Kristján Gunnþórsson (1945-2022)

Kristján frændi minn Gunnþórsson er látinn.

Flest orðin sem mér dettur í hug til að lýsa honum innihalda orðið “góður” í einhverri mynd. Góðlegur, góðviljaður, bóngóður og svo framvegis. Ég upplifði hann sem mann sem leið best þegar hann gat hjálpað fólki.

Akureyringar kannast örugglega margir við nafnið hans og ótrúlega stór hluti þeirra hafa átt í einhverjum samskiptum við hann. Ég man hvað ég var alltaf glaður í æsku þegar ég sá hvíta sendibílinn keyra framhjá með nafninu hans. Ég fann líka til mjög barnalegs pirrings þegar ég sá ekki nafnið hans heldur nafna hans Grant. Næstum eins bílar og næstum eins nöfn.

Ég hitti hann oftast í Skarðshlíðinni hjá ömmu og afa, bæði þegar ég bjó þar og þegar ég var bara í heimsókn. Þar sem hann var alltaf á ferðinni var hann alltaf að segja fréttir af hinu og þessu. Það er líka eftirminnilegt þegar hann leit við og sagði okkur að hann væri að flytja risastóran hund áleiðis til einangrunarstöðvarinnar í Hrísey. Ég fékk að kíkja í bílinn.

Kristján kom oft færandi hendi. Ég hika næstum við að segja frá því að hann laumaði stundum að okkur bakkelsi sem hefði væntanlega átt að enda í svínafóðri. Hljómar kannski ólystugt en það hefði verið hægt að kaupa það í bakaríinu klukkutíma áður. Ég var allavega alltaf glaður að fá snúð.

Kristján var líka alltaf innan handar þegar við þurftum að flytja, sem var oft, innan Akureyrar. En eftirminnilegustu flutningarnir voru þegar við Eygló fluttum til Reykjavíkur. Okkur þótti það auðvitað of stór greiði að flytja búslóðina landshluta á milli þannig að við báðum ekki um það. En við spurðum hvort hann yrði eitthvað á ferðinni á hentugum tíma. Það kom í ljós að hann var að flytja búslóð á sama tíma og húsnæðið okkar yrði laust.

Af algerri tilviljun voru það nágrannar mínir úr Stekkjargerðinu, hinum megin við götuna, sem voru að flytja. Kristján náði einhvern veginn að raða öllu þeirra dóti svo vandlega að það var pláss fyrir okkar hluti. Þannig kom hann okkur suður. Í raun alveg ótrúleg lagni. Heimspekingurinn sagði “menning er að gera hlutina vel” og það á jafn mikið við um listafólk og það fólk sem getur unnið vanmetin störf af hæfni.

Kristján bað aldrei um neitt í staðinn fyrir hjálp sína og góðvild en ég hefði auðvitað verið til í slíkt. Það er stundum þannig með bóngott og hjálpsamt fólk að það er ekki endilega að biðja um mikið í staðinn. Ætli besta leiðin til að minnast Kristjáns frænda sé ekki að reyna að lifa eftir fordæmi hans. Ég get ekki lengur launað honum hjálpina en ég get reynt að láta gott af mér leiða.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til Jónínu, barna Kristjáns og barnabarna. Ég er, og verð ævinlega, þakklátur fyrir allt sem Kristján gerði fyrir mig og fólkið í kringum mig.

Þjófótti vesturfarinn

Þann 2. mars 1939 lést Akureyringurinn Friðrik Kristjánsson í Winnipeg í Kanada. Hann hafði verið kaupfélagsstjóri og bankamaður á Akureyri. Í mars 1910 hvarf hann og var talinn látinn. Í raun hafði hann falið sig hjá dóttur sinni og lét sig hverfa úr landi mánuði seinna. Þá kom í ljós að það voru miklar misfellur í reikningum Íslandsbanka á Akureyri þar sem hann hafði verið útibússtjóri. Þrátt fyrir að allt fékk Friðrik að lifa í friði í Kanada og börnin hans stungu líka af þangað. Um þetta má t.d. lesa í þriðja bindi Sögu Akureyrar.

