Árið 2012

Á árinu 2012 útskrifaðist ég tvisvar. Ég byrjaði í frábærri vinnu. Ég hjólaði og hjólaði og synti líka (og grenntist um 13-14 kíló). Ég vann að ýmsum hugðarefnum sem munu vonandi blómstra á næsta ári. Ég fór hringinn í kringum landið og heimsótti þá Smjörhól hennar ömmu. Ég endurnýjaði baðherbergið og geymsluna. Ég keypti snjallsíma. Ég fór til Árósa. Ég flutti nokkra fyrirlestra, skrifaði einhverjar greinar og kenndi í Endurmenntun. Ég sinnti líka Rafbókavefnum. Grein, sem ég skrifaði nú ekki í ár, birtist í bók sem var gefin út af pólskum háskóla. Ég las margar bækur. Ég horfði á einhverjar myndir. Ég horfði á fjölmarga sjónvarpsþætti. Ég bloggaði sjaldan. Ég var oft á Facebook. Ég spilaði ekki nógu oft. Ég hitti ekki vini mína nógu oft.

Það er erfitt að sjá hvernig næsta ár gæti orðið viðburðaríkara en þetta ef ég vissi það ekki fyrir enda barn á leiðinni núna í mars.

Ég segi því gleðilegt ár og takk fyrir það gamla.

Annáll 2009

Þegar ég horfi á árið þá sé ég ekkert orð til að lýsa því. Það var bæði mjög vont og mjög gott. Hápunkturinn var án efa (erfið) fæðing Gunnsteins og svo allt stúss sem honum hefur fylgt síðan. En árið byrjaði ekki svo vel.

Ég fékk piparúða í andlitið rétt eftir miðnætti þann 21. janúar þegar ég tók þátt í mótmælum. Reyndar var ég ekki einu sinni að mótmæla þegar ég var úðaður heldur var ég að reyna að taka upp ofbeldi lögreglumanns. Engin viðvörun. Það var ekki bara ógeðslega sárt og ógnvekjandi heldur sé ég núna eftir á hve lengi ég var að jafna mig á þessu andlega – ég fór úr jafnvægi og leið illa í einhvern tíma eftir á þó ég hafi reynt að hunsa það og fela. Það eru líklega eðlileg viðbrögð þegar maður verður fyrir ofbeldi. Ég fann það líka um daginn að mér leið illa að vera nálægt lögreglumanni þó sá hafi eflaust verið alsaklaus.

Ég varð þrítugur í febrúar og kom þá umfjöllun um mig í Fréttablaðinu þar sem ég tilkynnti óléttu Eyglóar fyrir alþjóð. Ég fann annars ekki neina breytingu á sjálfum mér. Ágætis afmælisveisla haldin.

Ég veit ekki hvenær ég tók ákvörðun um að leyfa skegginu að síkka. Það er orðið töluvert glæsilegt núna og þar sem Eygló er ekki enn farin að kvarta er ég ekkert á leiðinni að stytta það.

Ég kláraði meistararitgerð mína í þjóðfræði í maí og útskrifaðist í júní. Ég mætti í útskriftina klæddur í skotapils en flestir í kring reyndu að láta eins og ekkert væri undarlegt við það. Í framhaldinu gaf ég síðan ritgerðina út í bókarformi (Eve Online: Leikir, sköpun og samfélög) í samstarfi við Þjóðfræðistofu. Ég skrifaði líka grein og flutti fyrirlestra. Ef aðstæður hefðu verið aðrar hefði ég líka farið á ráðstefnu í Aþenu þar sem ég hafði verið samþykktur inn en ekkert varð að því.

Þann 17. júlí fæddist síðan drengur sem fékk tveimur dögum seinna nafnið Gunnsteinn Þór í höfuðið á tveimur langöfum (Gunnsteini og Gunnþóri). Ólíkt því sem gerðist þegar þrítugasti afmælisdagur minn rann upp fyrr á árinu þá hef ég fundið ákveðin þroskamerki á sjálfum mér í kjölfar þess að stubburinn kom í líf mitt. En það er aðallega bara yndislegt hvernig hann brosir til mín – sérstaklega nær sjálfkrafa bros þegar hann hefur ekki séð mig í einhvern tíma.

