Ella-málið: Úr lífi alþýðunnar

Ég rakst á eftirfarandi grein á Tímarit.is. Þetta eru undir fyrirsögninni „Úr lífi alþýðunnar“ í Lesbókinni. Smjörhól hennar ömmu kemur við sögu en það er þó tveimur árum eða svo áður en forfeður mínir fluttu þangað.

Ég veit ekkert um höfundinn (Jón Sigfússon) en ég á erfitt með að skilja þetta öðruvísi en að þarna sé reiður og kaldhæðinn tónn vegna aðfarar yfirvalda að þessu fátæka fólki. Ég varð reiður að lesa þetta og gat ekki annað en deilt þessu.

ELLA-MÁLIÐ

Eftir Jón Sigfússon, Ærlæk

FRÁ VORI 1892—94, var vinnumaður á Ærlæk hjá þeim hjónum Sigfúsi Einarssyni og Oddnýju Jóhannesdóttur, er þá bjuggu þar. Hét hann Elías og var Jónsson.

Mun hafa verið fæddur á Árholti, í kringum 1870 [11. júlí 1866 – 23. jan. 1941]. Hjá foreldrum sínum ólst hann upp og síðar vandalausum, í sárri fátækt og mun í æsku hafa verið með beinkröm, sem hann bar menjar um alla ævi síðan, því hann var með knýttar og bæklaðar hendur. Var hann því aldrei fullfær til allrar vinnu eða neinn afkastamaður. En natinn var hann við að gæta kinda og góður yfirstöðumaður, en í þá daga tíðkaðist að standa hjá fé í haga, ef beitt var og nokkuð að veðri. Elías var því frekar eftirsótt hjú, enda húsbóndahollur, notinvirkur og trúr í bezta lagi.

Eignir átti Elías litlar nema kindur, sem hann hafði á kaupi sínu og gáfu honum dálitlar tekjur. Þær munu hafa verið um 20 alls.

Almennt var Elli, en svo var hann oftast nefndur, talinn fremur einfeldningur, en þó er mér næst að halda, að hann hafi verið í meðallagi gefinn, ef hann hefði hlotið sæmilegt uppeldi, en því var ekki að heilsa, því engrar hafði hann notið uppfræðslu nema aðeins það allra minnsta, sem komist var af með til að ná fermingu.

Þegar hér var komið sögu, var Elli rúmlega hálfþrítugur og vinnumaður á Ærlæk, eins og áður segir. Samtíða honum þar var kvenmaður einn á bezta aldri, er Kristín hét og var Gunnarsdóttir, kölluð Krita. Ævi hennar hafði verið svipuð og Ella, nema ef til vill enn hörmulegri, ef verra gat verið. Ung hafði hún misst móður sína. Var umkomuleysið sárt, en fátækt og allsleysi fram úr hófi, en uppfræðsla engin. Enda var hún á hrepp eftir að faðir hennar, Gunnar á Smjörhóli lézt, og sjálfsagt haft misjafna aðbúð.

Fram að þessu höfðu menn gjört sér lítið títt um hagi þeirra Ella og Kritu, og saga þeirra lítið skráð á bókfell. En nú verður snögg breyting á þessu. Það sem sé gerist sá atburður, sem bæði fyrr og síðar hefir átt sér hliðstæður, án þess að allt hafi verið sett á annan endann. En það var það, að Krita verður þunguð af völdum Ella. Eins og ærlegum og góðum föður sómdi, hafði Elli nauðsynlegan undirbúning vegna þessarar væntanlegu barnsfæðingar. Meðal annars var hann búinn að útvega dvalarstað handa barninu o. s. frv., enda hefði Elli vel haft sig fram úr því, að ala upp barnið af sjálfsdáðum. En þetta átti ekki þannig að fara. Réttvísin tók ráðin af Ella og stjórnaði af meiri vizku og líklega réttlæti.

Einhvern nasaþef fékk hreppstjórinn, sem þá var Björn Jónsson í Sandfellshaga, af því hvernig komið væri, og hans fyrstu viðbrögð voru þau, að skipa ljósmóðurinni í sveitinni að rannsaka málið. Man eg að ljósmóðirin kom að Ærlæk og sló sér fljótlega á tal við Kritu og lét talið berast að klæðnaði hennar; spurði meðal annars hvort hún væri í vaðmálsskyrtu, en Krita sagðist vera í léreftsskyrtu næst sér. Því vildi yfirsetukonan ekki trúa og þráttuðu þær um þetta nokkra stund, þangað til Krita stóðst ekki mátið lengur og til að sanna mál sitt reif skyrturnar upp um sig. En yfirsetukonan athugaði það sem yfirvaldið hafði fyrirskipað.

