Fölnuð málning og friðardúfur?

Tákn friðar og ofbeldis á Norður Írlandi

[Skrifað eftir heimsókn til Derry sumarið 2008 og birtist fyrst í tímaritinu Ský]

Derry/Londonderry er næststærsta borg á Norður Írlandi. Þessi tvískipting á nafninu er ákaflega táknræn. Derry er komið af upprunalega írska nafninu en Londonderry vísar til tengsla við höfuðborg Englands. Bæði nöfnin eru í raun opinber, annað frá sjónarhóli breskrar stjórnsýslu en hitt á sveitastjórnarstiginu á Norður Írlandi. Derry er notað af lýðveldissinnum sem eru almennt kaþólikkar en Londonderry af sambandssinnum sem eru almennt mótmælendur. Derry er þó algengara heitið.

Bogside
Bogside

Síðustu ár hefur verið friðsælt í Derry en svo hefur ekki alltaf verið.
Borgin stendur rétt við landmærin að írska lýðveldinu og meirihluti borgarbúa eru kaþólikkar. Á sjöunda áratugnum blossuðu upp óeirðir í borginni. Það voru margar ástæður fyrir óánægjunni. Húsnæðismál voru ofarlega þar á baugi þar sem erfitt var fyrir kaþólikka að komast í húsnæði á vegum borgarinnar. Kosningaréttur var ekki heldur jafn í borginni. Kjördæmi voru afmörkuð þannig að vægi atkvæða kaþólikka var minna en mótmælenda og þar að auki var atkvæðisréttur tengdur því að menn ættu fasteignir.

Ég við vegginn fræga
Ég við vegginn fræga

Á tímabili tóku lýðveldissinnar sig til og notuðu vegatálma til að afmarka hverfi kaþólikka í Derry. Í kjölfarið var máluð setning á vegg sem er enn viðhaldið. “You are now entering Free Derry” – “Þú ert að koma inn í Frjálsu Derry”. Hápunktur átakanna í Derry, og líklega á Norður Írlandi í heild, var að sennilega hinn svokallaði Blóðugi sunnudagur þar sem breskir hermenn skutu 14 óvopnaða borgara til bana og særðu 13 í viðbót.

Bloody Sunday
Bloody Sunday

Í dag er öldin önnur. Götur Derry eru friðsælar. En fortíðin er allsstaðar. Veggmyndir hafa í gegnum tíðina verið algengt tákn í áróðursstríðinu á Norður Írlandi. Frægustu myndirnar í dag eru væntanlega í Derry. Þar eru myndir málaðar af hóp listamanna sem kenna sig við kaþólska hverfið Bogside þar sem þær eru. Myndirnar eru úthugsaðar. Þær sýna sögu baráttunnar í borginni. Þarna eru myndir af fórnarlömbum Blóðuga sunnudagsins ásamt myndum af öðrum sem létust í ofbeldinu. Óhugnanlegustu myndirnir eru af börnum. Annars vegar 14 ára stúlku sem var skotin til bana af breskum hermönnum og hins vegar ungum dreng sem heldur á bensínsprengju.

 

Annette McGavigan, 14 ára, var myrt af breskum hermanni árið 1971.
Annette McGavigan, 14 ára, var myrt af breskum hermanni árið 1971.
Drengur með bensínsprengju
Drengur með bensínsprengju

Þarna má líka sjá mynd af Bernadette Devlin sem stjórnaði baráttunni í Bogside og var kosin á breska þingið. Á þinginu kýldi hún breska innanríkisráðherrann og hárreitti þegar henni var neitað um að tjá sig um ofbeldið á Blóðuga sunnudeginum sem hún hafði orðið vitni að. Einnig er mynd af föngum sem létust í hungurverkfalli í upphafi níunda áratugarins.

