuttugu og eitt. Miklu betra sko. Ég hefði getað spurt Siggu ömmu út í þetta. Hún fæddist ’21 og var örugglega ákaflega fegin.

Hvaða áhrif hefur faraldurinn á mig?

Þetta eru undarlegir tímar. Ég dró mig aðeins fyrr í hlé en aðrir af því að ég hafði áhyggjur af því að astminn minn gerði mig viðkvæmari fyrir veirunni. Lukkulega virðast þær áhyggjur ekki á rökum reistar (þó erfitt sé að vita nokkuð fyrir víst) en ég var byrjaður að fresta því að hitta fólk áður en staðfest smit komu fram á Íslandi.

Það er orðið töluvert langt síðan ég tók upp þátt af hlaðvarpinu mínu Botninn. Önnur plön í Kistunni eru líka í biðstöðu. Það er enginn spenntur að borga fyrir aðgang að upptökuveri í þessu ástandi.

Ég hef hins vegar afrekað að taka upp tvo þætti af Stories of Iceland hlaðvarpinu mínu. Það er alltaf mikið niðurhal á þeim þáttum og það er alveg smá peningur að koma inn í gegnum Patreon.

Ég var líka rétt byrjaður að stofna einkahlutafélag um reksturinn minn – Gneistinn – menningarmiðlun ehf. – og þó kennitalan sé komin þá er ég ekki einu sinni búinn að stofna bankareikning. Ekki bara til að forðast fólk heldur vantaði mig tóner í prentarann og það var merkilega erfitt að redda því.

Ég er að vinna í 2-3 spilahugmyndum sem ég ætti að geta klárað fyrir sumarið þannig að þau komi út fyrir jól en ég er svolítið frosinn eins og er. Ástandið í þjóðfélaginu er þannig að maður veit ekki hvort það sé góð hugmynd að keyra hugmyndir áfram.

Ég hélt að ég gæti fljótlega farið að borga sjálfum mér reglubundinn laun – frekar en reiknað endurgjald – en maður veit ekkert hvaða áhrif ástandið hefur. Það lítur út fyrir að þetta hafi ekki verið góður tími til að hætta í öruggu starfi og byrja að byggja upp rekstur.

Mér fannst vanta uppbyggilega afþreyingu fyrir fólk á þessum tímum þannig að ég gerði alvöru úr því að endurvekja prófarkalestur Rafbókavefsins. Eftir á fór ég að pæla að á sama tíma voru ótal fyrirtæki að setja upp vefverslanir. Það er verkefni sem reynir á sömu kunnáttu og að setja upp vefþjón fyrir Rafbókavefinn fyrir utan að vefverslanir eru kerfi sem sett eru upp á hverjum degi um allan heim þannig að það eru til miklar og góðar leiðbeiningar fyrir svoleiðis á meðan ég var líklega sá fyrsti sem setti upp þessa útgáfu af DP-kerfinu. Ég er ekki endilega góður að græða peninga á hugmyndum mínum og hæfileikum.

Fyrir svona viku ákvað ég að klippa mig og snyrta skeggið. Eitthvað var einbeitingin léleg þannig að ég náði að raka of mikið af. Það endaði með skeggi sem var styttra en það hefur verið í ótalmörg ár. Lukkulega þarf enginn að sjá þetta nema fjölskyldan. Strákunum fannst þetta ekki gott lúkk. Þar sem ég hafði verið að grínast í Gunnsteini, sem missti tönn, með því að syngja „Hann er tannlaus greyið“ fór Gunnsteinn að syngja fyrir mig „Hann er skegglaus greyið“. Ég bætti við eitthvað á þessa leið „skeggið hann missti rakstursslysi í“.

Stóra spurningin sem við höfum spurt okkur á heimilinu er hvort við höfum kannski fengið vírusinn. Allavega gekk yfir alda hóstandi fjölskyldumeðlima. Var það vírusinn? Enginn fékk nema nokkrar kommur í hita en aftur á móti hafa margir sem Eygló umgekkst í vinnunni fengið staðfestar greiningar. Ef það verður mögulegt að prófa hvort maður hafi myndað mótefni gegn vírusnum þá langar mig í það próf.

Þar sem við vorum hóstandi héldum við strákunum meira og minna heima fyrir páskafrí. Hvað við gerum eftir páska kemur í ljós. Páskaplönin mín eru annars öll horfin. Eygló ætlaði að fara með strákana austur á meðan ég væri heima að klára ýmislegt í framkvæmdum hérna heima við. Þar sem margir þeirra sem Eygló og strákarnir ætluðu að hitta fyrir austan eru mögulega viðkvæmir fyrir vírusnum þá var auðvitað hætt við þá ferð. Mér finnst líka ekkert frábær hugmynd að vera í háværum framkvæmdum meðan nágrannarnir eru allir heima.