Í janúar varð ég formaður Vantrúar (á bara nokkrar vikur eftir í því hlutverki). Í byrjun júní varð ég formaður Félags þjóðfræðinga á Íslandi. Síðan var ég nú nýlega skipaður í Hverfisráð Breiðholts af VG (tók við af formanni múslimafélagsins). Mjög ólík trúnaðarstörf þar á ferð.

Á árinu lærði ég að baka almennilegt brauð og hef síðan í maí ef ég man rétt varla þurft að kaupa slíkt. Ég hef reynt að vera duglegur að baka almennt. Ég horfði líka mikið á Star Trek – meira af því síðar.

Framtíðin er hið óuppgötvaða land en vandamál mitt er aðallega að ég hef svo margar hugmyndir að ég get ekki valið á milli þeirra. Ég býst þó fastlega við að ég geri grein fyrir árangri af einhverjum þeirra í næsta annáli.

Annáll 2008

Í lok árs 2007 kom ég heim eftir þriggja mánaða dvöl í Cork á Írlandi þar sem ég hafði verið í námi.

Í stað þess að leggja áherslu á að klára MA-ritgerðina strax ákvað ég að fara að vinna. Ástæðan fyrir því var fyrst og fremst sú að utanlandsdvölin þýddi töluverðan mínus. Ég var ráðinn í ár í afleysingar.

Í lok febrúar 2008 skruppum við til London. Á Trafalgar torgi bað ég Eygló að giftast mér og hún sagði já.

Í júní fór ég niður á Austurvöll og fylgdist með ónefndum félaga mínum marsera á eftir prestum í Svarthöfðabúningi. Ég bjó síðan til myndband af þessu með keisaramarsinum undir sem hefur farið víða um internetið. Síðan fór ég til Derry á Norður Írlandi og flutti þar fyrirlestur um efni MA-ritgerðar minnar. Grein um sama efni birtist í írsku þjóðfræðitímariti.

Rétt eftir að ég kom heim fórum við til Svíþjóðar til að vera við brúðkaup Önnu Steinunnar minnar og Martin. Þaðan flugum við til Kaupmannahafnar til að fara á tónleika með Tý.

Týr heimsótti síðan Ísland í október og við eltumst við hljómsveitina um landið allt. Nokkrum dögum síðar fór Eygló í vinnuferð til Skotlands og ég fylgdi með. Fyrst vorum við í Edinborg með vinnufélögum Eyglóar en síðan fórum við Glasgow. Þar fórum við á tónleika með Queen + Paul Rodgers (leifarnar af Queen með nýjum söngvara). Það var alveg ógurlega skemmtilegt. Þessi ferð var að sjálfssögðu mjög undarleg sökum kreppunnar og sífelldrar umfjöllunar um Ísland í fjölmiðlum. Sem betur fer var allt þó borgað löngu áður en krónan hrundi algjörlega.

Ég flutti fyrirlestur um sama efni og áður á ráðstefnunni Þjóðarspegillinn í október og birtist grein í kjölfarið í ritinu Rannsóknir í Félagsvísindum IX.

Um svipað leyti kom út bókin Andlegt sjálfstæði sem ég ritstýrði. Hún hafði verið töluverðan tíma í vinnslu en mun gleðja menn um ókomin ár.

Ég hef skrifað annál núna í nokkur ár. Alltaf hef ég talið árin svo áhugaverð að erfitt verði fyrir næsta ár að slá þeim við. Loksins rætist spádómurinn. Líklega. Ég veit nefnilega ekki hvort þetta ár nær því. Corkdvölin var að svo mörgu leyti svo stórt skref að fátt slær það út þó ég telji afrek þessa árs nokkuð merk. Síðan er þessi annáll spes því ég spái að næsta ár verði áhugaverðara en það síðasta. Margt á döfunni. Það er ekki langt í þrítugsafmælið og vonandi næ ég að útskrifast. Síðan er aldrei að vita hvað poppar upp.

Annáll 2007

Árið byrjaði bara vel. Síðan fór ég í kosningabaráttu og Háskólalistinn þurrkaðist út. Þar með var ég blessunarlega kominn útúr stúdentapólitíkinni. Námið var skemmtilegt á vorönn. Ég sótti tíma hjá þremur áhugaverðum erlendum kennurum og Rómarsögu hjá Sverri Jakobs. Mest vinna fór samt í Eigindlegar Rannsóknaraðferðir. Ég skrapp síðan norður og talaði við nemendur MA um trúleysi.

