Stóra hjólaferðin

Í vor fjárfesti ég í hjólafestingu sem er fest á skottið á bílnum. Það hefur nokkrum sinnum komið sér vel en aðalástæðan fyrir kaupunum var sú að mig langaði að hafa hjólið með mér í ferð í kringum landið.

Ég hjólaði smá á Akureyri og þegar ég var kominn á Vopnafjörð hjólaði ég í sund – sem er þægilegur 20 km rúntur sem endar á góðri afslöppun. Við vorum eina nótt í sumarbústað í Svartaskógi þar sem amma Eyglóar var að halda upp á afmæli sitt. Ég tók mig þá til og hjólaði þaðan inn á Egilsstaði. Það var ekkert sérstaklega langur túr (33 km) en þetta var í fyrsta skiptið sem ég hjóla einhverja leið á hringveginum og það er frekar brött brekka þarna um leið og maður kemur inn á þjóðveginn. Það er, skv. mælingum mínum, um 140 metra hækkun á rétt rúmlega tveimur kílómetrum. En þetta gekk bara vel. Á leiðinni mældist ég líka á hæsta hraða sem ég hef komist á sem var um 50 kmh. Yfirleitt er mér farið að líða frekar óþægilega þegar ég kemst nálægt 40 kmh. Á leiðinni tók Strætó frammúr mér. Ég held ég hafi ekkert hjólað á Neskaupsstað en þegar ég kom á Vopnafjörð tók ég nokkra 20 km rúnta.

Í vor, þegar ég var að ná mér eftir smávægilega aðgerð sem ég fór í, var ég að lesa mér til um forfeður mína á Langanesi. Aðallega hann Jóhannes Gíslason sem átti í útistöðum við einhverja Frakka. Ég var líka að skoða Árbók Ferðafélagsins sem fjallar um þennan landshluta (ótengt þessu þá er þar vísað í grein sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum). Mig langaði að heimsækja þennan landshluta. Ég man ekki eftir að hafa farið meira en á Þórshöfn. Ég fékk þá flugu í höfuðið að hjóla ofan af Langanesi niður á Vopnafjörð. Ég skoðaði vegalengdir og sá að þetta var geranlegt. Eygló var reyndar efins enda var ég ekki í miklu hjólaformi á þessum tíma.

Þann 19. júlí fórum við Eygló með drengina og Steinu tengdamömmu út á Langanes með hjólið fest aftan á bílinn. Við borðuðum á Grillskálanum á Þórshöfn sem má hiklaust mæla með. Þar skolaði ég líka Brekknaheiðina af hjólinu. Síðan keyrðum við aðeins lengra. Við ætluðum upprunalega að fara upp á Heiðarfjall (Hrolllaugsstaðafjall) þar sem ætti að sjást yfir gamla bæjarstæði langalangafa að Hrolllaugsstöðum og hefja túrinn þar. En við beygðum eitthvað vitlaust og síðan var vegurinn ekkert frábær þannig að mér var hleypt út úr bílnum dáltið frá rótum fjallsins. Þar hellti ég í mig vatni áður en ég lagði af stað. Veðrið var alveg ákaflega gott, eiginlega of hlýtt.

Ég bað Eygló að keyra á undan mér af stað en síðan náði ég henni strax aftur enda hjólið betra farartæki á svona slökum vegum en fólksbíll. En þegar vegurinn skánaði stakk hún mig af. Það er ákaflega fallegt þarna á Langanesi og ég efast ekki um að ég fari þangað aftur. Á leiðinni upplifði ég gleði að vera varinn með hjálm enda kríurnar mjög aðgangsharðar á köflum. Gargið samt eiginlega verra þannig að ég hækkaði í tónlistinni.

Á leiðinni frá Þórshöfn hafði ég séð smá veg sem leiddi út að Grenjanesi þar sem Jóhannes á að hafa lent í sínum útistöðum en ég komst ekki langt þar því það var hlið fyrir. Ég hjólaði því til baka. Fór síðan aftur framhjá Sauðanesi þar sem hann kallinn fæddist. Ég veit ekki til þess að kotið þar sem hann bjó með foreldrum sínum standi enn.