Í staðinn hef ég verið að baka ýmislegt. Hef núna plön um að steikja kleinur við tækifæri. Heimatilbúin páskaegg eru líka á dagskránni á fimmtudag/föstudag. Ég hef gert svoleiðis nokkrum sinnum áður. Ekkert flókið, bara bræða súkkulaði í form. Líklega verður síðan settur einhver þrívíddarprentaður karakter á toppinn.

Ég hef verið að leika mér í tölvuleik sem heitir Epiphany. Sá er eftirherma af langsamlega uppáhaldstölvuleik mínum: Boulder Dash. Epiphany er opinn hugbúnaður og einhver hefur tekið að sér að búa til tól þar sem maður getur sjálfur búið sér til ný borð til að spila. Ég skemmti mér töluvert í gær að búa til snöggt borð og síðan spila það. Það var erfiðara en maður hefði haldið. Ég fann auðvitað galla í hönnun minni sem ég þurfti að laga en síðan þurfti maður smá lagni til að klára borðið.

Mér er farið að leiðast tilbreytingaleysið og að hanga inni. Tilhugsunin um að loftmengun í borginni sé í sögulegu lágmarki vekur hjá mér langanir til að fara út að hjóla en það væri ekkert rosalega góð hugmynd. Ég þyrfti líka að setja nagladekkinn undir og svona.

Í heild hef ég það ágætt en hef auðvitað áhyggjur af framtíðinni eins og þið hin. Maður getur vonað að komandi kreppa verði til umbóta í samfélaginu en auðvitað er alltaf hætta á hinum gagnstæða. Maður verður allavega að gera sitt best til að bæta heiminn.

Árið 2012

Á árinu 2012 útskrifaðist ég tvisvar. Ég byrjaði í frábærri vinnu. Ég hjólaði og hjólaði og synti líka (og grenntist um 13-14 kíló). Ég vann að ýmsum hugðarefnum sem munu vonandi blómstra á næsta ári. Ég fór hringinn í kringum landið og heimsótti þá Smjörhól hennar ömmu. Ég endurnýjaði baðherbergið og geymsluna. Ég keypti snjallsíma. Ég fór til Árósa. Ég flutti nokkra fyrirlestra, skrifaði einhverjar greinar og kenndi í Endurmenntun. Ég sinnti líka Rafbókavefnum. Grein, sem ég skrifaði nú ekki í ár, birtist í bók sem var gefin út af pólskum háskóla. Ég las margar bækur. Ég horfði á einhverjar myndir. Ég horfði á fjölmarga sjónvarpsþætti. Ég bloggaði sjaldan. Ég var oft á Facebook. Ég spilaði ekki nógu oft. Ég hitti ekki vini mína nógu oft.

Það er erfitt að sjá hvernig næsta ár gæti orðið viðburðaríkara en þetta ef ég vissi það ekki fyrir enda barn á leiðinni núna í mars.

Ég segi því gleðilegt ár og takk fyrir það gamla.

Að renna á rassinn og á honum

Ég skrapp niður í bæ áðan til að fara á bókasafnið og að borða hádegismat með Eygló. Þar sem ég var að rölta yfir bílaplanið við vinnustað hennar rann ég á ósýnilegri hálku og lenti lukkulega beint á rassinum (en ekki rassgatinu eins og sumir myndu segja) og síðan rann ég vel og vandlega sitjandi á svellinu. Rennblotnaði að sjálfsögðu.

En annars þá les ég bara um Stóra Hannesarmálið og bíð eftir að talningu ljúki. Það hefði ekki verið vitlaust af kjörstjórn að senda frambjóðendum línu um hvernig það gangi allt saman.

Mattabloggað og út að ryðja snjó

Ég er ekkert búinn að blogga í dag. Í stað þess skrifaði ég færslur í gær og stillti birtingartíma á þeim. Þegar fyrsta færslan birtist í morgun var ég enn að kúra með Gunnsteini, færsla tvö hefði átt að vera skrifuð þegar ég var að hræra brauðdeig og þegar þriðja færslan birtist var ég úti að rölta með Gunnstein. Ágætt alveg. Mér leið þó samt meira eins og ég væri að ryðja snjó með kerrunni. Mér fannst færið nógu slæmt þegar við fórum út með hann í gær en þetta var hrikalegt núna. Væntanlega af því að það hefur skafið svona rosalega. Mér leið eins og ég hefði verið tvo tíma á göngubrettinu fyrir utan að þetta reyni náttúrulega á allan líkamann. En þetta er bara hollt.

Afmælisdagurinn

Ég átti afmæli í gær. Hafdís gaf mér toffísneið frá Bakarameistaranum í morgunmat. Þegar Eygló kom heim ákváðum við að fara í Bakarameistarann þar sem ég fékk mér kjötloku og aðra toffísneið. Gott.

