Allt í lagi að þeir tali norðlensku

Ólíkt Bloggara Dauðans þá finnst mér bara göfugt að starfsmenn RÚV tali norðlensku, það eina sem pirrar mig er hve vitlaust margir þeirra tala hana. Þeirra viðhorf virðist vera að það sé best að tvöfalda öll ká og té til að það verði að norðlensku, það er oft vandræðalegt að hlusta á það.

Fyrstur með fréttirnar ólíkt DV

Einhvern tíman í vor þá skrifaði ég um að Íslendingur væri eftirlýstur af Interpol, Fréttir hafa líka minnst á þetta. Þetta eru ekki faldar upplýsingar enda er hægt að finna þetta með því að fara á heimasíðu Interpol og leita að glæpamönnum eftir þjóðerni. Í dag birtir DV síðan (held frekar stóra) frétt um þetta. Ætli DV sé stolt af þessu skúbbi sínu? Ef þið hafið einhver sambönd innan DV þá megið þið benda þeim á ég var löngu á undan þeim með þessa frétt.

Ömurlega fræga fólkið

Netmogganum birtir fréttir af fræga fólkinu í dag (einsog venjulega). Ein fréttin fjallar um mann sem reyndi að skera í sundur vatnsslönguna sem liggur upp til sjónhverfingakallsins sem er að svelta sig í búri í London.

Önnur frétt fjallar um að sonur leiðinlegasta fræga fólks heimsins hafi dottið á hausinn og meitt sig, æjæ.

Kannski það væri best að setja David Beckham og Victoriu konuna hans upp í búrið til sjónhverfinganáungans og halda svona alvöru Survivor keppni. Þau fara þrjú inn í búrið en bara eitt þeirra kemst út, vonandi að sigurvegarinn verði of skaddaður til að komast í fjölmiðla nema sem frík vikunnar.

Bréfið til Frétta

Þar sem Fréttir vísuðu til mín núna áðan er kannski fínt að birta bréfið sem ég sendi honum í gær:
Sástu Fréttablaðið í dag? Ég var að fá mér morgunmat í dag (um þrjúleytið eftir hádegi) og er að líta á Fréttablaðið sem er á borðinu. Ég líta svona efst á síðuna til að sjá hvort um sé að ræða nýjasta blaðið en sé þá að þar stendur Miðvikudagur, ég spyr kærustuna hvort Fréttablaðið hafi ekki komið í dag og hún spyr mig hvort ég sé ekki einfaldlega að lesa það. Ég kíki aftur efst á síðuna og sé þá að blaðið er frá Miðvikudeginum 14. september, mér fannst það ekki alveg passa þannig að ég fletti aftar í blaðið og sé að þar er sami mánaðardagur en Sunnudagur. Ég fletti blaðinu aðeins meira til að sjá hvort það standi Miðvikudagur á fleiri stöðum og þá fæ ég bara Fimmtudag og Laugardag í viðbót.

Sýndist allir vitlausu dagarnir vera í fyrrahluta blaðsins. Þetta er svo ótrúleg villa að ég get varla ímyndað mér annað en hún sé viljandi „hefnigjarn prentari“ (tilvísun í myndina Clerks) kannski? Hver ætli hafi flippað út?

Kunnugleg opna

Ég var að skoða FS blaðið og lenti á opnu þar sem var verið að tala við fólk á stúdentagörðum. Ég lít svona snöggt á það og sé að þarna er Marvin bloggari kunningi Ásgeirs, síðan sé ég Guffa sem var formaður skólafélagsins í MA (sem ég var reyndar í framboði gegn á sínum tíma en sú saga kemur seinna) þarna líka. Næst lít ég á nafnið á þeim sem er þarna á næstu opnu og sé að það er Bjössi (sem er orðinn hippalegur samkvæmt myndinni). Þetta fannst mér gott, að þekkja þrjá á einni opnu. Ég lána þá Eygló blaðið og eftir smá tíma bendir hún mér á að ég þekki í raun alla á þessari opnu því þarna eru Kolbrá og Magdalena sem ég hef allavega tekið nokkuð margar myndir af.

