„Hefði elt hann og keyrt hann niður…“

Fólk virðist hissa að einhver hafi strengt vír yfir hjólabrú í þeim augljósa tilgangi að slasa eða drepa hjólreiðafólk. Ég er það ekki. Ég sem hjólamaður hef fylgst með umræðunni undanfarin ár og hef séð mörg komment á vefmiðlum sem hræða mig. Ég man eftir einu tilfelli þar sem reynt var að fá lögregluna til að athuga mál en það gerðist ekki. Núna vildi ég að ég hefði safnað þessum athugasemdum saman til að sýna þau en það tók mig alveg 10 sekúndur að gúggla til að finna eitt skelfilegt dæmi.

Viktor Agnar Falk Guðmundsson
Það ætti hverjum manni að vera ljóst að fólk sem leyfir sér að tala svona ætti ekki að vera með bílpróf.

Þessi athugasemd er úr umræðu á You Tube þar sem hjólreiðamaður birtir myndband þar sem Strætó tekur mjög gróft fram úr honum. Athugasemdirnar eru flestar á þá leið að hjólreiðamaðurinn ætti að vera á gangstéttinni. Það er mjög týpískt að þó að hjólafólk eigi lögum samkvæmt að vera á götunni og hafi undanþágu til að vera á gangstéttum þá finnst ökumönnum að þeir ættu ekki að þurfa að deila götunni með hjólum. Ökumenn sem eru á því áliti hafa augljóslega ekkert með bílpróf að gera.

Lögreglan, og jafnvel löggjafinn, þarf að taka hótanir og ógnanir í garð hjólreiðafólks alvarlega. Það á ekki að vera hægt að ræða um að myrða fólk án að þurfa að taka afleiðingum þess. Þegar menn leyfa sér að tala svona um ofbeldi í garð einhvers hóps þá er fyrr eða síðar einhver sem tekur þetta alvarlega og fer að framkvæma svona voðaverk.

Uppfært:
Stofnaður hefur verið hópur á Facebook sem heitir Ökumenn sem hata hjólreiðafólk.

Stórhættulegur hjólamaður

Open Street MapUm daginn var ég, sem oft áður, að hjóla. Ég merkti með grænu hvar ég var að hjóla. Ég var á stíg og að koma á stað sem er ætlaður til þess að tengja stíga sem eru sitt hvorum megin við götu þó þetta sé ekki merkt gangbraut. En þegar ég kem þarna sé ég bíl sem er að koma niður Arnarbakkann (rauði liturinn).

Ég fylgist með og honum tek eftir að hann gjóar ekki einu sinni augun í áttina að mér. Ég hægi því á mér og stoppa við götuna. Þegar hann keyrir þarna framhjá sé ég að ökumaðurinn sér mig og honum dauðbregður og bremsar meira að segja. Þó var ég alveg kyrrstæður. Ég er alveg sannfærður um að hann hefur haldið að þarna hafi næstum orðið slys út af stórhættulegum hjólamanni. Það er svo sem ágætt því þá mun þessi ökumaður kannski líta aðeins betur í kringum sig í framtíðinni.

Annars þá er ég áhugasamur um hvað ökumönnum er kennt um hjólreiðar í ökunáminu sínu. Ég man satt best að segja ekki eftir að hafa lært neitt. Það er allavega makalaust að heyra fólk kvarta yfir því að 1) hjól séu á götum 2) hjól séu á gangstéttum og 3) hjól fari yfir á gangbrautum þegar hjólreiðafólk er í fullum rétti á öllum þessum stöðum.

Auðvitað eiga hjólreiðamenn að sýna gangandi vegfarendum tillitssemi – það er frumskylda þess sem hjólar á gangstéttum. Hins vegar er bjallan afskaplega vafasamt öryggistæki og afskaplega sjaldan sem hún virkar eins og hún á að gera. Þegar maður hringir bjöllunni er allra líklegast að gangandi fólk fríki út og fari út í kant. Ef margir eru saman þá verður hrein ringulreið. Fólk tekur sumsé hringingunni þannig að hjólreiðamaðurinn sé að öskra „drullaðu þér í burtu“ þegar maður er í raun að segja „bara að láta þig vita að ég er að koma“.

