Fjölskyldan til Svíþjóðar 2022

Þessar löngu ferðasögur sem ég skrifa eru aldrei vinsælustu bloggfærslurnar mínar. En ég veit að það eru nokkrir sem lesa og hafa ánægju af frásagnarstíl mínum. En í þessu ferðalagi sem ég er að skrifa um hér fór sonur minn að tala um það sem ég skrifaði um London-ferðina um daginn. Ég brást við með því að senda honum tengla á eldri ferðasögur mínar þar sem hann var með í för. Þannig að ég er kannski að skrifa fyrir framtíðina. Annars er skrýtið að hafa bloggað í tuttugu ár og eiga allt í einu son sem er farinn að lesa eitthvað af þessu.

Það eru þrjú ár síðan við höfum farið í fjölskylduferð til útlanda. Í þetta sinn ákváðum við að fara til Svíþjóðar. Auðvitað til að hitta Önnu systur. Strákarnir hafa báðir komið þarna áður en hvorugur man eftir því.

Þar sem við hjónin vorum að stíga upp úr veikindum náðum við ekki pæla mikið í hvað ætti að koma með. Daginn fyrir brottför hrúgaði ég saman fötum en tók allt í einu eftir því að stuttbuxurnar mínar voru rifnar (á hliðinni! hvernig gerist það?). Smá skoðun í viðbót leiddi í ljós að ég átti eiginlega engan fatnað sem hentaði til að vera í um eða yfir 18 gráðu hita. Ég dreif mig í búð og keypti föt í flýti og tróð með hinu í töskuna. Engin nákvæmni og alltof mikið af drasli. Eftir að hafa lent að hafa þurft að bíða fjóra daga eftir töskunni frá London vandaði ég mig við að pakka öllu nauðsynlegasta og verðmætasta í handfarangur sem var því líka vel troðinn.

Við lögðum af stað á föstudagsmorgun, 1. júlí. Á flugvellinum náðum við að finna mann frá fyrirtækinu sem ætlaði að þrífa og geyma bílinn okkar á meðan við værum í burtu. Við reyndum að spyrja hann spurninga en hann virtist hvorki tala ensku né íslensku.

Flugið var á góðum tíma. Við þurftum ekki að vakna snemma og það var engin örtröð á flugvellinum. Fátt var eftirminnilegt þarna að mati strákana en spilakassi hjá Elkó hefur verið nefndur nokkrum sinnum.

Við keyptum okkur smá snarl og það leiðir mig að þessu: Skjáir með skyggnusýningum eru ekki ígildi matseðils. Ég vil geta rennt yfir lista í stað þess að stara á skjá í von um að eitthvað spennandi birtist. Ef þið getið ekki sett matseðil á skjá ætti að hafa hann tiltækan í efnislegu formi.

Flugið var óeftirminnilegt. Ég horfði á Shazam! (fín) og nokkra gamla þætti af Simspsons og strákarnir höfðu gaman af sínu skemmtiefni líka. Ég var alveg búinn að steingleyma hve áberandi tvíburaturnarnir voru í New York-þættinum. Homer eyðir heilum degi á torginu milli þeirra. Þegar ég flýg velti ég oft fyrir mér hvernig efnið er valið fyrir þessi tæki. Ég hefði til dæmis haldið að hugrenningartengslin við 11. september væru ekki eitthvað sem þú vildir vekja hjá farþegum.

Við villtumst smá um á Arlanda. Það er merkt vel og vandlega hvar hraðlestin til Stokkhólms er staðsett en skiltin á aðrar lestir benda stundum í mjög villandi áttir. Við fundum þó stöðina á góðum tíma. Við gátum hvergi sest niður af því að ungur maður hafði ákveðið að leggja sig á bekk. Ég spurði Eygló hvort ég mætti vera leiðinlegur við hann til að redda plássi en henni leyst ekki á það.

Þegar við komumst inn í lestina lentum við í veseni af því að þegar við komum að sætisnúmerunum okkar var einhver gaur í einu sætinu. Ég vandaði mig í leikrænum tilburðum að benda á númerin þegar ég talaði við Eygló til að sjá hvort gaurinn fattaði að við héldum að við ættum að vera þarna. Hann sýndi engin viðbrögð þannig að ég hélt að við hefðum kannski farið í rangan vagn.

Við röltum til baka en lestin fór af stað. Ég ákvað að spyrja gaurinn hreint út hvort hann væri kannski í röngu sæti og hann sagðist hafa fært sig þangað.

Sko, ef þú veist að þú ert í röngu sæti og þú sérð fólk sem er að leita að sínu sæti þá lætur þú vita. Ég hef gaurinn líka grunaðan um að hafa verið að borða lyktarsterkan mat og hent umbúðunum í ruslið okkar megin. Hann varð erkióvinur minn um tíma.

Eftir að hafa bakkað til Borlänge tóku Anna og Martin á móti okkur á lestarstöðinni. Þau leiddu okkur yfir götuna þar sem hótelið okkar var staðsett. Það er Best Western hótel kennt við Gustav Wasa. Ég reyndi að nota tækifærið til að upplýsa drengina um söguleg tengsl Íslands við Svíþjóð í gegnum Kalmarsambandið og hvernig þessi Gustav gerði uppreisn gegn því.

Eftir að hafa innritað okkur og komið farangrinum fyrir röltum við með Önnu og Martin inn í bæ í leit að mat. Við enduðum á stað sem heitir Pincho’s (varist rugling við Pitcher’s sem er við hliðina). Á þessum stað eru í boði ýmsir smáir réttir sem pantaðir eru í gegnum forrit sem við gátum líka notað til að borga með í lok máltíðar.

Við pöntuðum hitt og þetta. Ég fékk örlitla steik sem er eiginlega fínn skammtur af kjöti fyrir minn smekk. Eftirminnilegast er samt að Gunnsteinn fékk pínkulitla Margarítu. Flest fengum við okkur ís með karamellusósu og kartöfluflögum í eftirrétt.

Síðan röltum við hægt og rólega heim. Ég var mjög fljótur að rifja upp hugarkort mitt af Borlänge. Lestarteinarnir sem liggja í gegnum bæinn gera rötun merkilega auðvelda og síðan er Kupolen verslunarmiðstöðin alltaf gott kennileiti (þó ég ruglist stundum þegar ég kem út þaðan).

Hótelið var fínt að mestu leyti. Við vorum samt bara á annarri hæð og þar var hávært fólk langt fram á kvöld. Það væri í lagi ef við hefðum ekki þurft að hafa gluggana opna til að kæla niður herbergið.

Það var morgunverðarhlaðborð á hótelinu sem við prufuðum fyrst á laugardagsmorgni. Frekar óspennandi að mestu leyti þannig að ég hélt mig helst við harðsoðin egg.

Fyrsti ákvörðunarstaður dagsins var vísindatæknisetur með svona “plane-erium”. Drengirnir höfðu merkilega gaman af sýningunni enda gerð til þess að fikta. Mér fannst einföldu gripirnir best heppnaðir, sérstaklega þeir sem sýndu hvernig vogarafl virkar sem og hvernig talíur létta á þegar lyfta þarf með reipi. Ég hafði líka gaman af því að öskra í hávaðamælinn og toppa alla aðra sem reyndu. Tækið sem tók upp og spilaði aftur á bak var einfalt en skemmtilegt. Auðvitað sagði ég ítrekað “Red Rum”.

Við höfðum ákveðið að fara á sýningu í “plane-arium”. Við komum í salinn tilbúin að horfa á mynd um sólkerfið okkar. En það var ekki mynd. Það var fyrirlestur með skemmtilegum klippum og myndum. Við sátum eiginlega beint fyrir framan unga manninn sem var að uppfræða okkur á sænsku. Ég hló næstum upphátt þegar þetta byrjaði af því að það var alveg ljóst að þetta væri ekki að ná til drengjanna.

Þó stjörnufræðisænska sé ekki mín sterka hlið reyndi ég að þýða aðalatriðin fyrir Gunnstein sem sat við hliðina á mér. Þegar ég byrjaði að hvísla að honum upplýsingum Ólympusarfjall tók ég eftir því að hann var steinsofandi. Sætin hölluðu líka þægilega aftur á bak. Ingimar sofnaði líka á kafla og síðan varð ég hálfsjóveikur af sýningunni og þurfti að loka augunum þannig að um stund virtumst við þrír líklega vera sofnaðir beint fyrir framan fyrirlesarann. Góður lúr segja strákarnir.

Næsti áfangastaður var heimili Önnu og Martin. Á leiðinni var hitinn um 25 gráður sem er eiginlega of mikið fyrir mig. Ég var farinn að hafa áhyggjur af kæfandi hita alla ferðina en lukkulega var yfirleitt bara 17°-20° á þeim stöðum sem við vorum (nema í rigningu). Samt nógu heitt til að réttlæta regluleg ískaup. Ég var glaður með saltlakkrísísinn sem fékkst út um allt. Spáný tegund.

Við komum við í búð á leiðinni og keyptum okkur eitthvað gott “með kaffinu”. Við höfðum nefnilega áttað okkur á að það var akkúrat afmælisdagur ömmu, það voru 110 ár síðan hún fæddist. Afmæliskaffi var því við hæfi.

Eftir þetta fórum við í ICA-verslunina í Kupolen og kvöddum síðan Önnu og Martin. Við ákváðum að fara á pizzustað í nágrenni við hótelið sem heitir Tre Kronor og var með háa einkunn hjá Google. Akkúrat svona innflytjendastaður sem ég tel höfuðprýði sænskrar matarmenningar.

Drengirnir vildu báðir margarítu þannig að ég ákvað að kaupa eina handa þeim báðum og til þess að vera viss um að það væri nóg bað ég um fjölskyldustærð. Ég fékk kebab en Eygló grænmetispizzu. Afgreiðslumanninum þótti þetta greinilega eitthvað skrýtin pöntun en ég fattaði ekki hvers vegna. Síðan kom fjölskyldupizzan á borðið. Hún var ógnarstór. Með minni hjálp kláraðist hálf pizzan. Við fengum síðan 12″ pizzukassa undir afganginn. Við þurftum að brjóta saman helminginn í fjórðung og þá passaði hún akkúrat. Þannig að ég myndi giska á að þetta hafi verið 24″ pizzu.

Sænska og íslenska eru auðvitað mjög lík mál en stundum er skemmtilegast hvernig sama orðið hefur tvær ólíkar merkingar. Þannig velti ég reglulega fyrir mér hvað Svíarnir héldu þegar ég var að segja strákunum að vera rólegir.

Laugardagskvöldið var hápunktur partístandsins í garðinum. Gluggarnir voru nærri lokaðir og ég vaknaði um miðja nótt, ekki við partí heldur var ógeðslega heitt í herberginu. Ég var lengi að sofna þannig að ég var ekki upp á mitt besta á sunnudeginum.

Við strákarnir slepptum morgunmatnum á hótelinu á sunnudagsmorgun en þegar Eygló kom aftur hvellsprakk halógen-pera í náttborðslampanum með þeim afleiðingum að rafmagnið fór. Halógen-perur voru alltaf slæm hugmynd.

Strákarnir okkar hafa alist upp við þá staðreynd að það sé ekkert McDonald’s á Íslandi. Þeir hafa aldrei farið þangað (nema Gunnsteinn mögulega pínulítill). Ég hef einu sinni á ævinni farið á McDonald’s að eigin frumkvæði og fékk þá vondan hamborgara. Ég hef farið nokkrum sinnum síðan en þá alltaf með einhverjum sem vildi fara.

Við völdum McDonald’s í Kupolen frekar en McDonald’s hinum megin við bílastæði. Ég ákvað að prufa McNuggets í fyrsta sinn. Ingimar fékk Happy Meal. Allt voða spennandi í útlöndum. Næst skulum við banna M&M.

En ég varð mér til skammar þegar við vorum að panta drykki/eftirrétti. Drengurinn í afgreiðslunni var ekki rosalega skarpur og þegar ég fékk mitt var það vitlaust. Það er engin afsökun en ég var dauðþreyttur og pirraður þannig að ég byrsti mig á hann þegar hann hélt því fram að ég hefði pantað það sem ég fékk.

Ég er mjög óvanur að missa svona stjórn á skapi mínu. Ég fékk rétta drykkinn en var sannfærður um að gaurinn hefði hrækt í hann og var jafn sannfærður um að ég ætti það skilið. Ég lét drykkinn því ódrukkinn. Reyndi að fara að biðjast afsökunar en það var alltof mikið að gera þannig að ég þurfti bara að skammast mín í hljóði.

Við fórum í nokkrar búðir í Kupolen. Í leikfangaverslun fann Ingimar skemmtilegan kremjubolta en ég fann Prúðuleikara-Legó og hóf atlögu að því að reyna að fá Gonzo. Ég rakst á sömu poka í öðrum verslunum í ferðinni og að lokum hafði ég einhvern veginn ná að kaupa mér tíu blindpoka af Legó án þess að finna þann rétta. Við strákarnir komum okkur fljótlega aftur á hótelið þannig að við gátum aðeins hvílst.

Kvöldmaturinn var á stað sem er oft kallaður sá besti í Borlänge og heitir Basta. Ítalskur staður með “alvöru” ítölskum pizzum. Strákarnir voru ekkert rosalega hrifnir af því. Of mikil sósa, of lítill (og ekki góður) ostur.

Á leiðinni heim kíktum við inn í stóra sælgætisverslun. Þar var mikið val um nammi og þar að auki Pokemon-spjöld og Pop-fígúrur. Strákarnir enduðu með risasleikjóa.

Á mánudaginn var byrjað á að heimsækja IKEA til að fá ekta sænska máltíð. Ég reyndi að sannfæra drengina um að Svíarnir yrðu allir sármóðgaðir ef þeir myndu ekki fá sér kartöflustöppu, lyngonsultu og baunir með. Þeir voru ekki sannfærðir.

Þegar við vorum að panta umræddar kjötbollur fór stúlkan í afgreiðslunni að rökræða heilmikið við Eygló um hvort við vildum örugglega ekki kartöflustöppu og útlistaði fyrir okkur vel og vandlega að við fengjum sko ekki afslátt. Í miðjum klíðum spyr strákurinn okkur: “Eruð þið frá Íslandi?” Ég yfirheyrði hann ekki um uppruna hans en hann talaði mjög góða íslensku þó hreimurinn væri vissulega til staðar.

Eftir þetta fór ég að redda hengilásum á meðan restin af fjölskyldunni skoðaði hvort IKEA í Svíþjóð væri öðruvísi en á Íslandi. Strákarnir redduðu sér líka 13 blýöntum í einhverjum leik.

En aðalskemmtun dagsins var Aqua Nova, lítill sundlaugagarður. Ég lenti í smá veseni með að koma okkur á áfangastað af því að við þurftum að krækja fyrir framkvæmdir. Þetta var reyndar ekki mjög stór krókur.

Ég fór með strákana að búningsklefunum og akkúrat þegar við komum var einhver að koma út. Ég greip hurðina og við drifum okkur inn. Á meðan við vorum að klæða okkur úr nefndu drengirnir að það væri nú heppilegt að við værum einir þarna. Þegar við ætluðum að fara í sturtu lentum við á læstri hurð. Skrýtið en ég gat snúið litlu handfangi og við komumst í gegn.

Þegar við komum að sturtunum sáum við að það var enginn staður til að geyma handklæði. Við ákváðum því að fara með handklæðin aftur í skápinn. Þá var hurðin læst og ekkert handfang til að opna. Við sáum líka skilti sem upplýsti okkur um að búningsherbergið okkar væri bara fyrir meðlimi. Ekki skrýtið að það hafi verið rólegt þarna. Ég laumaði handklæðunum okkar í tóman skáp og við komum okkur út (sturta fyrst).

Um leið og út var komið var fossinn fyrsta “laugin”. Við komum okkur ofan í. Það var töluverður straumur þar og hindranir á leiðinni. Við komumst niður frekar ósködduð. Ingimar fór síðan einn í fossinn áður en við tókum eftir að 12 ára og yngri ættu ekki að fara þarna ein. Mig grunar reyndar að það sé vegna þess að sundkunnátta er ekki almenn í Svíþjóð en Ingimar er flugsyntur eftir námskeiðin í vetur.

Strákarnir fóru í rennibrautirnar aftur og aftur og náðu að plata Eygló með nokkrum sinnum. Anna systir hafði lýst fyrir okkur einni brautinni sem stórhættulegri af því að hún var svo þröng og hröð. Við fengum sögu af manni sem þurfti að troða sér framhjá stelpu sem hafði náð að stoppa sig í hræðslukasti. En það var greinilega komið betra kerfi. Ég áttaði mig á því meðan ég beið eftir strákunum. Það var lítil stelpa sem stór við bakkann á þeirri braut og beið eftir einhverjum. Ég benti henni á að fara út um hliðið og þá liðu ekki nema nokkrar sekúndur áður en systir/mamma hennar kom.

Þeir fóru oftast í breiða rennibraut þar sem hægt var að fara niður á “kleinuhringjum” en best þótti þeim “Svartholtið” sem var alveg myrkvuð nema að á köflum komu glitrandi ljós sem voru eins og stjörnur. Uppáhaldslaugin mín var einföld útivið með straum meðfram bakkanum þannig að ég gat látið mig fljóta, yfirleitt rólega, í hring eftir hring.

Það var ekki langt í kvöldmatartíma þegar við komum uppúr og röltum aftur að hótelinu. Við ákváðum öll saman að það væri fín hugmynd að strákarnir myndu bara fá Subway á leiðinni og við foreldrarnir færum á veitingastaðinn sem er sambyggður hótelinu.

Þegar ég fór að skoða matseðilinn á þessum stað runnu á mig tvær grímur. Staðurinn heitir “Broken Dreams” en matseðillinn bara á sænsku. En það sem mér fannst besta vísbendingin um að staðurinn væri ekki fyrir mig var að það var ekki bara nafn og lýsing á réttunum heldur einhver saga um réttinn. Mér þykir það bara fráhrindandi. Eygló skoðaði hvað var í boði og var sammála.

Við leituðum að öðrum valkosti og enduðum á innflytjendastaðnum Rhodos sem var með eiginlega allt það sama og hinir slíkir staðir að viðbættum grískum réttum. Þannig að ég pantaði mér gyros. Mjög fínt alveg. Strákarnir lifðu líka af að vera tveir saman á hótelherbergi í klukkutíma.

Þriðjudagurinn var brottfarardagur. Anna hitti okkur áður en við fórum. Við komumst að því að hún hafði einmitt ætlað á veitingastað brostinna drauma fyrir einhverjum mánuðum en varð líka fyrir vonbrigðum þegar hún sá hve tilgerðarlegur matseðill var orðinn.

Dómur drengjanna var að það hafi verið best að fara í Aqua Nova, vísindasetið og hitta Önnu og Martin.

Lestarferðin til Stokkhólms var óeftirminnileg. Á lestarstöðinni keyptum við strax vikukort í almenningssamgöngur. Við komum okkur á T-Centralinn og tókum tunelbanann í átt að hótelinu. Ég verð að segja að það er erfitt að nota þessar lestir fjögur saman. Ef það eru laus fjögur sæti saman er alltaf keppni meðal farþega að ná sæti sem snýr í akstursstefnu. Ég er ekki að ýkja að ég hafi ítrekað séð hálfu vagnanna þar sem voru örfáir farþegar og allir með þrjú sæti laus í kringum sig.

Hótelið okkar var Sky-Hotel Apartments. Við vorum þar í stúdíóíbúð með ísskáp og eldunaraðstöðu. Strákunum þótti þetta betri aðstaða en Borlänge þó þeir hafi rifist töluvert vegna þess að þeir deildu rúmi. Ásakanir um sængurstuld gengu á víxl og umdeilt hvort það sé verra að stela sæng óvart í svefni eða viljandi vakandi.

Það var veitingastaður örstutt frá hótelinu sem heitir Marino’s og er, enn og aftur, týpískur innflytjendastaður með kebab, pizzur og pasta. Mjög fínt. Aðspurðir um álit gáfu drengirnir fyrst tvo þumla upp hvor og reyndu síðan að bæta við aukatám og fingrum.

Síðan var bara að versla í ICA-Maxi sem var aðeins lengra í burtu en veitingastaðurinn. Okkur þótti misgaman af því að rölta um búðina. Eygló finnst svoleiðis stórskemmtilegt og ég hef alveg gaman af því líka. Strákarnir voru ekki jafn glaðir, sérstaklega ekki þegar mamma þeirra þurfti að skoða eitthvað mjög vandlega.

Það var ekkert meira afrekað á þriðjudeginum. Höfðum það bara kósí á hótelinu sem var mjög auðvelt að kæla með því að opna glugga. Umferðarhljóðin voru líka mun þægilegri en fulla fólkið.

Ég hef lengi verið spenntur fyrir því að fara til Birka. Það er staður á eyju þar sem var stór verslunarstaður frá áttundu fram á tíundu öld. Þar hefur fundist mikið af fornminjum og þá sérstaklega í þeim mörgu grafhaugum sem þar finnast. Þar sem staðurinn er á eyju í nokkurri fjarlægð frá Stokkhólmi bókuðum við siglingu þangað með leiðsögn á miðvikudaginn.

Við komum okkur í bátinn og hófum tveggja tíma siglingu. Ég byrjaði fljótlega að tortryggja leiðsögumanninn. Það sem ég þekkti til af sögunum hans var alltaf aðeins skekkt.

Við drifum okkur í leiðsögn um svæðið strax og við komum. Við vorum með sama leiðsögumann og í bátnum. Eftir á sagði Gunnsteinn að það hefði verið gaman að heyra hann tala og láta mig síðan útskýra hvað hefði verið rangt hjá honum.

Gaurinn þekkti greinilega ágætlega til fornleifafræði en mjög yfirborðskennda þekkingu á menningu og sögu. Útskýringar hans á orðsifjafræði orðsins víkingur var til dæmis mjög vafasöm og lýsingar hans því hvernig það var notað á víkingatímanum beinlínis rangar.

Ég var næstum farinn út í að vera leiðinlegur þegar hann sagði að orð víkinga um Miklagarð væri vísun í norræna orðið fyrir bóndabæ. Það leiddi mig reyndar í pælingar um hvað orðið sjálft þýddi. Ég hef alltaf hugsað að “garður” vísaði í varnarveggi en fór allt í einu að hugsað að það vísaði kannski frekar í afmarkaða svæðið.

Ég gerði þau mistök að nefna þessar pælingar á Twitter og fékk nokkur góð svör en líka athugasemdir sem gerðu ráð fyrir að ég vissi nákvæmlega ekkert um efnið og nokkrar sem fullyrtu hluti sem ekki er hægt að vita fyrir víst. Ég fell einstaka sinnum fyrir þeirri hugmynd að vandað orðalag í tísti komi í veg fyrir svona en það er ekki þannig. Stundum langar mig næstum að botna ákveðin skrif með vísun í að ég hafi háskólamenntun á sviðinu til að sleppa við óþarfar athugasemdir.

Síðasta stoppið á leiðsögninni var sá haugur sem er í dag sá frægasti í Birka. Þar hvíldi hin svokallaða “víkingastríðskonan”. Sumsé, þarna fannst, fyrir meira en öld, beinagrind og vopn með. Það var strax ályktað að þarna væri stríðsmaður.

Síðan gerðist það fyrir nokkrum árum að einhver tók eftir því að beinin bentu til þess að þessi einstaklingur hafi eignast barn. Það var síðan staðfest með genarannsóknum. Í kjölfarið var skrifuð mjög fræg grein þar sem var fullyrt að þetta hefði verið stríðskona. Auðvitað eru mistökin sú að treysta upprunalegu greiningunni. Þú getur ekki fullyrt að einstaklingur sem finnst með vopn hafi tekið þátt í bardögum. Það væri til dæmis miklu betra að finna gróin sár á beinum.

Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið konur sem hafi barist á víkingaöld. Ég er að segja að þessi túlkun sé ekki sjálfgefin. Miðað við vísbendingarnar myndi ég frekar giska að konan hafi frekar verið mikilvæg, jafnvel höfðingi, heldur að hún hafi tekið þátt í bardögum. En það selur að koma með stórar yfirlýsingar.

Við fórum líka á “safnið” í Birka. Það var ekki safn. Það voru eiginlega engir alvöru gripur. Ég myndi kalla þetta, í besta falli, einhverskonar fræðslusetur.

Þessi ferð tók næstum allan daginn. Mér þótti merkilega lítið að sjá en aftur á móti var fallegt þarna. Okkur Ingimari tókst samt báðum að brenna okkur á netlum. Fyrsta skiptið hans og fyrsta skiptið mitt í áratugi. Ingimar var öllu hrifnari að því að sjá vatnaliljur í eigin persónu og náði að veiða eitt laufblað og nota það sem hatt.

Í Stokkhólmi gripum við kvöldmat á öðrum innflytjendastað sem Ingimar elskaði af því að hann fékk risastóran skammt af frönskum en ég þoldi illa af því að steikingarlyktin var kæfandi.

Við ákváðum að byrja fimmtudaginn á safnaferðum þar sem spáin var ekki nógu góð. Við blotnuðum líka vel og vandlega á leiðinni úr sporvagninum inn á Vasasafnið.

Drengirnir voru ekki jafn spenntir fyrir skipinu og ég hefði vonað. Þeim fannst það vissulega flott en voru kannski ekki í réttu stuði. Við vorum því ekki nema í mesta lagi tvö klukkutíma þar. Ingimar féll fyrir flöskuskipsútgáfu af Vasa í gjafabúðinni og við keyptum það fyrir hann.