Bernadette Devlin
Bernadette Devlin
Fórnarlömb hungurverkfallsins
Fórnarlömb hungurverkfallsins
Friðardúfa
Friðardúfa

Mynd af friðardúfu er síðust í röðinni. Á yfirborðinu er þessi mynd óður til friðarins. Á upplýsingaskilti fyrir framan myndina eru hins vegar skilaboð frá listamönnunum sem sýna að friðurinn er skilyrtur. Þar stendur að friður án frelsis sé ekki mögulegur. Hið umrædda frelsi er þá að öllum líkindum tengt sameiningu við írska lýðveldið. Það er önnur mynd tengd hungurverkfallinu sem ekki er tengd Bogside listamönnunum. Þar eru nöfn þeirra sem létust í hungurverkfallinu rituð á vegg fangaklefa en þakið hefur verið rofið og þar flýgur fugl í frelsið. Hann táknar væntanlega anda þeirra sem létust.

Fangar sem létust í hungurverkfalli
Fangar sem létust í hungurverkfalli

Bogside hverfið er hlaðið táknum. “Free Derry” veggurinn stendur þarna enn. Á svæðinu eru líka ótal írskir fánar á ljósastaurum sem flestir eru málaðir grænir, hvítir og appelsínugulir. Sömu litir eru á gangstéttarbrúnum. Á leikvöllum við skóla eru írsku fánalitirnir líka notaðar til að afmánaarka leiksvæðin. Þetta eru skýr tákn um að íbúarnir telji að svæðið eigi að tilheyra írska lýðveldinu. En það sjást fleiri fánar.

Karlsvagninn
Karlsvagninn
Fánar Palestínumanna og Baska
Fánar Palestínumanna og Baska

Meðal þeirra er blár fáni með stjörnumerkinu karlsvagninum en hann er tákn lýðveldissinnaðra sósíalista (IRMA) sem bera ábyrgð á ýmsum ofbeldisverkum á Norður Írlandi. Rétt hjá hangir fáni basknesku sjálfsstæðishreyfingarinnar ETA.

Stutt frá má sjá veggmynd af Che Guevera þar sem lögð er áhersla á írskt ætterni hans. Á sama svæði má líka sjá margar vísanir í baráttu Palestínumanna. Á einum stað má sjá fána Írlands og Palestínu renna saman í eitt.

Önnur tákn á svæðinu eru óformlegri. Krass og krot innihalda oft grófari skilaboð. Á húsþaki sem snýr að hverfi mótmælenda stendur RIRA RULES.
Skammstöfunin stendur fyrir Real Irish Republican Army og er klofningshópur úr írska lýðveldishernum sem ekki vildi leggja niður vopn eftir friðarsamkomulögin á tíunda áratugnum. Samtökin eru þekktust fyrir sprengingar í bænum Omagh á Norður Írlandi þar sem tuttugu og níu manns létust og yfir tvöhundruð slösuðust.

“SINN FEIN SCUM” og aðrar áletranir með nafni stjórnmálaflokksins benda til þess að margir telji að flokkurinn hafi svikið lit með þátttöku sinni í friðarferlinu. BRY er algengt krot, það stendur fyrir Bogside Republican Youth, ungir lýðveldissinnar í Bogside hverfinu.

Borgarmúrar verja "Fountain" hverfi mótmælenda.
Borgarmúrar verja “Fountain” hverfi mótmælenda.

Í öðrum borgarhluta er hægt að sjá hina hliðina. Borgarmúrarnir og háar girðingar takmarka aðgang að Fountain hverfinu. Þar búa sambandssinnar af mótmælendatrú. Táknin þar vísa til Bretlands og sambandsfáninn blaktir víðsvegar.

Fánar Englands, Skotlands, Wales and Ulster umkringja breska fánann
Fánar Englands, Skotlands, Wales and Ulster umkringja breska fánann

Kantsteinar eru málaðir bláir, hvítir og rauðir. Á svæðinu eru veggmyndir eins og í Bogside. Sumar eru þær þó áberandi fölnaðar. Mynd af Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseta og tilvitnun þar sem hann áréttar að forfeður hans hafi verið mótmælendur sem börðust við kaþólikka á Írlandi.