Reyndar er á einu hjólinu mínu afskaplega einföld bjalla sem kemur bara með eitt „ding“ sem virðist virka miklu betur en háværari bjöllur, einmitt af því hún er svona hógvær. Síðan er líka bara hægt að segja „afsakið“. En ég hjóla afskaplega lítið (og ekki hratt) á þröngum gangstígum eða stéttum þar sem sambúð hjólafólks og gangandi er erfið.

Annars sá ég áðan bút úr Bílar 2 (Cars 2) og þar bjuggu bílarnir í borg sem var alveg eins og í okkar heimi fyrir utan að hún var búin til fyrir bíla. Auðvitað leit hún nákvæmlega út eins og flestar borgir heims gera hvort eð er því þær eru búnar til fyrir bíla.

Verslum við Slökkvitæki ehf og aðrar hjólasögur

Slökkvitæki EHFÍ morgun hjólaði ég í fyrsta skiptið í vinnuna frá því í nóvember. Það gekk þrusuvel. Í hádeginu hafði ég mælt mér mót við hann Darra og hjólaði þangað. Ég tek strax eftir að eitthvað er skrýtið. Ég kíki og sé að dekkið er loftlaust.

Venjulega er ég með allar græjur með mér en taldi enga þörf á að fara með neitt í þetta hádegisskrepp. Ég ákvað að reiða hjólið í átt að Castello (ætlaði að sníkja loft hjá Hjólaspretti) en var ekki kominn langt þegar það kallar í mig gaur og segir mér að koma með hjólið.

Ég fór þá inn til hans í fyrirtækið Slökkvitæki EHF og fékk þar loft í dekkið sem dugði mér úteftir (beinið viðskiptum ykkar til fólks sem ástundar svona góðmennsku). Það var þó því miður þannig að loftið var farið að leka út aftur og greinilegt að slangan var farin. Ég fékk það staðfest hjá Hjólaspretti eftir matinn að slangan var farinn.

Stóra hjólaferðin

Í vor fjárfesti ég í hjólafestingu sem er fest á skottið á bílnum. Það hefur nokkrum sinnum komið sér vel en aðalástæðan fyrir kaupunum var sú að mig langaði að hafa hjólið með mér í ferð í kringum landið.

Ég hjólaði smá á Akureyri og þegar ég var kominn á Vopnafjörð hjólaði ég í sund – sem er þægilegur 20 km rúntur sem endar á góðri afslöppun. Við vorum eina nótt í sumarbústað í Svartaskógi þar sem amma Eyglóar var að halda upp á afmæli sitt. Ég tók mig þá til og hjólaði þaðan inn á Egilsstaði. Það var ekkert sérstaklega langur túr (33 km) en þetta var í fyrsta skiptið sem ég hjóla einhverja leið á hringveginum og það er frekar brött brekka þarna um leið og maður kemur inn á þjóðveginn. Það er, skv. mælingum mínum, um 140 metra hækkun á rétt rúmlega tveimur kílómetrum. En þetta gekk bara vel. Á leiðinni mældist ég líka á hæsta hraða sem ég hef komist á sem var um 50 kmh. Yfirleitt er mér farið að líða frekar óþægilega þegar ég kemst nálægt 40 kmh. Á leiðinni tók Strætó frammúr mér. Ég held ég hafi ekkert hjólað á Neskaupsstað en þegar ég kom á Vopnafjörð tók ég nokkra 20 km rúnta.

