Að loknu innflutningspartíi

Innflutningspartí búið fór vel. Saknaði þó sumra. Ég hef búið til svartan lista yfir þá sem ekki mættu, hafa ekki löglega afsökun og hjálpuðu ekki við flutninga eða íbúðastandset.

Þetta var nú annars rosalega gaman. Það kom samt annars tímapunktur þar sem ég áttaði mig á því að allir sem voru að drekka voru orðnir drukknir, þetta fær maður fyrir að gefa fólki bjór. Aðalsteinn hrundi í það en ældi hvergi sem er voðalegur plús. Enginn ældi reyndar. Halli sofnaði reyndar næstum á tímabili. Við Aðalsteinn tókum smá memory lane en ekkert óhóflegt til þess að vera ekki að spjalla um eitthvað sem öllum öðrum finnst óspennandi.

Við erum búin að laga til og vaska upp. Það er alltaf auðveldara að taka til í stærra plássi.

Það er gott að eiga heima hér. Næstum allt komið á sinn stað. Ljósin, gólflistarnir, speglar og svo framvegis. Eitthvað á eftir að hengja á vegginn og síðan á eftir að lagfæra smá hluti en mest er komið. Glaðlegt og skemmtilegt.

Eitt ljós enn

Ég setti áðan upp enn eitt ljós og fékk enn eitt stuðið. Ég hef líklega fengið svona fimm stuð frá því að við fengum afhent. Í þetta skiptið er ég með einhvers konar sár á fingrinum. Þá er bara eitt ljós eftir. Væntanlega fer hún upp á morgun eða föstudag. Ég var hræddur um að skrúfurnar væru of langar en svo var ekki. Hjúkk.

Geymslutiltekt

Við vorum að ganga frá niðrí geymslu. Það var indælt, reyndar er planið að rífa allar hillurnar þar út og láta nýjar í staðinn. Þetta er náttúrulega menningarsögulegur glæpur. Hillurnar eru upprunalegar að því mér sýnist. En þar sem menningararfurinn er dauður þá er best að henda þeim, er ekki spenntur fyrir hillum úr ósköfuðu mótatimbri. Ég henti upp ljósinu frá Bykó eftir að hafa fjarlægt eldgildruna sem var fyrir. Einhver hefur brotið gamla ljósið sem var þarna og bara skilið það eftir þannig. Piff.

En það sem er gott við geymsluna er að þar er smá vinnuaðstaða þar sem hægt er að dunda sér. Það er borð, litlar hillur, skúffur og skápur. Ég mun síðan leiða snúrur þarna að, annars vegar í loftinu fyrir ljósið og hins vegar meðfram veggnum til að láta hin ýmsustu tæki í samband.

Við eigum rosalega mikið af drasli. Geymslan virðist varla höndla þetta. Reyndar á maður eftir að ganga betur frá og henda einhverju.

Íbúðin er að skána, ljós komin upp í græna herberginu. Þá er það bara stofan og gangurinn eftir, hlakka til að losna við rússana.

Samsetningar

Ég er að horfa á Guru Busters, fékk hana í pósti áðan. Við fengum hillusamstæðu í gær og settum hana saman. Hún er tilbúin núna. Náði í hillu áðan og setti hana saman. Gaurarnir hjá Rúmfatalagernum voru skeptískir á að hægt væri að koma tveggja metra hillu í bílinn, en að sjálfssögðu var það hægt. Dásamlegur bíll alveg.

Íbúðin er öll að koma til. Langar einhverjum í sjónvarpsskáp? Alveg ágætlega meðfarinn, á hjólum, frá Rúmfatalagernum.

Síðasti búturinn, meira drasl

Í dag fór síðasti gólflistabúturinn á vegg. Mjög glaður. Fer að skila söginni til Gumma. Við hentum líka gömlu gólflistunum og fleira drasli. Síðan keyptum við meira drasl. Kommóða, rimlagluggatjöld, þvottagrind og fleira. Á morgun kemur síðan samstæða kennd við fjallgarð.

Við Eygló settum síðan saman kommóðuna áðan.

Í kvöld ættum við að geta gengið frá mest öllu inn í græna herberginu.

Fimm bútar eftir

Ég á eftir að planta fimm gólflistabútum niður, sá lengsti er kannski svona metri að lengd. Erfiðasta við þetta er að hér er um að ræða búta sem koma á veggi sem standa út úr, það er fiffvinna mikil. Stefnt er að því að klára þetta í dag eða á morgun í síðasta lagi. Þá verður gleði mikil. Morgundagurinn fer vonandi í það að taka úr kössum.

Ég er kominn með alla tengla upp sem er gleði þar sem ég þarf þá ekki lengur að taka rafmagnið af með reglulegu millibili.

Á eftir verður farið í húsgagnaleiðangur, kaupa kommóðu í svefnherbergið. Síðan þarf að líta eftir hillum í geymsluna og hugsanlega einhverri samstæðu sem dugar undir sjónvarpsdót, tölvu og græjur.

Stefnt er á innflutningpartí eftir tvær vikur.

Eldhússkápur kominn upp og annar niður

Í gær gekk ég frá eldhússkápunum, við tókum reyndar þá ákvörðun að sleppa því að hengja upp þann minni, hann situr núna niðrí geymslu ef við skiptum um skoðun. Þá eru örfáir gólflistar eftir, loftljós, gluggatjöld í græna herbergið og eldhúsið. Þetta er allt að koma. Þvílík gleði.