Klám í hlaðvarpi

Ég var að hlusta á hlaðvarp sem heitir Once upon a time … in the Valley. Ég gat ekki hætt að hlusta. Yfirleitt er það gott. Ég gefst yfirleitt strax upp á lélegu efni. En ekki núna. Þetta var svo slæmt að ég gat ekki annað en hlustað í gegn.

Þættirnir fjalla um Traci Lords. Ef þið þekkið ekki söguna þá er hún í grunnatriðum þau að þessi unglingsstúlka, 15 ára, náði sér í skilríki til að þykjast vera fullorðin. Hún sat fyrir hjá fullt af blöðum, m.a. Penthouse, og endaði síðan í klámi. Þegar hún var 15-18 ára. Ég man náttúrulega fyrst eftir henni í kvikmyndinni Cry Baby.

Ég hef undanfarið verið að hlusta á þætti sem heita You’re Wrong About sem fjalla oft um konur sem lentu í fjölmiðlasirkúsi. Það er uppfullt af einlægu spjalli og innsæi. Ólíkt Once upon a time … in the Valley.

Það er bara allt að þessi hlaðvarpi. Það er kannski ágætt að líkja þessu við klámmynd. Það er léleg tónlist, léleg framleiðsla og ósannfærandi leikarar. Með leikarar á ég við stjórnendur þáttarins. Þættirnir eru fullir af litlum leikþáttum þar sem stjórnendurnir þykjast vera að spjalla en eru að fara eftir handriti. Frammistaðan er trénuð.

En auðvitað er verst hvernig er farið með Traci Lords. Það er nær algjör skortur á samkennd með henni. Viðhorfið hjá þáttastjórnendum, og mörgum viðmælendum, virðist vera að það sé kannski ólöglegt að framleiða klám með unglingsstúlku en það hafi ekki verið beint ósiðlegt af því að hún virtist njóta þess. Viðmælendur úr klámheiminum er flestir á þeirri línu að Traci hafi verið vergjörn. Það er ótrúlega ógeðfellt þegar þetta fólk er að lýsa kynlífi með henni.

Fólkið úr klámheiminum er upp til hópa tilbúið að úthrópa Traci sem lygara en þáttastjórnendur eru ekki nógu duglegir að benda á að sögurnar frá klámheiminum eru ósannfærandi og í hrópandi mótsögn við hver aðra.

Í stað þess að skilja að unglingar hafi ekki þroska til að vera í þessum heimi þá er Traci máluð sem einhvers konar snillingur sem hafi leikið á alla. Verst er kannski þegar fólk úr klámheiminum lætur eins og að hún skuldi þeim afsökunarbeiðni fyrir að hafa farið svona illa með þau.

Þáttastjórendur eru mjög uppteknir af því að finna dæmi um að Traci sé ekki sjálfri sér samkvæm. Það er í fyrsta lagi enginn skilningur á því að skilningur hennar á því sem átti sér stað hafi breyst með tímanum. En síðan er bara sú einfalda staðreynd að þarna er manneskja að takast á við erfitt tímabil í lífi sínu og geti ekki alltaf verið heiðarleg, bæði til að verja sig og aðra.

Síðan er það þessi ömurlega taktík þáttastjórnenda að vera sífellt og endalaust að segja “eigum við að benda hlustendum á að þetta er ekki alveg satt?” – “nei, við skulum bara leyfa hlustendum að dæma sjálfir”. Þegar fólki segir svona þá er það að gera það sem það segist ekki vera að gera. Það er svo mikill tvískinnungur í þessu.

Þetta er líka dæmigert hlaðvarp sem teygir lopann endalaust. Ótrúlegar endurtekningar. Það þarf ekki alltaf að gera 13 þætti. Það má hætta þegar meginatriðunum hefur verið komið til skila.

Ég skil ekki hvernig þetta hlaðvarp var framleitt árið 2020. Þetta er hræðileg drusluskömmun í garð unglingsstúlku. Þetta er svo mikið drasl að ég gat ekki annað en skrifað aðeins um það.

Þöggun hinna valdamiklu

Haukur Örn Birgisson skrifaði andlausa bakþanka í Fréttablaðið í gær. Ekki frétt. En ég ætla að gagnrýna skrifin af því að það er ekkert auðveldara. Ég veit ekki hvort ég er að rýna til gagns en allavega er þetta gaman.

Við skulum byrja á fullyrðingu Hauks.