Í upphafi árs var ég líka að reyna að sækja um að eyða haustönninni í Memorial University á Nýfundnalandi. Samstarfssamningur milli skólans og HÍ gufaði síðan upp eftir að ég hafði skilað öllum pappírum. Þá gat ég valið um að fara flóknu leiðina til að komast að í námi þar eða fundið mér skóla innan Eramus áætlunarinnar innan tveggja vikna. Skóli sem kennir þjóðfræði á mastersstigi á ensku, Dublin eða Cork? Ég valdi Cork og fékk þar inni.

Í stað þess að fá mér heiðarlega vinnu sótti ég um styrk frá Nýsköpunarsjóði íslenskra námsmanna og fékk tveggja mánaða styrk. Það að ég fékk styrk til að vinna að rannsókninni minni varð síðan til þess að ég fékk samþykki til að gera þá rannsókn að efni meistararitgerðar minnar. Styrkurinn varð líka til þess að ég gæti auðveldlega tekið rúmar tvær vikur í frí til að fara með Eggert til Árósa að læra um fornsögur Íslendinga. Það var alveg voðalega gaman og ég kynntist mörgu skemmtilegu fólki.

Ágúst og fyrrihluti september eru í móðu þar sem ég var í endalausum reddingum. Margt sem þurfti að klára áður en kom að seinni utanlandsdvöl ársins. Í um tvö ár hafði það hangið yfir mér að ég þyrfti að taka eina önn erlendis og loks kom að því. Ég fór út með Kobba sem var að fara til Englands en þar þurfti ég að millilenda.

Tíminn í Cork var frekar skrýtinn. Ég á ennþá eftir að melta alla reynslu mína þar og reyna að sjá hvort þetta hafi eitthvað breytt mér. En ég kynntist dálítið af fólki, sá dálítið af Írlandi, lærði ýmislegt um Írlandi og Íra, borðaði mikið af óspennandi mat og bjó einn með ókunnugum.

Ég var glaður þegar ég kom heim. Gott að búa til laufabrauð með vinum og kunningjum og eyða síðan jólunum og áramótunum heima.

Næsta ár verður síðan allt öðruvísi. Ef vel gengur þá mun ég klára meistararitgerðina mína og svo…

Annáll 2006

Í hvert sinn sem ég hef skrifað annál ársins þá finnst mér eins og að árið sé það áhugaverðasta sem ég hef upplifað og að næsta ár geti engan veginn staðist samanburð.  Þetta ár er engin undantekning.

Árið byrjaði á því að ég tók við kosningastjórastöðu hjá Háskólalistanum.  Þetta var voðalegt stress og við enduðum með að tapa fylgi en vera með jafn marga menn.  Í stað þess að vera í stærsta meirihluta sem Stúdentaráð hefur upplifað þá vorum við í minnsta minnihlutanum.  Það var næstum jafn skemmtilegt.

Það næsta sem tók við var undirbúningur að útgáfu Slæðings.  Á um mánuði náðum við Sigrún Ísleifsdóttir að gefa út glæsilegt rit þjóðfræðinema.  Voðalega stolt af því.  Í kjölfarið var komið að því að ég gengi formlega frá umsókn um MA-nám í þjóðfræði.  Það var voðalegt stress en ég náði að koma umsókninni inn og fá hana samþykkta.

Við Eygló fórum til Skotlands um miðjan apríl.  Það var ákaflega gaman.  Sérstaklega féllum við fyrir Edinborg.  Áhuginn á Skotlandi var vakinn af Gary West kennara frá Edinborgarháskóla sem kom hingað og kenndi kúrsinn Menningararf í byrjun árs.