Teddy Roosevelt
Teddy Roosevelt

Þarna má líka sjá myndir þar sem vísað í bandalag Ulster (héraðið sem Norður Írland tilheyrir samkvæmt fornri írskri skiptingu) og Bretlands.

No Surrender
No Surrender

Þær veggmyndir sem best er viðhaldið í Fountain hverfinu eru við æskulýðsklúbb (Cathedral Youth Club) á svæðinu. Meðal mynda þar er merki Ulster Defence Association sem eru samtök sambandssinna sem stunduðu vopnaða baráttu.

Lindsey Mooney meðlimur UDA lést árið 1973 þegar sprengja sprakk of snemma.
Lindsey Mooney meðlimur UDA lést árið 1973 þegar sprengja sprakk of snemma.
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)
Æskulýðsklúbbur (Cathedral Youth Club)

Orrustan við Somme í Seinni heimstyrjöldinni er sterk táknmynd sambandssinna. Í orrustunni létust margir írskir sjálfboðaliðar sem flestir voru úr röðum sambandssinna. En vísunin er einnig tengd páskauppreisn írskra lýðveldissinna í Dublin sem lýðveldissinnar vísa oft í. Sú uppreisn var álitin gróf svik enda var tilgangur hennar að nýta sér bága stöðu Breta vegna heimsstyrjaldarinnar. Þessir atburðir áttu báðir sér stað árið 1916.

Í hverfi mótmælenda
Í hverfi mótmælenda

Á einum vegg er málaður fáni Óraníureglunnar, appelsínugulur með fjólublárri stjörnu, litlum enskum fána í horninu og áletruninni “In God We Trust”. Óraníureglan fagnar árlega sigri Vilhjálms af Óraníu yfir Jakobi II.

West Bank Loyalist Youth
West Bank Loyalist Youth

Á næsta vegg við er mynd með merki West Bank Loyalist Youth sem eru ungir sambandssinnar á svæðinu. Krotið í Fountain hverfinu er sem fyrr segir oft tengt við umsátrið um Derry.

Taigs out
Taigs out

Einnig má sjá áletrunina “Taigs out” en Taig er niðrunarorð yfir kaþólikka. Mikið er um niðrandi vísanir í IRA. Þar að auki má sjá neikvæðni í garð lögreglunnar: “Ef svín gætu flogið væri lögreglustöðin við Strand road flugvöllur”. Annað krot vísar í ýmis samtök, sum vopnuð en önnur minna þekkt. Á einum vegg á niðurníddu húsi er rauð skuggamynd af vopnuðum meðlim Ulster Freedom Force sem eru samtök nátengd Ulster Defense Association. Einhver hefur teiknað bros á þessa óhuggulegu fígúru.

Í hverfi mótmælenda
Í hverfi mótmælenda

Það sem er mest áberandi í Fountain hverfinu er ekki krot og myndir heldur almenn niðurníðsla. Mörg hús eru yfirgefin og mörg þeirra sem enn er búið í eru fátækleg. Þeir sem vilja búa í Fountain hverfinu þurfa líka að búa við stimplunina mótmælandi og sambandssinni í borg sem er að meirihluta byggð kaþólikkum. Það er ekki skrýtið að þeir flytji annað.

Lögreglumenn vakta hverfið. Fölnuð málning og hús í niðurníðslu
Lögreglumenn vakta hverfið. Fölnuð málning og hús í niðurníðslu

Nýlega var afhjúpuð ný veggmynd í Derry, sú tólfta í seríu Bogside listamannanna. Á henni er kaþólikkinn John Hume sem hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir hlut sinn í friðarferlinu ásamt Móður Teresu, Nelson Mandela og Martin Luther King sem einnig hlutu verðlaunin. Sambandssinninn og mótmælandinn David Trimble sem hlaut verðlaunin með Hume fær hins vegar ekki að vera með á myndinni. Enn er friðurinn skilyrtur.