Í vor, þegar ég var að ná mér eftir smávægilega aðgerð sem ég fór í, var ég að lesa mér til um forfeður mína á Langanesi. Aðallega hann Jóhannes Gíslason sem átti í útistöðum við einhverja Frakka. Ég var líka að skoða Árbók Ferðafélagsins sem fjallar um þennan landshluta (ótengt þessu þá er þar vísað í grein sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum). Mig langaði að heimsækja þennan landshluta. Ég man ekki eftir að hafa farið meira en á Þórshöfn. Ég fékk þá flugu í höfuðið að hjóla ofan af Langanesi niður á Vopnafjörð. Ég skoðaði vegalengdir og sá að þetta var geranlegt. Eygló var reyndar efins enda var ég ekki í miklu hjólaformi á þessum tíma.

Þann 19. júlí fórum við Eygló með drengina og Steinu tengdamömmu út á Langanes með hjólið fest aftan á bílinn. Við borðuðum á Grillskálanum á Þórshöfn sem má hiklaust mæla með. Þar skolaði ég líka Brekknaheiðina af hjólinu. Síðan keyrðum við aðeins lengra. Við ætluðum upprunalega að fara upp á Heiðarfjall (Hrolllaugsstaðafjall) þar sem ætti að sjást yfir gamla bæjarstæði langalangafa að Hrolllaugsstöðum og hefja túrinn þar. En við beygðum eitthvað vitlaust og síðan var vegurinn ekkert frábær þannig að mér var hleypt út úr bílnum dáltið frá rótum fjallsins. Þar hellti ég í mig vatni áður en ég lagði af stað. Veðrið var alveg ákaflega gott, eiginlega of hlýtt.

Ég bað Eygló að keyra á undan mér af stað en síðan náði ég henni strax aftur enda hjólið betra farartæki á svona slökum vegum en fólksbíll. En þegar vegurinn skánaði stakk hún mig af. Það er ákaflega fallegt þarna á Langanesi og ég efast ekki um að ég fari þangað aftur. Á leiðinni upplifði ég gleði að vera varinn með hjálm enda kríurnar mjög aðgangsharðar á köflum. Gargið samt eiginlega verra þannig að ég hækkaði í tónlistinni.

Á leiðinni frá Þórshöfn hafði ég séð smá veg sem leiddi út að Grenjanesi þar sem Jóhannes á að hafa lent í sínum útistöðum en ég komst ekki langt þar því það var hlið fyrir. Ég hjólaði því til baka. Fór síðan aftur framhjá Sauðanesi þar sem hann kallinn fæddist. Ég veit ekki til þess að kotið þar sem hann bjó með foreldrum sínum standi enn.

Þegar ég kom til Þórshafnar hafði ég augun opin og horfði eftir Freyju vinkonu okkar sem við vissum að væri á Þórshöfn og viti menn, þarna var hún úti á röltinni með krökkunum. Hún var augnablik að fatta því hún bjóst ekki við mér þarna og þar að auki var ég fúlskeggjaður með hjálm og sólgleraugu. Hún er ekki fyrst til að verða ringluð á því dulargervi. Ég spjallaði aðeins og fór síðan að skila aftur vatni á sjoppunni.

Þegar maður er að fara frá Þórshöfn til Vopnafjarðar byrjar maður á því að fara yfir Brekknaheiðina sem er ómalbikið (leið mín þennan dag var svona að hálfu leyti malbikuð). Það var ekki svo erfitt enda er hún ekki svo há. Ég man ekki eftir neinu sérstöku á leiðinni þar nema að Eygló tók frammúr mér.

Erfiðasti vegurinn á leiðinni var í kringum Miðfjörð. Þar var leirinn í veginum ennþá blautur þannig að mér leið eins og ég væri að sökkva ofan í hann. Ég tók stuttu eftir þetta og stoppaði við minnismerki um Kristján frá Djúpalæk. Það hitti í mark hjá mér því annars vegar er þar ákaflega trúleysislegt ljóð sem heitir Mitt faðirvor og hins vegar Strengir úr Pílu Pínu. Ég tók mig meiraðsegja til og söng Strengi fyrir sjálfan mig þarna. Þess ber að geta að Djúpilækur virtist ekkert sérstaklega djúpur.