Hádegismaturinn var á McDonald’s. Ég var mjög ánægður með að geta bara pantað í sjálfsafgreiðslutölvu. Miklu rólegra og ég gerði mig ekki að fífli. Á öllum þessum McDonald’s ferðum voru drengirnar voru að metast um hvort Daim eða Oreo McFlurry væri betri. Þeir prufuðu báðir báðar tegundir. Ingimar fílaði Oreo en Gunnsteinn Daim.

Eftir mat röltum við inn á Gamla Stan í helliriginingu. Áfangastaðurinn var lítið safn sem fólk missir oft af. Það er í höllinni og heitir Livrustkammaren en ég kalla það yfirleitt búningasafnið. Það tilheyrir ekki aðalsýningunni í höllinni og það er meira að segja ókeypis inn.

Á þessu safni eru föt og brynjur kóngafólksins. Þarna eru meðal annars föt sem tveir kóngar klæddust þegar þeir voru drepnir. Það var líka eitthvað Manga dæmi með teikningum af kóngafólkinu í búningunum. Ingimar féll alveg fyrir þeim og fékk að lokum ísskápssegul með mynd af Óskari fyrsta. Eftirminnilegustu gripirnir að mati strákana var gullbrynja fyrir hest og mann (notuð við útför konungs) og undarlegur hjálmur með andliti og áberandi yfirvaraskeggi. Þeim fannst líka gaman að prufa búninga. Síðan þótti öllum skemmtilegt að skoða vagna kóngafólksins í kjallaranum, bæði dagsdaglegu farartækin sem og krýningarvagnar.

Þetta var skemmtun fyrir alla fjölskylduna og næstu daga gat ég vísað í það sem strákanir sáu þarna þegar ég var með einhverja sögulexíu.

Lokaáfangastaður dagsins var síðan uppáhaldsbúðin mín í borginni, SF Bokhandeln (þar fékk ég áritun frá Neil Gaiman fyrir átta árum). Ég keypti fjölskylduhlutverkaleikinn Mausritter og Ingimar fann bjölluhnapp með óhjóðum til að nota við að spila Exploding Kittens. Ég hefði getað eytt miklum tíma þarna en allir voru frekar þreyttir þannig að við komum okkur fljótlega heim á hótel.

Veðurspáin fyrir föstudag var góð þannig að við ákváðum að fara í Gröna Lund. Það var reyndar vesen að kaupa miða á netinu þannig að við þurftum að kaupa á staðnum. Sumir fóru í margar ferðir og aðrir biðu yfirleitt með stafla af töskum í kringum sig.

Veðurspáin gekk ekki alveg eftir. Það byrjaði að hellirigna. Ekki í smá tíma heldur í hátt í klukkustund. Við ákváðum samt að halda áfram og fórum í röð í “bláu lestina” sem er gamaldags draugahús. Það var merkilega skemmtilegt. Best var samt þegar það kom upp eldgusa og ég reyndi að komast nær enda gegnblautur og kaldur.

Fyrir 16 árum fórum við Eygló í Gröna Lund með þjóðfræðinemum og ég eyddi tíma mínum umkringdur bakpokum og veskjum. En ég fór samt í skrýtna húsið. Þar er speglasalur, skökk herbergi, gangur sem virðist snúast og endapunkturinn er fljúgandi teppi (rennibraut þar sem þú situr á teppi). Árið 2006 lenti ég í því að setjast eitthvað vitlaust á teppið þannig að annar sandalakæddur fótur minn var fyrir framan teppið og núningsbrann á niðurleiðinni. Myndin af okkur þar er glæsileg enda var ég að öskra af einskærum sársauka.

Við ákváðum að fara aftur núna. Húsið skemmtilegt og þegar kom að teppið ákvað ég að fara með Ingimar. Þegar ég sest á teppið og horfi niður fæ á smá óþægilega tilfinningu og fer að hugsa að ég sé of gamall fyrir þetta. Síðast sest Ingimar á mig áður en ég er búinn að koma mér fyrir þannig að við erum í asnalegri stellingu. Mér brá aðeins hve hratt við fórum niður þannig að myndin af okkur feðgum er frekar skemmtileg. Á hinni myndinni var Eygló öskrandi meðan Gunnsteinn var ógnarsvalur og rólegur með sólgleraugu. Við keyptum myndirnar.

Rétt áður en við fórum út ákváðu drengirnir að þeir vildu taka þátt í lukkuhjóli þar sem hægt var að vinna risastóran kassa af Daim (eða Toblerone en það þótti ekki spennandi). Við ákváðum að kaupa þannig að við værum með fimmtán númer af hundrað. Ég var alveg tilbúinn að takast á við grát og gnístran tanna og kenna þeim verðmæta lexíu en síðan unnu þeir bara tvö kíló af Daim og voru rosalega glaðir. Þetta leiðir mögulega til fjárhættuspils seinna á ævinni.

Eftirminnilegast þótti strákunum að fara í Twister, Villtu músina (sem minnti þá Roblox tölvuleiki) og að hlusta á mömmu sína öskra í tækjunum.

Gunnsteinn hafði farið í flest öfgakenndu tækin af öllum og á leiðinni heim var hann aðeins farinn að grænka. Fyrst var það strætó á T-Centralen og síðan neðanjarðarlestin.

Þegar við vorum komin svona hálfa leið að stöðinni okkar segir Gunnsteinn að hann vilji fara út. Ég segi við hann að það sé nú betra að halda áfram nema að hann sé að fara að gubba. Hann gaf í skyn að ælan væri á leiðinni þannig að við hoppuðum út. Hann gubbaði strax og hann kom út, lagðist á bekk og endurtók uppsölurnar nokkrum sinnum í viðbót.

Þegar ég leit við og í kringum mig var ég hissa að sjá hvorki Eygló né Ingimar. Þau höfðu sumsé, að eigin sögn, ekki verið nógu snögg út og héldu því bara áfram á leiðarenda. Mig grunar að þau hafi bara viljað nota tækifærið til þess að taka sætin okkar svo þau þyrftu ekki að bakka á áfangastað.

Á meðan ég beið eftir að Gunnsteinn jafnaði sig stóð ég vörð þannig að enginn myndi stíga í gubbið. Að lokum birtist starfsmaður og ég þurfti að útskýra stöðuna fyrir honum. Hann virtist ekki glaður með þetta en hafði samband við einhvern í gegnum talstöðina.

Á sama tíma byrjaði Gunnsteinn að jafna sig og fór að hlæja að sjálfum sér. Ég bað hann um að gera það ekki fyrir framan grey starfsmanninn. Við gripum næstu lest og komumst alla leið á okkar stöð þar sem Ingimar og Eygló biðu.

 

Ég var búinn að tannbursta og koma mér upp í rúm þegar brunakerfið á hótelinu fór af stað. Ég ákvað að fara í buxur og leit fram á gang sem var að fyllast að öðrum óákveðnum gestum að kíkja út. Engin brunalykt. Við vorum ekki mjög snögg út en komum okkur samt.

Úti við sýndi ég gott fordæmi og kom okkur yfir götuna til að gefa slökkviliðinu pláss til að athafna sig. Flestir fylgdu með. Slökkviliðið var svona fimm eða tíu mínútur að komast að þeirri niðurstöðu að það væri enginn eldur. Svona er þetta víst bara á hótelum þar sem gestum er treyst fyrir eldunaraðstöðu. Drengjunum fannst þetta að lokum bara spennandi viðburður. Við sofnuðum óvenju seint þetta kvöld.

Við vorum ekki snögg út á laugardagsmorgun. Fyrsti áfangastaðurinn var Þjóðminjasafnið. Ég var búinn að gleyma því hve ofhlaðið safn það er. Við þurfum ekki tíu gripi sem eru eiginlega eins. Það var smá hjálplegt að geta notað upplýsingaskjái til að fá fróðleik um gripina. En það var oft þannig að það stóð ekki einu sinni hvar gripurinn fannst eða frá hvaða tíma hann væri.

Ekki góð framsetning.

Það var hins vegar góð framsetning á sumum rúna- og myndasteinum, sérstaklega Stora Hammars III þó það hafi ekki verið sjáanlegar frekari upplýsingar um þessa steina. Það var skjávarpi notaður til þess að sýna betur myndirnar. Ekkert flókið, bara svart þar sem grár litur er núna. Síðan voru líka notaðar skuggamyndir til að sýna ákveðna hluta betur og jafnvel hreyfa þá til. Strákunum þótti það líka flottast.

Ég var löngu búinn að ákveða að skoða bara víkingaöldina og síðan vonaði ég að gullherbergið væri spennandi fyrir strákana en þeir voru ekki alveg nógu hressir þar.

Hvar var borðað í síðbúinn hádegismat? McDonald’s. Hvað borðaði ég. McNuggets (eina spurningin hvort þær væru sterkir eða ekki).

Við komum okkur næst á Skansen og skoðuðum aðallega dýrin. Elgurinn var merkilega góður að fela sig en birnirnir voru að njóta lífsins. Ég náði að gera Ingimar spenntan að sjá jarfa og svo vel vildi til að dýrið sýndi sig vel og vandlega. Ég held að það hafi ekki gerst í fyrri heimsóknum mínum þar. Gaupan náði hins vegar að fela sig jafnvel og elgurinn.

Lokapunkturinn var að fara að skoða lemúra, bavíana, dvergapa og síðan litla sædýrasafnið. Líklega var kúbverski krókódíllinn mest spennandi en hann hreyfði sig ekki úr stað þó hann hafi nú opnað auga til að skoða okkur. Á leiðinni út klöppuðum við strákarnir slöngu en létum kóngulóna vera.

Allir nema ég voru sáttir við snarl í kvöldmatinn. Þau hin borða greinilega nógu vel á McDonald’s en ég fékk mér ekki mikið. Ég tók því á mig að rölta í ICA til að kaupa vistir og greip pizzu á Marino’s. Þar fékk ég skilaboð um að fjölskyldan hefði aftur þurft að fara út vegna brunabjöllu. Þau voru komin aftur inn þegar ég kom. Brunaútköll verða ekki meira spennandi eftir því sem þau eru endurtekin oftar.

Sunnudagurinn var síðasti heili dagurinn. Við vorum ekki rosalega hress þannig að við fórum frekar seint af stað.

Upprunalega markmið dagsins var að taka hádegisverð í IKEA. Við fórum því í Gallerian en þá kom í ljós að það var ekki hægt að panta nákvæmlega það sem Ingimar vildi. Þannig, að tillögu Gunnsteins, fór að síðbúni hádegismaturinn var á Pizza Hut.

Ég ætlaði að prufa að nota vefinn þeirra til panta og síðan appið en hvorugt virkaði. Þannig að ég fór bara í afgreiðsluna þar sem lærlingur afgreiddi mig, hann missti alveg af því að ég bað um bolognese og rukkaði mig of mikið fyrir matinn hans Ingimars.

Þegar maturinn hennar Eyglóar kom ekki varð ég smá stressaður að þurfa að kvarta eftir að hafa verið svona ömurlegur á McDonald’s viku fyrr en það reddaðist.

Áfangastaðurinn var tæknisafnið. Á leiðinni tók ég eftir því að hinum megin við götuna var “etnógrafíska safnið” og í gríni stakk ég upp á að fara þangað í staðinn. Eygló spurði hvað væri þar. Ég svaraði að þær væru gripir sem hefði verið stolið héðan og þaðan úr heiminum. Eygló: “Þú hefur einmitt svo gaman af svoleiðis”.

Skák og mát.

Tæknisafnið var alveg ágætt. Sumt var mjög flott og annað frekar óspennandi. Mér þótti það fulláberandi að sýningarnar voru styrktar af ákveðnum fyrirtækjum þannig að þeirra tæki voru settir í sviðsljósið. Á svona safni hefði ég reyndar haldið að merkasta framlag Svía til tölvualdarinnar væri áberandi en ég sá hvergi talað um Linux (hefðu væntanlega þurft að borga til að vera með). Drengirnir voru auðvitað glaðastir með tölvuleikjasýninguna. Þar var reyndar mikil áhersla á sænska leiki (sumir greinilega styrktaraðilar) en ég fékk að spila Space Invaders í spilakassa.

Það var líka “náma” þarna sem var mjög dimm og Ingimar leysti það með því að kveikja á símaljósinu. Gunnsteini þótti það hálfgert svindl og ganga gegn tilgangi svæðisins. Í kjölfar námunnar var hægt að spila tölvuleik sem minnti töluvert á Boulder Dash, bara ekki jafn skemmtilegur.

Á neðstu hæðinni var svæði til að mæla líkamlegan styrk og sveigjanleika. Mig langaði í svigherminn (skíði sumsé) en það sátu margir um hann. Ég virðist líka vera með sterkt grip miðað við mælingar. Síðan var róðrarkeppnistæki þar sem ég keppti bæði við Gunnstein og Eygló, sigraði bæði, en fékk áminningu um að stóri strákurinn minn er ekki svo lítill lengur. Það munaði bara sekúndubrotum á mínum besta tíma og hans.

Við breyttum til á heimleiðinni og tókum McDonald’s með okkur á hótelið frekar en að borða á staðnum. Ég náði að verja McFlurry’ið á leiðinni þó Ingimar hafi gert góða tilraun til að kýla pokann óvart þar sem hann sveiflaði handleggjunum.

Enginn hafði orku til að gera nokkuð á mánudagsmorgun. Við tókum til og pökkuðum áður en við yfirgáfum hótelið (og töskurnar okkar í geymslunni). Afrek mitt var að koma stóra Daim-kassanum ofan í töskuna mína. Við röltum að leikvelli í nágrenninu. Ingimar hafði gaman af því að klifra og Gunnsteinn sýndi meira að segja smá lit þó hann telji sig augljóslega alltof fullorðinn fyrir svona.

Síðasta máltíðin í Stokkhólmi var á Marino’s. Gunnsteinn lýsti yfir að pizzan þar hafi verið besta máltíð ferðarinnar. Eftir það var bara að koma sér á hótelið og draga farangurinn á neðanjarðarlestarstöð og í Arlanda Express af T-Centralinn. Strákarnir segja mér að það hafi verið barn að stara á þá á leiðinni. Gunnsteinn kallaði barnið sætt en Ingimar sagði að það hefði verið hræðilegt.

Vegna einhverra öryggisráðstafanna gat lestin ekki stoppað við okkar álmu þannig við þurftum að labba í svona fimmtán mínútur til að komast á réttan stað. Það var allt hægvirkt þarna en ég gat alltaf hugsað um Heathrow sem róaði mig. Allt betra en það. Auðvitað er erfiðara að gera þetta með fjölskylduna en samt betra yfir heildina.

Í flugvélinni tókum við strákarnir okkur til og horfðum saman á Free Guy. Við samstilltum okkur og það þurfti nokkrar tilraunir til að vera nokkurn veginn á sama tíma í myndinni. Hún er ennþá nokkuð góð skemmtun.

Ég fann ekkert til að horfa á sem passaði fyrir þennan rétt rúma klukkutíma sem var eftir af fluginu. Mér datt í hug að horfa á mynd sem ég hefði séð það oft að það væri í lagi að missa af endinum.

Þó ég hafi ekki séð Lethal Weapon í nær tvo áratugi sá ég hana nógu oft þar áður til að sleppa endinum. Þegar myndin byrjaði var varað við að myndin hefði verið klippt til, bæði hlutföll og efni, til þess að hægt væri að sýna hana í flugvél. Síðan byrjaði myndin. Hún passaði ekki á skjáinn í níu á móti sextán. Hún var eiginlega hærri en hún var breið. Í besta falli einn á móti einum. Ég tók mynd af skjánum en lét vera að horfa á þennan glæp gegn kvikmyndalistinni.

Eftir að hafa beðið í fjóra daga eftir að fá töskuna sem ég var með í London var ég mjög taugastrekktur við farangursbandið. En það kom allt. Ég hugsaði samt, sem fyrr, að ég þyrfti að spreyja þessar svörtu ferðatöskur sem við eigum með áberandi lit svo hægt sé að þekkja þær án þess að líta á merkimiðana.

Við þurftum að fara af komusvæðinu yfir á brottfararsvæðið til að ná í bílinn okkar. Þar sat hann einn og yfirgefinn, í gangi, með opinn glugga, á svæði sem hefði verið hægt að sekta okkur fyrir að vera of lengi á. Ég er ekki spenntur að nota þessa þjónustu aftur.

Það var rosalega gott að komast heim. Góð sturta. Gott rúm.

London 2022

Það var fyrir næstum tveimur og hálfu ári að tilkynnt var um tónleikaferðalag eftirlifandi meðlima Queen með söngvaranum Adam Lambert. Við ræddum möguleikann á fjölskylduferð á tónleika en þar sem tal um ákveðinn vírus var farið að verða áberandi ákváðum við að sleppa því þá. Það fór líka þannig að tónleikaferðinni var frestað. Fyrst um ár. Síðan um annað ár.

Þegar varð ljóst að tónleikaferðin yrði nær örugglega á þessu ári fór ég að grafast fyrir um möguleikann á fjölskylduferð. Ég skoðaði ýmsa staði og hvergi virtist vera hægt að redda miðum fyrir okkur fjögur saman í sæti. En það var hægt að redda stökum miðum. Þannig að ég ákvað að bíða með fjölskylduferðina og skreppa bara einn til London. Ég bókaði miða fyrir tónleika í Þúsaldarhvelfingunni (sem þykist núna heita eftir einhverju símafyrirtæki).

Ég velti fyrir mér hótelum og ákvað að velja Garden View Hotel sem var á fínu verði nálægt Earl’s Court neðanjarðarlestarstöðinni. Í London skiptir það auðvitað einna mestu máli að hafa aðgengi að Undirgrundinni og þessi stöð er fínn tengipunktur, meðal annars til og frá Heathrow.

Lítið að segja um flugið út eða nokkuð fyrren ég kom á hótelið. Ég innritaði mig og var síðan sagt að nota stigana til að fara upp á þriðju hæð (semsagt fjórðu hæð). Stiga? Já. Lyftan var biluð og virtist hafa verið það í einhvern tíma. Ég dröslaði töskunni alla leið upp í gegnum völundarhús stiga með óljósum merkingum. Ljósunum var stýrt af hreyfiskynjurum þannig að ég þurfti stundum að vera í myrkri þar til hreyfingin var numin. Þegar ég kom að herberginu var ennþá verið að taka allt til. Ég þurfti að bíða vandræðalegur í herberginu.

Ég tel mig ekki kröfuharðan á hótelherbergi. Í fyrsta lagi vil ég að það sé allt í góðu með hreinlætið og í öðru lagi að það sé sturta. Ég hafði þá tilfinningu að það væri ekki gert mikið meira en bara að skipta á rúminu. Þegar á leið komst ég að því að herbergið væri hitakista og þá sérstaklega eftir að ég fór í sturtu. Eina leiðin til að hafa herbergið lífvænlegt var að galopna glugga og draga frá. Sturtan sjálf var síðan með ákaflega litlu vatnsflæði, meðal annars af því að töluvert af vatninu lak út áður en það náði að sturtuhausnum.

En hvað um það. Fyrir utan að taka stutt rölt að og framhjá Garden Lodge, sem var heimili Freddie Mercury, afrekaði ég ekki mikið á mánudeginum. En fyrsta leikhúsferðin var um kvöldið, Back to the Future söngleikurinn. Ég hafði séð mjög jákvæða dóma um sýninguna en hún stóð ekki sérstaklega vel undir væntingum. Reyndar skánaði flest þegar á leið. Ýmsu var breytt í söguþræðinum, sumt fínt en annað ekki. Verst þótti mér hve mikið var treyst á brandara sem brutu fjórðuvíddarvegginn. Í myndunum eru brandararnir út frá muninum á 1985 og 1955. Marty veit hvernig framtíðin er og vísanirnar virka þannig. En það var bara endalaust af einhverju um hvernig tuttugasta og fyrsta öldin yrði. Auðvitað hefði mátt hafa einhverja svoleiðis en þetta var allt of mikið.

Höfuðpersónurnar þrjár, Marty, Doc og George voru túlkaðar á mismunandi hátt. Sá sem lék Marty var bara nokkuð einföld eftirherma af Michael J. Fox en þó án persónutöfra. Leikarinn sem túlkaði George var nær fullkomin eftirherma af Crispin Glover. Það virkaði að mestu nema kannski þegar hann hló of lengi þessum asnalega hlátri. En sá sem lék Doc Brown var frumlegri. Hann túlkaði persónuna upp á nýtt. Það mætti segja að hann hafi verið meira Mel Brooks en Christopher Lloyd. Það virkaði eiginlega best. Af hinum… Persóna Lorraine hefði mátt fá meira að gera. Biff var óspennandi. Hann var alltaf ógnandi af því að hann var vöðvastæltur en þeim virðist hafa þótt fyndnara að hafa hann bara feitan.

Frumsamda tónlistin var óeftirminnileg. Ég bókstaflega man ekki eftir neinu lagi. Tæknibrellurnar voru á köflum skemmtilegar þó mér hafi þótt of mikið treyst á skær blikkandi ljós.

Það var ekki heldur mikið afrekað á þriðjudeginum. Ráfaði um. Veðrið gott og ég settist reglulega og naut lífsins. Sýning kvöldsins var Six sem fjallar um eiginkonur Hinriks VIII. Ég heyrði fyrst um sýninguna í hlaðvarpinu Not Just the Tudors. Ég nota orðið sýning af því að þetta er varla söngleikur í hefðbundnum skilningi. Persónurnar lýsa sambandi sínu við fræga eiginmann sinn og það er á köflum skemmtileg endurhugsun á þeim. Ég sat alveg fremst fyrir miðju. Ég vildi fótarými. Þegar salurinn var að fyllast hugsaði ég með sjálfum mér að ég virtist vera eini staki karlmaðurinn á svæðinu. En síðan kom ungur maður og settist við hliðina á mér. Hann hafði séð sýninguna þrisvar áður, þar af tvisvar í einhverri skemmtisiglingu.

Þar sem ég þekki ágætlega söguna af Hinrik áttunda gat ég alveg látið fara í taugarnar á mér að stundum voru klisjur látnar ráða frekar en nákvæmari sagnfræði. Boleyn var túlkuð sem tálkvendi og sagan af Cleves mjög hefðbundin þannig að það hafi bara verið útlit hennar sem varð til þess að hjónabandið var lýst ógilt þó í raun hafi það verið flóknara. En ég lét þetta ekki fara í taugarnar á mér af því að þetta var allt stórskemmtilegt. Ég er ennþá að raula lögin. Sérstaklega var Haus of Holbein eftirminnilegt. Á ákveðnum punkti í sýningunni benti ein drottningin á áhorfanda og lét hann dansa. Það var gaurinn við hliðina á mér. Ég var ánægður fyrir hans hönd enda virtist hann njóta þess í botn og ég var ennþá glaðari að ég varð ekki fyrir valinu. Ég er vissulega oft til í eitthvað sprell en ég var ekki í stuði til að dansa.

En sögunördinn var ekki alveg dauður, sérstaklega þegar það var brandari um að enginn vissi hver eiginkona Hinriks sjöunda hefði verið og ég hugsaði strax: “Það var Elísabet af York, dóttir Játvarðs fjórða og systir prinsanna í turninum, sem gaf konunginum töluverðan styrk enda hafði hún eiginlega betra tilkall til krúnunnar en Hinrik sem byggði kröfu sína á því að hafa sigrað Rósastríðið.”

Ég ráfaði bara aðeins um á miðvikudaginn enda þurfti ég að hafa góðan tíma til að komast á tónleikana. Ég var sérstaklega taugaóstyrkur af því að miðinn minn var ekki ennþá “kominn”. Ég hafði sumsé keypt miða í gegnum endursölukerfi Ticketmaster. Af einhverjum ástæðum taldi fyrirtækið best að láta kaupandann senda mér miðann í pósti frekar en ógilda þann gamla og senda mér nýjan. Ég beið og beið eftir miðanum.

Að lokum ákvað ég hafa samband og bað um rafmiða enda þótti mér loforð þeirra um að miðinn kæmi í síðasta lagi fimm dögum fyrir tónleika frekar tæpt. Hjálparkerfi Ticketmaster var ekki hjálplegt. Endalaus frumskógur, fram og til baka. Þegar ég hélt að ég væri komin að því að geta sent fyrirspurn var ég sendur á einhverja nýja hjálparsíðu með tillögum sem pössuðu ekki við mitt tilfelli. Að lokum fékk ég hjálp með því að bögga fyrirtækið á Twitter. Og ég fékk tilkynningu um að ég fengi rafmiða. Frábært! Ekki satt?

Þegar nær dró tónleikanum fékk ég póst um að til þess að fá rafmiða þyrfti ég að sækja app tónleikastaðarins. Þegar ég fór að setja það inn tók ég eftir því að notendur voru á nær einu máli um gagnsleysi og ömurleika forritsins. Ég var fljótur að sannreyna þá dóma. Ég þurfti að stofna reikning hjá tónleikastaðnum. Síðan þurfti ég að stofna reikning hjá einhverri annarri miðaþjónustu sem heitir Axs. Í hvert skipti sem ég opnaði forritið þurfti ég að skrá mig inn hjá Axs. Miðinn átti að birtast sjálfkrafa í appinu. Það gerðist ekki. Ég hafði samband við Ticketmaster og fékk svarið að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur, það myndi gerast fimm dögum fyrir tónleika. Það gerðist ekki. Ég hafði aftur samband. Þá var mér sagt að það gerðist í síðasta lagi 48 klukkustundum fyrir tónleika. Það gerðist ekki. Þá var mér sagt að það myndi gerast samdægurs.

Að morgni tónleikadagsins fékk ég tilkynningu frá Axs að miðinn minn væri kominn inn á reikninginn minn. Ég staðfesti það með því að opna vefaðganginn. Þá þurfti ég bara að staðfesta að miðinn kæmi í forritinu. Auðvitað kom hann ekki þar. En appið var samt meðvitað um að ég ætti miða og reyndi að selja mér varning fyrirfram. Miðinn birtist bara ekki. Svarið sem ég fékk var að ég þyrfti bara að redda þessu í miðasölunni hjá tónleikastaðnum.

