Tveir sólarhringar í Dublin

Tryggir lesendur vita væntanlega að ég fór til Dublin með Eygló um helgina. Ég bölvaði mér mikið fyrir að hafa valið flugleiðina í stað lestar. Það hefði reyndar verið örlítið dýrara en mun notalegra.

Hvað um það. Við flugum með RyanAir seinnipart laugardags.  Eygló fékk þarna í fyrsta sinn að kynnast öllum undarlegheitum þessa írska flugfélags. Ég skorðaði mig bara í sætinu eins og venjulega og svaf notalega á leiðinni.

Við vorum með allt í handfarangri þannig að við vorum fljót út. Við hoppuðum síðan inn í taxa sem færði okkur inn á hótel. Leigubílstjórar í Dublin hafa reglur um að farþegar eigi rétt á þögn þegar þeir ferðast. Sú stefna hefur greinilega aldrei náð hingað suður.

Hótelið var ágætt, heitir Portobello og er við norðurbakka skurðsins. Aðalatriðið var að þarna var sturta. Síðan var sjónvarp þar sem við gátum fylgst með “Are you smarter than a ten year old?” og fengum skýrt “nei” frá þeim sem var að keppa. Við tókum og röltum um Dublin um kvöldið. Það voru margir að rölta Graftonstræti, hugsanlega var verið að kveikja á skreytingunum. Allavega notaleg stemming og hlýrra en hafði verið í vikunni.

Við leituðum að veitingastöðum sem var mælt með í Lonely Planet en það gekk ekkert. Mest spennandi staðurinn sem við fundum var fullur. Að lokum fórum við á stað sem heitir Five. Hann var bara ágætur með ýmis konar mat.

Við afrekuðum ekki mikið meira þetta kvöld. Komum reyndar við í búð á heimleiðinni þar sem Eygló fékk sleikjó að launum fyrir að gramsa voðalega mikið.

Við vöknuðum ekki eins snemma og við ætluðum. En við komum okkur út. Við byrjuðum á Dubliniu. Þar er miðalda og víkingasafn. Hálfgert vaxmyndasafn eiginlega að mestu. Þar fékk ég að kasta boltum í nefið á konu í gapastokk en fékk samt ekki að vita hvað hún gerði af sér. Þegar við komum í víkingahlutann þá lét ég ýmsar staðreyndavillur fara í taugarnar á mér.

oliidublinmedkott.jpg
Næst skoðuðum við Dublinkastala að utan. Ekkert sérstaklega merkilegur. Við fórum næst í garð sem er þarna hjá. Við settumst niður til að hvíla okkur örlítið og þá kom þessi köttur og settist á mig. Mjög indæll.

Við röltum síðan í átt að miðbænum og enduðum hjá þjóðminjasafninu en það var ekki ennþá búið að opna. Við fórum næst að leita að stað til að borða og eftir örvæntingarfulla leit að mat og hraðbanka enduðum við á skítastað í St. Stephens verslunarmiðstöðinni.

Þá var kominn tími á að skoða þjóðminjasafnið. Ég get ekki sagt að það hafi heilla mig sérstaklega. Frekar mikið af gripum og lítið röklegt skipulag. Víkingadeildin þeirra var að mestu óspennandi. Hápunkturinn var sýning tileinkuð mýrarmönnunum þeirra. Þetta eru engir grábólumenn en fáir eru það.

Við ætluðum næst að fara á náttúrugripasafnið en það var lokað. Við ákváðum þá að fara heim á hótel og slappa smá af fyrir mat enda búin að ganga heilmikið, innanhúss og utan.

Um kvöldið fórum við yfir í Temple bar hverfið þar sem við hittum hann Bjarna Rúnar. Hann leiddi okkur að indælum veitingastað á Damestræti (ef ég man rétt) sem hét eitthvað sem ég man ekki. Annie hans kom eftir smátíma. Við spjölluðum um margt og borðuðum þrjá rétti í leiðinni. Maturinn var góður þó sérstaklega eftirrétturinn sem var í grunninn núggatís en þó svo mikið meira. Ef ég fer aftur til Dublin þá fæ ég mér þennan ís. Þetta var indæl kvöldstund.

Við röltum aðeins um Temple bar hverfið eftir að við kvöddum Annie og Bjarna í leit að spilabúð. Síðan fórum við bara heim. Þegar ég kom úr sturtunni heyrði ég að Eygló var að horfa á sjónvarpið og fattaði um leið að það var myndin Clueless. Við horfðum á hana. Mér finnst tískan sem sést í myndinni jafnvel asnalegri en mér fannst á unglingsárum mínum. Þá var tíðin önnur og það voru bara strákar sem sýndu nærbuxurnar sínar.

Við höfðum planað að hafa mánudaginn verslunardag. Við vorum nú Dublin og það er hefð að Íslendingar versli þar fyrir jólin. Við fórum í búðirnar hinum megin við Liffey, við Henry og Marystræti. Þar keypti Eygló ýmislegt. Hún missti sig meðal annars í ferðamannabúð. Mér þótti mest gaman í Toymaster þar sem þeir höfðu skemmtilega spiladeild.

Eftir að hafa fengið okkur að borða um tvöleytið og Eygló hafði týnst eftir klósettferð í stórri verslun ákváðum við að rölta heim á leið. Við komum við í Temple bar hverfinu og fórum í spilabúð sem Bjarni hafði fengið upplýsingar um frá vinnufélaga sínum. Þar eyddum við ekkert óhóflegum pening enda komin með nóg til að fylla töskurnar. Við fórum síðan á hótelið til að sækja töskurnar og eftir smá hangs fengum við leigubíl út á flugvöll.

Það gekk fljótt að innrita sig á Dublinflugvelli. Við eyddum síðan smá tíma í verslununum þarna en fátt heillaði. Flugið heim var ágætt. Við vorum aftur fljótt í gegnum völlinn hérna í Cork og stukkum upp í næstu rútu heim.

Við höfðum ákveðið að fara í Centra og kaupa okkur langloku áður en við myndum koma okkur heim en fyrir algjöra tilviljun enduðum við inn á veitingastað. Sá var mjög góður. Heitir Il Padrino og er við Cook stræti.

Ég ætlaði að myndskreyta þessa færslu meira en ég nenni því ekki.