Ég byrjaði að vinna strax í maí og notaði það sem afsökun fyrir að klára ekki BA-verkefnið, reyndar var það skammarlega stutt á veg komið þá.  Á sama tíma fór undirbúningur fyrir ráðstefnuna Jákvæðar Raddir trúleysis á Íslandi á fullt.  Ég kom fram í sjónvarpi með Bigga og nagaði á mér skeggið.  Síðan þegar að ráðstefnunni kom þá fékk ég að umgangast þetta yndislega skemmtilega og gáfaða fólk sem við fengum til lands til að halda fyrirlestra.  En það var líka dásamlegt að fá að kynnast trúleysingjum héðan og þaðan úr heiminum.  Af þessum almennu gestum þá fannst mér breski húmanistinn Josh vera áhugaverðastur og kenndi mér mest.  Það var hins vegar mesta upplifunin að kynnast Richard Dawkins sjálfum og það kom mér satt best að segja á óvart hvað hann var hlýr og indæll maður.  Dan Barker, Annie Laurie, Julia og öll hin voru að sjálfssögðu dásamleg líka.  Eftirminnilegasti atburðurinn var ekki það að sitja fyrir svörum ráðstefnugesta um ástand trúmála á Íslandi heldur það að sitja á Austurvelli með alræmdustu trúleysingjum landsins leikandi við fimm ára stelpu á meðan mamma hennar undirbjó sig fyrir að sýna okkur leikþátt.  Í kjölfar ráðstefnunnar lenti ég síðan í ritdeilum á síðum Morgunblaðsins.  Held að ég hafi hrakið flestar þær vitleysur sem fram höfðu komið alveg ágætlega.

Í júlí fékk ég þær fréttir að föðuramma mín væri komin á sjúkrahús.  Ég dreif mig norður og var hjá henni í smástund, keyrði síðan suður strax aftur.  Hún dó nokkrum dögum síðar.  Þó jarðarfarir og erfidrykkjur séu erfiðar þá er alltaf gott að fá að hitta fjölskyldumeðlimi sem maður hefur ekki hitt lengi.

Gotlandsferð þjóðfræðinema hafði verið í skipulagningu lengi og við fórum út í byrjun ágúst.  Við fórum fyrst til Stokkhólms þar sem við gistum á vafasömu bátahóteli. Á Gotlandi var miðaldahátíð sem var afsökunin fyrir ferðinni.  Þar gistum við líka í gömlu fangelsi sem var ákveðin stemming.  Það var mjög gaman að eyða þessum tíma með þessu skemmtilega fólk.  Kynnast því betur og fá ekki einu sinni ógeð af því að vera nálægt því svona lengi 😉
Ég hætti fyrr í vinnunni en ég hafði ætlað og fór að klára fjandans BA-verkefnið sem hafði svo lengi hvílt á mér.  Ég þurfti að klára það þar sem samþykki mitt inn í MA-námið var háð þessu “smáatriði”.  Ég tók viku á Bókhlöðunni og kláraði alla handavinnuna.  Það kom líka í ljós að allur tíminn sem hafði farið í áhyggjur hafði skilað sér í því að ég var alveg tilbúinn.  Ég skilaði verkefninu á góðum tíma, var með akkúrat 300 færslur og fékk níu.  Ég útskrifaðist í október og má núna kalla mig bókasafns- og upplýsingafræðing.  Útskriftarveislan var indæl.  Það er erfitt að lýsa því hvað ég var feginn að hafa klárað þessa gráðu.  Þegar ég hætti í Menntaskólanum á Akureyri á sínum tíma þá var ég svolítið hræddur um að ég næði mér ekki á strik aftur í náminu.

Þessi önn í MA-náminu hefur verið ótrúlega skemmtileg, ég er viss um að þjóðfræðin er rétt hilla fyrir mig.  Önnin var líka mjög mjög mjög erfið.  Hélt á tímabili að ég myndi fríka út.  Valdimar gerði sitt besta til að gera okkur pró í þjóðfræði með því að henda í okkur lesefni, ég veit ekki hvort ég get fullyrt að það hafi tekist, en ég veit að honum tókst að búa til samrýmdan hóp nemenda í Rannsóknum í þjóðfræði.  Meira að segja Edinborgarbúinn er fullgildur meðlimur þó hún hafi bara einu sinni komið til landsins.  Við hittumst nokkrum sinnum utan tíma og stefnum á að halda hittingum áfram á næsta ári.  Í MA-náminu er líka það að frétta að undirbúningur fyrir það að koma mér út til Nýfundnalands á næstu haustönn gengur vel og mun væntanlega fara á fullt rétt eftir áramót.

Í október fór ég líka út til Kaupmannahafnar.  Ástæða ferðarinnar var að ég vildi sjá vini mína í Tý á tónleikum.  Þeir gáfu út nýjan disk á árinu og það svalasta af öllu svölu er að mér var þakkað í bæklingnum.  Mikið þótti mér vænt um það.  Tónleikarnir voru eftirminnilegir, líka spjallið fyrir þá, eftirpartíið en mest stressandi var þegar mér var treyst fyrir því að keyra um götur Kaupmannahafnar á Tutl-sendiferðabílnum.  Góða minningar.