Þegar ég kom til Þórshafnar hafði ég augun opin og horfði eftir Freyju vinkonu okkar sem við vissum að væri á Þórshöfn og viti menn, þarna var hún úti á röltinni með krökkunum. Hún var augnablik að fatta því hún bjóst ekki við mér þarna og þar að auki var ég fúlskeggjaður með hjálm og sólgleraugu. Hún er ekki fyrst til að verða ringluð á því dulargervi. Ég spjallaði aðeins og fór síðan að skila aftur vatni á sjoppunni.

Þegar maður er að fara frá Þórshöfn til Vopnafjarðar byrjar maður á því að fara yfir Brekknaheiðina sem er ómalbikið (leið mín þennan dag var svona að hálfu leyti malbikuð). Það var ekki svo erfitt enda er hún ekki svo há. Ég man ekki eftir neinu sérstöku á leiðinni þar nema að Eygló tók frammúr mér.

Erfiðasti vegurinn á leiðinni var í kringum Miðfjörð. Þar var leirinn í veginum ennþá blautur þannig að mér leið eins og ég væri að sökkva ofan í hann. Ég tók stuttu eftir þetta og stoppaði við minnismerki um Kristján frá Djúpalæk. Það hitti í mark hjá mér því annars vegar er þar ákaflega trúleysislegt ljóð sem heitir Mitt faðirvor og hins vegar Strengir úr Pílu Pínu. Ég tók mig meiraðsegja til og söng Strengi fyrir sjálfan mig þarna. Þess ber að geta að Djúpilækur virtist ekkert sérstaklega djúpur.

Þegar ég byrjaði að klífa Sandvíkurheiðinni varð ferðin fyrst í alvörunni erfið. Hún er 275 m. og þó hún sé malbikuð eru brekkurnar dáltið þungar. Ég var líka búinn með vatnið mitt og leyst ekki alveg nóg á vatnið í lækjum og ám. Ég prufaði smá úr einni á og það var frekar slæmt (Gunnsteinn afi Eyglóar sagði mér eftir á að það væri ekkert gott vatn þarna á leiðinni). Verst var samt að mótvindurinn var orðinn svoltið kröftugur (Trausti sagði að það hefði víst verið verst 10-12 m/s). Ég tók og settist niður í smá tíma út í móa og hringdi í Eygló. Langaði smá að gefast upp en gerði það ekki. Ég neyddist á verstu köflunum að reiða hjólið sem ég geri annars aldrei. Það segist eiginlega mest að þegar ég var farinn að renna niðureftir aftur þá þurfti ég ekkert að vera á bremsunum – mótvindurinn hægði nógu mikið á mér.

Ég var alveg drepast á afleggjaranum út að Selárdalslaug en harkaði áfram. Eygló keyrði framhjá mér en ef hún hefði stoppað þá hefði ég gefist upp og þegið farið. Sem betur fer gerði hún það ekki og ég kom mér alla leið. Þegar ég kom á bílastæðið bað ég Eygló um vatn og hellti örugglega hátt í lítra í mig í einum teyg. Það var verulega gott að komast í sund og þá aðallega að slappa af í heita pottinum. Mér leið eiginlega bara vel eftir og fann varla fyrir neinum eftirköstum dagana á eftir.

Kort af leiðinni
Kort af leiðinni

Fyrir þetta hafði ég mest hjólað 50 km til Grindavíkur en þetta voru 83 km sem ég hjólaði með litlum stoppum. Þetta voru um 5 klukkutímar sem þetta tók miðað við þann tíma sem ég var að hjóla. Meðalhraðinn hefði verið mikið hærri ef ég hefði stoppað fyrir Sandvíkurheiðina.

Það er svolítið gaman að skoða þessa myndrænu framsetningu á leiðinni minni sem sést á þessum tveimur myndum. Á fyrri er fjarlægðin kvarðinn en á hinni tíminn. Það þýðir að landslagið sést nokkuð rétt á efri myndinni en á þeirri neðri sést ágætlega hve erfitt það var. Takið eftir hve Sandvíkurheiðin er mikið erfiðari heldur en Brekknaheiðin sem lítur mjög svipað út á myndunum. Rétt er að taka fram að hæðarmælingar í forritinu sem ég nota eru nokkuð vafasamar með tilliti til hæðar yfir sjávarmáli þó mér sýnist það vera fínt í að mæla hve hátt maður er að fara upp og niður.