Þannig að ég fór snemma af stað. Þetta var töluverður spotti en ég þurfti bara einu sinni að skipta um lest. Þannig að ég fór af stað og þegar ég kom út á stoppinu heyrði ég tilkynningu um að það væru vandræði á seinni línunni, líklega hafði einhver gleymt töskunni sinni. Ég endurreiknaði ferðina og sá að ég gæti bara haldið áfram með sömu línu og ég kom með og farið austur fyrir vandræðin, þaðan gæti ég tekið hina línuna vestur að tónleikastaðnum. Ég hoppaði í næstu lest sem síðan stoppaði strax á næstu stöð og tilkynnti að hún færi ekki lengra. Ekki út af einhverju veseni. Bara að sumar lestir fara ekki alla línuna til enda. Þannig að ég beið eftir lest sem færi alla leið að stöðinni sem á þurfti að stoppa á (West Ham). Þar var vissulega seinkun en ég gat samt tekið næstu lest að tónleikastaðnum.

Þar byrjaði ég á miðasölunni. Þar þurfti grey maðurinn að fara fram og til baka þar til að honum datt í hug að leita að miða skráðan á Gneisti frekar en Sóleyjarson. Glæsilegt kerfi. Þannig að ég er þakklátur þeim manni en allt hitt var asnalegt klúður.

Ég rölti að innganginum mínum, fékk mér ís á leiðinni, og fór í völundarhúsið til að bíða eftir að salurinn opnaði. Ég var voðalega glaður þegar fólkið fyrir framan mig settist bara á gólfið á meðan það beið. Ég geri það gjarnan en það er stundum horft á mig eins og ég sé eitthvað skrýtinn. Núna gat ég bara sest og verið eins og hinir. Og beið. Ég hafði klárað allt vatnið mitt áður en ég fór í röðina og var orðinn svolítið þyrstur þegar við loksins komum inn. Ég hoppaði strax á barinn og bað um sódavatn. Það var ekki til en ég gat keypt rándýrt volgt vatn í tappalausri flösku.

Ég var frekar snemma á ferðinni og ákvað að standa bara fremst. Mér líkar það ágætlega þó ég sé alltaf með samviskubit yfir því að vera hávaxinn enda get ég hallað mér fram á öryggisgirðinguna þannig að fólk sjái frekar yfir mig. Gaurinn við hliðina á mér var álíka stór og ég en var nær alla tónleikana með símann í loftinu til að taka upp tónleikana. Þannig að ég var bara náttúruleg hindrun á útsýni frekar en viljandi.

Tónleikarnir voru fínir. Það var ekki annað hægt en að bera þá saman við tónleikana sem ég fór á með Roger Taylor (trommara Queen) í fyrra. Það var minna um brellur en það var alltaf hann að syngja. Það er ekki það sama að hafa Adam Lambert í hlutverki söngvara og satt best að segja var hann ekki jafn góður og hann var 2017 þegar ég sá hann á Írlandi. Hápunkturinn var að þegar Roger og Brian sungu, og þá sérstaklega þegar Brian tók ’39. Það gladdi mig líka mjög að heyra In the Lap of the Gods (Revisited).

Það var mikill troðningur á heimleiðinni. Ég náði að komast í fyrstu lestina frá staðnum. Alveg troðfull. Einn kall ákvað að vera sniðugur og hoppa inn þegar allir hinir á lestarpallinum höfðu komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert vit í slíkum æfingum. Hann komst inn en bakpokinn hans klemmdist þegar hurðina lokaðist. Það var mikið vesen hjá nærstöddum að losa hann. Kallinn reyndi að grínast með þetta en það var ljóst að engum öðrum þótti þetta skemmtilegt.

Troðningurinn var þannig að stór hópur farþega þurfti að standa. En ég hef tekið eftir því að í slíkum aðstæðum er alltaf til fólk sem heldur að það sé betra að standa þó það séu laus sæti. Það stendur jafnvel og blokkar laus sæti og ímyndar sér væntanlega að það sé að fórna sér með því að setjast ekki niður. Ó nei, þú ert í raun að taka tvöfalt meira pláss.

Þegar ég var kominn í lestina sem færði mig að hótelinu byrjaði gaur í vagninum að hnerra aftur og aftur. Ég mætti augum manns hinum megin við ganginn og við vorum greinilega að hugsa nákvæmlega það sama. En það var bara á síðasta spottanum þannig að ég slapp fljótt.

Á hótelinu gladdi það mig að það var búið að koma með ný handklæði. Það hafði sumsé ekki verið skipt um handklæði daginn áður. Það var frekar slæmt þegar ég kom heim eftir gönguferðir í sólinni og lestartroðning. Ég hefði helst vilja fara í sturtu tvisvar á dag. Ég tók seinna eftir því að á blaðinu, sem ég fékk með þeim orðum að þarna væru upplýsingar um þráðlausa netið, var klausa um að gestir þyrftu sérstaklega biðja um að herbergið væri þrifið fyrir klukkan átta kvöldið áður. Ég hef aldrei áður kynnst slíku á hóteli.

Í fyrra tók ég átak í að lesa Sherlock Holmes aftur. Ég ákvað því að heimsækja Sherlock Holmes safnið sem er í 221B (samt ekki í númeraröðinni) Baker Street. Ég bókaði því heimsókn á fimmtudagsmorgni. Á leiðinni voru aftur tafir á lestarkerfinu. Í þetta skiptið var tekið fram að það hefði orðið dauðsfall á teinunum. Þar sem ég sat á pallinum heyrði ég ítrekað hljóð. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er en það hljómar eins og að það sé verið að losa gufu. En þarna sá ég fyrir mér að þetta væri hljóð í háþrýstidælu sem væri að þrífa teinana. Algjört bull auðvitað. Það var ekkert vandamál á þessari stöð en hausinn var samt að tengja þetta.

Þegar lestin kom loksins fann ég mér sæti en heyrði fljótlega íslensku. Ég leit til hliðar og sá þar gamlan félaga. Spjallaði aðeins. Hann var að fara á vaxmyndasafn með krakkana. Þannig að við vorum báðir mjög túristalegir.

Lukkulega náði ég á Sherlock Holmes safnið á þeim tíma sem ég hafði bókað. Ég hafði ekki miklar væntingar og það stóðst alveg. Þetta er sett upp eins og um sé að ræða heimili Sherlock Holmes (þó húsið sé reyndar mun yngra). Það er nær ekkert um raunverulegan bakgrunn sagnanna. Það er ekkert um Arthur Conan Doyle eða kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Þarna er samansafn af ýmsum forngripum sem hafa mismikil, eða lítil, tengsl við Sherlock Holmes. Þarna eru svefnherbergi, stofa og svo framvegis. Mér fannst uppsetningin ekki passa sérstaklega vel við sögurnar. Síðan voru nokkrar misvel heppnaðar vaxmyndir á efstu hæðinni.

Gestir eiga að klára heimsóknina á um fimmtán mínútum og það passar alveg fínt. Ég kíkti í gjafabúðina og það var nær allt sama fjöldaframleidda draslið sem er í öllum gjafabúðum með mismunandi lógóum. Það eina sem mér þótti smá spennandi voru styttur af Holmes en þær voru allar uppseldar.

Eftir hádegi var það söngleikurinn Hamilton. Fyrst sagði fólk að hann væri það besta í heimi og síðan var bakslag og hann var sagður alveg skelfilega vondur. Ég hafði því hóflegar væntingar. Ef þið vitið ekki er umfjöllunarefnið Alexander Hamilton, einn af landsfeðrum Bandaríkjanna. Áður en söngleikurinn sló í gegn vissi eiginlega enginn neitt um manninn. Hann er á tíudollara seðlinum en hann var aldrei forseti, bara fjármálaráðherra. Ef þú ert sögunörd vissir þú líklega að hann var drepinn í einvígi af Aaron Burr sem var þáverandi varaforseti Bandaríkjanna. Fyrir Íslendinga er reyndar skemmtilegt að vita að mamma hans bjó um tíma á St. Croix sem tilheyrði þá dönsku krúnunni og varð seinna fæðingarstaður Hans Jónatans.

Lin-Manuel Miranda samdi söngleikinn upp úr ævisögu Hamilton. Það hefur reglulega verið bent á að sú mynd sem dregin er upp á landsföðurnum eigi á stundum meira skilt við skoðanir höfundarins heldur en sögulegu persónunar. Reyndar hefur áhugi á Hamilton aukist til muna síðustu ár þannig að sagnfræðingar hafa mun betri skilning á honum heldur en þegar Miranda var að semja handritið.

Söngleikurinn er frægur fyrir að velja leikara án þess að líta til húðlitar. Þetta hefur orðið sífellt algengari og það má meðal annars sjá á leikavalinu í sýningunni Six. Mér finnst þetta virka misvel eftir efnisvali. Í Hamilton er það hálfskrýtið að tala um þrælahald þegar aðalpersónan er leikin af svörtum manni. Það gerir sögulegar persónur sem voru svartar ósýnilegar. Mér finnst það vera betur heppnað þegar við endurhugsum sögur eins og Les Mis með aðalpersónum sem eru svartar. Það minnir okkur á að sagan er ekki jafn snjóhvít og við ímyndum okkur. Þegar fólk kvartaði yfir því að svartir leikarar væru fengir til leika í Les Mis var það algjörlega laust við að skilja að það var alveg fullt af svörtu fólki í Frakklandi þess tíma og er Dumas-fjölskyldan alltaf augljósa dæmið. En átti einhver persóna í söngleiknum Hamilton að vera svört? Engin leið til að vita bara með því að horfa.

Hvað þótti mér um söngleikinn? Ég átti stundum erfitt með að fylgja hraðskreiða rappinu. Ég þekki söguna hins vegar það vel að ég hélt samt þræði. Það sem skiptir kannski helst máli er að það voru mörg góð lög og sum sem ég hef sönglað með sjálfum mér.

Þar sem þráðlausa netið var eiginlega ónýtt á hótelinu var lítið um afþreyingarmöguleika annað en að kveikja á sjónvarpinu. Það var stillt á stöð sem heitir Dave sem endursýnir aðallega gamla grínþætti meðfram endalausum auglýsingum. Þegar auglýsingahléi lauk hafði ég almennt alveg gleymt hvað ég hefði verið að horfa á.
Það vildi reyndar svo til að á mánudagskvöldið og fimmtudagskvöldið var sami þátturinn af QI sýndur. Ég hefði haldið að það væri auðvelt að koma í veg fyrir svona tíðar endurtekningar. Lukkulega horfði ég bara á kynninguna á þættinum á mánudaginn þannig að ég var ekki sérstaklega pirraður að fá annað tækifæri. En síðan útskýrði Stephen Fry að það tæki eld 90 sekúndur að breiðast út um flugvél þannig að flughræðslan fékk smá fóður.

Á föstudeginum byrjaði ég á því að pakka í tösku og setja í geymslu á hótelinu. Ég ákvað að fara í Hamley’s leikfangaverslunina. Ég rölti upp og niður og rakst á dróna sem ég ákvað að kaupa handa strákunum mínum. Þar sem ég greip tvö stykki var mér tilkynnt að ég fengi ókeypis eitthvað svifdót, sem væri skemmtilegt að kasta úti við. Það minnti helst á svona ljósaspegla sem ljósmyndarar nota í myndatöku. Það var samt ekki einhver speglunarlitur á þessu heldur breski fáninn. Allt í flötum en stórum kassa.

Ég rölti í gegnum Karnabæ niður að leikhúsinu (og næsta klósetti). Þar sem ég beið eftir að fara inn settist ég niður á Leicester Square rétt hjá götupredikara. Hann var með gjallarhorn og talaði stanslaust og vitlaust um trúarhugmyndir sínar. Þegar hann fór að tala um múslíma sendi ég honum fingurinn mjög vandlega. Þegar hann fór að halda því fram að Opinberunarbókin fjallaði um Illuminati hló ég hátt og innilega að honum.

Núna var ég að fara á Book of Mormon. Ekki í fyrsta sinn. Þetta er mjög vel heppnaður söngleikur um Mormóna í Afríku og þó sumt af því sem er sýnt frá Afríku sé ekki frábært er ég á því að það sé til þess að gera grín að hugmyndum vestræns fólks frekar en á kostnað innfæddra. Þessi söngleikur er skemmtilegur að því leyti að hann er hefðbundinn að forminu til með grípandi lögum er sagan og efnistökin á skjön við hið venjulega.

Á sýningunni lenti ég í því sama og ég oft áður. Ég vel mér sæti út frá fótaplássi. Þess vegna sat ég fremst á Six og þess vegna sat ég við ganginn á Book of Mormon. Það versta er ekki að þurfa að standa á fætur og hleypa fólki. Það versta er að þurfa að fá endalausar afsökunarbeiðnir frá fólkinu. Ég valdi sætið. Ég vissi að þyrfti að hleypa fólki. En í þetta sinn svaraði ég afsökunarbeiðni með orðunum: “It’s the nature of the thing” sem náði einhvern veginn að gleðja fólkið.

Ég nefndi fyrr svifdótið sem ég fékk í Hamley’s. Var það óþarfa útúrdúr? Nei, það var til að útskýra hvað gerðist nú. Í hléinu fann ég mér stað aftast í salnum þar sem ég gat staðið á meðan fólk streymdi út. En ég var líka með stóran, léttan, flatan pakka með mynd af breska fánanum. Það var frekar heitt í salnum þannig að ég tók upp á því að nota pakkann eins og blævæng. Fólkinu sem gekk þarna framhjá þótti þetta mjög skondið, sérstaklega af því þetta leit svolítið út eins og ég væri að veifa breska fánanum.

Þar sem þetta var síðasti dagurinn var ég meðvitaður um að vera tímanlega á leiðinni á flugvöllinn. Ég kíkti reglulega á þjónustutilkynningar Undirgrundarinnar til að vera viss um að ég væri öruggur. Allt í góðu þannig að ég þurfti ekki að stinga af snemma úr leikhúsinu. Ég tók lestina beint að hótelinu og fór síðan með lestinni að Heathrow. Allt á góðum tíma og bara smá innritun og öryggishliðið eftir.

Það var allt í rugli á Heathrow. Kerfið sem flutti og flokkaði farangurinn var bilað. Þannig að ég þurfti að troðaast að innritunarborðinu þar sem mér var sagt að fara sjálfur með farangurinn niður fimm hæðir (lukkulega með lyftu). Mér var bent í rétta átt en það var enginn sem útskýrði neitt meira. Engum hafði dottið í hug að nota upplýsingaskjái til að hjálpa farþegum að skilja stöðuna. Ég tróð mér í átt að lyftunni og áttaði mig þá á að ég hafði verið að troða mér framhjá röðinni að lyftunni. Þannig að ég þurfti að koma mér aftur til baka og bíða og bíða eftir að komast í lyftuna.

Síðan þurfti ég að ramba á réttan stað með töskuna. Þar var tekið á móti okkur og töskunum hrúgað saman. Ég hélt að það hlyti að vera kerfi…

Allt vesenið, troðningurinn og þrengslin urðu til þess að ég ákvað að sleppa því að yfirfara það sem væri í handfarangri og innrituðum farangri. Það var enginn staður til þess að gera neitt svoleiðis. Ég passaði bara að ég væri með vegabréfið.

Röðin að öryggishliðinu var lengst og versta völundarhús sem ég hef komið í. Algjör martröð. Það voru alls staðar merkingar um að hafa pláss á milli fólks hreinlætisins vegna en um leið voru starfsmenn að skamma farþega fyrir að troða sér ekki nógu þröngt. Það sem gerði stöðuna verri var að farþegar höfðu ekki tíma eða pláss til að fara í gegnum handfarangurinn í ró. Þannig að það var ekki fyrren það kom að þegar fólk var að setja draslið sitt í bakka í öryggisskoðunni að það gat hent vatnsflöskum og að sett aðra vökva í litla töfrapoka sem varna gegn hryðjuverkum.

Þegar ég fór að nálgast öryggishliðið sjálft heyrði ég í konunni sem var á vakt þar. Hún var að segja ömurlega brandara sem enginn hafði húmor fyrir. Það var líka þannig að rétt fyrir aftan mig var fjölskylda og meðal annars táningstúlka sem var greinilega í uppnámi og var farin að gráta. Fjölskyldan reyndi að biðja konuna um að hleypa þeim fram fyrir. Svörin voru andstyggileg. Ég fór óvart að hrópa á hana af því mér þótti hún svo ósanngjörn. En það sem gerðist næst var að farþegarnir einfaldlega hleyptu fjölskyldunni fram fyrir. Þegar fjölskyldan var komin í öryggiskoðunina hélt konan áfram dólgshætti sínum kvartandi að það væri allt vitlaust gert. Ég var farinn að kvíða því að lenda á konunni en þá voru fleiri öryggishlið opnuð þannig að ég slapp.

Ég nennti ekki að finna mest spennandi matinn í flugstöðinni heldur greip ég bara samloku og vatn á Pret og fékk frekar þægilegt sæti til að hvíla mig. Ég náði síðan að eyða nokkrum tíupundaseðlunum sem ég var með. Ég er alltaf svo smeykur við að treysta bara á kort að ég tek út peninga en síðan er yfirleitt svo auðvelt að borga með korti að ég nota það ekki nema þegar ég vanda mig að muna eftir því.

Síðan fór ég að hliðinu og beið í töluverðan tíma. Okkur var loksins hleypt inn í vélina en ég var með þeim síðustu inn. Þegar ég kom að sætinu mínu sat þar kona sem hafði eitthvað verið að semja við aðra farþega svo hún gæti setið hjá sínu fólki. Einhvern veginn endaði það þannig að fólkið hægra megin fór allt vinstra megin og öfugt. Þegar ég var nýsestur en ekki búinn að koma mér fyrir kemur allt í einu flugfreyja og segist vera í vandræðum og þurfa farþegar annars staðar. Ég ákvað að gefa eftir og þá var mér komið fyrir við neyðarútgang þar sem ég var einn í röð. Mér þótti ágætt að vera einn, sérstaklega þar sem ég var meðvitaður um að hafa svitnað töluvert í öllu veseninu og þótti ágætt að bjóða ekki neinum upp á mögulega keim. Fótaplássið hjálpaði líka.

Nú er ég ekki aðdáandi þess að fljúga. Ég er flughræddur. Þannig að ég hlýt að vera sérstaklega hræddur þegar ég þarf að sitja við neyðarútgang með þá skyldu að hjálpa til ef neyðarástand kemur upp? Þvert á móti. Flughræðslan hverfur næstum. Ég verð rólegur. Ég skoða leiðbeiningar um hvað ég eigi að gera og tek þetta alvarlega. Það að hugsa um hvað ég þurfi að gera ef allt fer á versta veg dregur hugann frá hættunni. Hausinn er sumsé undarlegur.

Á leiðinni horfði ég þrjá þætti af Atlantic Crossing þar sem Svíar eru helstu óþokkarnir. Sérstaklega kóngurinn. Ég ætti kannski að lesa mér til um sögulega nákvæmni.

Við lentum og ég hoppaði snöggt í gegnum fríhöfnina (ekki kaupi ég áfengi eða sígarettur) og fór síðan að færibandinu. Þar kom fram að töskur frá London væru á leiðinni á bandið. Þannig að ég beið. Og beið. Loksins kom einn bakpoki og skiltið tilkynnti að allar töskurnar væru komnar. Ég var gáttaður. Ég fór að þjónustuborðinu þar var mér sagt að einungis tuttugu töskur hefðu verið settar í vélina í London.

Það fer óendanlega í taugarnar á mér að Icelandair hafi vitað að flestar töskurnar hafi orðið eftir í London en látið vera að tilkynna okkur það. Bara létu okkur standa og bíða við færibandið. Það er líka ömurlegt að það var enginn sem varaði okkur við að allt væri í rugli á Heathrow. Það var ekki óvænt það virtist hafa staðið yfir í töluverðan tíma.

Fyrir utan að það er ömurlegt að fá ekki töskuna var ég í vandræðum af því að ég hafði ekki tekið lyklana úr ferðatöskunni eins og ég ætlaði. Ruglið á Heathrow (og þrengslin á hótelinu) kom í veg fyrir það. Verra var að það var enginn heima. Ég nefndi við starfsmann að ég væri mögulega læstur úti og hann brást við með því að útskýra fyrir mér að það væri ekki góð hugmynd að hafa húslykla í innrituðum farangri. Ég hvæsti smá að honum en ég stoppaði mig áður en ég útskýrði ítarlega fyrir honum að smá viðvörun um ástandið á Heathrow hefði komið í veg fyrir þetta.

Þannig að klukkan var um miðnætti og ég þurfti að fara að bögga fólk til að redda varalyklum. Lukkulega var Árný frænka í borginni og gat komið útidyralyklinum heim til mín en hún hefir haft varalykilinn svo lengi að það var ekki lykill að nýja lásnum á forstofuhurðinni á kippunni. Þannig að ég hafði samband við þann nágranna sem mér þótti líklegastur til að vera vakandi og mér var reddað inn um forstofudyrnar og komst því heim. Gott að eiga góða granna og frænku.

Næstu daga fylgdist ég með fréttum af Heathrow. Það var ekki bara allt í rugli hjá brottfararfarþegum heldur þurftu komufarþegar líka að þola að töskurnar þeirra týndust. Á mánudeginum voru ótal flug felld niður og þá virðist hafa náðst að finna til eitthvað af farangrinum, allavega fékk ég töskuna mína í dag, þriðjudag og allt var á sínum stað þó ég hafi smá áhyggjur af óhreinu fötunum sem hafa fengið að gerjast þarna síðan á föstudaginn.

Utangarðsmaður á rokktónleikum í London

Árin eftir að Freddie Mercury dó gáfu bæði Brian May, gítarleikari Queen, og Roger Taylor, trommari hljómsveitarinnar, út sólóplötur og fóru á tónleikaferðir. Þá dreymdi mig um að fara á slíka tónleika. Ég var sérstaklega hrifinn af efni Roger Taylor. Happiness? og Electric Fire. Ég man eftir að hafa reynt að sannfæra skólafélaga minn um ágæti Happiness? og þegar ég sagði að þetta væri trommari Queen þá datt honum ekki annað í hug en að þetta væru endalaus trommusóló. En auðvitað spilar Roger á ótal hljóðfæri.

Þegar ég byrjaði að stunda utanlandsferðir voru Roger og Brian ekki að spila eigið efni reglulega. Í staðinn fóru þeir félagar að spila saman undir “Queen+” nafninu. Ég hef farið á þrenna slíka tónleika en mig langaði ennþá að heyra þá spila sólóefnið.

Þeir félagarnir ætluðu að fara í tónleikaferð sem Queen+ Adam Lambert núna í fyrra en þurftu að fresta. Það verður bara á næsta ári í staðinn. En síðan heyrðist orðrómur um að Roger Taylor væri að taka upp nýja plötu. Það varð síðan meira spennandi þegar það var staðfest að það væri ekki bara platan Outsider heldur líka tónleikaferð um Bretland.

Ég keypti miða strax. En ég þorði ekki að kaupa flugferð strax. Ég beið aðeins. Ég bókaði ótrúlega ódýrt hótel með ákaflega góðum afbókunarskilmálum (langaði auðvitað að kíkja á hótelið sem er með útsýni yfir gamla húsið hans Freddie). Beið aðeins lengur. Bókaði flug. Keypti nokkra leikhúsmiða.

Ég átti erfitt með að velja sýningar til að fara á enda úrvalið ennþá aðeins takmarkað. Þar sem ég er aðdáandi söngkonu sem heitir Samantha Barks (Les Mis myndin) þá ákvað ég að kíkja hvað hún væri að gera. Hún er í aðalhlutverki í Frozen-söngleiknum. Ég sá ekki fyrir mér að það liti vel út að vera 42 ára kallinn í leikhúsi fullu af ungum stelpum. Meira af vali mínu hér neðar.

Ég þurfti að fylgjast vel með Covid-19 skilyrðum í Bretlandi. Að lokum var það þannig að ég þurfti bara að mæta með bólusetningarvottorð og bókun í smitpróf á öðrum degi ferðarinnar. Smitprófið átti bara að senda á hótelið og það fylgdi með svarumslag fyrir sýnið.

Fimmtudagur (útferð og 11. september)

Ég flaug snemma á fimmtudagsmorgun og var lentur um hádegi. Neðanjarðarlest á hótelið. Ég ætlaði að nota bara kort til að borga í lestarnar eins og síðast en kreditkortið mitt er með ónýta örflögu og debetkortinu var hafnað. Ég þurfti því að kaupa ostrukort.

Hótelið er staðsett í Fulham. Heitir Ibis London Earls Court. Sjúskað en ekki sóðalegt. Smá lúr, ekki nógu langur. Leið eins og ég allur væri lurkum laminn. Fór niður í Soho. Svo heppilega vildi til að það var nýopnuð skyndibúð í Karnabæ. Sú heitir Queen The Greatest og er tileinkuð fimmtíu ára afmæli Queen.

Queenbúðin selur Queenvörur. Ég skoðaði mikið en keypti ekki margt. Auðvitað langaði mig að kaupa Queenboli á drengina mína og stóð við borðið þar sem barnastærðirnar voru. Ég lenti tvisvar í því að starfsfólk kom mjög alvarlegt til mín og útskýrði að bolirnir væru fyrir krakka. Ég sagðist vita það. Fann rúmleg númer fyrir strákana.