Kannanir í bandarískum háskólum sýna að tveir þriðju nemenda tjá ekki skoðun sína í kennslustund af ótta við að móðga samnemendur sína.

Mér fannst þessi tala frekar vafasöm. Verst er auðvitað að Haukur vísar ekki á neitt – bara óljós á “kannanir”. Ég leitaði og fann eina könnun sem hann gæti verið að tala um.

More than two-thirds (68 percent) of college students say their campus climate precludes students from expressing their true opinions because their classmates might find them offensive.

Ef Haukur er að vísa í þessa könnun þá er hann auðvitað að mistúlka hana. Það sem þessir stúdentar segja er ekki að þeir séu hræddir við að tjá skoðanir sínar heldur að sumir séu það. Þetta virðist því aðallega segja manni að stúdentar trúi áróðurslínu hægri sinnaðaðra fjölmiðla í Bandaríkjunum. Ég tók reyndar eftir að svarhlutfall í könnunni var um 44%. Það er ekki neinn grunnur til að fullyrða um heildina.

Hvað liggur að baki þeirri trú að málfrelsi sé í hættu í bandarískum háskólum? Almennt er það bara að einstök mál eru blásin upp. Ein birtingarmynd þess er þegar “ögrandi” fyrirlesarar mæta mótmælum þegar þeim eru boðið að tala á háskólasvæðum. En hvaðan koma þessir “ögrandi” fyrirlesarar og hver er að bjóða þeim?

Ef við skoðum samtök á borð við Turning Point USA sem borga þessum fyrirlesurum sjáum við að þau eru verkefni bandarískra milljarðamæringa sem eru að reyna að troða áróðri inn í háskóla. Þá er stundum mótmælt og þau mótmæli eru kölluð árás á málfrelsi. Í raun er verið mótmæla áróðri.

En er ekkert raunverulegt vandamál? Eru vinstri sinnaðir stúdentar ekki alltaf að “aflýsa” grey hægri sinnuðum prófessorum sem þora að nýta málfrelsi sitt? Nei. Þvert á móti. Það eru vinstri sinnaðir prófessorar sem lenda í því að vera reknir fyrir skoðanir sínar. Það er vandamál. Samtök eins og Turning Point USA mála sig sem málsvara málfrelsis en vilja síðan sjálf reka þá sem eru þeim ósammála.

Kannski að það væri hægt að rökræða við Hauk ef hann nefndi einhver raunverulega dæmi. En hann talar í hálfkveðnum vísum.

Markmiðið er jafnvel að þagga niður í þeim sem hafa „ranga“ skoðun. Útiloka þá frá umræðunni. Margt bendir til þess að íslensk umræðuhefð sé á slíkri vegferð.

Það er mikilvægt að geta tjáð skoðun sína um menn og málefni án þess að ummælin séu kölluð hatursfull af þeim sem eru manni ósammála.

Málið er að sumar skoðanir eru hatursfullar. Sumar skoðanir eru líka rangar – í þeim skilningi að þær eru ekki sannar. Síðan eru til rangar skoðanir sem eru ígildi þess að öskra “eldur” í troðnum bíósal. Ef þeim er svarað með því að benda á að 1) það sé enginn eldur og 2) það sé hættulegt að segja að hræða fólk í þessum aðstæðum þá er ekki verið að ráðast á málfrelsi neins.

Þegar við skoðum hryðjuverkamenn sem ráðast á moskur eða svart fólk sjáum við að þeir eru undir áhrifum fólks sem öskrar “eldur! eldur!”. Þegar fólk vogar sér að svara haturspostulunum þá er það ásakað um árás á málfrelsið sjálft. Það má ekki heldur gagnrýna stórfyrirtæki fyrir að græða á hatri eða auglýsa það.

Hinir ríku og valdamiklu hafa sína málsvara. Þeir geta fjármagnað fjölmiðla til að koma “réttum” skoðunum á framfæri. Síðan eru frasar eins og aflýsingarmenning notaðir til að brjóta á málfrelsi hinna valdalitlu – í nafni málfrelsis. Öllu er blandað saman í eina hrúgu til að rugla umræðuna. Ýkt dæmi um bjánalega gagnrýni eru notuð til að hunsa alla.