Veggmynd sem var verið að mála þegar ég heimsótti borgina
Veggmynd sem var verið að mála þegar ég heimsótti borgina

Enginn veit hver framtíðin verður í Derry og Norður Írlandi. Tákn baráttunnar eru enn þarna. Hve djúpt rista þessar ögranir? Eru þær bara táknrænnar fyrir fortíðina, menningararfinn, eða þýða þær að ofbeldið gæti blossað upp aftur? Eru myndirnar aðallega fyrir túristana sem vilja sjá minnismerki um ofbeldið? Hvað eru íbúarnir að hugsa?

Saga ofbeldsins í Derry vekur allavega suma til meðvitundar um almenn áhrif vopnaframleiðslu
Saga ofbeldsins í Derry vekur allavega suma til meðvitundar um almenn áhrif vopnaframleiðslu

Hættan er aðallega fólgin í því að ungt fólk sjái ofbeldið í rómantísku ljósi. Menjar óróans eru yfirþyrmandi en hugsanlega koma þær því ekki til skila hve hræðilegt ástandið raunverulega var. Nokkrum dögum eftir að ég yfirgaf Derry var pizzasendill myrtur og upp blossaði ótti við að hér væri afturhvarf til obeldis fyrri ára. Real IRA sem var sakað um morðið neitaði hins vegar sök og líklega var þetta hversdagslegt ofbeldi sem teljast líklega góðar fréttir í Derry.

Myndasafn

Fölnuð málning og friðardúfur?

Ég var að fá eintak af tímaritinu Ský. Ég er verulega ánægður með það hvernig greinin kemur út. Myndirnar svínvirka líka. Þið sem viljið lesa ykkur til um það sem ég sá og hugsaði um Derry ættu að redda sér eintaki.

[Greinin í heild sinni: https://truflun.net/oligneisti/2020/07/22/folnud-malning-og-fridardufur-2/]

Djöfull er ég steiktur

Ég er kominn heim. Náði að sofa til hádegis. Líkami minn er afskaplega aumur og ég er með smá höfuðverk. Allt eftirköst ferðalagsins, þeytings og þvælings. Gott að vera heima.

Í gær vaknaði ég akkúrat nógu seint til að missa ekki af morgunmatnum. Hann var reyndar óspennandi. Rúnstykki, ostur og skinka var það besta sem var í boði. Reyndar var osturinn bara viðbjóðslegur en sem betur fer var líka Babybel þarna sem ég gat notað í staðinn. Ég kláraði alla pakkningu um ellefu og tjékkaði mig út. Síðan fórum við Júlíana niður á Covent Garden og borðuðum smá til að fylla upp í.

Dagurinn fór annars bara í rölt. Við fylgdumst með böskara sem hafði þann undarlega sið að móðga áhorfendur sína. Frakkinn sem sat við hlið mér spurði mig með táknmáli hvort hann ætti að gefa eitt pund í töskuna. Ég gat þumal upp en hann skyldi það þannig að hann ætti að gefa meira. Eftir það horfðum við á konu sem var að velja sér eiginmann úr áhorfendaskaranum og lét þá vinna ýmsar þrautir. Mjög fyndið.

Við kíktum í nokkrar verslanir. Í einni mátaði ég hatt. Sölumaður kom og sagði mér að hann kostaði 35 pund. Ég ákvað að leika mér aðeins og talaði við Júlíönu á íslensku. Sölumaðurinn hafði kallað hana konuna mína þannig að ég lét eins og ég væri að rökræða við hana um hattinn og að hún væri neikvæð. Hann bauð fyrst 30 og þegar ég gekk út fór hann niður í 20 pund sem var verðið sem ég sætti mig við. Við Júlíana keyptum okkur líka töskur rétt áður en við fórum á hótelið, hjólin á hennar höfðu brotnað af og mín var bara léleg. Þar náði ég bara að koma verðinu niður um eitt pund, tel að ég hefði getað gert betur ef ég hefði haft rýmri tíma.