83-fjarl83-timi
Þetta var gaman. Reyni aftur seinna í minni mótvindi, með meira vatn, betur sofinn og byrja þá kannski upp á fjallinu.

Árósaferð

Á miðvikudagskvöld lögðum við af stað til Árósa. Reyndar seinkaði fluginu dáltið þannig að við lentum seint og síðarmeir (tvö um nóttina cirka). Við vorum í vél með Svövu og Völu frænkum mínum.

Hafdís náði í okkur á flugvöllinn í Billund og keyrði okkur til Árósa. Ég kannaðist aðeins við mig og mig grunar að ég hafi keyrt framhjá gamla hverfinu hans Arngríms miðað við hve hryllingslýsingar hans og Hafdísar fóru vel saman.

Fimmtudagurinn byrjaði með hressleika eins fjölskyldumeðlims sem hafði þó sofið ákaflega lítið. Við röltum um hverfið þeirra og enduðum á ströndinni. Við Gunnsteinn og Sóley óðum út í sjó.  Buxurnar mínar rennblotnuðu en þetta var voða fjör. Sjórinn voða þægilegur. Það var lítið afrekað meira um daginn enda við dauðþreytt. Jú, fórum reyndar í matvöruverslun og horfðum á Júróvisjón um kvöldið. Við Mummi spjölluðum reyndar yfir fyrsta hlutann. Gott að geta setið í hlýjum garði fram á kvöld.

Á föstudag fórum við niður í miðbæ. Ég verslaði mér ákaflega fína skó með stífum sólum. Við borðuðum líka kebab. Gunnsteinn tilkynnti okkur líka á ákveðnum tímapunkti að mömmu hans og pabba langaði í ís. Reyndar var það rétt hjá honum en ég ætla samt ekki að reyna að láta hann vinna milljónina hans Randi fyrir hugsanalestur. Um kvöldið spiluðum við en vorum líka bara dösuð af sólinni.

Á laugardag fórum við seint og síðarmeir af stað niður á strönd. Ekki jafn hlýtt og á fimmtudag en ég lét mig hafa það og eyddi þónokkrum tíma í sjónum að skvetta á Sóleyju frænku. Dösuð eftir á. Júróvisjón um kvöldið. Ég hafði spáð keppni milli Rússlands, Svíþjóðar og Tyrklands um sigurinn. Nennti ekki að spá tíu efstu sætunum eins og sumir.

Á sunnudag fórum við í Tívolí Friheden. Ég er ekki tívolíkall en lét mig hafa það og hafði merkilega gaman af. Líklega er skemmtilegra að sjá barnið sitt skemmta sér í tækjum heldur en vini sína. Ég fór í eitt tæki og fraus að sjálfsögðu. Það var samt þannig að litlir krakkar máttu fara einir í það. Gunnsteinn fór hins vegar í mörg tæki og hafði mjög gaman af. Skemmtilegast þótti mér að fara í Svanahjólabát. Þar sá reyndar Sóley frænka um að hjóla því ég átti erfitt með af því að ég var full stór, í sandölum og þurfti að sitja cirka á miðjunni til þess að hafa jafnvægi á milli okkar.

Drengurinn er búinn að vera með jarðarberjabragð á heilanum undanfarið og það kom meira að segja drama í tívolíinu þegar hann fékk bara hvítan ís (það stóð stutt reyndar). Honum finnst jarðarber hins vegar voðalega ógeðfelld og spítti þeim út úr sér, hvort sem þau voru eintóm eða í jógúrt.

Annars var rosalega gaman hjá honum og Sunnu og Sóleyju. Þau náðu mjög vel saman. Sunna er rosa fyndin með sitt óhóflega danska næj.

Í morgun dúlluðum við okkur þar til Hafdís skutlaði okkur á flugvöllinn. Ég mæli ekki með veitingastaðnum á flugvellinum. Samlokan þar var skelfileg. Ég skil ekki hvernig flugvallarmatsölustaðir geta verið svona staðfastir í að hafa bæði dýran og vondan mat.