Þetta kalla ég kunnuglega opnu.

Valtýr Björn ekki með fingurinn á púlsinum

Í morgun hlustaði ég á Skonrokk, entist meiraðsegja að hlusta á beljuna Jónínu Ben í nokkrar mínútur. Þetta var fínt. Valtýr Björn kom í þáttinn að tala um íþróttir (sem mér þótti óþarfa innlegg). Dr. Gunni og Grjóni spurðu hann spurninga um hvernig hann héldi að leikur milli hinna þessara karlaliða við hin og þessi kvennalið myndu fara. Síðan spurðu þeir Valtý hvort svona leikur hefði aldrei farið fram (semsagt karlalið gegn kvennalið), hann sagði að það hefði gerst en langt væri síðan. Þetta þótti mér ekki bera vott um áhuga á því sem er á seyði í íslensku íþróttalífi. Um síðustu helgi átti að fara fram leikur milli kvennaliðs Breðabliks og karlaliðs Snartar Kópaskeri. Ekki veit ég hvernig leikurinn fór (ekki einu sinni hvort hann fór fram) en Valtýr Björn skaut harkalega framhjá með því að vita ekki af leiknum (takið eftir snjallri notkun minni á íþróttalíkingamáli). Hvernig vissi ég annars af því að þessi leikur ætti að fara fram? Ég hlusta á Rás 2.

Vona núna að Skonrokk geti orðið klassísk útvarpsstöð sem fer ekki niður á það stig að þurfa að vera endalaust með machoaulakjaftæði. Og spila meira Queen.

Fréttir

Var að horfa á fréttirnar á RÚV áðan. Húsið brann ofan af Sverri Stormsker, þið afsakið ef ég gef ekkert í væntanlega söfnun. Íþróttafréttamaðurinn sem hefur ákveðið að reyna miðaldraskeggið aftur talaði um að Rachel Green væri í einhverju íslensku fótboltaliði en leiðrétti sig síðan eftir á. Sumir hafa kannski verið að horfa á aðra sjónvarpsstöð.

Glataður fréttaflutningur Netmoggans

Netmogginn heldur því fram í dag að uppselt hafi orðið í stúku á Foo Fighters á hálftíma í morgun, þetta er algerlega ósatt. Eygló keypti miða handa okkur í stúku eftir klukkan 10:40 og það virtist ekki vera nálægt því að vera uppselt.

Þetta minnir töluvert á fréttaflutninginn hjá Mogganum þegar Harry Potter bókin nýja kom til landsins, haldið var fram að hún hefði strax selst upp þegar hún var til á Bóksölu Stúdenta og einnig í Pennanum á Akureyri.

Svona fréttaflutning er svo sem ekki einungis að finna á Netmogganum.

Hættulegir Færeyjingar

Þetta var ekki frétta af Baggalút heldur á RÚV. Einhver Bandaríkjamaður heldur því fram að Færeyjingar séu árásagjarnir og blóðþyrstir vegna of mikils kvikasilfurs. Sönnun þessa vísindamanns á þessari kenningu var að koma með upptöku af grindhvaladrápi.

Íslendingar drápu hvali áður fyrr á þennan hátt og ég efast um að kvikasilfur hafi átt þátt í því. Spurningin er hvort það séu aðferðirnir sem eru notaðar sem benda til þess að Færeyjingar séu svona blóðþyrstir. Ég veit ekkert um aðferðirnar en ég sé fyrir mér að það sé djöfulerfitt að drepa hval og því sé þetta blóðugt en ég efast um að Færeyjingar séu grófari í þessu en Íslendingar til dæmis voru.