Eftir að hafa umpakkað í nýju töskurnar og gefið hótelinu þær gömlu fórum við að borða á persneskum stað. Þar var þjónustan hæg og maturinn ekkert rosalega góður. Við hoppuðum í undirgrundina og þegar kom að Liverpool Str. gáfum við túristum sem biðu eftir að komast í miðasjálfsalann dagskortin okkar. Það er gaman að vinna handahófskennd góðverk.

Það gekk vel að komast á Stansted en það var greinilega eitthvað í gangi með öryggisgæsluna. Það var pípað á mig þó ég hefði engan málm á mér og síðan þuklað á mér. Bakpokinn minn var skoðaður og fartölvulásinn sem aldri hefur vakið áhuga þar áður (þó hann hafi verið þar allavega 3 áður) hafði greinilega þótt tortryggilegur. Þegar inn í fríhöfnina kom sáust síðan löggur með byssur og ónotin fóru um mig. Við reiknuðum því miður skakkt með mat. Við hefðum átt að borða aðeins fyrr um daginn en taka almennilega máltíð á Stansted til að verða ekki svöng í loftinu. Pontis hefði verið betri en perskneski staðurinn.

Aníhú. Flugið heim var ekkert rosalega spennó né óþægilegt. Við gleymdum því miður að taka mynd af okkur með Ambrose hjá töskufæriböndunum. Ég keypti nær ekkert í fríhöfninni og var ekki tékkaður í tollinum. Raunar hefur það bara einu sinni gerst að tollverðir hafi sýnt mér áhuga og það var þegar þeir kíktu í fríhafnarpokana mína, Eggerts og Eyglóar á leið heim frá Gotlandi til að tékka tollinn okkar. Ég hef greinilega ekki smyglaralúkkið.

Eygló náði í okkur og skutlaði Júlíönu heim áður en við fengum okkur létan mat á BSÍ, hún Subway en ég burrito frá stað mannsins sem tollararnir elska að skoða. Núna er gott að vera heima.

London beibí eða calling eða eitthvað

Ég hoppaði strax á fætur í morgun og kom mér fljótt út með allt draslið. Hitti Júlíönu strax og hringdi í taxa. Valdimar kom líka á góðum tíma. Við ákváðum að gefa okkur ekki rúman tíma að komast í gegnum flugvöllinn í Derry en þó fengum við of mikinn. Í tjékkininu gekk allt vel hjá mér, Júlíana fékk gefins forgangspassa en Valdimar lenti í veseni tengt því að hann hefur ekki áður kynnst yndislegu veröld RyanAir. Honum fannst sumsé skrýtið að þeir gerðu ekki ráð fyrir í sjálfgildunum að hann tæki með sér tösku.

Í fluginu sátum við aftur við neyðarútganginn og leið vel þar. Lendingin var hörð og ef þetta hefði verið eitthvað annað flugfélag þá hefði ég orðið organdi hræddur. En ég er þessum lendingum. Við borðuðum saman á Pontis áður en Valdimar flaug heim. Við Júlíana komum okkur inn til London og sáum þá að hótelið okkar var ekki á þeim stað sem það átti að vera. Sem betur fer komumst við samt heil á höldnu á réttan rangan stað.

Á leiðinni í Undirgrundina fundum við stað sem auglýsti að hann biði upp á illfáanlega leikhúsmiða. Við fórum þangað og spurðumst fyrir. Afgreiðslukonan vildi eiginlega ekki selja okkur miða á Les Mis en mælti með We will rock you. Við sættumst öll að lokum á Spamalot. Þetta var bæði vondur og góður díll. Við gátum þarna losnað undan því að eltast við miða en það kom í ljós að það var verðið var tvöfalt á við það sem gerist á Leicester Sq.

En þarna skildumst við Júlíana að. Ég fór í nördabúðir og keypti eitthvað ónauðsynlegt. Síðan ráfaði ég bara um. Horfði á töframann í hálftíma, borðaði fyllta kartöflu og sat síðan og horfði á böskara. Allt þetta síðastnefnda var í nágrenni Covent Garden.