Þegar ég byrjaði að klífa Sandvíkurheiðinni varð ferðin fyrst í alvörunni erfið. Hún er 275 m. og þó hún sé malbikuð eru brekkurnar dáltið þungar. Ég var líka búinn með vatnið mitt og leyst ekki alveg nóg á vatnið í lækjum og ám. Ég prufaði smá úr einni á og það var frekar slæmt (Gunnsteinn afi Eyglóar sagði mér eftir á að það væri ekkert gott vatn þarna á leiðinni). Verst var samt að mótvindurinn var orðinn svoltið kröftugur (Trausti sagði að það hefði víst verið verst 10-12 m/s). Ég tók og settist niður í smá tíma út í móa og hringdi í Eygló. Langaði smá að gefast upp en gerði það ekki. Ég neyddist á verstu köflunum að reiða hjólið sem ég geri annars aldrei. Það segist eiginlega mest að þegar ég var farinn að renna niðureftir aftur þá þurfti ég ekkert að vera á bremsunum – mótvindurinn hægði nógu mikið á mér.

Ég var alveg drepast á afleggjaranum út að Selárdalslaug en harkaði áfram. Eygló keyrði framhjá mér en ef hún hefði stoppað þá hefði ég gefist upp og þegið farið. Sem betur fer gerði hún það ekki og ég kom mér alla leið. Þegar ég kom á bílastæðið bað ég Eygló um vatn og hellti örugglega hátt í lítra í mig í einum teyg. Það var verulega gott að komast í sund og þá aðallega að slappa af í heita pottinum. Mér leið eiginlega bara vel eftir og fann varla fyrir neinum eftirköstum dagana á eftir.

Kort af leiðinni
Kort af leiðinni

Fyrir þetta hafði ég mest hjólað 50 km til Grindavíkur en þetta voru 83 km sem ég hjólaði með litlum stoppum. Þetta voru um 5 klukkutímar sem þetta tók miðað við þann tíma sem ég var að hjóla. Meðalhraðinn hefði verið mikið hærri ef ég hefði stoppað fyrir Sandvíkurheiðina.

Það er svolítið gaman að skoða þessa myndrænu framsetningu á leiðinni minni sem sést á þessum tveimur myndum. Á fyrri er fjarlægðin kvarðinn en á hinni tíminn. Það þýðir að landslagið sést nokkuð rétt á efri myndinni en á þeirri neðri sést ágætlega hve erfitt það var. Takið eftir hve Sandvíkurheiðin er mikið erfiðari heldur en Brekknaheiðin sem lítur mjög svipað út á myndunum. Rétt er að taka fram að hæðarmælingar í forritinu sem ég nota eru nokkuð vafasamar með tilliti til hæðar yfir sjávarmáli þó mér sýnist það vera fínt í að mæla hve hátt maður er að fara upp og niður.

83-fjarl83-timi
Þetta var gaman. Reyni aftur seinna í minni mótvindi, með meira vatn, betur sofinn og byrja þá kannski upp á fjallinu.

Reiðhjólauppboð lögreglunnar – fáir góðir dílar

Mig hefur lengi langað til að fara á reiðhjólauppboð lögreglunnar en yfirleitt hef ég ekki frétt af þeim fyrren eftir á. Ég heyrði hins vegar af uppboðinu með góðum fyrirvara og átti auðvelt með að hoppa til í dag.

Þetta var spes reynsla. Fyrst komu barnavagnar og kerrur. Þar virtist helst vera hægt að fá góðan díl. Síðan komu barnahjólin og maður sá fljótlega að boðin voru ákaflega há. Þetta magnaðist síðan þegar fullorðinshjólin fóru af stað.

