Dagurinn

Ég hef nú eitthvað að segja frá sjálfum mér sem á ekki betur heima á fjölskyldublogginu.

Ég var á þönum í dag. Í gær kom bókin mín úr prentun (lofa almennilegu bloggplöggi fljótlega) og þar sem útgefandinn, Þjóðfræðistofa, er á Hólmavík þá kemur það í minn hlut að sendast með hana. Tvær búðir voru fljótar að taka söluboðinu og ég fór því með eintök í Bóksölu stúdenta (sem fékk líka fyrstu eintökin af Andlegt sjálfstæði) og í Bókabúð Máls og Menningar. Ég skutlaðist líka með eintök út í CCP.

Það var reyndar smá vesen með að fara með bækurnar í Bóksöluna af því að mig vantaði að prenta reikninga þar sem prentarinn minn var eitthvað klikk í morgun. Ég ætlaði í tölvustofuna sem er á Háskólatorgi en þar var tími í gangi. Ég þurfti því eiginlega að hlaupa yfir í Odda (ég var tímabundinn) og til baka til að klára málið. Það gekk samt allt.

Ég losaði mig líka beint við þrjú eintök af bókinni og þar af eitt í vöruskiptum (Eygló fékk þá bók enda mikill aðdáandi Vilborgar).

Ég talaði á málstofu fyrir meistaranema í þjóðfræði ásamt fleiri meisturum. Ég reyndi að fókusa sem mest á þau aðferðafræðivandamál sem ég lenti í og náði að tala nær ekkert um efnið sjálft. Það þótti mér skemmtilegt enda hafa fæstir áhuga á þessum hluta vinnunnar.

Ég átti síðan ágætan fund með fulltrúa fjármálaráðuneytisins. Ég gleymdi samt að minnast á að ég hefði endilega viljað fá eitthvað af þessum peningum sem ráðherrar eru að dreifa út um allt. Ég held ég hafi líka meiri þörf fyrir það en Sigurður – sem vakti mig eldnsemma á sunnudagsmorgni fyrr í haust með kirkjuklukkum á Siglufirði og kannast ekki við vinsældir Birtíngs – Ægisson.

Um fimmleytið fór ég síðan á Siðmenntarhóf þar sem Orri Harðarson og Alþjóðahús fengu viðurkenningu. Endilega lesið bókina hans Orra Alkasamfélagið. Ég borðaði mig næstum saddan af veitingunum.

Í kvöld hef ég síðan verið að reyna að skera aðeins fituna af greininni fyrir fyrirlesturinn á morgun. Ef þið eruð spennt þá er ég í seinni þjóðfræðimálstofunni á morgun á Háskólatorgi, stofu 300, klukkan 15.

Latur bloggari

Ég er ekki duglegur bloggari þessa daganna. Ætli höfuðástæðan sé ekki að ég hef fengið ógeð af því að taka þátt í umræðunni. Bara þreyttur á þessu. Ég hef lítinn áhuga á að tjá mig um ESB eða IceSave eða Sjóvá eða siðlausa bankamenn eða hvað það nú er. Stundum væri þægilegt að hafa engar skoðanir á neinu sem er ekki skemmtilegt. En ég er ekki þannig víraður.

En af klassískum bloggefnum.

Ég hef ekki hitt neina fræga undanfarið, uppáhaldsteiknimyndasagan mín er ennþá Sandman en borðtölvan bilaði um daginn. Ég lagaði hana en þegar ég var að tengja snúrur þá náði ég að brjóta niður hillu og slátra einhverri skál. Eitt stykki dvd skrifari hrundi í gólfið en lifði af.

Í dag fórum við og hittum Ella- og Guðrúnar Svövuson. Hann var voðalega lítill.

Nú á miðnætti rann annars upp settur dagur hjá okkur. Enginn er þó að láta vita af væntanlegri komu. Við erum því sem fyrr róleg.

Félagslynda parið

Við höfum verið yfirmeðallagi félagslynd um helgina. Á föstudagskvöldið fengum við karlkynsbókasafns- og upplýsingafræðinörda í heimsókn og þar að auki Sibbu og Flóka. Í gær komu Rósa og Ósk í pönnukökur. Í dag skruppum við í vöfflur til Telmu, Kalla og Brynhildar. Í kvöld fengum við síðan Sigga og Sigrúnu í spil og Munchkin Bites varð fyrir valinu. Mjög gaman.

Eygló er annars ekkert að verða léttari, jafnvel bara breiðari ef eitthvað er.

Of hugsandi

Það er alltaf erfitt að sofna þegar eitthvað áhugavert herjar á hugann. Ég get valið um að hugsa um kosningar, væntanlegt barn eða ritgerð. Það að ég sé á netinu núna þýðir að ég hef gefist upp í bili. Skelli kannski einum Seinfeld þætti í eða eitthvað.

Ritgerðin er það eina sem ég get raunverulega haft áhrif á núna. Hún gengur vel. Ég skila á mánudag. Fæ síðan athugasemdir frá prófdómara þegar sá hefur lesið þessar tvöhundruð blaðsíður og ég get þá lagað eitthvað til. Síðan eru lokaskil. Einkunn ekki síðar en 29. maí skilst mér.

Það er ótrúlega notaleg tilhugsun að hafa ritgerðina ekki hangandi yfir sér. Hún hefur verið á öxlunum mínum allavega frá því að ég kláraði fyrstu önnina í meistaranáminu. Það að ég vann í ár hægði mikið á mér en um leið og ég hafði tíma dreif ég þetta í gegn.