Ég ætlaði að hafa góðan tíma áður en ég þyrfti að fara í leikhús svo ég gæti farið á netið á hótelinu. Það varð ekki. Ég lenti í voðalegum vandræðum á Covent Garden lestarstöðinni. Lestinni seinkaði heilmikið og ég komst ekki í þá fyrstu sem mætti. Ég sá að ég gat rétt troðið mér inn í þá næstu en fjölmargir gáfulingar ákváðu að troða sér fyrir aftan mig. Ótrúleg þrengsli. Þegar við stoppuðum á næstu stöð þar sem ég ætlaði út þá voru gáfulingarnir fyrir aftan mig ekkert á því að hleypa fólki út. Þetta endaði með því að eitthvað brast og þeir hrundu út og ég í kjölfarið. Þetta var svo mikill kraftur að ég keyrði næstum grey konu upp við vegg.

Þegar kom á hótelið kom í ljós að leikhúsið byrjaði hálftíma seinna en ég hélt þannig að ég fór aðeins á netið en þurrkaði líka svitann undan höndunum mínum og skipti um bol í annað sinn um daginn. Þegar ég kom aftur niður var Júlíana á barnum. Hún var búinn að heilla barþjóninn svo að hann gaf okkur flögur til að nærast á fyrir leikhúsferðina.

Það gekk vel að komast í leikhúsið en þar áttuðum við okkur á að við vorum alveg á þriðju svölum. Gott fuglsaugaútsýni yfir sviðið en ekkert pláss fyrir fætur. Sem betur fer voru engir við hliðina á okkur þannig að ég sat eiginlega á hlið. Það olli því reyndar að þegar ég leit til hliðar sem var þá næsta bekk fyrir aftan mig þá hélt stúlkan þar að ég væri að kíkja upp undir hana. Hún sagði raunar ekki neitt en greip jakka og setti yfir hnéin. Ég veit ekki hvað ég hefði átt að sjá í myrkrinu þarna. Leikritið var ágætt en ekki frábært.

Eftir á leituðum við lengi að hraðbanka og enduðum síðan á ítölskum veitingastað. Eftir að ég hafði pantað áttaði ég mig á því að þetta var staður sem við Eygló fórum á í febrúar. Þar lentum við í ótrúlegum þrýstingi að gefa mikið þjórfé þó það hafi verið lagt á þjónustugjald. Við fengum okkur þríréttað og skipulögðum síðan undankomu vel til að losna undan aukaþjórfésþrýstingi sem var mjög greinilegur á næstu borðum. Það virkaði. Síðan komum við okkur bara heim. Í undirgrundinni sáum við mann taka góða útgáfu af Personal Jesus.

Núna er ég bara hreinn í herbergi með netsamband og blogga því í beinni. Herbergið sjálft er fínt en það er mjög spes að maður þarf að fara upp lítinn stiga til að fara upp í rúma. Það er mjög höfðinglegt að sjá sko. Jæja, svefninn kallar en laðar ekki þar sem slíkt bíður upp á misskilning.

Franskar eða hrísgrjón er fölsk klemma

Í gær var ég frekar þreyttur og ákvað að fara ekki í ferðina til Donnegal sem var í dag. Reyndar líka af því að Júlíana hafði ekki fengið miða. Ég vaknaði snemma til að reyna að selja miðann minn en það gekk ekki. Ég reyndi að selja Ungverja þetta á hálfvirði en það fór fyrir lítið þegar hún fékk hvorteðer að fara af því að sætið mitt var laust. Ég hefði getað verið fífl og sagt að hún mætti ekki fá sætið mitt en ég er bara ekki þannig innrættur. Það hefði samt verið gott fyrir veskið.