Þessu tengt:

Fórnarlambamenning Sigmundar Davíðs

Samsæri nýju menningarbyltingarinnar

Spéspeki Heimilistímans

Guðmar afi minn batt inn bækur og tímarit á sínum efri árum. Meðal þess sem hann batt inn voru gömul tölublöð af Heimilistímanum (1974-1981). Af einhverjum ástæðum fór ég í gegn um öll þessu bindi. Ég las ekki allt en ég las margt. Ég hef væntanlega verið 11-13 ára.

Mér datt núna í hug að kíkja aðeins á hvað væri að finna í Heimilistímanum. Ég á þessi bindi frá afa en þau eru í geymslu þannig að ég kíkti á Tímarit.is. Ég var ekki kominn langt af stað þegar ég fór að fylgjast með bröndurunum.

Það sem maður tekur fyrst eftir er að það er eiginlega ekkert fyndið þarna og stundum sér maður hvernig þýðendur hafa klúðrað bröndurum (sem voru ekki endilega fyndnir til að byrja með). Það væri hægt að flokka brandarana í örfáa flokka. Heimsk/heimskir/heimskar/ömurleg/ömurlegar/ömurlegir eiginmenn/eiginkonur/börn. Kynlíf. Drykkjuskapur.

Einu brandararnir sem mér finnst nálgast fyndni eru þeir sem ekki falla í þessa flokka. Ykkur til… skemmtunar(?) hef ég klippt út myndbrandarana úr fyrstu fjórum tölublöðum Heimilistímans.

Gagnslaust Facebook: skrýtinn heimur podkastsins

Ragnar Loðbrók er umfjöllunarefnið í nýjasta þættinum mínum
Ragnar Loðbrók er umfjöllunarefnið í nýjasta þættinum mínum

Ég var að setja á netið áttunda þáttinn í podkastinu mínu Stories of Iceland í gær. Í morgun fór ég að kíkja á hve mikið niðurhalið á honum væri og varð steinhissa. Ástæðan er að á fimmtudaginn kom allt í einu stór kippur. Þar voru 600 niðurhöl en á venjulegum degi, sérstaklega í miðri viku, eru þau 150. Það var enginn nýr þáttur kominn í þessum mánuði en á birtingardögum kemur alltaf kippur frá áskrifendum mínum.

Ég veit ekkert hvað olli þessum kipp. Líklegast þykir mér að einhver podkastveitan hafi sett mig á forsíðuna hjá sér. Vandinn er að þessar veitur nota almennt ekki rekjanlega hlekkinn sem gefur mér upplýsingar heldur vísa beint á skrá hjá mér. Vissulega fæ ég ýmsar upplýsingar samt sem áður en ég sé ekkert sem skýrir þetta þar.

Á sama tíma og ég er að fá öll þessi niðurhöl þá er áhugavert að Facebook-síða podkastsins míns er algjörlega dauð. Ég er með rétt rúmlega 100 læk og tók alveg eftir því að það bættust nokkur svoleiðis við á fimmtudaginn á sama tíma og stóri niðurhalskippurinn kom. En Facebook er líka gagnslaus því að þeir sýna ekki nema örfáum þá pósta sem ég birti á síðunni þar. Ég er ekki alveg viss um hvort ég ætti yfirhöfuð nokkuð að púkka upp á Facebook.

En málið er að podkastheimurinn er allt öðruvísi en flest á netinu. Ég bara skráði strauminn minn hjá podkastveitum og forritum og fékk síðan fullt af niðurhlöðum án þess að vita nokkuð um það hverjir eru að hlusta.

Glæpatíðni í byssubænum og byssulausabænum

Geir Ágústsson er með undarlegar skoðanir á hlutunum. Ég rakst á bloggfærslu þar sem hann skrifaði.

Í einni frétt er sagt frá bæ nokkrum í fylkinu Georgíu í Bandaríkjunum.

Þar á bæ voru menn orðnir þreyttir á ofbeldi og morðum. Bærinn setti því ákvæði í lög sem skylduðu eða hvöttu almenning til að ganga um með skotvopn. Hvað gerðist? Glæpatíðni hríðféll.

Ég ákvað að skoða þessa staðhæfingu aðeins. Ég byrjaði á “fréttinni” sem hann vísaði á. Það vekur strax atriði að það greinin var birt af Tyler Durden úr Fight Club en þó er vísað á upprunalegan höfund líka. Þetta er svona bókstaflega copy/paste grein á einhverjum brjálæðisvef sem byggir á copy/paste grein sem byggði á frétt hjá CNN.


