Steypt fréttamennska

Áðan var frétt á RÚV um sölu á Sementsverksmiðjunni, ekki ætla ég að tala um það undarlega mál heldur um fréttina sjálfa. Fréttin byrjaði á þessa leið:“talsmaður Flemmbýs segir að salan á Sementsverksmiðjunni sé algjör steypa“. Í lok fréttarinnar var síðan talað við þennan talsmann og þá var hann spurður hvort mæti segja að þetta mál væri tóm steypa, hann sagði að í löngu máli að það gæti nú passað. Þá var hann spurður aftur og þá sagði hann að þetta væri steypa. Gat fréttamaðurinn ekki bara rétt manninum miða með því sem hann átti að segja til að hægt væri að gera svona skemmtilega fyrirsögn. Aum fréttamennska vissulega.

Zombie

Í morgun hlustaði ég á Zombie að vanda (Zombie til klukkan 10, Radio Reykjavík til 12:20 og síðan Rás 2 þar á eftir). Hann var nokkuð góður, Sigurjón Kjartansson er á Akureyri að fylgjast með Essomóti (sonur hans að spila með HK held ég) og skoðandi menninguna. Ægilega fyndið þegar tveir úr hljómsveitinn Vínyl voru í viðtali fyrir sunnan meðan Sigurjón var í farsímanum að horfa á fótbolta. Doktorinn er síðan að gera heiðarlega tilraun til að láta reka sig með að spila lög sem aldrei fá að heyrast á X-inu. Glæsilegt alveg.

Þetta er færsla númer 100 síðan ég fór á Kaninkuna, 50 fyrstu vikuna, 50 næstu tvær og hálfa viku.

Zombie

Hlustaði á Zombie í gær, nokkuð góður þáttur. Á Móti Sól var í heimsókn þannig að Doktorinn og Grjóni voru sífellt að svívirða þá. Þegar þeir sögðu að öll eintök síðustu plötu hefðu selst þannig að hún væri ekki lengur til þá sagði Dr. Gunni einfaldlega „gott“ og var þá líklega ekki að samgleðjast þeim með velgengnina. Á Móti Sól voru nokkuð góðir í þessu viðtali, tóku svívirðingunum með húmori og skutu líka á Doktorinn („þetta frá manninum sem samdi Prumpulagið“). Síðan var einhver Skítamóralsnáungi og það fór merkilega skemmtilega fram. Mér er minnisstætt hvernig gert var grín að Unplugged plötu Greifanna enda er hún frekar glötuð.

Síðan kom Útvarpsleikrit þar sem Siggi Pönk kom eftirminnilega fram. Zombie topp 11 listinn var líka fyndinn. Listinn fjallaði um væntanleg „sellout“ og innihélt meðal annars:
„Hæ krakkar þetta er Jónsi úr Sigur Rós. Ég drekk bara Pepsi því það er svo kúl“
„Þetta er Siggi Pönk, ég borða bara á American Style“
Gyrðir Elíasson notar bara Sjampó frá Flembís.

og síðan að lokum uppáhaldið mitt:
„Ha, þú hér?“ „Ha, þú hér?“ „Ha, þú hér?“ „Ha, þú hér?“ „Gáfuðu tvíburarnir Sverrir og Ármann nota bara gleraugu frá Gleraugnaverslun Flembís“.

Síðan er spurningin: Hvað er Flembís? Svör skulu koma í kommentakerfinu, sérstök verðlaun verða líklega ekki veitt.

Ég verð samt að efast um að stór hluti hlustenda X-isisins (einsog einn viðmælandi þeirra komst að orði í gær) fatti tilvísanir í Gyrði Elíasson, Sigga Pönk og „Gáfuðu Tvíburana“. Ég hef hins vegar gaman að því þannig að það skiptir mig ekki máli.

Síðan má geta þess að ég hef einsog er ekki fastan tengil á Sverri en hann er inn á Molalistanum hér við hliðina, það á bara eftir að uppfæra nýju staðsetninguna á honum. Ég vona að ég missi ekki hlekkinn þó hann sé ósýnilegur í bili, reyndar er ég líka á þessum lista ósýnilegur. Spurning hvort maður ætti að læra eitthvað um rss til þess að geta bætt við þeim sem vantar pláss. Ég man einmitt að einhver bjó til yfirlit yfir Ármann svo maður gat haft hann inni með smátrixi þó hann væri ekki á Molunum. Langar líka að bæta inn Neil Gaiman.

Þetta minnti mig síðan á að það væri þægilegt ef hægt væri að búa til lítið Kaninku lógó til að hlekkja á forsíðuna, það gæti beint meiri umferð til félaga vorra.

Falsaðar fréttir og skammarleg greinarskrif

Maður hefur á tilfinningunni að fréttir af Harry Potter æðinu séu samdar af fólki hjá Pennanum-Eymundsson eða Mál & Menningu í Reykjavík. Í frétt á Netmogganum var sagt að bókin hefði ekki fengist síðan um nóttina þegar hún var sett í sölu. Þetta er augljóslega ósatt. Bóksala Stúdenta átti ennþá til bækur og ég var í Pennanum á Akureyri í gær og sá bókina þar, þónokkur eintök reyndar.

Það er með ólíkindum að svona fréttir komist í gegn en við erum hér að tala um fjölmiðil sem birtir óhugnanlega steiktar greinar eftir Jónínu Ben þar sem hún tengir misnotkun á börnum við trúleysi. Það væri fyrirtaksverkefni fyrir einhvern að útskýra fyrir Jónínu sögu barnamisnotkunnar sem hefur fengið að þrífast innan kirkjunnar, þá sérstaklega þeirrar kaþólsku.

Kann Mogginn ekki að skammast sín?