Nú hefði verið gaman ef samanburður á ofbeldisglæpum í Færeyjum og Bandaríkjunum væri til staðar. Kemur þessi hræðilega kvikasilfursmengun kannski bara fram í hvaladrápi?
Í gegnum tíðina hef ég hitt nokkuð af Færeyjingum og man ekki eftir öðru en þeir hafi allir verið með afburðum rólegir, reyndar tekur maður sérstaklega eftir þessu hjá þeim. Nú er hættan semsagt ljós, við þurfum að passa okkur á fólki einsog Jákob í Rúmfatalagernum, Eivöru Pálsdóttur og síðast en ekki síst þá getur maður verið viss um að hljómsveitin Týr sé skipuð brjálæðingum upp til hópa.

Væri ekki gaman ef fjölmiðlar hættu að birta svona rugl fréttir án þess að koma með gagnrýni?
Sem minnir mig að það var grein um Tý í Fréttablaðinu í dag. Kaupið plötuna ef þið hafið ekki þegar gert það, hún fæst allavega í 12 Tónum.

Miðlar og morð

Þetta er alveg ótrúlegt, danska löggan náði þessum morðingja þarna án þess að fá hjálp frá íslenska miðlinum sem flaug alla leið til Danmerkur til að hjálpa þeim. Þvílíkt tillitsleysi, miðillinn hefði getað orðið frægur! Nema náttúrulega hann hafi ekki haft rétta manninn grunaðan… Sem ég er reyndar alveg viss um. Þessi rugludallur fór allaleið til Danmerkur til að trufla lögreglurannsókn. Þetta er eitt helsta vandamálið sem kemur upp þegar er verið að rannsaka mál sem vekja mikla athygli, þetta vekur upp alla rugludalla sem vilja athygli, allir vilja verða hetjur.

Er ekki stutt síðan að einhver annar Íslendingur hélt því fram að hann hefði einhverjar upplýsingar um eitthvað svona mál (morðið á stelpunum í Bretlandi í fyrra?) sem vakti mikla athygli? Síðan hvetja íslenskir fjölmiðlar þetta fólk áfram með því að veita því athyglina sem það þráir. Ég held að í kjölfar þessa þá haldi íslenskir rugludallar áfram að trufla lögreglurannsóknir sem vekja mikla athygli og hjálpi þar með raunverulegu glæpamönnunum að sleppa.

Í gær var síðan einhver miðill á Rás 2 að tala um þetta, hann sagði að lögreglan í Svíþjóð og Bretlandi notaði miðla (takið eftir að ég nota aldrei orðið falsmiðill því ég tel að slíkt þurfi ekki að taka fram (hvort sem miðlarnir sjálfir trúa eigin rugli)) eins og hvert annað tól. Ég leyfi mér að efast. Einu skiptin sem ég hef heyrt um að lögregla hafi notað miðla er þegar ekkert gengur og allt er glatað. En umsjónarmennirnir þáttarins á Rás 2 héldu varla vatni yfir því hvað þetta var spennandi og manni fannst einsog þeir vildi að íslenska lögreglan hefði bara miðil á launaskrá hjá sér.

Síðan eru einhverjir sem halda því fram að miðlar hafi einhvern tíman getað hjálpað lögreglunni. Ég tel að það geti verið en það er ekki vegna einhverra dulrænna hæfileika. Segjum að þú vitir eitthvað um glæpamál en viljir ekki koma fram undir réttu nafni þá er einfalt að tala við einhvern miðil sem vill athygli. Miðillinn stekkur fram og upplýsir lögregluna (eða fjölmiðla) um einhverja sýn sem hann fékk um málið og Bingó! Raunverulegur árangur, falskar aðferðir. Ef miðill getur hjálpað við lögreglurannsókn þá er réttast að yfirheyra hann ítarlega um hvaðan hann fékk upplýsingarnar því það var ekki frá vasaljósinu góða í Himnaríki.