Flugið heim var ódramatískt. Ég lét Kindle lesa fyrir mig Augu drekans og var ekkert óhóflega panikkaður í lendingu. Þutum síðan fljótt út af flugvellinum og það var ljúft að koma heim.

Sé eftir því að hafa ekki elt uppi vini mína og skólafélaga í borginni en svona er þetta þegar maður er með fjölskyldunni.

Fölnuð málning og friðardúfur?

Ég var að fá eintak af tímaritinu Ský. Ég er verulega ánægður með það hvernig greinin kemur út. Myndirnar svínvirka líka. Þið sem viljið lesa ykkur til um það sem ég sá og hugsaði um Derry ættu að redda sér eintaki.

[Greinin í heild sinni: https://truflun.net/oligneisti/2020/07/22/folnud-malning-og-fridardufur-2/]

Skotlandsferð númer tvö

Skotland 2008
Snemma á þessu ári kom til tals að vinnan hennar Eyglóar færi í utanlandsferð. Að lokum var ákveðið að fara til Edinborgar. Á svipuðum tíma kom tilkynning um að Queen + Paul Rodgers yrðu á ferð um Evrópu og yrðu í Glasgow um það leyti sem átti að fara. Við stukkum til og keyptum miða á tónleikana í byrjun apríl án þess að vita hvort það myndi passa akkúrat við Edinborgarferðina. Þegar sú dagsetning var ákveðin kom í ljós að það var næsta helgi við. Þá tók við smá tími þar sem við Eygló reyndum að ákveða hvað gera skyldi, vera í Skotlandi í viku eða bara fara á tónleikana. En þá breyttust skyndilega plönin hjá vinnunni hennar þannig að allt passaði saman. Við myndum fara út fimmtudaginn 9. október með vinnufélögum hennar, vera með þeim fram á laugardag þar sem við færum til Glasgow á tónleika og að lokum hitta þau í flugvellinum aftur.

Ég fylgdist vel með gengisþróuninni fyrir ferðina. Sem betur fer voru hótelin í Edinborg og Glasgow borguð fyrirfram þannig að við þurftum bara að hugsa um eyðslupeninga. Mánudaginn 6. október keyptum við 150 pund á 227 þegar kerfið virtist vera að riða til falls. Ég sagði við sjálfan mig að ég yrði bara ánægður fyrir hönd landsins ef þetta væru vond kaup og ég held að ég hafi bara verið það. Við keyptum ekki meiri gjaldeyri næstu daga af því að bankarnir voru fullir af fólki sem var ekki skilja hvernig bankakerfið virkar.

Við pökkuðum létt fyrir ferðina. Eitt af því sem við tókum með var matur. Ég smurði samlokur og keypti appelsín og topp í Bónus, það borgaði sig. Við fórum að heima rétt um fjögur á fimmtudagsmorgni og keyrðum til móts við rútuna sem færði okkur til Keflavíkur. Ég man lítið um flugferðina annað en að flugsokkarnir mínir svínvirka og Valdimar fær þakkir fyrir þá kaupráðleggingu. Á flugvellinum í Glasgow tók við önnur rúta til Edinborgar. Á leiðinni fengum við þau ráð að fara í Boots apótekið og kaupa okkur Meal Deal. Það er samloka/salat, drykkur og snakk fyrir þrjú pund. Þegar við komum til borgarinnar á okkar fjögra stjörnu hótel tóku líka flestir sig til og nýttu það tilboð.

Ég ráfaði aðeins um meðan Eygló var að vinnuvesenast. Ég skoðaði búðir sem ég hafði ákveðið að heimsækja og bara umhverfið almennt. Ég tjékkaði mig síðan inn á hótelið þegar það var hægt. Eygló kom skömmu seinna. Við sofnuðum fljótlega. Þegar við vöknuðum aftur var komið kvöld. Við fórum út að rölta. Keyptum smá mat í kjörbúð og fórum aftur heim. Við horfðum síðan á endalausar fréttir af Íslandi í sjónvarpsfréttunum. Það var hrikalegt.