Ég var kominn í tímaþröng og gat ekki fundið neinn góðan veitingastað þannig að ég hoppaði inn á skyndibitastað sem heitir Slim Chickens. Ég fékk kjúklingavængi sem voru ekki sérstaklega góðir. Verra var samt að það var enginn vaskur á klósettinu. Enginn vaskur á klósettinu! Ef þið hafið borðað kjúklingavængi sjáið þið kannski vandamálið. Þetta er fingramatur. Vængirnir voru hjúpaðir sósu. Sumsé klístrað. Ég gat ekki þvegið mér. Lausnin? Ég notaði töluvert magn af spritti til að ná því mesta af mér.

Rétt hjá kjúklingastaðnum var staður sem virtist koma vera tímaferðalangur. “Live Nudes” og “Peep Show” er ekki beinlínis eitthvað sem er á hverju horni í Soho 21. aldarinnar. Meira eitthvað frá sjöunda og áttunda áratugnum. Ég skoðaði ekki vandlega en eftir að Cory Doctorow birti mynd af sama stað ákvað ég að leita að upplýsingum. Kemur í ljós að þetta er mexíkanskur veitingastaður.

Það var í kringum 11. september þar sem ég var að skoða mögulegar leikhúsferðir. Mögulega hafði allt tal um tuttugu ára afmælið þau áhrif að ég keypti miða á Come from Away. Það er söngleikur um 11. september 2001. Við hin eldri munum mörg eftir því að eftir hryðjuverkin voru allar flugvélar í lofthelgi Bandaríkjanna sendar á kanadíska flugvelli.

Áður en þotutæknin varð til þess að hægt var fljúga lengri vegalengdir þurfti að millilenda til að taka eldsneyti. Mig minnir að Keflavík hafi sinnt slíku hlutverki. Smábærinn Gander á Nýfundnalandi varð líka miðstöð fyrir millilendingar. Þannig að þar varð til risavaxinn flugvöllur sem varð fljótlega úreltur.

Þann 11. september 2001 þurftu ótal þotur að lenda á öruggum stað, helst fjarri fjölmennri byggð. Þrjátíu og átta farþegavélar lentu í Gander. Skyndilega tvöfaldaðist nær mannfjöldinn. Söngleikurinn fjallar um þetta aðallega í gamansömum tón með nokkrum dökkum atriðum. Þetta var eiginlega of skrýtið til að sleppa og ég sá ekki eftir því. Það sátu samt engin lög eftir í höfðinu á mér.

Í röðinni í leikhúsið þurfti ég að sýna bólusetningarvottorðið, eins og ég þurfti að gera á öllum slíkum samkomum. Það var hins vegar skrýtið að sjá hve fáir voru með grímur í salnum (og almennt í London miðað við stöðuna og reglur).

Föstudagur (Roger Taylor í Shepherd’s Bush)

Ég var ótrúlega þreyttur þegar ég kom á hótelið og mig langaði til að sofa af mér föstudaginn. Ég gerði það ekki alveg en ég afrekaði ekki mikið. Ég íhugaði að kíkja á nuddstofu í götunni en ég veit bara ekkert hvernig maður sér muninn á nuddstofu og “nuddstofu”.

Rétt áður en ég fór af stað á tónleikana kíkti ég við á Rudie’s Jerk Shack. Það er lítil keðja af jamaískum veitingastöðum. Ég keypti aftur kjúklingavængi og hafði franskar með. Fyrsti bitinn var ekki góður. Líka alltof sterkur. En þetta varð fljótt ákaflega gott. Samt sterkt.

Yfirgrundin ferjaði mig til Shepherd’s Bush þar sem tónleikarnir voru. Þar sem munnurinn minn var enn logandi ákvað að ég að kíkja í Waitrose og finna eitthvað til að slökkva eldinn. Hér áður fyrr hefði ég notað kók eða annað gos en í staðinn greip ég kanilsnúð. Það dugði.

Það var áhugavert að heimsækja matvöruverslanir í London. Víða voru afsakanir varðandi vöruskort. Brexit er sumsé alveg að virka. Í Waitrose þótti mér fyndið að sjá osta merkta með “inniheldur mjólkurvörur”. Ég ætlaði að taka mynd en hugsaði með sjálfum mér að myndi yrði kannski notuð af fólki sem telur þetta tengjast hruni vestrænnar siðmenningar.

Tónleikastaðurinn er sögufrægur, Shepard’s Bush Empire. Það opnaði árið 1903 og samkvæmt Wikipediu kom sjálfur Chaplin fram á sviðinu. Lengi var salurinn notaður fyrir upptökur og útsendingar BBC.

Brian og Roger hafa báðir spilað áður í salnum. Sjálfur John Deacon spilaði þarna árið 1995 með SAS band, næstsíðustu tónleikar hans til þessa (spilaði síðast 1997 með Brian, Roger og Elton John undir dansi hjá Bejart Ballettinum).

Röðin við Shepherd's Bush Empire
Ég aftastur í röðinni. Það kom reyndar fljótlega fólk fyrir aftan mig.

Síðasta tónleikaferð Roger á sólóferlinum var 1998-99. Þannig að ég hafði beðið lengi. Ég beið í svona tvo klukkutíma í röðinni. Ég var ennþá aumur í líkamanum eftir flugið daginn áður þannig að þetta voru ekki notalegar stundir. Ég nennti ekki einu sinni að spjalla við fólk í röðinni. Nema reyndar stúlkuna sem var á eftir mér í röðinni.

Ég var alltaf að horfa á hana að velta fyrir mér hvers vegna hún væri svona kunnugleg. Ég áttaði mig skyndilega hvers vegna. Sama hárgreiðsla og stór gleraugu (á nútímamælikvarða). Stór gleraugu á samtíma mælikvarða – ekki endilega níunda áratugs. Ég afsakaði mig við stúlkuna og útskýrði á að hún minnti mig mjög á systur mína. Ég nefndi ekki að útlitslega séð væri hún eiginlega blanda af mér (á unglingsárum) og Önnu.

Þegar ég kom inn bölvaði ég sjálfum mér töluvert fyrir að hafa ekki keypt sæti á svölunum. Lítið í því að gera þannig að ég fór aftast í salinn og settist niður þar meðan ég beið. Gat um leið dáðst að þessum fallega tónleikasal.

Ég heyrði líka fólk tala um að grímur væru óþarfar. Miðað við smitþróun í London var ég ekki jafn bjartsýnn. Ég hugsaði líka um hve auðvelt væri að dreifa sýklum með því að syngja hástöfum með lögunum.

Upphitunaratriðið var Colin MacLeod (líklega yngri bróðir Connor). Mjög fínn en ég var ekki í neinu stuði. Ég var glaðastur með að setjast aftur niður þegar hann fór af sviði.

Þegar klukkan fór að nálgast níu byrjuðu kunnuglegir tónar að heyrast. Ekki Roger eða Queen. Það var Hoppípolla með Sigur Rós. Lagið boðaði augljóslega upphaf tónleikanna. Ég gladdist mjög. Fékk smá orku. Langaði að vera gaurinn sem talar um að vera frá Íslandi.

Síðan kemur Roger og fyrsta lagið hans var Strange Frontier. Nú er það þannig að ég hef aldrei verið jafn hrifinn af eldri sólóplötum hans. Það er Strange Frontier og Fun in Space. Ég eignaðist þær seint og síðarmeir. Happiness? og Electric Fire fékk ég 15 og 19 ára gamall. Ég man gleðina sem fylgdi því að finna Happiness? í skammlífri plötubúð (HP?) í göngugötunni á Akureyri. Það er erfitt að jafna tilfinningatengsl táningsins við tónlist. En Strange Frontier er frábært lag.

Næst tók Roger lagið Tenement Funster. Það er af Queenplötunni Sheer Heart Attack. Það gaf tóninn fyrir tónleikana.

And my rock’n’roll forty fives
Been enragin’ the folks on the lower floor

Roger hefur alltaf verið nostalgískur sem textasmiður og yrkir gjarnan um sín yngri ár. En þemað var ekki um persónulegar upplifanir heldur sameiginleg tengsl okkar við rokktónlist. Í raun mætti kalla þessa tónleika ástarbréf til rokksins.

Auðvitað er þemað ekki algilt eins og næsta lag sýnir okkur. Það var We’re All Just Trying To Get By af nýju plötunni Outsider. Það lag fjallar beint og óbeint um heimsfaraldurinn sem við upplifum núna. Frekar ljúft og fallegt.

Næsta laga var síðan eitt uppáhaldið mitt af Electric Fire, A Nation of Haircuts. Ég hef alltaf sett lagið í samhengi við “Cool Britannia”. Brit popp varð vinsælt og það var aftur fínt að vera breskur. En það er vissulega smá sjálfsháð í textanum enda Roger alltaf verið meðvitaður um ímynd sína. Það var yndisleg tilfinning að syngja með í viðlaginu.

And we salute you all you groovy dudes
Yeah we salute you you’re so fucking cool

These Are The Days Of Our Lives er lag sem er óþarfi að kynna fyrir Queenaðdáendum. Hápunktur Rogerískrar fortíðarþrá sem fékk aðra og dýpri merkingu eftir dauða Freddie. Bókstaflega síðasta skotið af honum í tónlistarmyndbandi er hann að segja “I still love you” sem ég hef alltaf litið á sem vísun í Love of My Life. Kjarni Rogers kemur hins vegar skýrt fram í eftirfarandi línum.

No use in sitting and thinkin’ on what you did
When you can lay back and enjoy it through your kids

Það var líka gaman að sjá börnin hans mætt til að sjá gamla kallinn. Ég þekkti reyndar bara tvö þeirra, Tigerlily (sem hannaði hið minímalíska og áhrifaríka umslag Outsider) og Rufus (núverandi trommari The Darkness).

Árið 2013 gaf Roger út plötuna Fun on Earth. Þar má finna lagið Up sem kom næst. Ég hef aldrei grennslast fyrir um það en textinn minnir mig á samnefnda mynd.

Queen var aldrei pólitísk hljómsveit en sem sólólistamaður hefur Roger ort töluvert um skoðanir sínar. Mig grunar að það hafi alveg haft áhrif á mig, sérstaklega Happiness? platan og nánar tiltekið lögin Nazis 1994 og Dear Mr. Murdoch. Þau lög voru ekki spiluð í þetta sinn. En í staðinn fengum við glænýtt lag sem heitir Gangsters Are Running This World.

Absolutely Anything er líka af Outsider. Það er þó nokkuð eldra. Lagið var samið fyrir samnefnda kvikmynd frá árinu 2015 sem Terry Jones leiksstýrði. Ég hef aldrei séð myndina en Roger segir að hún hafi fengið ósanngjarna dóma. Ég þori varla að horfa.

Það er erfitt að ímynda sér Queen syngja um heimilisofbeldi en það gerir Roger í laginu Surrender af Electric Fire. Ég hef aldrei heyrt baksögu lagsins nákvæmlega en Roger hefur staðfest að það byggi á persónulegri reynslu. Miðað við að foreldrar hans skildu þegar hann var ungur liggur ákveðin túlkun í augum uppi. Hér tók Tna Keys (Christina Hizon) að sér að syngja á móti Roger.

No hope left, just pain
Whiskey on his breath, violence in his brain
Scared kids, with scarred minds

Að öðrum ólöstuðum (og að Roger undanskildum) var Tna Keys stjarna kvöldsins. Hún spilaði á hljómborð, fiðlu og trommur auk þess að syngja. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar voru mér góðkunnir en hún kom fersk inn, glöð og hæfileikarík.

Man on Fire var á Strange Frontier. Platan innihélt líka lag eftir Bruce Springsteen en þetta lag minnir mig einmitt alltaf á “The Boss”. Kannski er það raddbeitingin, kannski textinn, líklega bæði. En það er allavega gaman að syngja með.

Styrkur hljómsveitarinnar sem Roger setti saman fyrir tónleikaferðina sást best þegar hann sjálfur tók sér pásu og leyfði þeim að spreyta sig á Queenlaginu Rock It (Prime Jive). Það var trommarinn Tyler Warren sem tók að sér að syngja lagið. Hann kom inn í Queenfjölskylduna í gegnum farandssýninguna Queen Extravaganza sem hefur heimsótt Ísland. Hann hefur líka tekið að sér trommuslátt á tónleikaferðum Queen+ Adam Lambert. Líkt og á þessum tónleikum tekur Roger alltaf ennþá nokkur lög en hann er 72 ára og Tyler gefur honum tækifæri á að spara kraftana.

Með Rock It kom eitt af þessum yndislega sterku upplifunum þegar áhorfendur syngja með og, allavega ég, fara að trúa bókstaflega á boðskap tónlistarinnar.

When I hear that rock and roll
It gets down to my soul
When it’s real rock and roll
Oh rock and roll

Það er löngu þekkt að af Queen þá var Roger alltaf stærsti aðdáandi David Bowie og naut þess mest að taka upp Under Pressure með honum (það eru til ýktar sögur um árekstra Brian og Bowie). Hann syrgir Bowie enn og tók auðvitað lagið þeirra.

Brian og Roger unnu lengi með Nelson Mandela til að vekja athygli á alnæmisfaraldrinum í Afríku. Fyrsta lagið sem þeir tóku upp með Paul Rodgers, Say it’s Not True, var einmitt til stuðnings því verkefni (46664). Roger tók lagið líka plötunni Fun on Earth. Það er erfitt að líta framhjá hve vel textinn endurspeglar ástandið í heiminum í dag. Ég söng allavega mjög innilega með.

With the wonders of science
All the knowledge we’ve stored
Magic cocktails for lives
People just can’t afford

Næsta lag var kynnt með vísun í kvikmyndina Bohemian Rhapsody. Roger taldi að ill hafi verið farið með lagið þar. Gert of mikið grín að því. Við tónleikagestir glöddumst allavega mjög að syngja með I’m in Love with My Car.

Titillag plötunnar Outsider er þema tónleikana í hnotskurn. Ekki af því að það fjallar um rokk heldur af því það fjallar um að vera utangarðs sem hefur alltaf verið stór hluti sjálfsmyndar rokksins. Það má segja að það hafi verið fáránleg hugmynd þegar Queen var upp á sitt besta en í dag lítur það stundum út fyrir að rokkið sé aftur komið utan garðs.

More Kicks er af nýju plötunni og sýnir mjög vel það sem ég hef verið að nefna.

I was young and stupid
I didn’t feel no pain
I was looking for trouble
I didn’t feel no shame

Sparkið sem lagið vísar til er þó augljóslega trommuleikur og því viðeigandi að Tyler og Roger hafi saman tekið smá trommueinvígi í kjölfarið. Mjög gaman. Mikið rokk.

Eina lagið sem spilað var af Happiness? var í hálfgerðum felulitum. Það er Foreign Sand. Á þeirri plötu var það flutt með japanska tónlistarmanninum Yoshiki. Roger endurgerði lagið fyrir Outsider, strípaði það niður í einfaldan og fallegan búning. En áhorfendur á þessum túr hafa tekið sig til og gert það að hefð að taka undir á óvenjulegan hátt.

It’s not a lie, it’s not a shame we play for keeps, it’s not a scam
No bigotry, we’re hand in hand, it ain’t a cinch, we make a stand
We learn to live on foreign sand
Just say hello

Textinn er einlægur og endurspeglar afstöðu Roger til heimsins. En þegar hann söng “Just say hello” svara áhorfendur með eigin “Hello”. Roger hálfskammaði okkar og sagði “It’s supposed to be a serious song”. Ég held að hann hafi ekki alveg vitað hvað honum ætti að finnast um þetta uppátæki.

Little Richard lést í fyrra en Roger sagði að hann lifði áfram í huga hans. Tutti Frutti er auðvitað ein helsta varðan frá upphafsárum rokksins. Queen tók lagið nokkrum sinnum á tónleikum og má heyra það á Live at Wembley plötunni. Útgáfa Rogers var frekar trú upphaflega hljómnum (en þó meira í rokkabillí enda gítardrifið).

Fyrir tónleikana var sterkur orðrómur um að Brian May myndi láta sjá sig. Auðvitað þorði ég ekki að trúa því. En þegar Tutti Frutti virtist vera að lokum komið þá heyrðist kunnuglegur tónn og hávaxinn grákrullóttur maður steig á svið. Þá var Tutti Frutti keyrt aftur í gegn, nú með þyngri tón. Gleðin í salnum var algjör.

Brian May kemur á svið með Roger Taylor í Shepherd's Bush Empire 22. október 2021
Ég náði bestu myndina af félögunum Brian og Roger á sviði.

Brian var líka með í næsta lagi, Queenlagi eftir Roger úr kvikmyndinni Highlander. A Kind Of Magic hefur aldrei verið uppáhalds hjá mér en það voru galdrar þarna í Sheperd’s Bush Empire og gleðin endalaus.

Allir yfirgáfu sviðið og eftir málamyndauppklapp kom hljómsveitin aftur á svið. Þá tók Roger smá Zeppelin stund og spilaði Rock & Roll. Þema tónleikanna var ekki óljóst á þeirri stundu.

Í kjölfarið heiðraði Roger aftur minningu Bowie, í þetta skiptið með laginu Heroes.

Lokalag tónleikanna var stærsti smellur Roger og eitt fyrsta Queenlagið sem ég man eftir. Radio Ga Ga. Það var hreint yndislegt að fylgjast með (og taka þátt) áheyrendum lyfta höndum og klappa í anda tónlistarmyndbandsins. Mér skilst að, ólíkt We Will Rock You, hafi þessi hefð skapast alveg óvart.

Við klöppuðum, hljómsveitin yfirgaf sviðið, ljósin kveikt og þegar ég sá fjölskyldu Roger taka saman föggur sínar vissi ég að það yrði ekkert auka uppklapp.

Þegar ég kom við í Queenbúðinni í Karnabæ greip ég bæði Outsider og nýju útgáfuna af Back to the Light með Brian May í von um áritanir. Ég ákvað að hanga þarna og sjá hvort ég myndi hitta á annan hvorn eða báða. Ég vissi að Roger hafði áritað eftir suma tónleika þannig að ég var vongóður. En þegar á leið heyrði ég að líklega yrði ekkert svoleiðis vegna Covid.

Allavega fékk ég gott hrós fyrir grímuna og myndina á töskunni minni. Bæði Trap Jaw.

Ég heyrði sögu frá stúlku sem talaði með írskum hreim en sagðist vera ensk. Hún hafði brugðið sér á salernið og lenti í því að einhver stór gaur var í dyrunum að horfa á tónleikana. Hún bað hann um að færa sig og hann biðst innilegrar afsökunar á meðan hún missti andlitið. Þetta var Brian May.

Það voru líka gaurar að spjalla, annar frá Írlandi og hinn frá Brasilíu. Allt í góðu þar til forseti Brasilíu var nefndur. Þá kom gaurinn forseta sínum til varnar og sagði það gott að hafa sterkan mann. Augnabliki seinna þurfti Írinn að fara.

Við sáum töluvert af börnum Roger að rölta inn og út. Ég sá ekki Tim Staffell, þriðja meðlim Smile en hann var víst líka svæðinu.

Að lokum fór svo að Roger yfirgaf staðinn í bíl. Ég var að vonast eftir því að hann myndi kasta á okkur kveðju þar sem hann var með opinn glugga en auðvitað var það skemmt. Gaur sem var greinilega að taka upp á síma tróð sér upp að bílnum og kallaði spurningar til Roger sem nennti greinilega engu svoleiðis.

Ég var mjög þreyttur. Þyrstur. Svangur. Yfir- og undirgrundirnar voru hættar að ganga. Ég var ótrúlega glaður að sjá M&S Simply Food ennþá opið rétt hjá. Í raun hálfgerð bensínstöðvarsjoppa. Ég rölti þangað og greip fjórar flöskur af kolsýrðu vatni. Á leiðinni að kassanum sá ég samlokur og ákvað að taka eina með skinku af osti. Þegar ég ætlaði að borga sagði afgreiðslumaðurinn eitthvað illskiljanlegt. Ég hváði. Hann endurtók og ég áttaði mig á að hann var að bjóða mér að hita samlokuna. Þakklæti mitt var endalaust og þarna náði hann breyta snarli í máltíð.

Þrátt fyrir að strætisvagnarnir séu eitt helsta einkennistákn London hef ég aldrei notað þá. Þó það hafi ekki verið nema rúmlega 30-40 mínútna labb að hótelinu hafði ég enga orku. Ég kom mér á strætóstöðina og beið ekkert rosalega lengi. Get ekki sagt að ferðin hafi verið merkileg lífsreynsla. Ég þurfti að ganga í svona tíu mínútur að hótelinu. Ég fékk smá nasaþef af hinu fræga næturlífi London. Einn fullur að pissa. Stúlka sem ég hélt að væri að betla var, þegar betur var séð, greinilega á leiðinni á eða af djamminu. Sat og sötraði gosbjórinn sinn á gangstéttinni.

Laugardagur (nördabúðir, indverskir veitingastaðir og tvö leikrit)

Ég var enn svolítið aumur daginn eftir. Fjárfesti í verkjalyfjum til að draga úr verkjunum. Keypti líka aspirín til að eiga bara heima á Íslandi til að berjast við mígreniköst.

Allar heimsóknir til London krefjast viðkomu í búðum á, og nálægt, Shaftesbury Avenue. Fyrst fór ég í Forbidden Planet. Þar voru margar freistingar. Það var hægt að kaupa Trap Jaw Funko í yfirstærð. Sá ekki fyrir mér að hafa pláss fyrir þann grip. Ákvað í staðinn að kaupa eitt stykki Orko. Ég lagði þó áherslu á að finna eitthvað fyrir strákana. Ég áttaði mig að það er miklu auðveldara að finna eitthvað til að gleðja Ingimar en Gunnstein. Ég hefði kannski gripið einhver Pokemon spil en komst að því að það er skortur á þeim á Bretlandi.

Seinna um daginn heimsótti ég Orc’s Nest. Frábær spilabúð. Á meðan ég var á staðnum sá ég Íslendinga, pabba með tveimur krökkum. Ég ákvað að auglýsa ekki nærværu mína. Langaði að minna þau á að kíkja líka á Forbidden Planet.

Þrátt fyrir góðan vilja hafði ég ekki komið mér á indverskan veitingastað í ferðinni. Sá sem ég ætlaði að heimsækja í nágrenni hótelsins var lokaður. En rétt hjá Forbidden Planet var staður sem heitir Punjab. Í stuttu máli var maturinn frábær þar.

Almennt fer ég frekar á söngleiki en leikrit. En í þetta skiptið rakst ég á tvö leikrit sem heilluðu mig. The Shark is Broken fjallar um samskipti þriggja aðalleikara kvikmyndarinnar Jaws. Höfundur verksins er Ian Shaw, sonur Robert Shaw (T.S. Quint) sem einnig leikur föður sinn. Ég vandaði mig á að horfa á Jaws áður en ég fór út. Man ekki eftir að hafa séð hana áður í góðri upplausn og víðskjá. Ég man ekki eftir að hafa verið hræddur þegar ég sá hana á myndbandsspólu en kannski hefði verið erfiðara að þola þetta í hárri upplausn. B-mynd en góð B-mynd.

Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast við af leikritinu. En sagan og persónurnar voru áhugaverðar. Allavega Shaw og Richard Dreyfuss. Ian nær pabbi sínum, sem lést nokkrum árum eftir tökur á myndinni, ótrúlega vel. Þeir eru líka mjög líkir nema að andlit Robert bar með sér að hann væri “lifaður”. Ian ber aldurinn betur. Ég veit ekki hvort Richard Dreyfuss var jafn óþolandi vælutýpa og leikritið sýnir.

Það hefur lengi verið vitað að samskipti leikara á bak við tjöldin endurspegluðu ´atökin á milli persóna þeirra í myndinni. Þetta þýðir auðvitað að peróna Roy Scheider (lögreglustjórans Brody) er ekki sérstaklega áhugaverð. Hans hlutverk var að miðla málum.

Yfir heildina naut ég sýningarinnar. Ég fékk smá aulahroll yfir sumum bröndurunum sem endurspegluðu sjónarhorn 21. aldarinnar. En áhorfendur voru hrifnir af þeim. Leiksviðið var frekar einfalt en virkaði ágætlega. Ég held að ég sé ekki að höskulda neitt með því að segja að einræða Quint hafi verið hápunktur sýningarinnar.

Það er merkilegt að ég hef áður lent í því að finna ekki laust borð á góðu veitingastöðunum í kringum leikhúsin fyrir kvöldsýningarinnar en ég læri ekki neitt. Fór fram og til baka og endaði á indverskum stað sem var ekki alveg í fyrsta flokki. Vonbrigðin með samósurnar virtust staðfesta ótta minn. Þær hefðu allt eins getað komið úr Iceland. En aðalrétturinn var yndislegur og naanið líka þannig að ég var frekar sáttur. Strand Tandori.

Hitt leikritið sem ég sá í London var Ocean at the End of the Lane, byggt á samnefndri skáldsögu Neil Gaiman. Alveg óvart var laugardagskvöldið fyrsta sýningin á leikritinu, ekki frumsýning heldur forsýning.

“Rafmiðinn” sem ég fékk innihélt ekki sætisnúmer en ég fann það í bókunarpóstinum mínum. Ég settist í sæti sem var frekar framarlega, og fyrir miðju. Eftir augnablik kom kurteis maður og sagði að ég væri í sætinu hans. Þar sem hann var með tveimur öðrum ákvað ég að það væri auðveldara fyrir mig að víkja. Ég fór upp í miðasöluna og fékk staðfestingu á að sætisnúmerið mitt væri rétt. Bara á svölunum. Ímyndið ykkur hve vandræðalegt það hefði verið ef ég hefði ákveðið að vera með vesen við gaurinn sem raunverulega átti sætið. Því miður var raunverulega sætið mitt mjög óþægilegt. Ég þurfti að karlgleiða mig af því ég gaf bókstaflega ekki komið hnjánum mínum fyrir.