Maður sá fljótt út að í hópnum var ákveðinn fjöldi af fólki sem var með eitthvað vit á hjólum. Það bauð í hjól frá ákveðnum framleiðendum og fór mjög hátt með boðin. Maður sá líka þegar venjulega fólkið fór stundum nokkuð hátt – að því er virtist komið í stuðið eftir að hafa heyrt hin háu boðin. Þannig að hjól frá miðlungs eða lélegum framleiðendum fóru á allt of háu verði.

Ég stór framarlega og það sem kom mér einna helst á óvart var að fólk var að bjóða í hjól sem það hafði ekki séð í návígi. Það vissi greinilega ekkert hvað það var að fá. Ég sá mörg hjól fara dýrum dómi sem ég sá í návígi að voru ryðguð, með ónýta gíra, bremsur og keðjur. Ég sá fólk líka berjast harkalega um gíralaus hjól á þess að átta sig á því. Sama fólk var sumsé að bjóða í, að því er virtist fyrir sjálft sig, 21 gíra hjól og gíralaus án þess að gera nokkurn greinarmun á því.

Ég hef fylgst með hjólasölum á Facebook og Bland og þarna voru hjólin almennt að fara á allt öðru og miklu hærra verði en á þeim miðlum.

Uppboðshaldarar voru ekki með sérstakt vit á hjólum. Það var gefið upp tegundarheiti, stærðin á dekkjunum og ekkert annað. Þeir sem buðu í virtust heldur ekki gera nein sérstakan greinarmun á stærðinni á stellunum. Fyndnast var reyndar þegar tilkynnt var að verið væri að bjóða upp 42 tommu hjól. Til hliðsjónar má benda á að dekk á fullorðinshjóli er almennt á bilinu 26-29 tommu og stellin eru í minni stærðum.

Einn aðili keypti ótrúlega mörg hjól og bauð í enn fleiri. Uppboðshaldarinn fór fljótt að kalla hann vinnumanninn af því að hann var í vinnugalla.

Sjálfur fór ég ósjálfrátt að rifja upp uppboð í myndum og sjónvarpsþáttum þar sem fólk bauð óvart í með því að klóra sér í nefinu og þess háttar. Einu sinni eða tvisvar datt mér í hug að uppboðshaldarinn hefði túlkað einhverjar hreyfingar hjá mér sem boð en ég bauð ekki í eitt einasta hjól.

Hringavitleysa FÍB um reiðhjólakaup

Á vef FÍB má finna reiknivél sem á að segja manni hve langt maður þurfi að hjóla til þess að hjólakaup borgi sig – miðað við bensíneyðslu bílsins manns og ekkert annað. Samkvæmt þessu er bíll núllstærð í kostnaði fyrir utan bensín. Ef FÍB myndi setja þarna inn tölur frá sjálfum sér þá væri kannski hægt að miða við 1,2 milljónir á bíl á ári. Þannig að ef þú getur sparað þér að reka bíl í mánuð þá gætirðu keypt þér hjól sem kostar 100 þúsund, ef þú sparar þér bíl í tvo mánuði geturðu keypt hjól sem kostar 200 þúsund.

Ég skil ekki hvernig FÍB fær það út að hjólakaup þurfi sérstaka réttlætingu á meðan bílakaup þurfa slíkt ekki. Maður þarf farartæki og ef þú getur sparað þér bíl með að hjóla þá geturðu í raun með góðri samvisku keypt allt nema mögulega allra dýrustu hjól vitandi að þú ert að spara formúgu.

Mitt heimili rekur einn bíl. Ég er viss um að margir í okkar sporum telja að þeir þyrftu tvo bíla (en ég gæli frekar við hugmyndina um bíllaust heimili). Í hreinskilni get ég ekki haldið því fram að hjólið mitt komi í veg fyrir að við þurfum annan bíl – það er strætókortið sem reddar því. Það kostar c. 68 þúsund á ári (sparar okkur samkvæmt FÍB allavega rúma milljón á ári). Það sparar mér þar að auki ergelsið við að keyra.