Við vöknuðum til að fara í morgunverðinn á föstudaginn. Ég tróð vel og vandlega í mig til að þurfa ekki að kaupa dýran mat. Eygló fór síðan út eftir það í vinnuves og ég í rölt. Það sem er skemmtilegt við Edinborg er að hún er eiginlega á mörgum hæðum. Ég tók því lyftuna á hæð mínus 4 og endaði þá hjá lestarstöðinni. Ég fann út allt um miðakaup og ráfaði síðan aðeins. Ég kíkti í Tesco og man eftir að hafa staðið í röð hugsandi bara um ástandið á Íslandi. Við Eygló hittumst síðan og fórum síðan niður í skoska þingið. Þar vorum við tekin í túr. Það var sérstaklega gaman að sjá salinn aftur sem við höfðum séð í sjónvarpinu kvöldið áður. Þá ræddu þingmenn um Ísland.

Eftir erfiðar umræður fórum við með Berglindi og Ásgeiri Bryndísarbróður upp á Calton hill. Því miður var eitthvað verið að setja upp hjá National Monument þannig að við gátum ekki farið upp á það. Hins vegar er útsýnið þarna frábært hvorteðer. Við fórum síðan í Boots til að kaupa samlokur og í bolabúð að kaupa boli áður en við fórum í draugagönguna.

Ég var augljóslega spenntur að sjá hvernig draugagangan væri. Ég hafði séð finnskan þjóðfræðing tala um göngur þar í borg og þótt hann frekar naívur þegar hann ræddi um hvað þar fór fram. Ég var líka spenntur að sjá hvort mér þætti túrgædinn ganga of langt í að ljúga að fólki. En ég hafði bara gaman af þessu. Hann sýndi okkur hvar John Knox er líklega grafinn og ég passaði mig að ganga yfir gröf kalviníska bastarðsins.

Síðan fórum við niður í einhverja kjallara sem höfðu verið lokaðir heillengi. Þar áttu að vera hinir og þessir draugar. Í einu herberginu spurði gædinn hópinn hvort þeim þætti það ekki kaldara en það sem á undan hafði komið. Ég hafði ekki tekið eftir neinu en flestir sögðu já. Það hefði verið áhugavert að vita hvort hópnum þótti það kaldara áður en hann minntist á það. En það kemur reyndar málinu lítið við þar sem það er ekkert undarlegt við að herbergi séu misköld. En þetta átti að túlka sem áhrif drauga. Þar var líka eitt horn með steinahrúgu sem menn höfðu víst orðið varir við mikil óþægindi og sumir dottið eins og þeim hefði verið hrynt. Ég tók náttúrulega áskoruninni og fór þangað. Ég passaði mig reyndar á steinunum því þeir sem passa sig ekki gætu alveg dottið á þeim…

Eftir þetta fórum við út að borða á Pizza Express. Það er greinilegt að þar á maður bara að borða pizzur því við sem fengum okkur eitthvað annað vorum ekki glöð. Seinna um kvöldið var síðan smá partí á einu herberginu og hópur á hótelbarnum.

Á laugardagsmorgni vöknuðum við og tróðum í okkur morgunmat. Við fórum síðan og keyptum lestarmiða áður en við röltum stefnulaust um borgina. Að lokum enduðum við á þjóðminjasafninu og skoðuðum Dolly og ýmsa vísindaleiki fyrir börn. Síðan aftur á hótelið, niður lyftuna og út á lestarstöð. Við tókum lest sem stoppaði alveg ógurlega oft. Sjálfur svaf ég aðallega eftir að hafa borðað Boots nestið okkar. Í Glasgow vorum við fljót að finna hótelið okkar og tékka okkur inn. Við veltum fyrir okkur hvort Noregur eða Skotland hefði unnið fótboltann en þótti jafntefli líklegast miðað við ástand tartanhersins. Við borðuðum á ágætum ítölskum stað við Hope street og röltum síðan út í átt að ráðstefnuhöllinni. En tónleikana mun ég fjalla um í sér færslu. Eftir þá gengum við alltof lang leið heim á hótelið til að finna búð til að geta keypt snarl í.