Leikhúsið hafði verið lokað í um eitt og hálft ár og það var gleði hjá leikurum og leiksstjóra. Allir spenntir. Það var varað við að mögulega þyrfti að stoppa sýninguna ef eitthvað væri úrskeiðis.

Því miður var ég ekki rosalega hrifinn af leikritinu. Kannski af því að ég elska bókina of mikið. Mögulega var þetta ekki orðið nógu smurt. Sumt í framsetningunni var ekki að heilla mig. Síðan fannst mér gamla frú Hempstock ekki frábærlega leikin. Öldrunargervi hennar var frekar slakt. Sá sem lék pabbann og fullorðna strákinn var ekki heldur að grípa mig.

Ljónastytta á Trafalgar
Ljón fyrir Eygló

Ég ætlaði að rölta niður á Trafalgartorg, sælla minninga, en það var afgirt. Ég náði samt boðlegri mynd af einu ljóninu til að senda á Eygló. Á leiðinni á hótelið lenti ég í djammlest. Reyndar bara milli tveggja stoppistöðva. Beint fyrir framan mig settist ung kona í ótrúlega stuttum kjól. Ég var alveg rosalega einbeitur í að horfa ekki á hana. Grandskoðaði lestarleiðirnar sem voru sýndar fyrir ofan hana.

Fyrr um daginn hafði Covid-19 heimaprófið borist mér á hótelið. Þar sem ég beið eftir lest áttaði ég mig á að ég hefði ekki ennþá klárað það. Ég notaði því tækifærið að stinga pinnanum upp í nefið á mér og setja í litla plastglasið með saltlausninni. Ég fékk síðan penna gefins á hótelinu (Covid!), skrifaði á “umslagið” og stakk í póstkassa rétt hjá. Þar sem þetta var laugardagskvöld var augljós að ég fengi aldrei niðurstöðurnar áður en ég yfirgæfi landið.

Sunnudagur (illkvittni, indverskur og innferð)

Ég vaknaði seint og síðarmeir. Plön dagsins urðu að litlu. Ég fann veitingastað í Soho til að prófa. Hann virkaði frekar “fínn” á mig og enginn matseðill á heimasíðinni. Ég er ekki fínn og ég er hrifinn af matseðlum. Þegar ég kom inn á staðinn leið mér ekkert óþægilega í mínum hversdagsfötum.

Maturinn var æðislegur. Samóskurnar yndislegar. Þeim fylgdi hálfgerður aukaréttur, kjúklingabaunir í frábærri sósu. Allt hitt frábært líka. Mæli með. Masala Zone Soho.

Síðasta leikhúsferð ferðarinnar var á söngleikinn Wicked (baksaga Galdramannsins í Oz). Það var örlítið vanhugsað hjá mér því sýningin er frekar löng. Ég hafði allavega gott sæti. Önnur röð frá sviðinu en lengst til hægri. Útsýnið var örlítið takmarkað en fótaplássið bætti það upp. Ég átti í smá einhliða haturssambandinu við konuna við hliðina á mér. Þegar ég var að leita að sætinu mínu lenti ég í vandræðum af því það var ekki einföld númeraröð á þeim. Hún hafði sett jakkann sinn yfir sætið mitt og faldi þar með númerið. Ég varð mjög pirraður þegar ég áttaði mig á þessu.

Það var ekki mikill tími eftir sýningu. Ég kom mér á hótelið að grípa farangur minn og síðan beint á Heathrow. Ég var auðvitað á góðum tíma. Upplýsingaskiltið sagði mér að bíða til 20:40 eftir að hliðarnúmerið yrði birt.

Það var ekki um margt matarkyns að velja á flugvellinum. Endaði með að fá burrito á Pret A Manger. Alveg boðlegt.

Þegar ég fór að athuga hvort hliðarnúmerið mitt væri komið biðu mín frekar óvænt, og óþægileg, skilaboð. “Hliðið” var lengst í burtu og krafðist þess að nota skutlu. Ég þurfti því að drífa mig óhóflega hratt sem var ekki best miðað við þreytustig mitt.

Lítið meira að segja. Flugið óspennandi, sem er gott, og óáhugaverð rútu- og leigubílaferð. Gott að komast heim.

Á þriðjudaginn fór ég Covid-hraðpróf og fékk úr því á nær nákvæmlega sama tíma og úr breska prófinu. Fékk sumsé tvö nei. Ekki óvænt miðað við hve passasamur ég var.

Fölnuð málning og friðardúfur?

Tákn friðar og ofbeldis á Norður Írlandi

[Skrifað eftir heimsókn til Derry sumarið 2008 og birtist fyrst í tímaritinu Ský]

Derry/Londonderry er næststærsta borg á Norður Írlandi. Þessi tvískipting á nafninu er ákaflega táknræn. Derry er komið af upprunalega írska nafninu en Londonderry vísar til tengsla við höfuðborg Englands. Bæði nöfnin eru í raun opinber, annað frá sjónarhóli breskrar stjórnsýslu en hitt á sveitastjórnarstiginu á Norður Írlandi. Derry er notað af lýðveldissinnum sem eru almennt kaþólikkar en Londonderry af sambandssinnum sem eru almennt mótmælendur. Derry er þó algengara heitið.

Bogside
Bogside

Síðustu ár hefur verið friðsælt í Derry en svo hefur ekki alltaf verið.
Borgin stendur rétt við landmærin að írska lýðveldinu og meirihluti borgarbúa eru kaþólikkar. Á sjöunda áratugnum blossuðu upp óeirðir í borginni. Það voru margar ástæður fyrir óánægjunni. Húsnæðismál voru ofarlega þar á baugi þar sem erfitt var fyrir kaþólikka að komast í húsnæði á vegum borgarinnar. Kosningaréttur var ekki heldur jafn í borginni. Kjördæmi voru afmörkuð þannig að vægi atkvæða kaþólikka var minna en mótmælenda og þar að auki var atkvæðisréttur tengdur því að menn ættu fasteignir.

Ég við vegginn fræga
Ég við vegginn fræga

Á tímabili tóku lýðveldissinnar sig til og notuðu vegatálma til að afmarka hverfi kaþólikka í Derry. Í kjölfarið var máluð setning á vegg sem er enn viðhaldið. “You are now entering Free Derry” – “Þú ert að koma inn í Frjálsu Derry”. Hápunktur átakanna í Derry, og líklega á Norður Írlandi í heild, var að sennilega hinn svokallaði Blóðugi sunnudagur þar sem breskir hermenn skutu 14 óvopnaða borgara til bana og særðu 13 í viðbót.

Bloody Sunday
Bloody Sunday

Í dag er öldin önnur. Götur Derry eru friðsælar. En fortíðin er allsstaðar. Veggmyndir hafa í gegnum tíðina verið algengt tákn í áróðursstríðinu á Norður Írlandi. Frægustu myndirnar í dag eru væntanlega í Derry. Þar eru myndir málaðar af hóp listamanna sem kenna sig við kaþólska hverfið Bogside þar sem þær eru. Myndirnar eru úthugsaðar. Þær sýna sögu baráttunnar í borginni. Þarna eru myndir af fórnarlömbum Blóðuga sunnudagsins ásamt myndum af öðrum sem létust í ofbeldinu. Óhugnanlegustu myndirnir eru af börnum. Annars vegar 14 ára stúlku sem var skotin til bana af breskum hermönnum og hins vegar ungum dreng sem heldur á bensínsprengju.

 

Annette McGavigan, 14 ára, var myrt af breskum hermanni árið 1971.
Annette McGavigan, 14 ára, var myrt af breskum hermanni árið 1971.
Drengur með bensínsprengju
Drengur með bensínsprengju

Þarna má líka sjá mynd af Bernadette Devlin sem stjórnaði baráttunni í Bogside og var kosin á breska þingið. Á þinginu kýldi hún breska innanríkisráðherrann og hárreitti þegar henni var neitað um að tjá sig um ofbeldið á Blóðuga sunnudeginum sem hún hafði orðið vitni að. Einnig er mynd af föngum sem létust í hungurverkfalli í upphafi níunda áratugarins.

Bernadette Devlin
Bernadette Devlin
Fórnarlömb hungurverkfallsins
Fórnarlömb hungurverkfallsins
Friðardúfa
Friðardúfa

Mynd af friðardúfu er síðust í röðinni. Á yfirborðinu er þessi mynd óður til friðarins. Á upplýsingaskilti fyrir framan myndina eru hins vegar skilaboð frá listamönnunum sem sýna að friðurinn er skilyrtur. Þar stendur að friður án frelsis sé ekki mögulegur. Hið umrædda frelsi er þá að öllum líkindum tengt sameiningu við írska lýðveldið. Það er önnur mynd tengd hungurverkfallinu sem ekki er tengd Bogside listamönnunum. Þar eru nöfn þeirra sem létust í hungurverkfallinu rituð á vegg fangaklefa en þakið hefur verið rofið og þar flýgur fugl í frelsið. Hann táknar væntanlega anda þeirra sem létust.

Fangar sem létust í hungurverkfalli
Fangar sem létust í hungurverkfalli

Bogside hverfið er hlaðið táknum. “Free Derry” veggurinn stendur þarna enn. Á svæðinu eru líka ótal írskir fánar á ljósastaurum sem flestir eru málaðir grænir, hvítir og appelsínugulir. Sömu litir eru á gangstéttarbrúnum. Á leikvöllum við skóla eru írsku fánalitirnir líka notaðar til að afmánaarka leiksvæðin. Þetta eru skýr tákn um að íbúarnir telji að svæðið eigi að tilheyra írska lýðveldinu. En það sjást fleiri fánar.

Karlsvagninn
Karlsvagninn
Fánar Palestínumanna og Baska
Fánar Palestínumanna og Baska

Meðal þeirra er blár fáni með stjörnumerkinu karlsvagninum en hann er tákn lýðveldissinnaðra sósíalista (IRMA) sem bera ábyrgð á ýmsum ofbeldisverkum á Norður Írlandi. Rétt hjá hangir fáni basknesku sjálfsstæðishreyfingarinnar ETA.

Stutt frá má sjá veggmynd af Che Guevera þar sem lögð er áhersla á írskt ætterni hans. Á sama svæði má líka sjá margar vísanir í baráttu Palestínumanna. Á einum stað má sjá fána Írlands og Palestínu renna saman í eitt.

Önnur tákn á svæðinu eru óformlegri. Krass og krot innihalda oft grófari skilaboð. Á húsþaki sem snýr að hverfi mótmælenda stendur RIRA RULES.
Skammstöfunin stendur fyrir Real Irish Republican Army og er klofningshópur úr írska lýðveldishernum sem ekki vildi leggja niður vopn eftir friðarsamkomulögin á tíunda áratugnum. Samtökin eru þekktust fyrir sprengingar í bænum Omagh á Norður Írlandi þar sem tuttugu og níu manns létust og yfir tvöhundruð slösuðust.

“SINN FEIN SCUM” og aðrar áletranir með nafni stjórnmálaflokksins benda til þess að margir telji að flokkurinn hafi svikið lit með þátttöku sinni í friðarferlinu. BRY er algengt krot, það stendur fyrir Bogside Republican Youth, ungir lýðveldissinnar í Bogside hverfinu.

Borgarmúrar verja "Fountain" hverfi mótmælenda.
Borgarmúrar verja “Fountain” hverfi mótmælenda.

Í öðrum borgarhluta er hægt að sjá hina hliðina. Borgarmúrarnir og háar girðingar takmarka aðgang að Fountain hverfinu. Þar búa sambandssinnar af mótmælendatrú. Táknin þar vísa til Bretlands og sambandsfáninn blaktir víðsvegar.

Fánar Englands, Skotlands, Wales and Ulster umkringja breska fánann
Fánar Englands, Skotlands, Wales and Ulster umkringja breska fánann

Kantsteinar eru málaðir bláir, hvítir og rauðir. Á svæðinu eru veggmyndir eins og í Bogside. Sumar eru þær þó áberandi fölnaðar. Mynd af Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseta og tilvitnun þar sem hann áréttar að forfeður hans hafi verið mótmælendur sem börðust við kaþólikka á Írlandi.

Teddy Roosevelt
Teddy Roosevelt

Þarna má líka sjá myndir þar sem vísað í bandalag Ulster (héraðið sem Norður Írland tilheyrir samkvæmt fornri írskri skiptingu) og Bretlands.

No Surrender
No Surrender

Þær veggmyndir sem best er viðhaldið í Fountain hverfinu eru við æskulýðsklúbb (Cathedral Youth Club) á svæðinu. Meðal mynda þar er merki Ulster Defence Association sem eru samtök sambandssinna sem stunduðu vopnaða baráttu.

Lindsey Mooney meðlimur UDA lést árið 1973 þegar sprengja sprakk of snemma.
Lindsey Mooney meðlimur UDA lést árið 1973 þegar sprengja sprakk of snemma.
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)

Orrustan við Somme í Seinni heimstyrjöldinni er sterk táknmynd sambandssinna. Í orrustunni létust margir írskir sjálfboðaliðar sem flestir voru úr röðum sambandssinna. En vísunin er einnig tengd páskauppreisn írskra lýðveldissinna í Dublin sem lýðveldissinnar vísa oft í. Sú uppreisn var álitin gróf svik enda var tilgangur hennar að nýta sér bága stöðu Breta vegna heimsstyrjaldarinnar. Þessir atburðir áttu báðir sér stað árið 1916.

Í hverfi mótmælenda
Í hverfi mótmælenda

Á einum vegg er málaður fáni Óraníureglunnar, appelsínugulur með fjólublárri stjörnu, litlum enskum fána í horninu og áletruninni “In God We Trust”. Óraníureglan fagnar árlega sigri Vilhjálms af Óraníu yfir Jakobi II.

West Bank Loyalist Youth
West Bank Loyalist Youth

Á næsta vegg við er mynd með merki West Bank Loyalist Youth sem eru ungir sambandssinnar á svæðinu. Krotið í Fountain hverfinu er sem fyrr segir oft tengt við umsátrið um Derry.

Taigs out
Taigs out

Einnig má sjá áletrunina “Taigs out” en Taig er niðrunarorð yfir kaþólikka. Mikið er um niðrandi vísanir í IRA. Þar að auki má sjá neikvæðni í garð lögreglunnar: “Ef svín gætu flogið væri lögreglustöðin við Strand road flugvöllur”. Annað krot vísar í ýmis samtök, sum vopnuð en önnur minna þekkt. Á einum vegg á niðurníddu húsi er rauð skuggamynd af vopnuðum meðlim Ulster Freedom Force sem eru samtök nátengd Ulster Defense Association. Einhver hefur teiknað bros á þessa óhuggulegu fígúru.

Í hverfi mótmælenda
Í hverfi mótmælenda

Það sem er mest áberandi í Fountain hverfinu er ekki krot og myndir heldur almenn niðurníðsla. Mörg hús eru yfirgefin og mörg þeirra sem enn er búið í eru fátækleg. Þeir sem vilja búa í Fountain hverfinu þurfa líka að búa við stimplunina mótmælandi og sambandssinni í borg sem er að meirihluta byggð kaþólikkum. Það er ekki skrýtið að þeir flytji annað.

Lögreglumenn vakta hverfið. Fölnuð málning og hús í niðurníðslu
Lögreglumenn vakta hverfið. Fölnuð málning og hús í niðurníðslu

Nýlega var afhjúpuð ný veggmynd í Derry, sú tólfta í seríu Bogside listamannanna. Á henni er kaþólikkinn John Hume sem hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir hlut sinn í friðarferlinu ásamt Móður Teresu, Nelson Mandela og Martin Luther King sem einnig hlutu verðlaunin. Sambandssinninn og mótmælandinn David Trimble sem hlaut verðlaunin með Hume fær hins vegar ekki að vera með á myndinni. Enn er friðurinn skilyrtur.

Veggmynd sem var verið að mála þegar ég heimsótti borgina
Veggmynd sem var verið að mála þegar ég heimsótti borgina

Enginn veit hver framtíðin verður í Derry og Norður Írlandi. Tákn baráttunnar eru enn þarna. Hve djúpt rista þessar ögranir? Eru þær bara táknrænnar fyrir fortíðina, menningararfinn, eða þýða þær að ofbeldið gæti blossað upp aftur? Eru myndirnar aðallega fyrir túristana sem vilja sjá minnismerki um ofbeldið? Hvað eru íbúarnir að hugsa?

Saga ofbeldsins í Derry vekur allavega suma til meðvitundar um almenn áhrif vopnaframleiðslu
Saga ofbeldsins í Derry vekur allavega suma til meðvitundar um almenn áhrif vopnaframleiðslu

Hættan er aðallega fólgin í því að ungt fólk sjái ofbeldið í rómantísku ljósi. Menjar óróans eru yfirþyrmandi en hugsanlega koma þær því ekki til skila hve hræðilegt ástandið raunverulega var. Nokkrum dögum eftir að ég yfirgaf Derry var pizzasendill myrtur og upp blossaði ótti við að hér væri afturhvarf til obeldis fyrri ára. Real IRA sem var sakað um morðið neitaði hins vegar sök og líklega var þetta hversdagslegt ofbeldi sem teljast líklega góðar fréttir í Derry.

Myndasafn

LaLegóLandía 2019

Við létum undan þaulskipulögðum og langvarandi þrýstingi frá strákunum okkar og fórum til Lególands. Við keyptum okkur vikuferð með gistingu í sumarhúsabyggðinni Lalandia og tókum tengdamömmu með.

Við fórum út laugardaginn 15. júní. Flugið var tíðindalítið. Það var hálfskrýtið að koma út úr flugstöðinni í Billund og allt í myrkri. Við náðum samt að finna leigubíl sem kom okkur á upplýsingaskrifstofuna.

Skrifstofan, og Lalandia, er í undarlegu húsi sem var gervi-ítalskur bær. Loftið var sérstaklega spes. Það var blár himinn, einhvers konar tjald.

Við fengum lykla en síðan var að finna húsið okkar í myrkri. Það var ekki auðvelt. Það var líka mjög langt frá skrifstofunni. En það tókst.

Húsið var mjög þægilegt. Þrjú svefnherbergi. Ég játa þó að ég bjóst við meiru en hornbaðkari miðað við lýsinguna á “spa pool” sem átti að vera helsta aðdráttaraflið. Síðan fatta ég ekki alveg hvernig hægt er að bjóða upp á svona hús án þess að þar sé brauðrist. Bara fráleitt.

Daginn eftir var rólegt. Ég rölti samt strax yfir í Coop og keypti nauðsynjar og líka þessi yndislegu birkistykki. Við fórum síðan í sundlaugargarðinn í Lalandia. Aquadome. Þar var fullt af rennibrautum en líka sundlaug með öldugangi og önnur hringlaga með straumi. Ég fílaði þá sundlaug sérstaklega vel. Kleinuhringirnir voru bátarnir okkar í flúðum. Við strákarnir fórum hring eftir hring.

Það var líka sána. Ég held að ef Finnland væri í Tíbet þá væri sána álitið einhver hápunktur hugleiðslumenningar. En í staðinn þá eru Finnar bara álitnir fullir, félagsfælnir og skrýtnir.

Við prufuðum líka einhvern veitingastað í Lalandia sem var ekkert spes og þar að auki dýr. Svona svipað og á flestum stöðum í Billund. Reyndar var Deli þarna í Lalandia boðlegt.

Á mánudaginn var Legoland á dagskrá. Við vissum út frá Google-gögnunum að þá yrðu fáir á ferð – enda sumarleyfin varla byrjuð í Danmörku.

Við pældum fram og til baka í miðakaupum. Að lokum keyptum við ársmiða sem borgaði sig af því við stefndum að því að koma nógu oft aftur sem við gerðum og ég set það bara allt í einu frekar en að brjóta það niður á daga.

Það voru töluverðir töfrar í Lególandi. Við byrjuðum bara á að rölta um kubbabyggðirnar. Þar var margt flott. Manni langaði bara að fara sjálfum að kubba og ég keypti líka töluvert af svoleiðis fyrir strákana – eða mig.

Strákarnir fóru í ótal tæki en ég tók oft að mér að halda á töskum og veskjum. Gunnsteinn var rosalega spenntur að fara í tæki sem Ingimar var of lítill fyrir. Við þurftum nokkrum sinnum að áminna hann að monta sig ekki of mikið fyrir framan litla bróður.

Ég hafði gaman af því að fara í nokkra báta, jafnvel þegar það reyndi smá á lofthræðslu mína. Víkingabátur og kajak.

Strákarnir voru líka spenntir fyrir fjórvíddarbíói og við höfðum bara gaman af því líka. Það er hæfilegt að eyða svona fimmtán mínútum með þrívíddargleraugu.

Maturinn í Lególandi var rándýr og ekkert rosalega góður. Boðlegur á köflum reyndar en ekki alltaf. Verst var pylsan sem ég fékk. Ég bað um tómatsósu, remúlaði og sterkt sinnep. Ég bjóst við að tvær fyrrnefndu sósurnar væru ráðandi og sinnepið meira eins og krydd. En nei, það var ekki svo. Sinnepið var meira en helmingurinn af sósunni. Það var skelfilega vont. Sósan var líka frekar lagskipt. Tómatssósan var eiginlega bara neðst.

Á fimmtudag fórum við í Legóhúsið. Það var ákaflega skemmtilegt. Gunnsteinn heillaðist sérstaklega af því að geta búið til svona hreyfimynd með legóköllum og hefði getað farið þar aftur og aftur. Það var líka bara mjög gaman að leika sér að byggja hitt og þetta.

Eftir Legóhúsið dró ég alla með mér á þann veitingastað í Billund sem var með hæstu einkunnina. Bellini. Þar fékk ég dásamlegt lasagna. Allir voru mjög glaðir. Ingimar fékk sér lítinn skammt af frönskum sem var svo stór að okkur langaði næstum að panta stóran skammt til að fá samanburðinn.

Við Eygló röltum út á flugvöll á föstudaginn og náðum í bílaleigubíl. Það átti að vera beinskiptur Renault en var sjálfskiptur Audi. Gaurinn í afgreiðslunni reyndi að sannfæra mig um að fá uppfærslu og nefndi tegund af Audi með aðeins öðruvísi tölu-/stafaröð en sá sem ég átti að fá. Hann virtist álíta að bókstafirnar og tölurnar ættu að vera nóg til að heilla mig og þegar ég spurði hver væri munurinn á bílunum þá gat hann ekkert sagt.

Mér tókst að keyra sjálfskiptan, þrátt fyrir aðstoð Eyglóar, en það var smá átak fyrst. Á laugardaginn skiluðum við af okkur húsinu, settum töskur í geymslu og keyrðum að dýragarðinum í Givskud. Það tók smá á og leiðsöguforritið vildi ekki samþykkja að ég breytti leiðinni minni eða stytti hana.

Það sem heillaði mest þar var að keyra í gegnum heimkynni dýranna. Gíraffarnir voru glæsilegir. Við tókum síðan smá rölt til að sjá nashyrninga og górillur. Við sáum allavega eina górillu sem var í Vilhelmínu-dýragarðinum sem við fórum í 2010. Ekki samt Kládía.

En mér fannst nashyrningarnir flottastir. Gríðarstórir og glæsilegir. Það skemmdi ekki fyrir þegar mæðgin komu í áttina að okkur og mamman lagðist niður og sá litli, á stærð við naut, fór á spenann. Ég syrgði myndavélabatteríið mitt.

Við fengum líka að sjá litla apa. Þeir voru skemmtilegir og komu svoltið til okkar stóru apanna. Mjög sætir. Síðan voru líka risaeðlur. Ljónin áttu að vera hápunkturinn og það var smá Júragarðarstemming að fara þangað inn. Bílarnir einangraðir í búri til að koma í veg fyrir að ljónin kæmu sér út.

Ég náði með hörku að sannfæra hópinn um að koma við í Jalangri og skoða rúnasteina. Þetta er náttúrulega fæðingarstaður Danmerkur. Við skoðuðum líka safnið og Gunnsteinn heillaðist af öllu sem mátti fikta í. Eygló var alveg heilluð af bænum og vildi helst flytja þangað.

Við ferjuðum okkur og töskurnar á flugvöllinn. Skiluðum bílnum og biðum eftir fluginu. Ég var voðalega glaður að sá að það var lagkökuhús á vellinum en það lokaði meðan ég beið með drengjunum í Legóbúðinni.

Ég neyddist til að nota klósettið á vellinum og mig grunar að það hafi verið lokahefnd sinnepsins. En ég lenti í fáránlegu veseni. Fyrst beið ég eftir að annað af tveimur klósettum losnaði en ekkert gerðist. Þá fór ég á annað salerni þar sem voru þrír básar og allir uppteknir og einn annar að bíða eftir að það losnaði. Það tók fáránlega langan tíma.

Fluginu heim seinkaði, alveg eins og fluginu út en við komumst heim. En það gekk allt. Við Gunnsteinn sátum tveir saman aftast.

Þetta var allt gaman. Ég mæli með Lalandia, Aquadome, Legolandi, Givskud og Jalangri.

Sögulok.

Cork – Dublin – Queen+ Adam Lambert

Uppáhaldsmyndefnið mitt í Cork. Brian Boru brú.
Uppáhaldsmyndefnið mitt í Cork. Brian Boru brú.

Þegar tónleikaferð Queen+ Adam Lambert um Evrópu var tilkynnt fór ég strax að plana að fara á tónleika. Við Eygló pældum í að fara saman en við ákváðum að ég myndi bara fara einn. Þá var líka augljóst að velja Dublin. Ég hafði nefnilega ekki komið til Írlands, allavega lýðveldisins, síðan árið 2007 þegar ég var þar eina önn í University College Cork.