Von er á barninu í júlí þannig að mig grunar að undirbúningur fyrir það muni verða áberandi þegar ritgerðinni hefur verið lokið. Heilinn fær að skipta um gír.

En þetta er bara raus ósofins manns.

Steinrotaðist og helgin

Áðan ákvað ég að leggja mig upp í sófa í nokkrar mínútur. Ég vaknaði tveimur tímum seinna. Ég ætlaði að vera fúll við Eygló fyrir að hafa ekki ýtt við mér en þá sá ég að hún lá í hinum sófanum steinsofandi. Þannig að við gerðum ekkert í kvöld.

Á föstudaginn borðuðum við með Hafdísi, Mumma og Sóleyju og eyddum síðan kvöldinu hjá Sigga og Sigrúnu og móður þeirra bræðra.

Á laugardaginn fórum við í badminton. Ég misþyrmdi sjálfum mér vel og vandlega með því að fleygja mér tvisvar í gólfið. Það gerði verk dagsins erfiðari. En þá komu Hafdís, Mummi og Sóley heim og ég gerði pönnukökur. Síðan bakaði ég fyrir kvöldið. Það var mjög notalegt og við vorum að til næstum fjögur. Heilir fjórir bjórar voru drukknir af gestunum. Mjög skemmtilegt kvöld.

Í dag fékk ég Helgu, Gumma og Óla í kaffi. Þau voru hér drjúga stund.

Semsagt góð helgi þó ég hafi sofið af mér öll tækifæri til að prufa viðbæturnar í spilaskápinn.

Annáll 2008

Í lok árs 2007 kom ég heim eftir þriggja mánaða dvöl í Cork á Írlandi þar sem ég hafði verið í námi.

Í stað þess að leggja áherslu á að klára MA-ritgerðina strax ákvað ég að fara að vinna. Ástæðan fyrir því var fyrst og fremst sú að utanlandsdvölin þýddi töluverðan mínus. Ég var ráðinn í ár í afleysingar.

Í lok febrúar 2008 skruppum við til London. Á Trafalgar torgi bað ég Eygló að giftast mér og hún sagði já.

Í júní fór ég niður á Austurvöll og fylgdist með ónefndum félaga mínum marsera á eftir prestum í Svarthöfðabúningi. Ég bjó síðan til myndband af þessu með keisaramarsinum undir sem hefur farið víða um internetið. Síðan fór ég til Derry á Norður Írlandi og flutti þar fyrirlestur um efni MA-ritgerðar minnar. Grein um sama efni birtist í írsku þjóðfræðitímariti.

Rétt eftir að ég kom heim fórum við til Svíþjóðar til að vera við brúðkaup Önnu Steinunnar minnar og Martin. Þaðan flugum við til Kaupmannahafnar til að fara á tónleika með Tý.

Týr heimsótti síðan Ísland í október og við eltumst við hljómsveitina um landið allt. Nokkrum dögum síðar fór Eygló í vinnuferð til Skotlands og ég fylgdi með. Fyrst vorum við í Edinborg með vinnufélögum Eyglóar en síðan fórum við Glasgow. Þar fórum við á tónleika með Queen + Paul Rodgers (leifarnar af Queen með nýjum söngvara). Það var alveg ógurlega skemmtilegt. Þessi ferð var að sjálfssögðu mjög undarleg sökum kreppunnar og sífelldrar umfjöllunar um Ísland í fjölmiðlum. Sem betur fer var allt þó borgað löngu áður en krónan hrundi algjörlega.

Ég flutti fyrirlestur um sama efni og áður á ráðstefnunni Þjóðarspegillinn í október og birtist grein í kjölfarið í ritinu Rannsóknir í Félagsvísindum IX.

Um svipað leyti kom út bókin Andlegt sjálfstæði sem ég ritstýrði. Hún hafði verið töluverðan tíma í vinnslu en mun gleðja menn um ókomin ár.

Ég hef skrifað annál núna í nokkur ár. Alltaf hef ég talið árin svo áhugaverð að erfitt verði fyrir næsta ár að slá þeim við. Loksins rætist spádómurinn. Líklega. Ég veit nefnilega ekki hvort þetta ár nær því. Corkdvölin var að svo mörgu leyti svo stórt skref að fátt slær það út þó ég telji afrek þessa árs nokkuð merk. Síðan er þessi annáll spes því ég spái að næsta ár verði áhugaverðara en það síðasta. Margt á döfunni. Það er ekki langt í þrítugsafmælið og vonandi næ ég að útskrifast. Síðan er aldrei að vita hvað poppar upp.

Viðgerðir, gönguferðir og heimsóknir

Þegar við komum heim úr vinnunni í gær ákváðum við Eygló að rölta yfir í Bykó til að kaupa okkur spýtur og skrúfur. Þetta gekk ágætlega fyrir utan að Eggert hringdi í okkur þarna og spurði um bók sem hann var að fá lánaða. Við vorum því tilneydd að fá far með honum til baka til að redda því. En við héldum áfram búðargöngu og röltum upp í Bónus.

Þegar við komum heim notaði ég spýturnar til að laga sófann okkar sem hefur verið svolítið slappur. Viðgerðin tókst ágætlega en ég get ekkert spáð um hve lengi hún endist.

Við grilluðum síðan áður en við fórum til að heilsa upp á Ósk og Sverri. Á leiðinni heim fengum við okkur síðan ís. Þetta er alveg yfir meðallagi afrek eftir vinnu á virkum degi.