Gagnslaust Facebook: skrýtinn heimur podkastsins

Ragnar Loðbrók er umfjöllunarefnið í nýjasta þættinum mínum
Ragnar Loðbrók er umfjöllunarefnið í nýjasta þættinum mínum

Ég var að setja á netið áttunda þáttinn í podkastinu mínu Stories of Iceland í gær. Í morgun fór ég að kíkja á hve mikið niðurhalið á honum væri og varð steinhissa. Ástæðan er að á fimmtudaginn kom allt í einu stór kippur. Þar voru 600 niðurhöl en á venjulegum degi, sérstaklega í miðri viku, eru þau 150. Það var enginn nýr þáttur kominn í þessum mánuði en á birtingardögum kemur alltaf kippur frá áskrifendum mínum.

Ég veit ekkert hvað olli þessum kipp. Líklegast þykir mér að einhver podkastveitan hafi sett mig á forsíðuna hjá sér. Vandinn er að þessar veitur nota almennt ekki rekjanlega hlekkinn sem gefur mér upplýsingar heldur vísa beint á skrá hjá mér. Vissulega fæ ég ýmsar upplýsingar samt sem áður en ég sé ekkert sem skýrir þetta þar.

Á sama tíma og ég er að fá öll þessi niðurhöl þá er áhugavert að Facebook-síða podkastsins míns er algjörlega dauð. Ég er með rétt rúmlega 100 læk og tók alveg eftir því að það bættust nokkur svoleiðis við á fimmtudaginn á sama tíma og stóri niðurhalskippurinn kom. En Facebook er líka gagnslaus því að þeir sýna ekki nema örfáum þá pósta sem ég birti á síðunni þar. Ég er ekki alveg viss um hvort ég ætti yfirhöfuð nokkuð að púkka upp á Facebook.

En málið er að podkastheimurinn er allt öðruvísi en flest á netinu. Ég bara skráði strauminn minn hjá podkastveitum og forritum og fékk síðan fullt af niðurhlöðum án þess að vita nokkuð um það hverjir eru að hlusta.

Stories of Iceland – Nýtt hlaðvarp (podcast)

Stories of Iceland
Ísland er kind. Sættið ykkur við það.

Eftir miklar vangaveltur og vesen varðandi Vídeóspólu-heimildarmyndina þá er ég loksins kominn með góða aðstöðu til upptöku. Það er í fundarherbergi í kjallara blokkarinnar okkar. En ég get ekki haldið áfram að taka upp viðtöl strax því að það eru núna háværar framkvæmdir í gangi. Það er slæmt að bjóða einhverjum í viðtal þegar hætta er á að borar yfirgnæfi viðmælandann.

Þannig er ég svona fræðilegu skapandi tómi. Ég hef gert nokkra útvarpsþætti og hef því verið nokkuð spenntur að prufa að gera svona hlaðvarpsþætti. Vandinn var auðvitað að finna nálgun sem er ekki löngu kominn. Síðan tók ég upp puttaferðalang og sagði honum endalausar sögur af Íslandi og þá var hugmyndin komin.

Í hlaðvarpsþáttunum Stories of Iceland ætla ég að fjalla um íslenska sögu, menningu og þjóðfræði á ensku. Þættirnir eru ætlaðir útlendingum sem hafa áhuga á Íslandi og ég ætla að reyna að fara aðeins dýpra og vera með aðeins öðruvísi vinkil en þessi hefðbundna landkynning.

Fyrsti þátturinn kallast Troublemaker-Valley og er umfjöllunarefnið Svarfaðardalur og sögur tengdar honum.

Desert Islands Discs mómentið mitt

Í síðastliðinni viku hringdi Guðni Már Henningsson í mig og bauð mér í það sem heitir “Áratugalögin” og er hluti af sunnudagsþætti hans. Ég þáði að sjálfsögðu og var þar núna áðan.

Þetta var síðan vika valkvíða. Ég þurfti að velja lag fyrir hvern áratug lífs míns. Ég pældi og pældi. Ég valdi og hætti við og valdi upp á nýtt. Ég ákvað mig ekki endanlega fyrren núna um hádegisbilið.

Mér fannst rétt að nota viðmið Johnny Rotten við val á lögum sem var: “Mér finnst ekkert að því að vera í Sex Pistols og hlusta á The Bee Gees”. Semsagt: Ekki reyna að vera svalur.

Ég þurfti að velja Queen lag og ákvað að það yrði áttunda áratugslagið mitt.  Ég ætlaði að velja The Fairy Fellers Masterstroke en Eygló stakk upp á ’39 sem mér finnst miklu gáfulegra. Ég útskýrði texta lagsins – vonandi rétt. Eðlis- og stjörnufræðingar mega leiðrétta mig (ég hafði reyndar samband við Sigurð Örn til að fá þýðingu á einu hugtaki).

Níunda áratugslagið mitt var Lets Hear it for the Boy með Deniece Williams úr kvikmyndinni Footloose. Ég valdi það af því að ég man eftir að hafa farið á myndina í bíó og að hafa hlustað á tónlistina úr myndinni þegar ég fór að sofa. Ég var lengi að pæla í að taka The Chauffeur með Duran Duran en skipti síðan um skoðun.

Ástæðan var sú að tíunda áratugslagið mitt varð Ordinary World með Duran Duran. Lagið okkar Eyglóar.

Síðasta lagið sem minnstur vafi var um var Ragnarök með Tý. Það er valið bæði af því að mér er þakkað í bæklingnum með samnefndri plötu og af því að það er æðislega flott útfærsla á þema Völuspár með gríðarlegum skilningi á norrænni hetjuímynd.

Þetta var sumsé æðislega gaman. Ég játa að ég hef einmitt nokkrum sinnum hugsað að það væri gaman að fara í svona Desert Island Discs þátt og þarna fékk ég tækifæri til þess.

Beðið eftir Stormsker

Ég bíð spenntur eftir að heyra viðtalið við Guðna Ágústsson í útvarpsþættinum Miðjunni með Sverri Stormsker. Það að kallinn rauk út og heimtaði að þátturinn yrði ekki endurfluttur hefur gert þetta að skylduhlustun. Flestir sem tjá sig um málið virðast vera á því að Guðni hafi orðið sér til skammar. Ég er spenntur að heyra hvað fór þarna fram þar sem ég, ólíkt Bjarna Harðar, hef mestan áhuga á að dæma viðtalið sjálfur. Sverrir sagði að viðtalið kæmi á netið í dag og ég er búinn að rílóda síðunni nokkrum sinnum en ekkert enn komið.