Ég fór þá aftur heim að sofa. Það gekk illa og um ellefu leytið fór brunakerfið af stað. Ítrekað. Ég fór fram og mér var sagt að hafa ekki áhyggjur, þetta væri bara æfing. Ég gafst upp á svefni. Hringdi í Júlíönu og við enduðum með að rölta niður í bæ. Þar hittum við engan en komumst yfir í Bogside aftur og skoðuðum dýpra. Veggmynd sem ég hélt að væri í viðgerð þegar ég fór þarna síðast um var greinilega bara verið að mála og tilbúin þegar við komum þarna. Þarna voru Móðir Teresa, Mandela, Martin Luther King og happadrættisdragarinn John Hume. Súrt maður. Við komum þarna við í búð til að kaupa batterí en fengum óvenju heiðarlega konu sem sagði að Panasonic væri rubbish og við ættum bara að fara í næstu sjoppu. Búð heiðarlegu konunnar virtist reyndar selja aðallega eldivið.

Ég lenti í pirringi þegar ég fór að taka inn greinina mína sem Terry hafði yfirfarið. Ég þurfti að fara fram og til baka af því að ég hafði gleymt minnislyklinum/mp3 spilaranum. Já, hann kom semsagt í leitirnar í gær eftir fyrirlesturinn. Ég kíkti aðeins á athugasemdir Terrys og sofnaði síðan aðeins en um sexleytið hringdi Júlíana í mig og sagði að hún og Kristinn væru á krá niðrí í bæ.

Ég hoppaði og skoppaði af stað, vonlaus um að sofna en vongóður um mat. Einhvern vegin endaði þetta með því við eyddum fleiri klukkutímum í að horfa á fótbolta með Neil og Gary á The Claredon. Ég fékk Kristinn með mér í plott um að þykjast vera Króatar í von um að fá ókeypis í glas. Við öskruðum á sjónvarpið á íslensku og þegar Króatía skoraði að því er virtist sigurmarkið í framlengingu sungum við saman Ísland ögrum skorið. En við fengum engin boð um drykki og Tyrkir skoruðu síðan og eyðilögðu kvöldið fyrir okkur Króötum í vítaspyrnukeppni.

Við skyldum við Neil um ellefuleytið og fórum fjögur að fá okkur að borða. Það er lítið úrval á þessum tíma kvölds þannig að við keyptum okkur ákaflega undarlegan mat. Ég fékk Chicken balls sem reyndist vera djúpsteiktur kjúklingur með brúnsósu, frönskum og hrísgrjónum. Það er greinilega fölsk klemma þegar maður er látinn velja milli franskra kartaflna og hrísgrjóna sem meðlæti því það er hægt að hrúga þessu öllu í frauðplastsbox. Undarlegast var hve vel þetta smakkaðist þar sem við sátum á bekk út á torgi í Derry.

Við hoppuðum síðan inn á næstu krá sem var safnaði greinilega fánum og táknum undirokaðra þjóða. Mesta athygli vakti sænski fáninn sem ég sagði að hlyti að vera fáni Hjaltlandseyja eða eitthvað. En þarna voru semsagt Terry og frú ásamt dóttur sinni. Þarna var hávær tónlist og við spjölluðum frameftir. Valdimar kom líka. Þegar við fórum loksins, ég, Valdimar, Júlíana, Kristinn og Gary, þá komu Derrymenn og buðu okkur í partí. Af einhverjum dularfullum ástæðum þáði Kristinn þetta boð fyrir okkar hönd og það var nokkuð erfitt að reyna síðan að koma mönnunum í skilning um að við værum í raun á heimleið. Þetta endaði með að Gary og Kristinn fórnuðu sér fyrir okkur sem þurftum að vakna fyrr. Á leiðinni heim fórum við á kebabstað þar sem ég keypti mér mat bara af því ég vildi kebab. Það var fokkings frábært. Einfalt og gott. Ég hefði átt að borða þarna alla vikuna.

En núna er ég að mestu búinn að undirbúa brottför. Ég vakna um sjöleytið og við hittumst úti rétt eftir það. Við gerum ráð fyrir að Derryflugvöllur bjóði ekki upp á tveggja tíma bið eins og Stansted.

Þreyttur að vanda klukkan 3:18 að írskum tíma í Duncreggan þann 21. júní 2008.