Það var lítið planað á sunnudagsmorgni. Við vöknuðum snemma fyrir morgunverð sem var mikið betri en sá á hótelinu í Edinborg. Þó var þetta hótel, Alexander Thomson, bara tveggja stjörnu. Við tékkuðum okkur út, létum farangur í geymslu og ráfuðum um. Við enduðum upp á Buchanan. Ég keypti mér sjálfsævisögu Steve Martin áður en Eygló fann H&M. Eygló bað fyrst um hálftíma þar en það endaði í klukkutíma. Þá var gott að hafa keypt bókina. Við ráfuðum meira um. Keyptum Meal Deal í hinsta sinn. Fundum skemmtilega spilabúð sem var raunar á svæði með ótal nördaverslunum. Eygló keypti sér síðan skó áður en við enduðum á því að borða á Bella Italia mjög sátt. Við náðum síðan í farangurinn okkar og fórum út á flugvöll þar sem við hittum hópinn.

Á flugvellinum gerðum við lítið nema að bíða. Við reyndum að fara á netið, við höfðum ekki gert slíkt í ferðinni, en það virkaði ekki þó vélin hafi hirt peninginn okkar. Síðan reyndum við að fara í þythokkí en sú vél át líka pundið okkar. Við erum ekki glöð með þennan peningaætuflugvöll.

Ég hata IcelandAir. Ég hef aldrei áður setið svona þröngt þó ég hafi ítrekað flogið með RyanAir. Það sem meira er ákvað konan fyrir framan mig að halla sér aftur. Það munað minnstu að hún bara skemmdi bókina mína með þessu. Ég endaði með því að ýta bara reglulega á sætið hennar með hnjánum þar til hún gafst upp á tilrauninni. Ég kláraði Steve Martin bókina sem var góð.

Í fríhöfninni eyddi ég á fullu. Eða allavega smá. Engar sígarettur voru keyptar á minn toll frekar en fyrri daginn og ég tek fram að ef ég myndi gera slíkt þá væri það fyrir tengdapabba og engan annan. En ég er andsnúinn reykingum og geri það því ekki. Tollverðirnir gerðu enga athugasemd við mig frekar en fyrri daginn þannig að við gátum hoppað fljótt upp í rútuna. Þegar ég kom heim náði ég þeim glæsta árangri að fá lyklaborð í hausinn.

End of Story.

Kynnisferðir kunna sig ekki

Eftir að hafa beðið í heillangri röð og verið send í fýluferð út í rútu til að kaupa miða komst Eygló loks að í miðasölubásnum hjá Kynnisferðum. Það var ekki þjónusta með brosi heldur harkaleg ólund. Ég get ekki ímyndað mér að ferðamenn sem koma til landsins fái jákvæða fyrstu sýn á Íslendinga þegar móttökurnar eru svona. Eins og til að bæta fyrir þetta sat fyrir framan mig íslensk stelpa sem var að kynna landið fyrir ísraelskri stúlku sem var í sófaferðalagi. Það var skemmtilegt að hlera.

Á Ljóninu

Nú liggjum við upp í rúmi á Hótel Löven. Ættum að vera sofnuð. Fórum á tónleika í kvöld. Spjölluðum aðeins við strákana og fylgifiska eftir á en ekkert mjög lengi þó. Sigrún skutlaði okkur á tónleikastaðinn í bát. Við sváfum dáltið í dag þegar við gátum tékkað okkur inn. Það er næstum sólarhringur síðan við vöknuðum í Stokkhólmi. Við komum heim annað kvöld og förum þá heim til okkar þar sem er fullt af gestum.

Hugsanlega kemur vitrænni ferðasaga við tækifæri en ólíkt því sem ég hef yfirleitt gert þá hef ég ekki verið að skrifa jafnóðum. Úff. Stefni á svefn.

Djöfull er ég steiktur

Ég er kominn heim. Náði að sofa til hádegis. Líkami minn er afskaplega aumur og ég er með smá höfuðverk. Allt eftirköst ferðalagsins, þeytings og þvælings. Gott að vera heima.

Í gær vaknaði ég akkúrat nógu seint til að missa ekki af morgunmatnum. Hann var reyndar óspennandi. Rúnstykki, ostur og skinka var það besta sem var í boði. Reyndar var osturinn bara viðbjóðslegur en sem betur fer var líka Babybel þarna sem ég gat notað í staðinn. Ég kláraði alla pakkningu um ellefu og tjékkaði mig út. Síðan fórum við Júlíana niður á Covent Garden og borðuðum smá til að fylla upp í.

