Rólegheitin

Við Eygló erum í rosalegu heimastuði núna. Á föstudaginn hefðum við reyndar hugsanlega drösslað okkur út til að fara í bíó en Sverrir Guðmunds boðaði komu sína og okkur þótti það skemmtilegra plan. Við gáfum honum afganga að borða og hann okkur ís í staðinn.

Í gær fórum við ekki á Gay Pride. Í staðinn fórum við í stóra ferð í Sorpu og síðan í búðir. Borðuðum í Bakarameistaranum á Smáratorgi sem virðist einstakur í þeirri keðju fyrir það að þar taka starfsmenn af borðunum í stað þess að láta viðskipavinina um það. Þegar heim var komið tókum við okkur til og endurskipulögðum stofuna aðeins en reyndar var aðalmálið að færa sjónvarpssamstæðuna um 10 sentimetra eða svo. Það er erfiðara en maður gæti haldið því við þurftum að taka allt úr henni. Við röðuðum síðan töluvert öðruvísi í hana aftur. Núna er síðan pláss fyrir nýjasta „húsgagnið“ okkar hérna. Í gær gerðum við mest lítið.

Áðan reyndi ég að klára að þýða greinina mína sem ég á að skila á föstudaginn. Ég á enn eftir að klippa út cirka hálfa síðu og aðlaga heimildaskránna. Síðan fór ég út að  bera olíu á girðinguna. Tók eina umferð. Það var ekki gaman.

Hugsanlega gerum við eitthvað í kvöld. Það kemur ljós.

Örbylgjuofninn

Fyrir nokkru byrjaði örbylgjuofninn minn að vera með leiðindi. Hann hitaði ójafnt og það heyrðust einhver undarleg hljóð í honum. Hann er líka orðinn ríflega níu ára gamall, eiginlega jafnaldri sambandi okkar Eyglóar. Hann var keyptur í RadioNaust rétt eftir að ég flutti í kjallarann í Stekkjargerði.

Um daginn fórum við svo í Elkó og kíktum á ofna. Við höfðum ákveðið að kaupa einn sem væri líka með grilli. Við vorum nærri búinn að kaupa einn þegar við tókum eftir því að það var hægt að fá einn sem var með grilli, blæstri og örbylgju. Hann kostaði örlítið meira en við stukkum á hann enda er bakstursofninn okkar ekki með blæstri.

Ég prufaði strax daginn eftir að búa til brauð í honum sem gekk alveg glimmrandi. Það gekk hins vegar verr þegar ég ætlaði að baka skúffuköku í honum. Hún var fulllengi að bakast. En ég er samt ánægður. Ég var minna ánægður þegar ég sá sama ofn með 3000 króna afslætti í Elkóblaðinu. Mér skilst að Elkóverðverndinn verndi mann ekki fyrir Elkó þannig að ég verð bara að kyngja biturleika mínum. En ofninn er góður.

Girt

Af einhverjum ástæðum fékk ég þá flugu í höfuðið núna í vikunni að það væri góð hugmynd að girða svona rétt fyrir utanlandsferð. Á fimmtudag fór ég og keypti efni og í morgun hóf ég framkvæmdir með Gunnsteini afa Eyglóar og Svenna bróður hennar. Þetta gekk svona ljómandi vel og tók bara fjóra tíma eða svo með hjálp þeirra. Án hjálpar þeirra tók þetta þrjú ár.

Bókahillur

Í fyrradag keypti ég mér bók. Það eru ekki fréttir. Áðan reyndi ég að koma henni fyrir í bókahillu en gafst bara upp á að reyna.

Er einhver sem yfirhöfuð kaupir og les bækur sem hefur vel frágengnar bókahillur? Það er alltaf allt á rúi og stúi í hillunum hjá mér.

Ég veit ekki hvort ég ætti að taka upp þá stefnu að láta bara allar nýjar bækur á stað sem tengist ekki á nokkurn hátt efni þeirra. Fara síðan einu sinni á ári og setja þær á rökréttan stað.

Reyndar eru bókahillurnar mínar hvorteðer sprungnar  (eins og alltaf) þannig að ég hef enga lausa hillu fyrir nýjar bækur. Ég legg ekki í þetta núna, kannski þegar Eygló kemur heim.