Við ákváðum, eftir miklar umræður, að panta mat frá Kitchen um kvöldið. Það var ekki hægt að fá sent heim en við fengum afslátt í staðinn. Í stuttu máli sagt var maturinn æði. Við pöntuðum fjóra aðalrétti og síðan smá handa Sóleyju líka.

Við fengum okkur:
13. Shish Kebab Murgh (miðlungs). Ákaflega ljúfir marineraðir kjúklingabitar.

19. Rubiyan Jhinga (miðlungs). Rækjuréttur sem ég sleppti.

20. Nepalskur Murg Masala (mildur). Tikka réttur. Alveg æði.

26. Kjúklinga Korma (mildur). Mjög fínn.

Mér fannst naanbrauðið gott en það fór misjafnlega í fólk. Það var samt eitthvað í þeim sem Mummi lýsti sem sandkornum.

Ég hef þegar lýst kvöldinu.

Góður dagur semsagt.

Annáll 2009

Þegar ég horfi á árið þá sé ég ekkert orð til að lýsa því. Það var bæði mjög vont og mjög gott. Hápunkturinn var án efa (erfið) fæðing Gunnsteins og svo allt stúss sem honum hefur fylgt síðan. En árið byrjaði ekki svo vel.

Ég fékk piparúða í andlitið rétt eftir miðnætti þann 21. janúar þegar ég tók þátt í mótmælum. Reyndar var ég ekki einu sinni að mótmæla þegar ég var úðaður heldur var ég að reyna að taka upp ofbeldi lögreglumanns. Engin viðvörun. Það var ekki bara ógeðslega sárt og ógnvekjandi heldur sé ég núna eftir á hve lengi ég var að jafna mig á þessu andlega – ég fór úr jafnvægi og leið illa í einhvern tíma eftir á þó ég hafi reynt að hunsa það og fela. Það eru líklega eðlileg viðbrögð þegar maður verður fyrir ofbeldi. Ég fann það líka um daginn að mér leið illa að vera nálægt lögreglumanni þó sá hafi eflaust verið alsaklaus.

Ég varð þrítugur í febrúar og kom þá umfjöllun um mig í Fréttablaðinu þar sem ég tilkynnti óléttu Eyglóar fyrir alþjóð. Ég fann annars ekki neina breytingu á sjálfum mér. Ágætis afmælisveisla haldin.

Ég veit ekki hvenær ég tók ákvörðun um að leyfa skegginu að síkka. Það er orðið töluvert glæsilegt núna og þar sem Eygló er ekki enn farin að kvarta er ég ekkert á leiðinni að stytta það.

Ég kláraði meistararitgerð mína í þjóðfræði í maí og útskrifaðist í júní. Ég mætti í útskriftina klæddur í skotapils en flestir í kring reyndu að láta eins og ekkert væri undarlegt við það. Í framhaldinu gaf ég síðan ritgerðina út í bókarformi (Eve Online: Leikir, sköpun og samfélög) í samstarfi við Þjóðfræðistofu. Ég skrifaði líka grein og flutti fyrirlestra. Ef aðstæður hefðu verið aðrar hefði ég líka farið á ráðstefnu í Aþenu þar sem ég hafði verið samþykktur inn en ekkert varð að því.

Þann 17. júlí fæddist síðan drengur sem fékk tveimur dögum seinna nafnið Gunnsteinn Þór í höfuðið á tveimur langöfum (Gunnsteini og Gunnþóri). Ólíkt því sem gerðist þegar þrítugasti afmælisdagur minn rann upp fyrr á árinu þá hef ég fundið ákveðin þroskamerki á sjálfum mér í kjölfar þess að stubburinn kom í líf mitt. En það er aðallega bara yndislegt hvernig hann brosir til mín – sérstaklega nær sjálfkrafa bros þegar hann hefur ekki séð mig í einhvern tíma.

Í janúar varð ég formaður Vantrúar (á bara nokkrar vikur eftir í því hlutverki). Í byrjun júní varð ég formaður Félags þjóðfræðinga á Íslandi. Síðan var ég nú nýlega skipaður í Hverfisráð Breiðholts af VG (tók við af formanni múslimafélagsins). Mjög ólík trúnaðarstörf þar á ferð.

Á árinu lærði ég að baka almennilegt brauð og hef síðan í maí ef ég man rétt varla þurft að kaupa slíkt. Ég hef reynt að vera duglegur að baka almennt. Ég horfði líka mikið á Star Trek – meira af því síðar.

Framtíðin er hið óuppgötvaða land en vandamál mitt er aðallega að ég hef svo margar hugmyndir að ég get ekki valið á milli þeirra. Ég býst þó fastlega við að ég geri grein fyrir árangri af einhverjum þeirra í næsta annáli.