Ég skannaði greinina og sá hvergi staðhæfinguna að glæpatíðni hefði lækkað eftir byssuskylduna. Það er hins vegar staðhæft að það sem lægri glæpatíðni en í meðalborg í Bandaríkjunum. Þetta kemur þó ekki fram í greininni sem CNN birti um málið. Þar kemur bara fram að það hafi bara verið eitt morð síðustu sex ár í þessum þrjátíuþúsundíbúabæ. Sú tala er ekki borin saman við eitt eða neitt.

En það sem kemur fram er að upprunalega hafi byssuskyldan verið sett vegna þess að annar bandarískur bær hafi bannað byssur innan bæjarmarka. Sá bær þurfti reyndar að aflétta byssubanninu eftir um aldarfjórðung.

Það lá því beint við að bera saman glæpatíðnina* í þessum tveimur bæjum.

Violent Property Total
Number of Crimes 92 841 933
Crime Rate
(per 1,000 residents)
2.74 25.01 27.75
Violent Property Total
Number of Crimes 11 208 219
Crime Rate
(per 1,000 residents)
0.47 8.96 9.43

Þið skulið endilega giska í hvorum bænum byssueign sé skylda og í hvorum bænum hafi byssueign verið bönnuð þar til fyrir tíu árum.

Búin að giska? Kenneshaw er öruggari en 21% bandarískra bæja en Morton Grove er öruggari en 71% bandarískra bæja.

Það var Kennesaw sem gerði byssueign að skyldu og þar eru margfalt fleiri glæpir. Nú gætu allir íbúar Morton Grove hafa hoppað út í næstu byssubúð og keypt sér byssu til að tryggja öryggi sitt en ég efast um það.

En skoðum aðeins ferlið. CNN skrifar grein þar sem er ekki farið nægilega vel ofan í staðreyndir málsins. Rugludallur skrifar grein þar sem er haldið fram að CNN hafi dregið of litlar ályktanir – án þess að kafa dýpra í málið. Sú grein er afrituð og síðan tekur Geir síðasta skrefið í þessum vefvæddasímaleik og bætir við eigin ályktunum sem byggja bókstaflega ekki á neinu.

Snopes hefur líka fjallað um þetta.

* NeighborhoodScout tekur saman glæpatölfræði og fleiri upplýsingar fyrir fólk sem er að skoða hvar er best að búa.

Stories of Iceland – Nýtt hlaðvarp (podcast)

Stories of Iceland
Ísland er kind. Sættið ykkur við það.

Eftir miklar vangaveltur og vesen varðandi Vídeóspólu-heimildarmyndina þá er ég loksins kominn með góða aðstöðu til upptöku. Það er í fundarherbergi í kjallara blokkarinnar okkar. En ég get ekki haldið áfram að taka upp viðtöl strax því að það eru núna háværar framkvæmdir í gangi. Það er slæmt að bjóða einhverjum í viðtal þegar hætta er á að borar yfirgnæfi viðmælandann.

Þannig er ég svona fræðilegu skapandi tómi. Ég hef gert nokkra útvarpsþætti og hef því verið nokkuð spenntur að prufa að gera svona hlaðvarpsþætti. Vandinn var auðvitað að finna nálgun sem er ekki löngu kominn. Síðan tók ég upp puttaferðalang og sagði honum endalausar sögur af Íslandi og þá var hugmyndin komin.

Í hlaðvarpsþáttunum Stories of Iceland ætla ég að fjalla um íslenska sögu, menningu og þjóðfræði á ensku. Þættirnir eru ætlaðir útlendingum sem hafa áhuga á Íslandi og ég ætla að reyna að fara aðeins dýpra og vera með aðeins öðruvísi vinkil en þessi hefðbundna landkynning.

Fyrsti þátturinn kallast Troublemaker-Valley og er umfjöllunarefnið Svarfaðardalur og sögur tengdar honum.

Háskólinn “í South Wales í Englandi”

Marta smarta skrifar um vísindiÞað er í sjálfu sér skelfilegt að fréttir um vísindarannsóknir séu farnar að birtast á Smartlandi Mörtu á netmogganum en ég læt vera að fjalla um það beint (annars er upprunalega fréttin um þessa rannsókn á The Guardian). Ég staldraði nefnilega við fyrstu línuna í fréttinni þar sem textahöfundur fellur í landafræði.

Vísindamenn við háskólann í South Wales í Englandi gerðu merkilega rannsókn nýverið en þeir vildu kanna hverjum ungabörn líkjast helst.

