Steingeldir miðlar á vefnum

Ég leit til Ásgeirs um helgina og fyrir utan að rífast um stjórnarskrármál þá ræddum við helst um hve miðlar á vefnum eru steingeldir og kassalaga. Það er einfaldlega enginn að gera neitt spennandi. Nær allt snýst um að koma texta á framfæri. Hvar er fólkið sem hefur skilning á vefnum og áttar sig á möguleikum sem tækniframfarir eru að færa okkur?
Ég horfi ekki of á Silfur Egils en í gær sá ég nokkrar mínútur og ég fór að hugsa hvers vegna enginn er að gera svona þætti veflægt. ÍNN er að rembast við gerð á svona þáttum og einhverjir virðast horfa en málið er að útsendingin er óþarfi. Nú spyr fólk væntanlega hvort ég ætlist til þess að menn horfi á slíka þætti í tölvunni. Ég svara: Þú ert kassalaga.

Í dag eru mörg, jafnvel flest, sjónvörp seld með USB tengi. Ef hægt að er að hala niður þætti af vefnum þá er hægt að setja hann á minnislykil og tengja við sjónvarpið. Það er líka hægt að benda á að margar tölvur eru með útgangstengi fyrir sjónvarp, HDMI sérstaklega, og með einni snúru er þá hægt að horfa á efni á sjónvarpsskjá. Sjálfur er ég með einfalda litla sjónvarpstölvu byggða á Raspberry Pi tengda við mitt sjónvarp. Sú tölva er með viðbætur sem gera mér kleift að horfa á Sarpinn hjá RÚV, Veftíví hjá Stöð 2 og margt fleira, þ.á.m. YouTube. Sjónvörpin sjálf eru líka að verða tölvur. Eftir nokkur ár verður það nokkuð hversdagsleg iðja að horfa á myndefni af vefnum í gegnum sjónvörp. Það væri líka áhugaverð tilraun að bjóða upp á svona efni í gegnum VOD.

Það krefst ekki mikilla tækjakaupa að búa til svona efni og fólk með kunnáttu í einfaldri klippingu og upptöku er víða til (m.a. samnemendur mínir úr hagnýtri menningarmiðlun). Það er án efa hægt að finna kostunaraðila víða.

Sama gildir um „útvarp“. Það eru allavega tugþúsundir sem á hverjum degi hlusta á eitthvað í snjallsímum eða mp3-spilurum. Það vill hlusta á áhugavert efni – látið þau fá efni við hæfi.

Ef ég ynni hjá Borgarbókasafninu myndi ég ýta á safnið að fara af stað með bókmenntaþátt. Það væri hægt að gera það hvort sem er sem sjónvarpsþátt eða útvarp. Ef ég væri í Reykjavíkurakademíunni myndi ég ýta á að þau myndu gera þætti um menningu og fræði. Það má nefna að Vantrú hefur verið að gera tilraunir með útvarpsþætti.

Þó flestir vefmiðlar séu í því að dreifa texta þá er enginn vefmiðill þar sem maður getur treyst á því að fá gæðaefni. Það er ekki heldur neinn vefmiðill sem veitir almennilegan möguleika á að fá borgað fyrir að skrifa gæðaefni. Þar er ég hissa að enginn sé kominn af stað með tilraunir með örgreiðslur. Af hverju ekki að hafa möguleika á að bara tíkall fyrir grein? Eða fimmtíu krónur? Hvar er sá möguleiki? Það er til margt fólk sem hefur skrifað vandaðar greinar í áraraðir á vefinn án þess að fá krónu fyrir. Hvar er lausnin?