Leikir og söngur

Á laugardagskvöldið fór ég í afmæli til Kalla. Það var pönkþema í partíinu. Ég setti af því tilefni upp barmmerki með orðinu pönk og mynd af öryggisnælu sem ég fékk á sýningu sem Unnur var með í að setja upp á sínum tíma á Árbæjarsafni. Ég ætlaði reyndar að setja barmmerkið í eyrað en það er fjandi erfitt að koma svona beittum odd í gegnum gatið.

Það var ágætis blanda þarna af fólki sem þekkti, þekkti smá og þekkti ekkert. Kórvini Telmu og Kalla kannast ég merkilega mikið við. En Telmu lét okkur leika tvo leiki til að læra nöfnin á hvert öðru. Annars vegar þurftu allir að kynna sig og nefna alla sem höfðu kynnt sig á undan. Ég var aftastur í röðinni og er stoltur af því að hafa náð öllum nöfnunum. Hins vegar var klappleikur sem ég náði að feika mig út úr ólíkt nokkrum af strákunum. Flestar stelpurnar eru hins vegar svo vanar úr æsku að þær ná þessu um leið.

Reyndar var fyrsti leikur kvöldsins spurningakeppni. Ég og Kalli enduðum efstir en ég sigraði í bráðabana. Einhver gæti haldið að þemað sem Telma hafði á hluta spurninganna, árið 1979, hefði hugsanlega getað hjálpað mér en þar sem sérfræðiþekking mín á McDonalds og EuroVision nær ekki frekar til fæðingarárs míns en annarra ára þá varð það til lítils.

Þegar á leið var Singstar dregið fram en ég hafði aldrei prufað það áður. Ég held að ef menn leiti aftur í tímann á þessu bloggi þá finni menn dæmi um sönghæfileika mína. Þeir snúast að mestu um persónulega tjáningu og því mætti halda að Singstar sé ekki fyrir mig. Það er að hálfu til rétt. Singstar hatar mig en ég elska það. Singstar hataði mig sérstaklega þegar ég söng Creep og Born to Wild. Í fyrra laginu var það kaflinn um hlaup stúlku nokkrar sem ég tjáði af mikilli innlifun og fékk einkunnina „awful“ ítrekað. Best gekk mér að syngja The Show Must Go On á móti Telmu. Hún heldur því fram að þar skipti mestu að ég hafi kunnað lagið en á móti er rétt að benda á að hún kann á leikinn. Meðal annarra laga sem ég tók voru Personal Jesus (Manson útgáfan), Time after Time (Cyndi Lauper), I Want You (Savage Garden sem var mjög erfitt) og Ordinary World (Duran Duran).

Singstar virtist líka vera hrifnast af falsettunni minni sem almennt vekur ekki slíka aðdáun. Það er annars almennt heppilegt fyrir mig að ég þjáist ekki af skömm þegar kemur að söng og læt bara óhikað vaða. Áheyrendur eru ekki alveg sammála um að þetta skömmustuleysi mitt sér gott. Fólkið þarna var sem betur fer bara í að hafa gaman af þessu.

Ég endist óvenjulengi þarna og klukkan var að nálgast fjögur þegar ég kom mér heim á leið. En þetta er augljóslega það sem þarf til að skemmta mér í partíum. Leikir og söngur. Ég var líka ónýtur í hálsinum á sunnudaginn.

Ekki bókaplögg beint

Í gær hélt ég áfram að dreifa bókum. Ég fékk svar frá Pennanum og fór með eintök niður í bæ. Nokkrar á Skólavörðustíg og slatti í Austurstræti.

Í morgun hélt ég áfram og fór með bækur í Kringluna og Smáralind. Þegar ég var að keyra úr Kringlunni sá ég Sigurjón fyrrverandi Landsbankastjóra rölta í átt að Háskólanum í Reykjavík. Ég játa að ég skil ekki alveg starfsmannastefnu þeirra.

Ég gerðist líka svo duglegur að ég sendi tvö eintök í pósti. Annað var viðmælendaeintak og hitt fór til Englands. Ég kom reyndar líka við í ferðinni og skutlaði einu viðmælendaeintaki.

Ég tók mjög fasta ákvörðun að viðmælendur mínir myndu fá eintök af bókinni á betra verði en aðrir enda voru það þeir sem gerðu mér kleyft að skrifa.

En ég verslaði líka. Ég keypti mér svona innibuxur til að gleðja Eygló sem telur að ég ætti að fara að hvíla þessar tíu ára. Ég var næstum búinn að kaupa fullt af Disney myndum á afslætti en ákvað að slappa af.

En ég lofa bókaplöggi á næstunni. Ég þarf líka að koma allavega tíu eintökum til Akureyrar.