Ástæðan fyrir því að ég var að lesa mér til um þetta er að ég frétti fyrir nokkrum árum að langafi og langamma, Gunnlaugur og Steinunn, hefðu misst sparnað sinn í bankahneyksli. Núna er ég loksins kominn með söguna nokkurn veginn á hreinu. Samkvæmt heimildum hafði Hannes Hafsteinn bankastjóri lofað að borga öllum til baka féið sem Friðrik stal en ætli langafa hafi ekki skort einhverja pappíra til að sýna fram á inneign sína.

Steinunn og Gunnlaugur og misstu jörð sína þar sem þau gátu ekki greitt fyrir hana. Steinunn lést 42 ára, þegar Guðmar afi var níu ára og þá sundraðist fjölskyldan.

Sú saga sem lýsti fátækt þeirra líklega best er að Steinunn hafi sagt, þegar hún horfði á kött nágrannans lepja mjólk, að hún gæti grátið ofan í skálina.

Friðrik Kristjánsson var týpískur hvítflibbaglæpamaður að því leyti að virðulegt fólk varði hann og einn skrifaði m.a. að það hafi nú verið næg refsing fyrir hann að missa æru sína og flýja land. Sumt virðist aldrei breytast.

Fyrsti dagur (einn í fullu) fæðingarorlofi

Frá því í nóvember hef ég verið í hálfu fæðingarorlofi en í dag er ég kominn í fullt orlof. Það er merkilega erfitt að reyna að hunsa vinnuna, reyni að forðast vinnupóstinn og vona að afleysingafólkið mitt sé nógu vel undirbúið.

Fyrsta verkið var að fara í tíu mánaða skoðun í morgun.

Annars er stefnan að vera duglegri að fara út á meðal fólks heldur en síðast þegar ég var í fæðingarorlofi.

Rétt er að taka fram að þetta er ekki upphaf af færsluflokki um fæðingarorlof mitt. Ég læt öðrum um það.

 

Jón Trausti

Ég sá Egil Helgason áðan í sjónvarpinu röltandi um kirkjugarð. Meðal annars stoppaði hann við leiði Jóns Trausta rithöfundar.

Það rifjaðist upp fyrir mér nokkuð sem amma sagði mér eitt sinn og það ergði mig hve lítið ég mundi. Hún var að tala um hve langafa hafi þótt mikið til þess koma að vera tengdur þessum fræga manni en systir hans var gift bróður Jóns Trausta. En hún minntist líka á það í framhjáhlaupi að hún hefði heyrt sögu af því þegar Jón Trausti valdi sér skáldanafn. Ef ég man þetta rétt þá voru þeir bræður tveir um að velja sér dulnefni og þeir gerðu það á meðan Jón Trausti bjó enn fyrir norðan.

En eins og ég segi, það ergir mig hvað ég man þetta óljóst og þar með er þetta frekar ómerkileg neðanmálsgrein í íslenskri bókmenntasögu. Kannski að Hafdís eða Anna muni þetta betur en ég.

Bissí dagur

Í dag fékk ég nóg að gera. Ég vaknaði nokkuð snemma og tók aðeins til. Næst fór ég í Nettó til að kaupa byrgðir. Á leiðinni var ég tekinn í símaviðtal. Þegar ég var kominn heim bakaði ég muffins og undirbjó pönnukökur. Þá komu Mummi og Sóley. Ég byrjaði að steikja pönnukökur og þá bættust Árný, Hjörvar, Hrefna, Una og Logi í hópinn. Í miðri steikingu var ég kallaður í myndatöku. Ég kláraði pönnukökurnar síðan og þá tók við bara almennur hávaði hjá barnahjörðinni. Sem var samt gaman.

Eftir að Árný, Hjörvar og börn voru farin fór ég að undirbúa kvöldmatinn sem voru pizzur. Siggi og Sigrún bættust síðan í hópinn og eftir matinn spiluðum við. Ef Ósk les þetta þá getur hún glatt sig við að ég vann tvisvar í röð í Jungle Speed, syngjandi Jungle Boogie. Sigrún vann síðan Ticket to Ride. Allt í allt mjög góður dagur. Eitthvað er síðan á dagskrá á morgun.