Í desember fékk ég gríðarlega sáran verk í bakið einn morguninn sem varð bara sífellt verri.  Ég endaði með að gefast upp og hringdi á heilsugæslustöð hverfinsins.  Þar varð fyrir svörum hjúkrunarfræðingur sem sagði mér að drífa mig á spítala þar sem ég væri greinilega með nýrnasteinskast.  Ég eyddi deginum á spítalanum þar sem var potað í mig, sprautað í mig og ég myndaður.  Aðalatriðið var samt að verkurinn var drepinn mjög snemma með góðu verkjalyfi.  Ég fer aftur í skoðun eftir áramót til að athuga hvort það sé ekki örugglega allt í lagi með mig.

Það eru samt ekki stóratburðir sem standa uppúr á árinu heldur fólkið.  Mikið er gaman að þekkja allt þetta skemmtilega, klára og indæla fólk.  Ég er heppinn með vini.  Annars þá sjáið þið væntanlega að ég hef sleppt því úr sem markar hve mest tímamót en ég er ekki alveg tilbúinn til að tala um það.

Ég vona að næsta ár verði jafn gott en ég vona líka að það verði aðeins rólegra þó að mér sýnist að mér ætli að takast að búa til ótal spennandi og krefjandi verkefni fyrir sjálfan mig á árinu.

Takk fyrir árið og vonandi eigum við góðar stundir saman á því næsta.

Óli

Stuttur annáll

Spurning hvort að ég geri árinu skil í stuttu máli.

Árið hófst í Svíþjóð með Önnu og lauk í Breiðholtinu með Önnu. Í millitíðinni fór ég til bæði Færeyja og London. Sá Brian May og Roger Taylor á tónleikum í London og hitti Týsarana í Götu. Skemmtilegar ferðir og í bæði skiptin var ég einn í útlöndum.

Ég fór í framboð til Stúdentaráðs og sat í Menntamálanefnd ráðsins eftir kosningar. Háskólalistabrasið setti svip sinn á árið. Elli varð formaður og við áttum æðislegt fagnaðarkvöld á Stúdentakjallaranum. Fullt af skemmtilegu fólki þar.

Ég fékk mjög skemmtilega vinnu í sumar. Fór á ágætt ættarmót í Svarfaðardal. Ég keypti síðan íbúð með Eygló.

Ég byrjaði í alvörunni í þjóðfræði, ákvað síðan í haust að fara í mastersnám í þjóðfræði og fékk samþykki fyrir ritgerðarefni. Ég kynntist þjóðfræðinemum, eldri betur en nýjum í fyrsta sinn. Glaður með það. Eygló varð bókasafns- og upplýsingafræðingur.

Ég hélt annars áfram gömlu vinnunni og verð væntanlega þar út veturinn.

Er þetta ekki það helsta?

Annáll 2003

Fyrstu mánuðir ársins einkenndust af mótmælum gegn yfirvofandi innrás í Írak, ég hef enga hugmynd um hve mörgum sinnum ég mætti. Ég tók líka örlítinn þátt í kosningabaráttu VG. Ég gekk síðan að lokum í Samtök Herstöðvaandstæðinga en hef ekki gengið í VG enda fyndist mér ég þá vera fullbundinn. Í gegnum mótmælin og allt tengt því kynntist ég mörgu áhugaverðu og skemmtilegu fólki.

Ég þurfti að skipta um vinnu á vormánuðum vegna þess að aðalvertíð perubúðarinnar gekk ekki vel. Ég fékk góða vinnu eftir að hafa verið atvinnulaus í svona viku, þetta varð samt til þess að ég gat ekki tekið neitt sumarfrí. Reyndar hafði ætlunin alltaf verið sú að við Eygló færum til Evrópu á Interrail en það brást þegar Eygló fékk ekki vinnuna sem henni hafði hálfpartinn verið lofað eftir að hún útskrifaðist. Í staðinn fyrir að fara í vinnu fór Eygló bara í Háskólann. Áætlanir breytast semsagt auðveldlega. Eitt gott við vinnuskiptin var að ég missti alveg ótalmörg kíló í nýju vinnunni og þó virðast ekkert ætla að snúa aftur nema í mýflugumynd.