Dagurinn fór annars bara í rölt. Við fylgdumst með böskara sem hafði þann undarlega sið að móðga áhorfendur sína. Frakkinn sem sat við hlið mér spurði mig með táknmáli hvort hann ætti að gefa eitt pund í töskuna. Ég gat þumal upp en hann skyldi það þannig að hann ætti að gefa meira. Eftir það horfðum við á konu sem var að velja sér eiginmann úr áhorfendaskaranum og lét þá vinna ýmsar þrautir. Mjög fyndið.

Við kíktum í nokkrar verslanir. Í einni mátaði ég hatt. Sölumaður kom og sagði mér að hann kostaði 35 pund. Ég ákvað að leika mér aðeins og talaði við Júlíönu á íslensku. Sölumaðurinn hafði kallað hana konuna mína þannig að ég lét eins og ég væri að rökræða við hana um hattinn og að hún væri neikvæð. Hann bauð fyrst 30 og þegar ég gekk út fór hann niður í 20 pund sem var verðið sem ég sætti mig við. Við Júlíana keyptum okkur líka töskur rétt áður en við fórum á hótelið, hjólin á hennar höfðu brotnað af og mín var bara léleg. Þar náði ég bara að koma verðinu niður um eitt pund, tel að ég hefði getað gert betur ef ég hefði haft rýmri tíma.

Eftir að hafa umpakkað í nýju töskurnar og gefið hótelinu þær gömlu fórum við að borða á persneskum stað. Þar var þjónustan hæg og maturinn ekkert rosalega góður. Við hoppuðum í undirgrundina og þegar kom að Liverpool Str. gáfum við túristum sem biðu eftir að komast í miðasjálfsalann dagskortin okkar. Það er gaman að vinna handahófskennd góðverk.

Það gekk vel að komast á Stansted en það var greinilega eitthvað í gangi með öryggisgæsluna. Það var pípað á mig þó ég hefði engan málm á mér og síðan þuklað á mér. Bakpokinn minn var skoðaður og fartölvulásinn sem aldri hefur vakið áhuga þar áður (þó hann hafi verið þar allavega 3 áður) hafði greinilega þótt tortryggilegur. Þegar inn í fríhöfnina kom sáust síðan löggur með byssur og ónotin fóru um mig. Við reiknuðum því miður skakkt með mat. Við hefðum átt að borða aðeins fyrr um daginn en taka almennilega máltíð á Stansted til að verða ekki svöng í loftinu. Pontis hefði verið betri en perskneski staðurinn.

Aníhú. Flugið heim var ekkert rosalega spennó né óþægilegt. Við gleymdum því miður að taka mynd af okkur með Ambrose hjá töskufæriböndunum. Ég keypti nær ekkert í fríhöfninni og var ekki tékkaður í tollinum. Raunar hefur það bara einu sinni gerst að tollverðir hafi sýnt mér áhuga og það var þegar þeir kíktu í fríhafnarpokana mína, Eggerts og Eyglóar á leið heim frá Gotlandi til að tékka tollinn okkar. Ég hef greinilega ekki smyglaralúkkið.

Eygló náði í okkur og skutlaði Júlíönu heim áður en við fengum okkur létan mat á BSÍ, hún Subway en ég burrito frá stað mannsins sem tollararnir elska að skoða. Núna er gott að vera heima.

London beibí eða calling eða eitthvað

Ég hoppaði strax á fætur í morgun og kom mér fljótt út með allt draslið. Hitti Júlíönu strax og hringdi í taxa. Valdimar kom líka á góðum tíma. Við ákváðum að gefa okkur ekki rúman tíma að komast í gegnum flugvöllinn í Derry en þó fengum við of mikinn. Í tjékkininu gekk allt vel hjá mér, Júlíana fékk gefins forgangspassa en Valdimar lenti í veseni tengt því að hann hefur ekki áður kynnst yndislegu veröld RyanAir. Honum fannst sumsé skrýtið að þeir gerðu ekki ráð fyrir í sjálfgildunum að hann tæki með sér tösku.