Sjálfsritskoðunin er (einn) stærsti óvinur blaðamanna

Ég er ekki alveg sammála því sem Halla segir hér en mér finnst það hins vegar áhugavert sjónarhorni. Það sem hún neglir hins vegar í greininni er að sú almenna trú að Ólafur Stephensen sé öðruvísi ritstjóri en þeir sem ólu hann upp sé vafasöm (hún orðar það svona):

Eftir að Ólafur tók við upplifði ég í fyrsta sinn í starfi sem þingfréttaritari þætti sem leiddu til þess að ég missti traustið á því að ritstjórinn stæði með mér gegn þeim öflum og einstaklingum sem vildu ekki aðeins hafa áhrif á fréttaflutning Morgunblaðsins, heldur líka mannaval. Fyrir vikið varð sjálfsritskoðun mín meiri en nokkru sinni fyrr, en hún er einn af stærstu óvinum blaðamannsins.

Sjálfsritskoðunarpunkturinn er sá besti í greininni.

Ég hef svo oft heyrt blaðamenn svara gagnrýni á ritstjórnarstefnu síns blaðs með því að segja að þeir hafi aldrei fengið fyrirmæli um að fjalla á ákveðinn hátt um ákveðin mál. Ég hef aldrei ímyndað mér að svoleiðis færi það fram. Ég held að þetta fari þannig fram að ritstjórar hafi mjög augljósar skoðanir og að eigendur (og auglýsendur) hafi mjög augljósa hagsmuni og blaðamenn fari, án fyrirskipanna, að móta skrif sín eftir þeim skoðunum og hagsmunum.

Ég held að blaðamönnum sé sérstaklega hætt við svona vinnubrögðum vegna þess að þeir vita hve auðvelt er að skipta þeim út. Það er alltaf til ungt fólk sem er spennt fyrir þessu starfi og jafnvel tilbúið að vinna fyrir lægri laun en þeir sem eru fyrir í stéttinni.

Í kjölfarið af þessu má nefna að ég tel ekkert sérstakt gæðamerki á blaðamönnum að þeir hafi unnið lengi á sama fjölmiðli. Ég tel það ákveðið, en ekki endanlegt, merki um að þeir kunni að þjóna sínum herrum. Þó má ekki alveg misskilja mig þannig að allir þeir blaðamenn sem hafa flakkað á milli fjölmiðla séu í hæsta gæðaflokki. En sumir kannski.

Jeremy Clarkson

Það er áhugavert að sjá umfjöllunina um ummæli Jeremy Clarkson. Ég get ekki séð annað af því sem hann segir að hann sé að fyrst og fremst að gera grín að hlutleysisstefnu BCC með því að koma fram með tvö fáránleg og gjörsamlega ósættanleg sjónarmið. En menn taka seinni hlutann algjörlega úr samhengi til þess að láta þetta líta illa út. Þegar ég var að leita að ummælunum í samhengi fékk ég upp ótal myndskeið sem byrja einfaldlega á orðum hans um að hann vilji taka þá af lífi sem eru í verkfalli. Toppurinn er síðan þegar hann talar um „okkur sem þurfa að vinna fyrir sér“ – það er augljóslega brandari en í stað þess að fatta þá stekkur fólk á þetta eins og það sýni endanlega hræsni hans.

Fyndnasta uppákoma helgarinnar

Í gær kom upp óborganlegt mál. AMX skúbbaði því að Þóra Kristín Ásgeirsdóttir á Smugunni, sem AMX hatar svo innilega að maður hlýtur að elska hana, hafi fengið styrk frá Alcan og með fylgdi undarleg samsæriskenning. Það hefði nú ekki þurft neinn með greindarvísitölu yfir meðallagi nema um fimm sekúndur til að sjá að þetta mál væri eitthvað skrýtið. Því miður er það einmitt manngerð sem AMX virðist ekki hafa innanborðs. Nokkrum mínútum eftir að skúbbið birtist fóru vinstri menn að pósta þessu á Facebook sem fyndnasta brandara helgarinnar enda er augljóst að hérna var um alnöfnu Þóru Kristínar að ræða enda dettur engum heilvita manni í hug að hún sé í hjáverkum að rannsaka hamfarir á Haítí (en til þess var styrkurinn til nöfnunar). Ég hló og hló.