Það sem glöggir lesendur átta sig á er að Wales er ekki í Englandi. Wales er annað land.

En mér þótti þetta líka undarlegt af því að ég hafði aldrei heyrt um Háskóla Suður Wales (sem er víst samt til). Það sem mig grunaði strax, og fékk staðfest með smá gúggli, er að umrædd rannsókn fór fram í háskóla sem kallast University of New South Wales. Sá háskóli er hvorki í Wales né Englandi heldur Ástralíu. Hann er líka einhver sá besti í heimi ólíkt þessum sem er í suðurhluta Wales (sem er ekki í Englandi).

Annars verður maður að álykta, ef hægt er að færa niðurstöður umræddar rannsóknar yfir á mannfólk, að allar konur sofi fyrst hjá manni sem líkist Winston Churchill af því að öll nýfædd börn líkjast honum.

Uppfært:
Fréttin á Net-Mogganum hefur verið uppfærð og talar um “há­skól­ann í South Wales í Bretlandi”. Þau fá engin prik fyrir rökréttar þýðingar, sumsé að hafa annað hvort nafn háskólans á ensku eða á íslensku. Þetta er þó ennþá rangur háskóli en ég sé reyndar að sú mistök koma úr Guardian greininni þó fréttin sem Guardian vísar á tali um réttan háskóla.

Vefáskrift að DV

Ég hef lengi gælt við að kaupa áskrift að DV. Það er nefnilega þannig að þó mér finnist ýmislegt mega betur fara þarna þá er blaðið einfaldlega nauðsynlegt íslensku samfélagi. En ég hef ekki áhuga á að fá pappírinn heim og mér hefur þótt vefáskriftin full dýr.

Núna eru þeir komnir með nýjan díl. Það er vefskrift sem felur í sér aðgang að vefnum en ekki PDF útgáfunni af pappírsútgáfunni. Það kostar 990 kr. á mánuði (fyrstu þrír á 495 kr.) en með PDF skjalinu er þetta 1790. Ég veit ekki alveg hvað það er sem er í þessu PDF skjali sem ekki kemur á vefnum sjálfum en allavega hata ég PDF skjöl og reyndar sérstaklega þegar þau eru sett upp með svona “flettingum”.

En það sem ég skil ekki er hvers vegna menn eru að rembast við þessa prentútgáfu. Ég myndi loka á hana og ganga lengra í því að birta bara útdrætti úr fréttum. Ég myndi síðan bara bjóða upp á tiltölulega ódýra vefáskrift (þúsund krónur eru í hæsta lagi). Síðan ættu þeir að hafa það markmið að fá helming þeirra ríflega 30 þúsund manns sem hafa “lækað” vefinn til að gerast áskrifendur. Það væri gerlegt ef áskriftin kostaði bara 500 kr. en ólíklegra ef hún er þúsund. En 15 þúsund áskrifendur sem borga 500 kr. gera 7,5 milljónir á mánuði. Síðan leggjast væntanlega einhverjar auglýsingatekjur ofan á þetta. Ég veit svo sem ekki hvað það kostar að reka blaðið (og veit ekki hve mörg stöðugildi eru þarna) en þarna er maður allavega kominn með ágætan grunn. Allavega ef þetta gengur upp.

Kannski er planið hjá DV að gera þetta hægt og rólega frekar en í einu lagi.

Nafnleynd óheiðarlegra heimildarmanna

Minnisblaðið sem var lekið til blaðamanna – að því er virðist úr Innanríkisráðuneytinu  hefur vakið upp hjá mér spurningar um vernd heimildarmanna. Það er vissulega oft á tíðum mikilvægt fyrir blaðamenn að geta verndað heimildarmenn með því að veita þeim nafnleynd. En hver er skylda blaðamanna í garð heimildarmanns sem lét þeim í hendur rangar eða villandi upplýsinga í áróðursskyni?
Er nokkur ástæða til þess að verja slíka heimildarmenn? Er það ekki beinlínis skylda blaðamanna að upplýsa um slíkt? Eru þeir blaðamenn sem verja heimildarmenn sem ljúga að þeim ekki einfaldlega að hvetja til þess að aðrir heimildarmenn munu ljúga að þeim í framtíðinni vitandi að þeir þurfi ekki að sæta ábyrgð?
Af hverju upplýsa Fréttablaðið og Morgunblaðið ekki um hver það var sem lék í þá umræddu minnisblaði? Hvers vegna að verja óheiðarlegan heimildarmann?