Í fluginu sátum við aftur við neyðarútganginn og leið vel þar. Lendingin var hörð og ef þetta hefði verið eitthvað annað flugfélag þá hefði ég orðið organdi hræddur. En ég er þessum lendingum. Við borðuðum saman á Pontis áður en Valdimar flaug heim. Við Júlíana komum okkur inn til London og sáum þá að hótelið okkar var ekki á þeim stað sem það átti að vera. Sem betur fer komumst við samt heil á höldnu á réttan rangan stað.

Á leiðinni í Undirgrundina fundum við stað sem auglýsti að hann biði upp á illfáanlega leikhúsmiða. Við fórum þangað og spurðumst fyrir. Afgreiðslukonan vildi eiginlega ekki selja okkur miða á Les Mis en mælti með We will rock you. Við sættumst öll að lokum á Spamalot. Þetta var bæði vondur og góður díll. Við gátum þarna losnað undan því að eltast við miða en það kom í ljós að það var verðið var tvöfalt á við það sem gerist á Leicester Sq.

En þarna skildumst við Júlíana að. Ég fór í nördabúðir og keypti eitthvað ónauðsynlegt. Síðan ráfaði ég bara um. Horfði á töframann í hálftíma, borðaði fyllta kartöflu og sat síðan og horfði á böskara. Allt þetta síðastnefnda var í nágrenni Covent Garden.

Ég ætlaði að hafa góðan tíma áður en ég þyrfti að fara í leikhús svo ég gæti farið á netið á hótelinu. Það varð ekki. Ég lenti í voðalegum vandræðum á Covent Garden lestarstöðinni. Lestinni seinkaði heilmikið og ég komst ekki í þá fyrstu sem mætti. Ég sá að ég gat rétt troðið mér inn í þá næstu en fjölmargir gáfulingar ákváðu að troða sér fyrir aftan mig. Ótrúleg þrengsli. Þegar við stoppuðum á næstu stöð þar sem ég ætlaði út þá voru gáfulingarnir fyrir aftan mig ekkert á því að hleypa fólki út. Þetta endaði með því að eitthvað brast og þeir hrundu út og ég í kjölfarið. Þetta var svo mikill kraftur að ég keyrði næstum grey konu upp við vegg.

Þegar kom á hótelið kom í ljós að leikhúsið byrjaði hálftíma seinna en ég hélt þannig að ég fór aðeins á netið en þurrkaði líka svitann undan höndunum mínum og skipti um bol í annað sinn um daginn. Þegar ég kom aftur niður var Júlíana á barnum. Hún var búinn að heilla barþjóninn svo að hann gaf okkur flögur til að nærast á fyrir leikhúsferðina.

Það gekk vel að komast í leikhúsið en þar áttuðum við okkur á að við vorum alveg á þriðju svölum. Gott fuglsaugaútsýni yfir sviðið en ekkert pláss fyrir fætur. Sem betur fer voru engir við hliðina á okkur þannig að ég sat eiginlega á hlið. Það olli því reyndar að þegar ég leit til hliðar sem var þá næsta bekk fyrir aftan mig þá hélt stúlkan þar að ég væri að kíkja upp undir hana. Hún sagði raunar ekki neitt en greip jakka og setti yfir hnéin. Ég veit ekki hvað ég hefði átt að sjá í myrkrinu þarna. Leikritið var ágætt en ekki frábært.

Eftir á leituðum við lengi að hraðbanka og enduðum síðan á ítölskum veitingastað. Eftir að ég hafði pantað áttaði ég mig á því að þetta var staður sem við Eygló fórum á í febrúar. Þar lentum við í ótrúlegum þrýstingi að gefa mikið þjórfé þó það hafi verið lagt á þjónustugjald. Við fengum okkur þríréttað og skipulögðum síðan undankomu vel til að losna undan aukaþjórfésþrýstingi sem var mjög greinilegur á næstu borðum. Það virkaði. Síðan komum við okkur bara heim. Í undirgrundinni sáum við mann taka góða útgáfu af Personal Jesus.

Núna er ég bara hreinn í herbergi með netsamband og blogga því í beinni. Herbergið sjálft er fínt en það er mjög spes að maður þarf að fara upp lítinn stiga til að fara upp í rúma. Það er mjög höfðinglegt að sjá sko. Jæja, svefninn kallar en laðar ekki þar sem slíkt bíður upp á misskilning.