Sjá annars Arngrím.

Svipan: Írski lýðveldisherinn og RIRA

Það er svolítið undarleg frétt á Svipunni um Írska lýðveldisherinn. Það er greinilegt að sá sem tók að sér að þýða frétt af Guardian þekkir ekkert til sögunnar á Norður Írlandi. Í fréttinni er sagt að IRA ætli að ráðast á banka. Þar stendur líka:

IRA var í raun lagt niður, með samningaviðræðum, en þeir hundrað baráttumenn sem enn eru í hópnum hafa ekki getað tekið við öllum þeim sem nú vilja ganga til liðs við samtökin aftur.

Í fréttinni á Guardian er tekið fram að samtökin sem eru að hóta árásum á banka er ekki það sem við köllum IRA heldur klofningshópur frá árinu 1997 sem kallast Real IRA. Þessi hópur varð alræmdur árið 1998 þegar hann sprengdi bíl í Omagh með þeim afleiðingum að 29 manns létust. Reiðin sem varð í kjölfarið fór langt með að tryggja að friðarsamkomulagið hélt. Þegar RIRA og Provisional IRA er ruglað saman eins og Svipunni þá kemur bara vitleysa út. Þarna er látið eins og RIRA hafi sömu stöðu PIRA hafði meðal lýðveldissinna en það er langt frá því. Þarna eru líka rangfærslur um aðgerðir Breta á Norður-Írlandi.

En það sem er náttúrulega verst í greininni er aðdáunin sem virðist skína undir á starfsemi RIRA. Þetta er bara hrottar og morðingjar og þeir batna ekkert við það að þeir vilji ráðast á banka.

Aðsendar greinar

Nú þegar ég hef horft á Örn Bárð ljúga ítrekað í aðsendum greinum í Fréttablaðið rifja ég upp það sem ég hef hugsað um þetta dagblaðaefni. Af hverju leyfa ritstjórar dagblaða fólki að ljúga í aðsendum greinum. Af hverju fer umsjónarmaður aðsendu greinanna ekki yfir þær og sendir spurningar til baka á höfundinn ef eitthvað er grunsamlegt. Það væri til dæmis hægt að spyrja „hvar sagði þessi það sem þú segir að hann hafi sagt?“ eða „hvaða gögn hefur þú máli þínu til stuðnings“. Ætli vandamálið sé ekki að þá myndu aðsendar greinar hætta að vera þægilegt uppfyllingarefni sem hentar um leið til að ritstjórnin geti stýrt hvaða mynd lesendur þeirra hafa af skoðunum almennings?

Endurvakning skynseminnar

Það er ákaflega skrýtið að fylgjast með bandarískri umræðu og þá sérstaklega hlut Fox sjónvarpsstöðvarinnar. Þeir sem hafa horft á Glenn Beck í nokkrar mínútur vita hvað ég á við. Þegar ég sé hann þá dettur mér alltaf í hug hasarmyndaparódíu sem birtist í The Simpsons þar hetjan McBain berst við kommanasista. Glenn Beck er alltaf í þeirri baráttu. Obama er ekki bara illur sósíalisti heldur líka nasisti. Sjálfur á Glenn Beck í persónulegu sambandi við guð og telur sig jafnvel vera sendiboða hans. Furðulegt val þar.

Jon Stewart og Stephen Colbert báðu um helgina Bandaríkjamenn um að reyna að endurheimta skynsemina (bókstaflega geðheilsuna en mér finnst það ekki ná merkingunni nægilega vel). Er kannski þörf á slíku á Íslandi í dag? Eru íslenskir fjölmiðlar og íslensk umræða í alvörunni svona mikið betri en við sjáum í Bandaríkjunum?
Skilti frá samkomunni í Washington.