Með hjálp góðs fólks á Queenzone náði ég að næla mér í miða á besta stað, standandi á svæðinu í kringum sviðið. Ég var að vona að ég gæti flogið til Cork og síðan til baka frá Dublin en WOW flaug bara til Cork út október og tónleikarnir voru 25. nóvember. Ég bókaði því flug til og frá Dublin. Ég sleppti því að borga aukalega fyrir að innrita tösku en splæsti smá aukapeningum í fótapláss.

Þannig að á fimmtudaginn var þá vaknaði ég um klukkan þrjú um nóttina til að taka leigubíl og síðan rútu út á flugvöll. Það var dásemd að innrita sig bara í símanum og rölta síðan með bakpokann í gegnum öryggisleitina. Ég var reyndar tekinn sérstaklega fyrir og leitað að leyfum af sprengjugerðarefnum á mér. Áhugavert að ég er reglulega tekinn í svoleiðis tékk en aldrei athugaður í tollinum. Sumsé, ekki smyglari en kannski hryðjuverkamaður.

Ég afrekaði ekkert á flugvellinum enda of þreyttur og róandi töflurnar sem ég er með við flughræðslunni gerðu mig ekki hressari. Þegar ég kom í vélina þá tók ég upp ferðakoddann minn og stillti á podcastið Sleep with Me sem er sérstaklega ætlað til að hjálpa fólki að sofa. Saman svínvirkaði þetta allt og ég tók varla eftir flugferðinni.

Ég hafði smá tíma í Dublin og gerði heiðarlega tilraun til að kaupa mat. Hann var ekki góður. Það er margt til að elska við Íra en matargerðarlistin er ekki lystug. Þar sem ég beið eftir rútunni til Cork hitti ég dreng sem hafði misst af flugvélinni sinni af því að hann vissi ekki, frekar en ég, að Írar eru orðnir svo hrifnir af Þakkargjörðarhátíðinni að umferðin er gríðarleg á þessum degi. Rútan kom og ég hoppaði um borð. Það var svona þriggja tíma ferð en svæfandi podcast og áframhaldandi þreyta gerðu þetta bara notalegt.

Í skuggasundinu þar sem ég hitti Carlos svo oft.
Í skuggasundinu þar sem ég hitti Carlos svo oft.

Þvílík og önnur eins skrýtin nostalgía var að koma til Cork. Ég rölti beint á hótelið og fór þar sama húsasund og ég fór alltaf á leiðinni heim á stúdentagarðana mína. Þar var enginn Carlos en samt einhver að betla þar. Hótelið mitt var um fimmtíu metrar frá mínu gamla heimili og var mjög gott. Ég fleygði af mér farangrinum og fór út að rölta.

Hluti af ferðamálamarkaðsherferð.
Hluti af ferðamálamarkaðsherferð.

Fyrsta stoppið var í Dunnes Store af því að Eygló hafði beðið mig um að líta þar eftir toppum sem hún var svo hrifin af. Ég fann þá og keypti. Ég keypti líka buxur á mig. En síðan var ráfað áfram.

Ég var glaður að finna Centra á Oliver Plunkett stræti. Sú búð var í uppáhaldi. Ég var ennþá glaðari að sjá að þar var ennþá langlokubar. Ég reyndar klúðraði og bað fyrst um samloku en leiðrétti mig síðan og bað um roll. Ég var auðvitað fyrst spurður hvort ég vildi smjör eða majónes. Ég valdi smjör, síðan kjúkling (cajun), stuffing (sem ég veit ekki nákvæmlega hvað er), ost og sæta chili sósu. Það er töfrablandan sem ég gat alltaf treyst á í þessu matargerðartómi sem Írland er. Og þetta var bara eins og þetta var GOTT.

Auglýsing sem sýnir húmor Corkbúa dálítið vel.
Auglýsing sem sýnir húmor Corkbúa dálítið vel.

Ég skoðaði í hinar og þessar búðir. Alls staðar var auglýstur svartur fössarri. Ég var hneykslaður á Írum að vera jafn ófrumlegir og Íslendingar. Afrek mín á þessum degi voru ekki mikil. Það var gaur að kyrja Echo, Echo, Evening Echo en það var ekki sami gamli kall og var fasti þarna fyrir tíu árum. Geisladiska og dvd-búðirnar sem ég sótti hart á sínum tíma voru allar horfnar. En ég fann skemmtilega túristaauglýsingu þar sem Íslendingar voru boðnir Velkomin í Cork. Það var greinilega hluti af stærri herferð.

Cork er stolt af sínum óþokkum.
Cork er stolt af sínum óþokkum.

Það sem var verst að sjá var allt heimilislausa fólkið. Fyrst þegar ég sá fólk sem hafði komið sér fyrir í svefnpokum í skotum fyrir framan verslanir datt mér í hug að þetta væri fólk sem vildi ná bestu tilboðunum þegar búðirnar opnuðu daginn eftir en ég sá fljótt svo var ekki. Þetta var orðið svo miklu verra en fyrir tíu árum. Miklu fleiri betlarar og miklu fleiri heimilislausir.

Dagurinn endaði á hótelinu þar sem ég fór í sturtu og horfði á The Punisher.

Ég tók föstudaginn rólega. Ég gerði heiðarlega tilraun til að borða írskan morgunverð en fyrir utan bakaðar baunir, egg og beikon þá var þetta óætt ógeð. Ég tók því sem smá bröns á skyndibitastað í miðbænum. Falafel.

En meginmarkmið dagsins var að fara í hádegismat með Cliona sem kenndi mér þjóðfræði fyrir tíu árum. Við höfum haldið sambandi í gegnum árin. Það var sama skrýtna tilfinningin að ganga í skólann. Sviðsmynd lífs míns eina önn fyrir tíu árum. Ég trítlaði aðeins um. Tók mynd af mér með nýrri brjóstmynd af helstu hetju UCC, honum George Boole. Graham Norton er hins vegar frægasti fyrrverandi nemi skólans.

Aðkoma háskólans míns gamla er falleg. Hliðið,
Aðkoma háskólans míns gamla er falleg. Hliðið,

brúin,
brúin,

gróðurinn

og áin.
og áin.

Þessi stytta af George Boole er ný.
Þessi stytta af George Boole er ný.

Aðalbyggingin
Aðalbyggingin

Skjaldarmerki háskólans. Þar sem Finbar kenndi skal Munster læra.
Skjaldarmerki háskólans. Þar sem Finbar kenndi skal Munster læra.

 
Ég labbaði um gömlu fallegu aðalbygginguna meðan ég beið eftir Cliona. Þar eru frægir steinar með fornri írskri stafagerð sem heitir Ogham.

Cliona fór síðan með mig upp í matsal starfsfólks sem er glæsilegur og gamaldags salur. Við borðuðum súpu í skugga Viktoríu drottningar. Það var sumsé stytta sem var upphaflega á gafli byggingarinnar (sem hét upprunalega Queen’s College Cork) en var tekin niður þegar Írland fékk sjálfstæði. Styttan var síðan grafin niður en síðan grafin aftur upp í lok síðustu aldar. Hún situr núna þarna og horfir á kennarana og heiðraða gesti þeirra borða. Hún er líka fræg fyrir hve ung Viktoría var þegar styttan var gerð.

Dómshúsið. Á tröppum þess kvaddi ég flesta Cork-vini mína fyrir tíu árum.
Dómshúsið. Á tröppum þess kvaddi ég flesta Cork-vini mína fyrir tíu árum.

Þegar ég var í Cork þá voru vinir mínir meira og minni aðrir erlendir nemar þannig að Cliona er helsta mannlega tenging mín við borgina. Við áttum langt og gott spjall um hitt og þetta. Hún hvatti mig áfram í heimildarmyndargerð og sagði mér að koma til þeirra og sýna hana þegar hún verður til. Mér fannst það vel boðið.

Ég átti ekki mikið eftir af Cork-dvölinni en ég ákvað að kaupa peysur á strákana þó það myndi þýða að ég þyrfti að kaupa auka handfarangursheimild á leiðinni heim. Það rigndi dáltið vel á föstudeginum sem rifjaði upp gamla tíð. En ég ráfaði líka bara mest. Síðan hótelið, pakka og sofa.

Það er svolítið undarlegt að þó ég hafi búið við Kent lestarstöðina í Cork þá fór ég þarna í fyrsta skiptið í lest þar.
Það er svolítið undarlegt að þó ég hafi búið við Kent lestarstöðina í Cork þá fór ég þarna í fyrsta skiptið í lest þar.

Ég vaknaði snemma á laugardagsmorgun. Skráði mig út af þessu fína gistiheimili og trítlaði þessa örfáu metra á lestarstöðina. Það var reyndar sjokk þegar ég kom í lestina og sá að ég hafði klúðrað einhverju þegar ég pantaði þannig að sætið mitt sneri aftur. Ég var skíthræddur um að ég fengi mígrenisógeð en sólgleraugun björguðu mestu.

Frá lestarstöðinni í Dublin tók ég sporvagn, Luas, í átt að gistiheimilinu. Vagninn var reyndar troðinn og ég með bakpoka á mér sem ég gat ekki losað vegna þrengsla. Fólk rakst endalaust í mig lítil gömul kona muldraði alltaf illilega og ýtti í mig ef ég kom of nálægt henni.

Þegar ég fór úr sporvagninum þá ákvað ég að treysta á Google Maps til að leiðbeina mér. Það voru mistök að treysta forritinu of mikið í Dublin því ég náði aldrei að átta mig. Það er svo nauðsynlegt þegar maður er að læra að rata. En ég endaði á gistiheimilinu og var sagt að herbergið mitt yrði laust eftir 20 mínútur. Ég hugsaði með sjálfum mér að það væri bara fínt. Ég ákvað að hoppa út að reyna að finna mér æti.

Ég hafði spottað út veitingastað með fína dóma en fann hann bara alls ekki. Að lokum kom í ljós að hann var inn á hóteli og ekkert merktur utan frá. Síðan þegar ég kom inn þá var enginn matur framreiddur þar inni heldur inn á barnum þannig að ég fór á barinn en enginn sýndi mér áhuga þar. Ég var búinn að sóa of miklum tíma og hélt að hótelherbergið mitt væri orðið tilbúið þannig að ég fór bara aftur þangað.

En hótelherbergið var ekki til. Tuttugu mínúturnar tvöfölduðust. En ég fékk lykilkortið mitt og náði að koma mér inn á herbergi og fleygja öllum óþarfa af mér. Næst var að koma mér niður í bæ og kíkja á nokkra staði sem ég var spenntur fyrir.

Ég kom mér niður í bæ og kíkti í búðir. Ég lenti í veseni með kortin mín í einni búð og þurfti að fara í hraðbanka til að redda mér. Ég kom sigri hrósandi aftur í búðina og glotti yfir því að geta sannað fyrir afgreiðslumanninum að ég ætti í raun og veru peninga til að láta þá fá. Ég fékk mér beikon og ostafranskar á stað sem heitir Eddie Rockets og þá rifjaðist upp fyrir mér að við Eygló hefðum örugglega borðað þar, fyrir eiginlega akkúrat nákvæmlega upp á dag (!) tíu árum, og fundist óspennandi.

Í bókasafninu í Trinity College
Í bókasafninu í Trinity College

Á leiðinni úr bænum náði ég að ruglast á áttum með hjálp Google Maps. En ég náði að finna Trinity College þar sem ég kíkti snöggt á Book of Kells en mér fannst eiginlega meira spennandi að kíkja á bókasafnið fræga. Það var ógurlega fyndið í bókasafnsfræðinni í gamla daga að tala um stærð bóka sem grundvöll flokkunarkerfis en þarna er kerfið bókstaflega þannig. Öllum bókum raðað eftir stærð og staðsetningin síðan skráð til að geta fundið bækurnar.

Ég var í stuði fyrir smá drama þannig að ég spilaði Óðinn til gleðinnar meðan ég rölti þarna um. Ég náði að láta einhverjum grey konum bregða með því að smella fingrunum ósjálfrátt í takt við tónlistina. En þetta var sumsé svolítið flott.

Næsta skref var að finna mér eitthvað gott að borða fyrir kvöldið. Ég ákvað að finna næstu Centra verslun og kaupa mér langloku. Ég notaði Google Maps og fann rétta staðinn en þá var komin Spar verslun í staðinn fyrir Centra. Ég setti því næstu Centra verslun sem áfangastað og sú var á sínum stað en samlokubarinn lokaður. Ég hafði því ekkert nesti fyrir kvöldið.

Ég kom mér aftur á hótelið Jacobs Inn til að henda af mér drasli. Þegar þangað var komið virkaði ekki lykilkortið. Ég þurfti að fara aftur niður og láta strauja það aftur. Þegar ég var aftur kominn í herbergið var engin handsápa. Ég hugsaði með mér að ég gæti þá bara notað sjampó eða baðsápu til að þvo mér um hendurnar. En nei. Engar slíkar sápur heldur. Bögg.

Ég kom mér síðan af stað í átt að tónleikahöllinni með einungis eina flösku af sódavatni í nesti. Þegar ég kom að 3Arena þá sá ég að það var sölubás þarna en ég sá ekkert spennandi og þar að auki var ekki í boði að borga með korti og ég átti bara fimmevruseðlil eftir.

Fyrir utan 3Arena
Fyrir utan 3Arena

Ég fór því bara í röðina. Hún var ekki löng en það var um klukkutími fyrir opnun. Ég spjallaði örlítið við fólkið þarna úti. Hitti tvær gamlar bandarískar konur sem virtust hafa ferðast um allan heim til að sjá Queen+. Þegar á leið vorum við beðin um að kynjaskipta röðinni til að láta káfa aðeins á okkur. Það voru fleiri karlar að káfa og okkur var öllum hleypt framar í röðina. Við reyndum margir að rýma svolítið til svo konurnar gætu komið sér aftur á sinn stað í röðinni en okkur var skipað að þétt okkur fram á við. Þannig að það voru aðallega karlar fremst.

Beint fyrir framan sviðið.
Beint fyrir framan sviðið.

Þegar okkur var hleypt af stað þá var okkur bannað að hlaupa þannig að þetta var eins og ólympíukeppni í hraðgöngu. Ég kom mér inn og tók mér stöðu fremst við sviðið – plássið í kringum rampinn fylltist fyrst. Reyndar var ég ekki við sviðið beint heldur fyrir framan gryfjuna sem öryggisverðir og ýmis tæki voru í en ég var ekki langt frá sviðinu.

Allt fólkið sem ég var að skyggja á.
Allt fólkið sem ég var að skyggja á.

Ég byrjaði á að setjast. Síðan byrjaði ég að kynnast fólkinu í kringum mig. Þarna var japönsk kona búsett í Dublin með 11 ára strákinn sinn, sem heitir Roger í höfuðið á trommaranum, með sér. Ég gaf þeim upp nafnið á podcastinu mínu. Þá voru líka tvær írskar konur frá Limerick. Önnur þeirra talaði mjög mikið og vildi helst vita hvort ég þekkti Thor. Ég var smá tíma að fatta að hún átti við kraftakarlinn Hafþór. Hún var sjálf systir sterkasta manns Írlands og reyndi að fá mig til að skipuleggja kraftakeppni á Íslandi og Suður-Írlandi. Hún ætlaði líka að segja öllum að hún hefði hitt besta vin sterkasta manns Íslands. Þeim fannst öllum fyndið að ég væri skólabókavörður.

Tónleikarnir byrjuðu um klukkan átta. Ég var mjög varfærinn í tilhlökkun. Stóri munurinn á þessum tónleikum og þeim sem ég fór á árið 2005 og 2008 með Queen+ Paul Rodgers var að þetta var miklu meiri sýning. Það var allskonar skemmtilegt að gerast og þar var vélmennið Frank, sem þið munið eftir framan af plötuumslagi News of the World. Þá er Adam Lambert alveg að leika sér að því að vera “camp”.

Satt best að segja fannst mér langmesta fjörið þegar hljómsveitin spilaði Stone Cold Crazy. Alveg ógurlega flott. Adam er mjög fínn söngvari en það var alveg punktur þar sem röddin hans kippti mér úr notalega ástandinu sem fylgdi tónlistinni og minnti mig á að hann er engin Freddie. Ekkert að honum sjálfum samt.

Við Roger með lagalistann og hann með trommukjuðann sinn
Við Roger með lagalistann og hann með trommukjuðann sinn

Í lok tónleikana þá kom rótari til Rogers litla tónleikafélaga míns og lét hann fá eintak af lagalista kvöldsins. Örskömmu seinna fékk hann líka trommukjuða frá Tyler Warren (sem var í Queen Experience þegar sú sýning kom til Íslands) sem trommar til viðbótar við Roger. Drengurinn var dáltið kátur og ég fyrir hans hönd. Ég kallaði hann lucky little bastard.

Brian í sviðsljósinu
Brian í sviðsljósinu

Roger gat ekki alltaf séð það sem gerðist á rampinum þannig að ég lyfti honum upp svo hann gæti séð trommusólóið hjá nafna sínum. Öryggisvörður bað mig síðan um að setja hann niður þannig að það reyndi ekki lengi á mig. En sá litli var glaður.
Roger gat ekki alltaf séð það sem gerðist á rampinum þannig að ég lyfti honum upp svo hann gæti séð trommusólóið hjá nafna sínum. Öryggisvörður bað mig síðan um að setja hann niður þannig að það reyndi ekki lengi á mig. En sá litli var glaður.

Glambert og Frank
Glambert og Frank

Það að vera fremst við sviðið var mjög gott að flestu leyti en Brian sneri baki í okkur þegar hann spilaði Love of my Life.
Það að vera fremst við sviðið var mjög gott að flestu leyti en Brian sneri baki í okkur þegar hann spilaði Love of my Life.

Brian að pósa fyrir mig
Brian að pósa fyrir mig

Roger að syngja
Roger að syngja

Pappírsstrimlum var skotið í lok tónleika og ég var næstum í skotlínu.
Pappírsstrimlum var skotið í lok tónleika og ég var næstum í skotlínu.

Roger með þeim írsku
Roger með þeim írsku

Þegar tónleikarnir voru búnir var ég svangur og þyrstur. Ég tók eftir nýjum matarvagni. Þar var úrvalið aðeins betra og ég gat keypt lítinn skammt af frönskum og kókdós. Það bjargaði mér alveg. Ég rölti heim meðfram Liffey sem er ekki nærri jafn fögur og Lee og íhugaði að bregða íslenskum tónleikagestum í brún með því að ávarpa þá á hinu ylhýra en ég var alls ekki í spjallstuði þannig að ég sleppti því.

Ég kom loksins að opinni kjörbúð þar sem ég gat keypt mér sódavatn, bæði til að drekka þá og fyrir morguninn. Ég bætti líka við Twixi til að hafa eitthvað svona aukalega ef ég yrði svangur. Afgreiðslumaðurinn spurði mig hvort tónleikarnir hefðu verið góðir. Sú spurning kom svolítið á óvart enda var ég búinn að ganga um kílómeter frá tónleikahöllinni. Afgreiðslumaðurinn spurði mig líka hvort að þetta hefði verið sama hljómsveit og kvöldið áður – bara með öðrum söngvara. Ég fattaði að hann var að vísa í að Queens of the Stone Age höfðu verið að spila þarna á föstudagskvöldið. Ég útskýrði fyrir honum að hljómsveitirnar væru alls ótengdar.

Þegar ég kom á hótelið bað ég um sápu og spurði eftir sjampói. Ég fékk loforð um sápu þó að ég hafi hváð þegar ég heyrði talað um “súpp”. Ég komst síðan ekki inn af því að lykilkortið mitt virkaði ekki heldur núna. Þá fékk ég skýringuna sem gott hefði verið að fá fyrr um daginn – kortið getur afhlaðist við návist við síma. Ég var sjampólaus þannig að ég notaði umrædda handsápu í sturtunni. Hún var ekki einu sinni spennandi af handsápu að vera.

Ég vaknaði um sjöleytið á sunnudagsmorgni. Ég ákvað að prufa létta morgunverðinn á hótelinu. Það kom í ljós að var aðallega ristað brauð og morgunkorn. Ég ákvað að borða bara á flugvelllinum. Ég hafði vandað mig við að velja mér rútuferð frá stað sem var nálægt hótelinu en ég átti greinilega við þann vanda að stríða að rugla saman O’Connell (gata) og Connelly (lestarstöð) þannig að ég þurfti að ganga dálítið til að ná rútunni.

Flugvöllurinn var eitthvað undarlega skipulagður þannig að mér sýndist á merkingunum að ég væri að fara í aðra flugstöð (terminal) en ekki að öryggishliðinu og ráfaði dáltið aukalega um. Írar virðast ekki telja mig líklegan hryðjuverkamann þannig að ég var tiltölulega fljótur í gegn.

Þá ætlaði ég að finna mér eitthvað að borða. Mér þótti allt svo óspennandi að ég ákvað að gefa Burger King séns. Ég valdi mér eitthvað góðgæti sem var síðan ekki til þegar ég kom að kassanum ég bað þá kjúklinganagga í staðinn. Þegar kom að því að borga var báðum kortunum mínum hafnað eins og daginn áður. Ég nennti ekki að eltast við mat sem ég var ekki spenntur fyrir og ákvað að fara nær hliðinu mínu þar sem merkingar bentu til þess að þar væru fleiri veitingastaðir í boði. En þá kom í ljós að þeir voru óspennandi og dýrir. En þá mundi ég eftir Twixinu sem ég keypti kvöldið áður og keypti mér bara sódavatn með og lét það duga til Íslands.

Flugið gekk vel með hjálp lyfja og svefnhlaðvarpsþáttar. Ég er ekkert ósáttur við Wow eftir þessa reynslu. Ég keypti ekkert nema nammi í fríhöfninni. Lukkulega er enginn áhugasamur um að fá sígarettur lengur og Eygló á sjálf vínbirgðir fram í tímann af því að hún drekkur ekki einu sinni það sem hún kaupir sjálf í tollinum.

Lentur
Lentur

Ég tók síðan rútu út í Holtagarða þar sem fjölskyldan tók glöð á móti mér.

Illugastaðir 2017

Við tókum eina máltíð úti við

Miðvikudaginn 26. júlí lagði ég af stað í leiðangur. Fyrsti áfangastaður var Vopnafjörður þar sem fjölskyldan beið. Ég keyrði af stað en ekkert áhugavert gerðist fyrr en rétt utan við Borgarnes þar sem ég sá mann á puttanum. Ég hafði ekki tekið upp puttaferðalang í mjög langan tíma enda yfirleitt með fjölskyldufylltann bíl.

Þetta var rétt rúmlega tvítugur franskur strákur á leið til Akureyrar. Rétt eftir að ég hafði tekið hann upp í þá stoppaði Vegagerðin okkur. Reyndar var þar á ferðinni drengur með skilti sem stóð á Stop. Ekki draumastarfið en hann hafði allavega síma og stól. Við biðum meðan Vegagerðarbíll leiddi bílaröðina sem kom á móti okkur. Þetta var til að takmarka grjótkast. Þegar Vegagerðarbíllinn hafði snúið við þá sneri drengurinn í stólnum skiltinu sínu við og þá stóð Go.

Spjall okkar náði um heim og geima. Ég var ekki lengi að segja honum frá fjölskyldutengslum mínum við Frakkland og hann tók það ekkert nærri sér. Fljótlega fórum við að tala um franska pólitík og ég talaði illa um Le Pen sem var ekkert sérstaklega djarft enda var puttaferðalangurinn, eins og hann útskýrði seinna, barn franskrar móður og föður frá Kongó. Ég veðjaði sumsé réttilega á að hann væri ekki stuðningsmaður Front National. Það gladdi mig svolítið þegar puttaferðalangurinn spurði mig um svart fólk á Íslandi. Ég gat sagt honum frá blámönnum, Hans Jónatan, bandarískum hermönnum og fyrsta skiptinu sem ég sá fullorðinn svartan mann. Hann sagði mér líka frá því þegar hann fór í heimaþorp föður síns þar sem börnin bentu á hann og kölluðu, á sinni tungu, “hvítur, hvítur”.

Ég uppfræddi þann franska um íslenskan mat. Þar á meðal benti ég honum á að eina mögulega ástæðan fyrir því að borða hákarl væri að geta sagt einhverjar karlmennskusögur af sjálfum sér. Ef hann vildi borða ekta mat heimamanna þá ætti hann að fá sér hamborgara með frönskum á milli eða djúpsteikta pylsu. Ég nefndi líka að lambakjöt væri líka boðlegt og þá sérstaklega hangikjöt.

Ég skutlaði franska drengnum á tjaldstæðið á Akureyri en byrjaði þá fljótlega að heyra undarleg hljóð úr bílnum. Ég þorði ekki að keyra mikið lengra og gladdist í hjarta mínu að bíllinn væri leiðinlegur á Akureyri. Ég gat nefnilega hringt í Svavar frænda sem reddaði mér inn á verkstæðið með litlum fyrirvara. Þar kom í ljós að undir bílnum var óhóflegt magn af steinum og tjöru. Því var sópað undan og ég gat haldið áfram ferðinni, óendanlega þakklátur frænda og hans fólki.

Eftir að hafa borðað hamborgara með frönskum á milli dreif ég mig austur. Það var tíðindalítið ferðalag. Það var þoka á heiðum og ég varð hálfringlaður þegar ég kom niður að þorpinu því vegurinn hafði ekki verið tilbúinn síðast þegar ég kom. Það var mikil gleði hjá drengjunum þegar ég kom og líka hjá mér. Ég hafði alveg saknað þeirra. Eygló var líka glöð að sjá mig en ekki jafn óstjórnlega og þeir tveir.