Eftir að Eygló byrjaði í skólanum fór hún að kynnast fólki sem nú er orðið vinafólk okkar, það er afar ánægjulegt.

Í mars eignaðust Hafdís og Mummi dóttur sem fékk strax nafnið Sóley Anna, var ekki skírð mér til mikillar gleði. Ég man að við Eygló vorum að borða hamborgara á American Style og skoða kennsluskrá Háskólans áður en við fórum til Akureyrar að sjá Sóleyju, þá ákvað ég endanlega hvað ég ætlaði læra, aukagrein og aðalgrein.

Dagbókin mín færðist yfir á Kaninkuna í sumarbyrjun, það var nú skemmtilegur flutningur.

Við ferðuðumst aðeins í sumar, fórum austur fyrir fjall einsog það heitir á reykvísku, skoðuðum meiraðsegja Stokkseyrarbakka. Við fórum líka til Borgarfjarðar og skoðuðum okkur aðeins um með frænku, afa og ömmu Eyglóar.

Í lok júní fengum við fréttir af því að amma í Stekkjargerði væri orðin veik og við drifum okkur strax af stað að hitta hana. Þetta fór ekki á versta veg en ekki heldur á besta veg, amma er núna komin á elliheimili. Það er erfitt að sjá ömmu á elliheimili og passar ekki við það hvernig amma var fyrir örstuttu síðan, það var hins vegar hiklaust best fyrir hana að komast á elliheimilið. Allt er breytt.

Við fórum á Foo Fighters tónleika í lok ágúst, það var gaman en margt var að gerast á sama tíma sem gerði það að verkum að tónleikarnir urðu aukaatriði.

Við höfðum sótt um á stúdentagörðum og tveir mánuðir fóru í endalausa bið, sjá hvort biðlistarnir færu ekki að breytast. Í ágúst varð þetta hins vegar ljóst og við gátum loks byrjað að undirbúa flutninga. Fyrsti september var erfiður, við biðum eftir að fá svar um hvort við gætum flutt inn þá eða hvort við þyrftum að bíða, það gekk loks eftir og við fluttum inn.

Við byrjuðum líka í skólanum fyrsta september, við vorum reyndar upptekin í mörgu allan september þannig að námið var í öðru sæti. Við vorum líka upptekin í félagslífinu, Eygló opinberlega í stjórn Katalogosar og ég fylgdi með. Ég varð líka skorarfulltrúi fyrsta árs nema í bókasafns- og upplýsingafræði þannig að ég hef fengið einhverja innsýn í hvernig innra starfs skólans er. Ég er víst líka deildarfulltrúi nemenda í skorinni en hef ekkert gert sem slíkur.

Í september byrjaði ég líka að skrifa fyrir vefritið Vantrú og það hefur verið skemmtilegt að undanskyldum tæknivandræðum. Það verður gaman að sjá hvernig það þróast.

Þegar við vorum nýflutt inn byrjuðum við að fá gesti í gistingu, fyrst voru Anna og Haval, síðan var Eva hjá okkar í viku þegar hún flutti suður. Hafdís, Sóley og Mummi hafa líka komið nokkrum sinnum.

Í október datt mér í hug að stofna kvikmyndaklúbb og gerði það. Það hefur verið ægilega gaman og ég vonast eftir að það verði jafnvel meiri virkni þar þegar Idol hættir og kvenþjóðin sýnir áhuga.

Ég veitti Vefverðlaun Gneistans í annað skipti í lok september og það birtist grein um það í Fréttablaðinu, það var ákaflega gaman.

Í nóvember þá kom hljómsveitin Týr aftur til landsins, ég fór á alla tónleikana og hitti þá þar, hafði haft einhver samskipti við þá áður. Þetta þróaðist hins vegar þannig að þegar þeir komu aftur í desember voru þetta orðnir vinir mínir, það var óvænt en skemmtilegt. Ég fékk skemmtilega innsýn í tónlistarbransann með því að fylgja þeim og með því að vera hálfgerður fjölmiðlafulltrúi þeirra í seinna skiptið sem þeir komu.

Yfir heildina var árið án efa gott, best var að eignast nýja vini, kynnast nýju fólki og einnig það að fá eldri vini í nágrennið.