Ég eyddi fimmtudeginum á Vopnafirði, fór í sund og hitti tengdafólk. Ég hafði reyndar náð að missa af besta veðri sumarsins þarna fyrir norðan og austan og var einmitt að missa af besta veðrinu fyrir sunnan. Á föstudag fórum við síðan af stað í átt að Illugastöðum þar sem við höfðum leigt sumarbústað. Það gekk allt vel. Drengirnir þægilegir ekkert óhóflega margir ferðamenn á veginum. Við hentum dótinu okkar inn á Illugastöðum og, eftir að hafa hlustað á ofurjákvæðni Gunnsteins, þá drifum við okkur til Akureyrar þar sem við keyptum nauðsynjar í Bónus. Kvöldmaturinn var síðan snæddur á Bryggjunni.

Laugardagur í sumarbústað var leti. Við byrjuðum á sundi og afrekuðum síðan sem minnst. Við lærðum líka aðeins á heita pottinn. Þegar hér var komið við sögu þá var jákvæðni drengja farin að minnka. Skortur á netsambandi var þar ofarlega á kvörtunarblaði. Það var víst ekki hægt að vita hve mörg myndbönd Unspeakable væri búinn að setja á YouTube meðan við vorum þarna í menningarleysinu. Ég endaði sjálfur á því að sogast inn í einhvern breskan þátt um matráðskonu sem stal lottómiða. Það var hálfdapurlegt hvað ég var farinn að taka þetta allt nærri mér. Við Eygló enduðum síðan kvöldið á að horfa á laugardagsmyndina á RÚV saman.

Sunnudagur byrjaði á sundi og síðan lagði Eygló til að við myndum fara til Grenivíkur. Ég reyndi að fá skýringu á þessari undarlegu hugmynd en hún vildi bara sjá þorpið. Ég veit ekki hvers vegna. En þarna fórum við. Við komust þangað og keyrðum um þorpið allt og stoppuðum síðan við skólann þar sem ætlunin var að drengirnir myndu hreyfa sig aðeins. Gunnsteinn var mjög glaður en Ingimar hafði vaknað eitthvað pirraður og samþykkti enga skemmtun. Á meðan á þessu stóð keyrðu þorpsbúar allir framhjá okkur og störðu. Mér leið svolítið eins og ég væri í Stephen King bók.

Til að reyna að gleðja Ingimar skruppum við í Jónsabúð til að kaupa ís. Hann vildi ekki koma með þannig að við Gunnsteinn fórum einir inn. Ég valdi trúðaís handa Ingimari og ætlaði að sigra hann þannig. Það var hins vegar óstjórnlega rangt hjá mér. Hann vildi velja ísinn sjálfur. Eygló náði að hugga hann og fá hann til að velja nýjan ís meðan sá gamli byrjaði að bráðna. Reyndar fékk trúðaísinn ekki að verða að mauki því að Ingimar var til í að fá smá auka ís þegar hann var búinn með sinn útvalda. Gunnsteinn fékk líka af honum.

Ein helsta gleðin við að fá trúðaís er auðvitað að fá flautu til að gera fullorðna brjálaða. En þegar Gunnsteinn ætlaði að losa sína flautu gekk það ekkert. Ingimar var fljótur að bjóða fram sína þjónustu, sagðist geta gert þetta og stóð við. Þetta var síðan endurtekið á hinni flautunni. Ingimar er greinilega harðhentastur.

Við enduðum á Akureyri þar sem við bættum aðeins við nauðsynjar og fórum aftur á Bryggjuna sem var greinilega orðin eftirlætisstaður hjá drengjum, og svo sem okkur líka.

Mánudagurinn var hefðbundinn með sundi og síðan komu Hafdís og fjölskylda í heimsókn og grill. Það var alveg ógurleg gleði hjá krökkunum en þó voru Sunna og Gunnstein sérstaklega ánægð að leika saman. Við reyndum að fara í mínígólf staðarins en það gekk ekkert rosalega vel af því að flugurnar reyndu að éta okkur. Sérstaklega okkur Hafdísi og börnin á meðan Mummi og Eygló sluppu mun betur. Ég var næstum búinn að missa mig yfir helvítisflugunum.

Á þriðjudag var farið í Mývatnssveit (eftir hið daglega sund), sem hljómar reyndar ekki sem góð ákvörðun miðað við ævintýri mánudagsins. Við borðuðum á Daddapizzu sem var mjög gott en ekki ódýrt nema á mælikvarða Mývatnssveitar. Við fórum síðan og röltum um Dimmuborgir. Gunnsteinn var voðalega glaður fyrst að sjá jólasveinahelli en þolinmæðin var ekki algjör meðan við gengum rúmlega tveggja kílómetra hring. Ég hafði ekki komið í Dimmuborgir lengi og þótti voðalega skrýtið að sjá þetta svona túristavætt. Það skánaði aðeins þegar við vorum komin þarna lengra inn.

Eftir Dimmuborgir komum við við í Samkaup og keyptum okkur ísa. Það var erfið ákvörðun hvað ætti að gera næst en við ákváðum að Fuglasafnið yrði fyrir valinu. Ég reyndi auðvitað að ljúga því að drengjunum að þeir væru að ruglast og þetta væri í raun flugnasafn – sem væri auðvitað miklu meira viðeigandi. En Fuglasafnið sló í gegn. Það boðaði líka gott þegar önd rölti á undan okkur inn. Ingimar heillaðist af haferni en Gunnsteinn var meira að pæla í heildinni. Eftir þetta var bara farið beint í bústaðinn.

Miðvikudagur byrjaði á hinu hefðbundna sundi en síðan fórum við á Akureyri að hitta Rósu og Lindu í Kjarnaskógi. Ég skrapp reyndar fyrst á nýopnaðan skyndibitastað sem heitir Aleppo. Það er var voðalega indælt að sjá aðeins koma fjölbreytt líf í göngugötu heimabæjarins. Í Kjarnaskógi var nýr leikvöllur prufaður eftir að við höfðum náð að hrekja vinnuvélar á brott. Síðan var völundarhús skoðað. Það er líklega ekki nýtt en líklega er ekki langt síðan það náði boðlegri hæð. Eftir það var farið inn í Hrafnagil að hitta Hafdísi og fjölskyldu aftur.

Á fimmtudag höfðum við stór plön um að fara í Ásbyrgi og Axarfjörð og jafnvel að Dettifossi. Það var hins vegar voðalega lítil stemming fyrir langferð þannig að við enduðum með að dúlla okkur, eftir sundið, og að síðan fórum við í stutta ferð að Goðafossi. Við fórum alveg að fossinum sem stendur auðvitað fyrir sínu. Það er skrýtið að vera umvafinn ferðamönnum þarna. Við versluðum aðeins á Fosshól og það voru mistök. Það var rándýrt og nær ekkert var verðmerkt. Þá kom í ljós að mjólkin sem við keyptum þarna var ónýt.

Eins og venjulega tókum við kvöldið í pottinum, allavega við strákarnir. Við vorum sammála um að lágmarkshitinn væri full hár þannig að við tókum okkur til og stilltum pottinn á næturhita. Hægt og rólega fór hitastigið niður í tæpar 29° sem var notaleg tilfinning. Heiti potturinn þarna var reyndar af frekar leiðinlegri tegund. Hann er mjög óreglulegur sem er ætlað til þess að maður geti setið og legið í ýmsum stellingum en aðallega varð það til þess að maður rann auðveldlega til og misteig sig þegar maður var á ferðinni. Þar að auki var óþolandi vesen að þrífa hann enda rann vatnið ekkert almennilega úr honum heldur festist bara í öllum þessum kimum.

Við tókum föstudagsmorgun í sundlauginni, við strákarnir. Ég synti reyndar nær ekkert enda þurfti athyglin að vera á Ingimari. Við bjuggum í annað skiptið til “hatt” úr kleinuhringjum og pylsu. Það vakti mikla lukku. Reyndar hafði Eygló fengið hláturskast þegar ég fór fyrst inn í þetta daginn áður. Eftir að hafa þrifið og drifið allt draslið í bílinn keyrðum við til Akureyrar. Bryggjan varð fyrir valinu. Reyndar hafði Ingimar fyrst sagt flatt nei við því en að lokum áttuðum við okkur á því að hann vildi endilega fá franskar og vissi ekki að það væri alveg hægt að panta þær þarna. Þegar hann var upplýstur um stöðu fransknanna þá tók hann gleði sína á ný og samþykkti Bryggjuna.

Drengirnir voru yndislegir í bílnum. Við tókum bara eitt pissustopp enda var gulrót við enda leiðarinnar til Reykjavíkur, KFC í Mosfellsbæ. Maturinn þar er vissulega alveg ágætur, og það fást franskar, en aðallega er það leiksvæðið sem heillar.

Það var mikil gleði að komast heim nema að blokkin er að missa græna litinn og orðin full hvít sem er full ljótt.

Placebo í Kaupmannahöfn – haust 2016

Í vor fann ég rosalega fyrir því að ég hefði ekki séð neina hljómsveit sem er í verulegu uppáhaldi hjá mér lengi. Ég fór og skoðaði hverjir væru á ferðalagi og hverjir væru bráðum að fara á ferðalag. Þá kom upp að Placebo væri að fara af stað á tuttugu ára afmælistúr. Við fórum á Placebo þegar þeir komu til Íslands árið 2004 og ég hefði alveg verið til í að fara á venjulega tónleika með þeim en á afmælistúrnum átti að leggja áherslu á eldri lög. Eins og yfirleitt þá er maður meira tilfinningalega tengdur eldri lögunum, bæði af því að maður hefur þekkt þau lengur og líklega af því að maður er líklegri til að taka lög inn á sig þegar maður er yngri.

Það hentaði ágætlega að afmælistúrinn byrjaði í Danmörku. Í Árósum á fimmtudagskvöld og í Kaupmannahöfn á föstudagskvöld. Þar sem ég á fleiri vini í Árósum en Köben var ég dálítið að spá í að fara þangað. En vinnulega hentaði auðvitað betur að taka föstudagskvöldið. Ég keypti tvo miða og bauð Eygló að koma með.Við pöntuðum svo pössun að austan.

Eygló fékk ágæta samloku á Leifsstöð
Eygló fékk ágæta samloku á Leifsstöð

Á fimmtudaginn í síðustu viku var þá kominn tími á ferð. Tengdamamma komin að passa drengi sem virtust ekkert ætla að sakna okkar. Ég fékk ætan hamborgara á Leifsstöð en Eygló fékk grillaða samloku sem var góð á bragðið. Í flugvélinni lenti ég fyrir aftan konu sem hallaði sætinu sínu svo harkalega aftur að hún klessti á hnéið mitt þannig að ég vaknaði upp af ljúfum draumi. Ég eyddi næsta eina og hálfa klukkutíma í að pota í stólbakið hennar og hrista stólinn hennar þar til hún gafst upp og færði sætið fram. Fólk sem hallar sæti sínu aftur í svona þröngum sætaröðum á ekki heima í mannlegu samfélagi.

Við drifum okkur í gegnum Kastrup og tókum lestina í borgina. Reyndar enduðum við á fyrsta farrými án þess að hafa borgað fyrir slíkt en ég var alveg tilbúinn með “ég er heimskur útlendingur” ræðuna mína ef einhver myndi gera athugasemd.

Eygló á Just Thai
Eygló á Just Thai

Í Kaupmannahöfn bað ég Eygló að treysta mér og ég óð af stað í áttina að hótelinu okkar Copenhagen Island Hotel sem ég hafði aldrei áður heimsótt. Áttavitinn minn er auðvitað traustur. Við fleygðum af okkur farangri og ákváðum að vera löt og kíkja bara í verslunarmiðstöðina Fiskitorgið sem er bara við hliðina á hótelinu. Þar náði Eygló að sannfæra mig um að fara á tælenskan stað sem heitir Just Thai og er með hlaðborð. Það var alveg hroðalega gott.

Síðan var það bara að fara aftur á hótelið og fara að sofa. Copenhagn Island Hotel segist vera með módern innréttingar. Það þýðir greinilega að bandarískur uppafjöldamorðingi frá níunda áratugnum sá um að velja húsgögn og liti. En það var fínt. Eina sem ég get sagt slæmt um herbergið er að sturtan var ekki góð fyrir hávaxinn mann og ljósarofinn á rúmgaflinum var illa staðsettur þannig að ég vaknaði ítrekað við að ég hafði sjálfur óvart kveikt ljósin.

Við aðlöguðumst dönskum tíma bara alls ekki og vorum glöð að vera ekki í morgunmat. Þegar við vorum að koma okkur á fætur rakst ég á undarlega tilkynningu frá tónleikastaðnum. Þar stóð að þeir vissu ekki betur en að Placebo myndi spila um kvöldið. Ég hugsaði með sjálfum mér að þarna væri fólk sem tæki tillit til fólks með kvíða og hjálpaði þeim með því að birta svona ítrekanir. En síðan skoðaði ég betur. Brian Molko söngvari Placebo hafði víst horfið af sviði kvöldið áður í Árósum eftir að spilað tvö lög og röflað samhengislaust. Við ákváðum að fylgjast vel með fréttum dagsins.

Við rafhjólið
Við rafhjólið

Eftir að hafa horft á þátt af Travel Man með Richard Ayode náði ég að sannfæra Eygló um að leigja okkur hjól í Kaupmannahöfn. Við tókum meiraðsegja með hjálma til að vera svoltið öðruvísi. Fyrirtækið heitir bycyklen.dk og þetta eru rafhjól. Þau eru hins vegar mjög þung og því ekkert sérstaklega skemmtileg. En þau dugðu vel. Ég sá líka út að það væri betra að kaupa mánaðaráskrift heldur en að borga fyrir hvert skipti. Ég gat líka fengið tvö hjól í einu.

Það vildi svo vel til að rétt við hótelið okkar var stöð með hjólum. Við ákváðum því byrja á að hjóla alveg út á Kóngsins nýja torg og rölta síðan til baka í átt að hótelinu okkar. Við skildum eftir hjólin á stöð sem var fyrir framan Magasín norðursins. Við fórum síðan þar inn og fengum okkur að borða. Ég fékk einhverja voðalega fansí og óspennandi samloku. Eygló var spenntari fyrir Magasín en ég þannig að ég lagði til að hún fengi að fara þar ein á laugardeginum.

Við gosbrunninn á Ráðhústorgi
Við gosbrunninn á Ráðhústorgi

Við röltum Strikið í átt að Ráðhústorgi. Eygló keypti föt á drengina í H&M á meðan ég missti lífsviljann. Games og Faros Cigar eru ennþá skemmtilegustu búðirnar þarna (Games í Jorcks Passage og Faros bara rétt handan við hornið þegar maður kemur út úr Jorcks Passage). En ég keypti svo sem ekkert. Við komum við á Lagkökuhúsinu og ég fékk mér snigil sem mér finnst vera hápunktur danskrar matargerðarlistar. Eygló fékk sér flødebollespøgelse.

Rúta og flutningabílar Placebo
Rúta og flutningabílar Placebo

Síðan var það heim á hótelið og að safna orku fyrir tónleika – og að athuga hvort tónleikarnir yrðu ekki örugglega. Við plottuðum leiðina á Vega, þar sem tónleikarnir áttu að fara fram, og fundum okkur góðan indverskan stað í nágrenni við hann. Ég náði að sannfæra Eygló um að hjóla þangað. Það gekk þolanlega en leiðarkerfið á spjaldtölvu hjólsins var eilítið ruglandi. Eftir að hafa skilað hjólunum kíktum við á röðina við Vega og sáum rútur og flutningabíla sem tilheyrðu væntanlega Placebo.

Eygló á Taj Diner
Eygló á Taj Diner

Þegar við komum þar sem indverski staðurinn átti að vera þá var þar ekkert skilti sem benti til þess að þetta væri staðurinn sem ég var að leita að en það var samt indverskur staður þar. Við fórum þangað og sáum að það var allt fullt af Indverjum. Líklega góðs viti. Við pöntuðum mat og smá saman komust við að þeirri niðurstöðu að þarna væru líklega vinir og vandamenn að fagna opnuninni með eigendunum. Við fengum alveg fínan mat.

Eygló leyfði mér að reyna að finna betri leið frá veitingastaðnum að Vega heldur en Google Maps hafði sagt okkur að fara. Ég var voðalega feginn þegar það gekk upp. Það var hleypt inn í hollum og við vorum fljótlega komin inn. Við fórum upp í tónlistarsalinn. Þar benti Eygló mér á að það væru svalir sem við gætum kannski athugað. Við gerðum það og sáum að þar var hallandi sætaröð. Við fengum staðfest að við mættum sitja þar sem við settumst því þar. Frábært útsýni yfir sviðið.

Takkasímar bannaðir
Takkasímar bannaðir

Vega er voðalega kósí stærð. Tekur eitthvað um tvöþúsund manns. Við sem fórum þarna vorum öfunduð af þeim sem ætluðu að fara á Placebo seinna í túrnum á stærri stöðum. Það var líka reykingabann á Vega sem var stór plús. Kaupmannahöfn hefur reyndar skánað mikið reykingalega séð en það er ennþá sígarettufýla í loftinu.

Á tónleikum
Á tónleikum

Upphitunarhljómsveitin var The Mirror Trap. Ég hafði hlustað dáltið á hana og vissi að hún væri mjög fín og það stóðst. Þeir sögðu ekkert um ástandið á Molko en nefndu að við ættum að skemmta okkur á Placebo. Ég var samt enn óstyrkur.

Rétt fyrir níu byrjaði nýlega útgefið, en þó gamalt, myndband við Every Me, Every You að spila. Eygló hélt þá að myndböndin kæmu kannski bara í staðinn fyrir tónleika. Það kom líka svona niðurtalningarmyndband með klippum úr tuttugu ára sögu Placebo (þar vantaði reyndar nær alveg gamla trommarann þeirra). Síðan byrjuðu hljóðfæraleikarnir að koma á sviðið og að lokum Stefan. Þá byrjuðu þeir á síendurteknu upphafsstefinu á Pure Morning. Mér fannst það standa í einhverjar mínútur en spennan ýkir það væntanlega. Loks kom Molko á svið við töluverðan fögnuð tónleikagesta.

Placebo
Placebo

Þeir héldu áfram með Pure Morning og fóru síðan í Loud Like Love. Eftir það sögðu þeir, líklega Molko, “We Made It”. Hvort það var almenn vísun um að þeir hefðu komist til að halda tónleika eða að þeir hefðu náð að spila fleiri lög en kvöldið áður veit ég ekki. Brian talaði smá áður en þeir spiluðu nýja lagið Jesus Son en mín tilfinning var að hann hafi verið af kvíðinn til að tjá sig vel. Eygló sagði að ég hefði verið taugaóstyrkur fyrir hönd Brian alveg fram á fjórða lag.

David Bowie og Placebo
David Bowie og Placebo

En tónleikarnir keyrðu af stað. Fyrsti hápunkturinn var þegar þeir spiluðu Without You I am Nothing þar sem David Bowie fékk að syngja með af bandi og sást á myndbandi bak við hljómsveitina. Þó fyrrihlutinn hafi verið æði þá náðu þeir að toppa allt með seinnihlutanum sem byrjaði með Slave to the Wage. Mér fannst síðan Special K svo frábært. Manni fannst eins og allir væru að syngja með. Eygló segir að ég hafi ærst við að heyra Nancy Boy. Það var fyrsti smellurinn þeirra og er bara svo yndislegt lag að mér finnst að þeir ættu að fá Nóbelinn fyrir það. Það voru tvö uppklöpp og þeir enduðu á Running Up That Hill sem er upphaflega með Kate Bush en kom út á Covers plötunni þeirra.

Lagalisti:

Lagalistinn á Vega
Lagalistinn á Vega

Pure Morning
Loud Like Love
Jesus’ Son
Soulmates
Special Needs
Lazarus
Too Many Friends
Twenty Years
I Know
Devil in the Details
Space Monkey
Exit Wounds
Protect Me from What I Want
Without You I’m Nothing
36 Degrees
Lady of the Flowers
For What It’s Worth
Slave to the Wage
Special K
Song to Say Goodbye
The Bitter End
Fyrra uppklapp
Teenage Angst
Nancy Boy
Infra-red
Seinna uppklapp.

Running Up That Hill
Þess má geta að ég sá mynd af áætluðum lagalista frá kvöldinu áður og þar var lagið Meds inni. Það hefði verið of viðeigandi miðað við heilsuvandræði Brian og ég giska að það sé ástæðan fyrir að því var sleppt.

Þetta var innilega þess virði. Eygló vildi kíkja á eitthvað “eftirpartí” en ég var alveg búinn þannig að við röltum bara heim á hótel.

Eygló á gömlum slóðum
Eygló á gömlum slóðum

Eftir að hafa farið aftur á Just Thai á Fiskitorginu fórum við á gamlar slóðir Eyglóar frá því í tíundabekkjarferðalaginu hennar. Hún fékk mig með á lúmskan hátt – hún stakk upp á hjólatúr. Við fórum sumsé að Bellehöjfarfuglaheimilinu og röltum síðan í kringum einhverja tjörn þarna. Nostalgíutúrnum lauk með því að fara á bakaríið sem hún heimsótti á hverjum degi í útskriftarferðinni.

Eftir þetta hjóluðum við á Kóngsins nýja torg þar sem ég skildi Eygló eftir þannig að hún gæti fengið útrás fyrir magasínblæti sitt. Þessir hjólatúrar voru stórskemmtilegir og það er bara ekkert mál að hjóla þarna. Ég var reyndar stundum smá óviss með vinstri beygjurnar og síðan var leiðsöguforritið dáltið ruglandi. Sjálfur fór ég bara og skilaði hjólinu rétt við hótelið og kom aftur við í lágverðsversluninni Aldi þar sem ég keypti fjórar sódavatnsflöskur á fimmtán danskar. Afgreiðslumaðurinn spurði mig hvaðan ég væri og þegar ég sagðist vera frá Íslandi þá klappaði hann höndunum fyrir ofan höfuðið og sagði “húh”. Ég held að ég hafi aldrei verið glaðari með fótbolta en akkúrat þá. Á hótelinu kannaði ég úrvalið á danska Netflix.

Eftir að hafa sent mér mörg villandi skilaboð komst Eygló loksins aftur á hótelið. Hún hafði þá treyst leiðbeiningum Google um hve lengi hún væri að labba en herra Google hélt að hún væri hjólandi.

Vafasamur maður á Shezan
Vafasamur maður á Shezan

Við fundum pakistanska staðinn Shezan á Istegade og borðuðum kvöldmat þar. Hann var góður en ekki jafn góður og dómarnir höfðu gefið til kynna. Sem fyrr þá dáðist Eygló að því hve duglegur ég væri að nota dönskuna mína á meðan hún treysti mest á ensku. Ég sagði henni að hún þyrfti að segja Hafdísi systur minni það.

Við höfðum ætlað að eyða kvöldinu í Tívolí en því var aflýst vegna rigningar. Í staðinn fórum við á hótelið eftir að hafa athugað hvort það væri nokkuð spennandi í bíó.

Eins og allir góðir foreldrar sem eru í fríi frá börnum sínum þá notuðum við aftur tækifærið á sunnudagsmorgni til að sofa út. Við tékkuðum okkur út alveg á síðustu mínútu og skildum farangurinn eftir á hótelinu.

Senjóríta á Senorita
Senjóríta á Senorita

Hádegismaturinn var borðaður af hlaðborði á notalengum stað sem heitir Senorita. Reyndar átti ég eftir að sjá eftir Tacokjötsáti mínu því ég var aumur í maganum það sem eftir var dagsins. Ekkert hræðilegt og líklega ekkert að matnum nema að hann var fullkryddaður fyrir maga minn sem var mögulega þreyttur á sterkum mat í öll mál.

Við galloppuðum á Galloppen
Við galloppuðum á Galloppen

Eygló vildi næst rölta að Tívolí og þegar þar kom þá plataði hún mig inn þó við hefðum varla nema klukkutíma þar. Hápunkturinn frá mínu sjónarhorni var þegar við spiluðum Gallopen alveg eins og Richard Ayoade. Hápunktur Eyglóar var væntanlega þegar hún sveiflaðist um tugi metra upp í loftinu á nornapriki á meðan ég stressborðaði ristaðar möndlur.

Til að vera róleg síðustu tvo klukkutímana fórum við á Fiskitorgið og skoðuðum búðir. Þar keypti ég það eina sem ég keypti fyrir sjálfan mig, Chromecast Audio sem ég ætla segja við hátalarana í svefnherberginu.

Hótelið næst, síðan lestarstöðin, næst troðfull lest með miða sem við höfðum óvart keypt of snemma þannig að þeir voru útrunnir. Mér leið illa. Á Kastrup byrjuðum við á því að elta uppi Global Blue Tax Free dæmið og voru send fram og til baka. Í leiðinni lentum við á meinhæðnum tollverði sem nennti greinilega ekki túristum sem ekki vissu hvað þeir væru að gera.

Þegar við vorum komin inn á fríhafnarsvæðið reddaði ég mér bara kóki til að sötra á meðan Eygló reyndi að finna sér eitthvað til að kaupa. Ég endaði með að bíða eftir henni sitjandi á gólfinu við hliðið okkar. Lukkulega var fyrst hleypt inn pakkinu á Saga Class og síðan fólkinu aftast í vélinni þannig að við, sem höfðum sæti við innganginn (og neyðarútganginn) máttum hvort eð er ekki fara inn fyrren síðast.

Kominn aftur á Leifsstöð.
Kominn aftur á Leifsstöð.

Ég naut þess að hafa pláss fyrir fæturna mína í vélinni. Eygló fékk síðan það hlutverk að benda villuráfandi farþegum á að þó dyrnar væru lokaðar þá væri salernið ekki endilega upptekið. Við hlið mér sat ágæt kona að öðru leyti en því að hún át endalaust einhverjar hnetur. Ég hefði líklega dáið ef ég hefði ofnæmi en í staðinn fékk ég bara meiri óþægindi í magann (of dramatískt?).

Það var lukkulega lítið að gera á Leifsstöð. Ég keypti nammi fyrir vinnuna og beið síðan bara eftir töskunum. Á leiðinni út greip Tollurinn mig ekki. Ég veit ekki hvernig ég á að taka þessu sinnuleysi Tollsins í minn garð. Ætli þeir séu svona klárir og sjái bara á mér að ég er ekki smyglaratýpan?
Hérna eru síðan fleiri myndir.

Ráfað um Manhattan

Óli og bókasafnsljóniðVið höfðum lengi talað um að skreppa til New York. Hvorugt okkar hafði heimsótt Bandaríkin. Við gerðum alvöru úr þessu á fimmtudaginn, afmælisdaginn minn.

Á Leifsstöð fékk ég sérmeðferð. Nafnið mitt var á einhverjum sérstökum lista yfir fólk sem þyrfti að fara í auka leit. Hvort það var handahófskennt eða tengt mínum róttæka bakgrunni. Annars sást að ég yrði skoðaður sérstaklega af því að stóð SSSS á miðanum mínum.

Við lentum á JFK um sjöleytið og tókum leigubíl á Edison Hotel sem er alveg við Times Square. Við höfðum skoðað nágrennið og ákváðum að byrja á að fara á ekta bandarískan keðjustað, Olive Garden. Hann var svona nokkurn veginn eins og maður bjóst við. Góður matur en ekki fínn. Svona bara eins og ég. Mér fannst ég innilega vera kominn til Bandaríkjanna þegar þjónn kom með nýtt kókglas handa mér áður en ég hafði klárað það fyrsta.

Við afrekuðum ekki mikið fyrsta kvöldið. Við röltum aðeins um og komum við í verslun sem heitir Danny’s og er við hliðina á hótelinu. Hann varð fastur áfangastaður meðan við vorum í borginni. Alls konar sérstakur matur þarna. Þetta var annars lengsti afmælisdagur sem ég hef upplifað.

Hótelið var annars ágætt. Við ætluðumst ekki til mikils. Verst var reyndar klósettið sjálft sem var bara eins og öll klósett sem ég sá þarna í New York. Það var mjög lágt og með þessum undarlegu setum. Síðan er vatnsborðið óþægilega hátt í þeim.

Á föstudaginn röltum við frekar stefnulaust. Ég fékk steik í morgunmat. Á aðalútibúi New York Public Library, sem þið munið eftir úr Ghostbusters, var mjög indælt andrúmsloft. Síðan var ókeypis þráðlaust net þar líka. Við tókum síðan smá rúnt um Grand Central Station, sem þið munið eftir úr myndum eins og The Fisher King. Næsta máltíð var úr svona matsöluvagni sem seldi arabískan mat. Þar fékk ég dásamlegt falafel. Stemmingin var svoltið skemmd af undarlegum manni sem minnti mig á Adam Sandler að leika heimskan mann. Sá var mjög aðgangsharður og pirrandi í betli.

Við röltum næst að Empire State Building. Við urðum ásátt um að Eygló færi upp meðan lofthræddi ég myndi rölta um nágrennið, aðallega í stóra en mjög óskipulagða spilabúð. Eygló var mjög glöð með útsýnið úr turninum og ég var mjög glaður með útsýnið af götunni.

Við fórum aftur á hótelið til að undirbúa kvöldið. Þá fórum við á örlítið fínni ítalskan veitingastað sem var með þolanlegum en ekkert spes mat.

Þá var komið að leikhúsinu. Við höfðum farið í leikhúsið snemma um daginn og keypt miða á Vesalingana. Það voru smá vonbrigði að Alfie Boe væri ekki að syngja vegna bakmeiðsla en við keyptum samt miða. Konan í miðasölunni, sem var voðaleg New York týpa, náði að sannfæra mig um að eyða tvöfalt meiru í miða heldur en ég ætlaði. Hún sagðist vera að gefa okkur einhvern afslátt en ég var eftir á að spá hvort hún hefði platað mig. Þegar við komum inn í leikhúsið og var vísað til sætis hvarf þessi tilfinning. Við vorum á fjórða bekk. Leikararnir voru bara rétt hjá okkur og maður gat fylgst ákaflega vel með.

Uppfærslan var voðalega skemmtileg. Hún var smá umdeild í fyrra þegar svartur leikari fékk aðalhlutverið. Hann dó síðan mjög óvænt. En það voru einmitt fleiri svartir leikarar með stór hlutverk. Þar bar helst sú sem lék Éponine. Hún var alveg yndisleg. Sem minnir mig á að mér finnst Les Mis alltaf enda voða dapurlega. Ekkert fer eins og maður vildi. Mér fannst annars meira gert úr trúarlega hlut sýningarinnar en bæði í London og kvikmyndinni. Síðan fannst mér eins og uppáhaldslínuna mína vantaði en hún varðar gildi þess að drepa kónga. Já, pólitíkin minna áberandi og trúin meira áberandi. Samt gaman að sjá menn veifa rauðum fánum á Broadway.

Laugardagurinn byrjaði hægt og rólega. Við fórum á Ellen’s Stardust Diner sem margir hafa mælt með. Þar syngja þjónarnir. Það var ágætt. Maturinn minn var ekkert spes en Eygló var mjög glöð. Það var mjög þröngt þarna og smá bið til að komast að. En þjónarnir sungu einmitt lag úr Vesalingunum.

Næst var stefnan tekin á Central Park. Við röltum þar heillengi um. Það er magnað hvernig garðurinn er rammaður af með þessum háhýsum. Við enduðum á Strawberry Fields þar sem er smá minnismerki um John Lennon sem bjó þarna rétt hjá í Dakota byggingunni (sem sást ekki vel vegna framkvæmda) og var auðvitað myrtur þar. Þarna var einn maður að spila á gítar. Hann bað okkur um að syngja með sem ég gerði, en ekki of hátt samt. Þarna var líka dópaður/fullur/klikkaður náungi sem var eins og maður sá í öllum myndum sem gerðust í New York 1980-1990. Hann lét okkur í friði en ákvað að einhverjir menn með arabískt yfirbragð væru talibanar og tjáði það ítrekað.

Það voru sumsé fullt af New York týpum í New York. Kvikmyndir og sjónvarp ljúga ekki. En það var líka fullt af fólki sem var bara almennilegt og söng, eins og ég, þegar lög með Cyndi Lauper voru spiluð í hljóðkerfum verslana. Síðan hafði afgreiðslufólkið húmor fyrir því þegar ég brosti meðan það skoðaði myndina á greiðslukortinu mínu.

Við Central Park er American Museum of Natural History. Þar ráfuðum við heillengi um. Margt spennandi. Ég náði að fá gæsahúð þegar ég skoðaði nýju stóru risaeðluna og var að ímynda mér hana lifandi. Það hefði verið hægt að eyða gríðarlegum tíma þarna.

Eftir safnið fórum við á indverskan stað sem við höfðum fundið á Google Maps. Sá heitir Savoury. Hann var frekar ódýr, eitthvað síðdegistilboð, og maturinn alveg frábær. Eftir það þræddum við heim á leið aðallega skóbúðir.

Um kvöldið ráfuðum við um Times Square. Ég hafði gaman af Disney búðinni. Það er nefnilega þannig að Prúðuleikararnir eru Disney og Star Wars líka. Þannig að það var meira þar en ég bjóst við fyrir mig. Ég keypti Kermitbangsa handa mér. Það er draumur úr æsku. Síðan eitthvað fyrir drengina líka. Ég sendi síðan Eygló í H&M meðan ég fékk mér aftur falafel. Ég gæti lifað af með því að borða bara úr þessum arabísku matsöluvögnum.

Þegar við komum heim á hótelið kveiktum við á NBC til að sjá Saturday Night Life. Reyndar bara í smá tíma en nógu lengi til að sjá Larry David og Bernie Sanders.

Sunnudagurinn varð að hálftilgangslitlu ráfi. Við ætluðum að fara alveg “Downtown” en það gekk lítið. Við enduðum með að borða á Chipotle sem er svona bandarískur Serrano nema að því leyti að maturinn er ekki góður. Ég verslaði mér föt! Síðan fékk ég afslátt af því að það var dregið uppúr mér að ég hefði haldið einu sinni með Arsenal.

Við ákváðum að gefa niðurbæjardrauminn upp á bátinn og fórum þess í stað að Austuránni. Þar var skemmtilegt útsýni. Við röltum þá áfram þar til við vorum komin framhjá höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna.

Þá þræddum við okkur í átt að Rockafeller Center. Það var voðalega notalegur staður. Þar var maður með stóra myndavél sem kallaði eftirminnilega á samferðamann sinn sem þvældis eitthvað fyrir “You’re killing my work John”. Síðan fékk ég að taka mynd af þessu fólki öllu með stóru myndavélinni. Það var reyndar hálfgert þema að ég tæki myndir fyrir fólk í New York. Ég á mikinn höfundaréttarfjársjóð sem ég ætti að fara að rukka fyrir.

En 30 Rock er auðvitað höfuðskip NBC. Við kíktum í minjagripabúð. Hún var ömurleg. Bara NBC lógóið og eitthvað Today Show. En konan þarna sá að við höfðum ekki áhuga á þessu og benti okkur á að það væri nýrri betri verslun annars staðar. Við fórum þangað. Ég rölti um og sá ekkert áhugavert. Ég ætlaði að segja Eygló það en þá var hún búin að finna Community-deildina. Ég sá þar Troy & Abed in the Morning könnu og keypti strax. Ég gleymdi meira að segja að skamma afgreiðslufólkið fyrir að reka Dan Harmon og hætta síðanmeð Community eftir að hafa ráðið Harmon aftur.

Það var lítið eftir að afreka annað en að fá sér að borða og taka leigubíl á flugvöllinn. Þar fékk ég enga aukaleit. Ég þurfti hins vegar að nota salerni sem varð til þess að ég hefði helst viljað sótthreinsa mig. Flugleiðir/Icelandair ákvað að við Eygló gætum bara ekki fengið að sitja saman á heimleiðinni. Ég notaði hins vegar hinar ýmsu töflur og Emilíönu Torrini til að vinna á flughræðslu minni. Það gekk allt vel. Við lentum klukkan sex á mánudagsmorgun og ég var kominn í vinnuna klukkan átta.

Það gekk auðvitað vel að rata nema að Broadway ruglaði mig. Stundum er Broadway ein gata og stundum tvær í einu.

New York var eiginlega eins og ég bjóst við. Auðvitað er öðruvísi að sjá þessi háhýsi sjálfur en það kom fátt á óvart. Það besta við New York er auðvitað það sem er best við Bandaríkin. Þetta er fjölmenningarsamfélag. Við getum vælt, réttilega, yfir því að amerísk menning sé að taka yfir allt en það má ekki gleyma að þessi einsleita bandaríska menning er líka alþjóðleg.

Svíþjóðarferð 2014 (Gaiman, Vasa, Säter og fleira)

Við höfðum haft þessa ferð lengi á áætlun en fyrir hana var mikið um vafa og efa. Ég vissi ekki hvort verkfall kennara yrði til þess að ég væri enn að vinna í lok maí. Síðan voru kjaradeilur flugmanna og flugfreyja með verkföllum, vinnustöðvunum og yfirvinnubanni að valda seinkunum og auðvitað því að flug féllu niður. Lukkulega var það flest komið á góðan kjöl þegar við fórum af stað.

Rétt um viku áður en við fórum út kom annað upp sem breytti plönum okkar. Ég kíkti á heimasíðu uppáhaldsbúðarinnar minnar í Svíþjóð, Science Fiction Bokhandeln, og sá þar að Neil Gaiman myndi árita bækur þann 28. maí. Þann dag höfðum við ætlað að vera komin frá Stokkhólmi en þeim plönum var snarlega breytt til að ég gæti hitt minn uppáhaldsrithöfund.

Við lögðum af stað um miðja nótt. Fórum á flugvöllinn og flugum. Á Arlanda vorum við rosalega lengi að fatta að það væri best að fara með Arlanda Express. Við ruddumst í gegnum lestarstöðina og fundum línuna til Sigga og Sigrúnar. Þau tóku á móti okkur þar og hjálpuðu okkur upp þar sem lyfturnar voru bilaðar. Við grilluðum og höfðum það næs út í garði þar sem krakkarnir gátu leikið sér. Hitinn fyrstu daganna var yfirleitt yfir 25°.

Á sunnudaginn fórum við í bakgarð Konunglega bókasafnsins en þar er bæði hægt að slappa af og mjög skemmtilegir leikvellir. Leikvellirnir voru vel nýttir af drengjunum sem og útisturtan. Við borðuðum á ítölskum stað áður en við fórum heim. Um kvöldið spiluðum við.

Á mánudaginn vorum við ekki rosalega fljót að koma okkur af stað. Þegar við komum á aðallestarstöðina keyptum við eitt Stokkhólmskort sem er hægt að nota í almenningssamgöngur og líka inn á mörg söfn. Við keyptum eitt því það hefði ekki borgað sig að kaupa tvö þar sem við ætluðum ekki að fara öll á alla staði. Eftir gönguferð um Gamla bæinn fórum við með sporvagni út á Djurbacken og beint á Skansinn. Við Gunnsteinn nýttum kortið til að komast inn í Akvarium þarna sem er af einhverjum ástæðum með öpum og fleiri óvatnsvæddum dýrum. Gunnsteini þótti lemúrar æðislegir þegar þeir voru að kúra en mér þóttu þeir frábærir þegar þeir voru að klifra á fólki. Ég sannfærði þá þó ekki um að klifra á mér og var Gunnsteinn glaður með það. Þarna voru líka krókódílar og slöngur. Ég reyndi að plata Gunnstein til að pota í slöngu sem mátti pota í en hann sannfærðist ekki. Ég potaði hins vegar mér að meinalausu. Gunnsteinn hafði annars helst áhuga á að láta taka myndir af sér með dýrastyttum.

Við hittum síðan mæðginin fyrir utan og röltum aðeins um. Ég settist niður og ætlaði að gefa Ingimari smá muffinsbita en þá kom páfugl og ætlaði að skoða muffinsið. Ég henti smá bita í burtu sem fuglinn náði í en það gerði hann bara aðgangsharðari. Með smá lagni náði ég að koma okkur undan þessu villidýri. Grísirnir voru það skemmtilegasta sem drengirnir sáu þarna. Eygló og Gunnsteinn stungu síðan af yfir í Grænalundartívolíið (þar sem þau fóru sex sinnum í maríuhænurússíbanann, fimm sinnum í “upp og niður tækið”, einu sinni í óþarflega draugalegu draugalestina og fullt af öðrum tækjum) en við Ingimar röltum meira um. Hann sá þó mest lítið. Ég hafði hins vegar gaman af að sjá úlfa.

Ég og litli enduðum inni í Gallerien inn í bæ og þá vaknaði hann og var hálfóhuggandi þar til ég gaf honum frjálsan aðgang að stafakexi. Annars átti ég líka smástund þarna þar sem ég var að hósta, við vorum öll með einhverja pest allan tímann, og sá fyrir mér að ég væri svona “patient zero” sem kæmi einhverri plágu af stað í Svíþjóð.

Eygló og Gunnsteinn hittu okkur síðan þarna og ég reyndi að nota eitthvað TripAdvisor app til að leiða okkur að ákveðnum veitingastað. Það gekk ekkert því við hoppuðum frá því að vera hundrað metra frá staðnum í að vera komin hundrað metra framhjá honum. Ekkert vit var í þessu. Við enduðum á einhverjum indverskum stað sem var ágætur. Þar náði Gunnsteinn að sofna. Við drifum okkur síðan heim til Sigga og Sigrúnar til að missa ekki af Game of Thrones. Drengirnir voru háttaðir í hvelli og allir settust fyrir framan sjónvarp en þá var enginn þáttur og allir fóru að sofa í staðinn.

Á þriðjudaginn byrjuðum við á Junibacken. Það var voðalega gaman. Þar var hamstrahjól og húsið hans Einars Áskells. Síðan var “lestarferðin” rosalega skemmtileg, þó frekar fyrir foreldrana. Svo var leikið sér í húsinu hennar Línu og horft á leikrit á sænsku sem ég reyndi að þýða jafnóðum fyrir Gunnstein. Hann var mjög áhugasamur þrátt fyrir samhengisleysið.

Eftir þetta hleypti ég Eygló í frí og við feðgar fórum allir í Vasasafnið. Ég gerð ráð fyrir að það yrði snögg ferð þar sem ég myndi benda Gunnsteini á stóra skipið og síðan færum við út. Það var ekki svo. Gunnsteinn heillaðist gjörsamlega og heimtaði að skoða á öllum hæðum. Ég útskýrði fyrir honum sögu skipsins og hann virðist alveg hafa meðtekið hana. Best þótti honum reyndar myndband þar sem sýnt var hvernig var búið til andlit á hauskúpurnar sem hafa fundist í skipinu, hann horfði á það ítrekað. Sneri meiraðsegja við til að sjá það aftur. Honum fannst líka frábært að vera efst í safninu og horfa yfir skipið. Við enduðum með að sleppa að fara í eitthvað sædýrasafn sem er víst þarna rétt hjá af því við vorum svo lengi þarna. Við hittum Eygló aftur í Gallerien og borðuðum á stað sem heitir líklega Edelweiss. Það var merkilega gott og væntanlega eini staðurinn þarna með ætan mat. Við afrekuðum ekki mikið meira áður en við snerum aftur heim til Solna.

Ég vaknaði eldsnemma á miðvikudagsmorgun, eins og við öll alltaf, og stakk af út í Science Fiction Bokhandeln. Þar var ég mættur klukkan 7 um morguninn og líklega númer 15 í röðinni. Það var skítkalt. Ég lifði í von um að sólin myndi ná að hita upp þessa þröngu götu en skýin breiddu fyrir hana áður en það gat gerst. Fyrsta klukkutímann horfði ég á Father Ted í símanum mínum en næstu tvo tíma spjallaði ég við raðfélaga mína sem voru mjög indælir. Ein stúlka kom seint út af einhverjum vandræðum með lestirnar. Ég fékk miða af dagatali en þegar ég spurðist fyrir fékk ég þau svör að það myndi ekki tryggja að ég yrði snemma í röðinni heldur bara að ég kæmist að.

Ég dreif mig til Solna þar sem við tókum okkur saman í rólegheitum. Við tókum allt okkar hafurtask og fórum með í neðanjarðarlest – frá stöð sem var með virka lyftu – og enduðum á aðallestarstöðinni. Þar villtumst við innilega um. Ætluðum að enda þar sem Vasagatan er en fórum þess í stað upp hjá Sergelstorgi. Við fórum bara ofanjarðarleiðina að Vasagötunni og fundum um leið Zocalo (Serrano) en vorum ekki svöng þannig að við stoppuðum ekki. Við náðum að lokum að koma töskum í skápa og kaupa miða bæði frá Stokkhólmi um sexleytið og til Arlanda á sunnudag.

Við röltum næst inn í Gamla bæ og borðuðum á Hurry Curry sem er við hliðina á SF. Ég hafði einmitt fundið staðinn af því ég sat í dyragættinni þar um morguninn. Maturinn þarna var í lagi en ekkert meira en það.

Við eyddum um klukkutíma í SF áður en Gaiman átti að mæta. Á meðan ég beið heyrði ég afgreiðslumann halda því fram að búðin ætti allar bækur sem Gaiman hefði skrifað. Ég ákvað að koma með mína hótfyndni og bað um bókina hans um Duran Duran. En ég fékk líka, lukkulega fyrir mig, að vita að reglunum hafði verið breytt og janúar fékk að vera fyrst í röðinni. Í þeirri röð hitti ég indæla bókasafnsfræðinema og spjallaði við. Ég planaði líka myndatökur sem voru að lokum framkvæmdar af starfsmanni búðarinnar. Gaiman var reyndar svoltið seinn en varla honum að kenna. Þetta var síðan allt mjög skipulagt. Ég skrifaði nafnið mitt á post-it miða sem var settur til móts við titilsíðu bókarinnar. Ég valdi að fá áritun á útjaskaða eintakið mitt af American Gods sem er uppáhaldið mitt. Ef ég hefði mátt láta árita tvær bækur hefði ég fengið tvær af Ocean at the End of the Lane og látið árita þær til Ingimars og Gunnsteins.

Þegar kom að mér spurði ég Neil strax hvenær hann kæmi til Íslands. Hann sagði að hann vildi endilega koma en ekkert hefði nokkurn tímann orðið af því. Hann leit við fyrir tíu árum, þá sendi ég honum einmitt tölvupóst, en hafði engan tíma fyrir neitt. Hann sagðist vera hrifinn af öllu íslensku nema hákarli. Ég sagði að hákarlinn væri bara eitthvað sem við gæfum túristum. Ég sagði honum að ef hann kæmi til Íslands gæti hann komið og lesið í skólanum mínum og fengið rakstur og klippingu hjá nemendunum mínum. Hann sagði já við tilboðinu en ég veit ekki hve hátíðlega ég á að taka því. Ég var allavega ógurlega glaður með þetta. Kátur sem skólastelpa.

Við röltum síðan bara á lestarstöðina. Versluðum, fundum okkar lest, fórum af stað og stoppuðum. Það kom í ljós að það voru gríðarlegar tafir á lestunum. Við stoppuðum ítrekað. Stoppuðum lengst í Västerås og hefðum örugglega getað spjallað vel við Eirík Örn ef við hefðum vitað hve löng töfin yrði. Miðað við það sem ég sá þar sem ég rölti yfir í veitingavagninn var stemmingin langbest hjá okkur. Við eignuðumst líka sameiginlegan óvin, mjög fullann gaur sem kom aftur og aftur til að laumast til að reykja, eða reyna að reykja, í enda lestarinnar. Að lokum var hann tekinn fyrir og samviskusamur sænskur drengur og eldri kona tóku hann að sér. Upplýsingagjöf til okkar ill-sænskumælandi var afar takmörkuð en við komumst á leiðarenda, um þremur tímum of seint, til Säter þar sem Anna systir tók á móti okkur.

Það var minni dagskrá í Säter. Fimmtudeginum eyddum við að mestu í Säterdalnum þar sem eru rosalega skemmtileg leiktæki fyrir Gunnstein. Þar er líka húsdýragarður m.a. með lamadýrum. Gunnsteinn fékk að fara á hestbak á smáhesti.

Á föstudaginn fórum við í Kupolen verslunarmiðstöðina, veðrið var ekkert spennandi. Við heimsóttum líka IKEA og drengirnir fengu sér báðir kjötbollur.

Veðrið á laugardaginn var ekkert spennandi þannig að við fórum aftur í Kupolen og versluðum loksins eitthvað. Ég leyfði mér að kaupa Chromecast sem tengir sjónvarp við net/tölvur/snjalltæki. Ég náði að stríða íslenskum stúlkum frekar vel í leikfangabúðinni. Þær voru rétt hjá okkur og önnur spurði hina hvort “fólkið” (við) værum í röð. Ég sagði þá við þær að við værum ekki í röðinni. Fyrst svöruðu þær voðalega eðlilega en skríktu síðan þegar þær föttuðu að ég hefði talað íslensku. Anna systir náði líka að góðum árangri þegar hún fór allt í einu að tala íslensku á fullu við afgreiðslustúlku á Sushistað. Annars Þegar við komum út var veðrið voðalega fínt þannig að við hefðum kannski frekar átt að vera úti.

Eftir lestarreynslu miðvikudagsins höfðum við miklar áhyggjur af því hvernig við myndum komast á flugvöllinn. Anna reddaði okkur breyttum miðum sem fór fjallabaksleið til að fara framhjá vandræðasvæðum. Við fórum með lest frá Borlänge klukkan hálfsjö að morgni og áttum að fara út í Enköping þar sem rúta færi til Arlanda. Við höfðum ekki verið lengi í lestinni þegar allt stoppaði, vandamál með merkjakerfið. En það stóð ekki lengi. Hins vegar leit allt út fyrir að við myndum missa af rútunni. Sérstaklega eftir að við þurftum að stoppa aftur til að lest sem var að koma á móti gæti skipt um teina. Við vorum farin að búa til B-plan um að fara alveg til Stokkhólms og þaðan til Arlanda. En lukkulega hafði átt að vera smá biðtími í Västerås sem var sleppt. Við þutum því áfram og komum nokkrum mínútum of seint til Enköping. Þar notaði ég smá frekju til að ná lyftunni fyrir okkur. Satt best að segja fáránlegt að fullfrískt fólk sem hefði alveg getað farið tröppurnar hafi ætlað að fara í lyftuna á undan fólki með barnavagn.

Rútuferðin hefði getað verið indælli ef ákveðinn farþegi hefði haft vit á að skammta sér rakspíra á hóflegri hátt. Mér þótti fnykurinn yfirgengilegur og held að hann hafi farið illa í Ingimar sem gubbaði. Ég greip lukkulega gubbið í poka og því þurfti engin fataskipti. Á Arlanda höfðum við nægan tíma. Við borðuðum vel á Alfredos. Þegar innritun lauk keyptum við okkur rándýrt vatn/sódavatn og að lokum fengu drengirnir að leika sér á smá Junibacken leiksvæði.

Flugferðin gekk ágætlega. Ég velti fyrir mér hvort það sé kennt í flugfreyjuskólum hvernig maður á að keyra vagninn harkalega í farþega sem sofa við ganginn til að eiga möguleika á að selja þeim eitthvað – allavega lendi ég oft í því. Ég gekk í míluhæðarklúbb þeirra sem hafa skipt um kúkableyju í flugvél.

Ég hafði æft sænskuna aðeins fyrir ferðina og gat skilið töluvert meira en almennt en væntanlega þyrfti ég einhverja mánuði þarna til að ná einhverri færni.

Annars bara þakkir til Sigga og Sigrúnu og Önnu og Martin fyrir að hýsa og hugsa svona vel um okkur.