Hér kemur útdráttur úr dómsmálabók Þingeyjarsýslu, frá þeim tíma, um þetta Ella-mál:

Árið 1893, þriðjudaginn 18. júlí, var réttarhald að Ærlæk, til að hefja rannsókn í tilefni af bréfi hreppstjórans í Skinnastaðahreppi, dags. 15. júní sama ár. Segir þar að Elías sé 27 ára gamall, hafi flutzt vistferlum í Ærlæk 1892. Játar Elías að hafa haft samræði við Kristínu: Að réttarhaldinu loknu er Elíasi bannað að hreyfa sig nokkuð af heimilinu fyrst um sinn, en vera alltaf til staðar þangað til ráðstafanir verði gjörðar.

Árið 1893, föstudaginn 21. júlí, var lögregluréttur settur og haldinn að Ærlæk af settum rannsóknardómara Einari Benediktssyni, til að halda fram rannsókn þeirri er hafin var með réttarhaldi að Ærlæk. Ber Elías allt það sama um samræði við Kristínu. Þess er getið að Elías sé einfaldur og svari spurningum bjánalega. Sjálfur játar hann að hann hafi oft fundið til þekkingarleysis síns og einfeldni, enda aðrir notað sér það í viðskiptum við hann.

Einnig er Sigfúsi Einarssyni húsbónda Elíasar uppálagt að láta ekki Elías ganga úr greipum réttvísinnar.

Þennan sama dag var héraðslæknirinn, Björn Blöndal á Sjávarlandi, kvaddur til að rannsaka og gefa vottorð um andlegt ástand Elíasar og Kristínar.

Árið 1893, mánudaginn 28. ágúst, var settur aukaréttur af Einari Benediktssyni á Skinnastöðum.

Réttvísin gegn Elíasi Jónssyni frá Ærlæk.

Verjandi málsins var sr. Þorleifur, sem þá skilaði aftur skjölum málsins, sem voru mörg og ýmiskonar, um hegðun og andlegt ástand Elíasar og Kristínar, og ennfremur skírnar- og fermingarvottorð.

Eftir að skjöl öll höfðu verið lesin upp, lýsti sr. Þorleifur því að hann hefði ekki fleira fram að færa, en það varnarskjal, sem hann hefði lagt fram.

Var þá málið tekið upp til dóms.

Árið 1893, mánudaginn 2. okt., var — aukaréttur Þingeyarsýslu settur og haldinn á skrifstofu Þingeyarsýslu að Húsavík, af sýslumanni Benedikt Sveinssyni [faðir Einars].

Réttvísin gegn Elíasi Jónssyni frá Ærlæk.

Dómurinn:

Það er löglega sannað í máli þessu með skýlausri eigin játningu ákærða í sambandi við önnur rök, sem upplýst eru, að hann hefur tvívegis á síðastliðnu og yfirstandandi ári framið holdlegt samræði með hreppsómaganum Kristínu Gunnarsdóttur, sem þá ásamt honum var til heimilis á Ærlæk.

Eftir langt mál var svo dómurinn uppkveðinn.

Því dæmist rétt vera:

Hinn ákærði, Elías Jónsson, vinnumaður frá Ærlæk, á að sæta eins mánaðar fangelsisvist við venjulegt fanga viðurværi. Einnig á hann að borga allan af máli þessu löglega leiðandi kostnað, þar á meðal 4 krónur til hins skipaða talsmanns, Þorleifs prests Jónssonar á Skinnastað.

Dóminum ber að fullnægja með aðför að lögum.

Ben. Sveinsson.

Víkur nú sögunni aftur til dagsins 21. júlí. Eftir að hinn setti rannsóknardómari, Einar Benediktsson, hafði lokið yfirheyrslunni yfir Ella og Björn Blöndal athugað andlegt ástand hans, var ferðinni beint að Smjörhóli. En þar höfðu hreppsyfirvöldin komið Kristínu fyrir til dvalar, til að fjarlægja hana frá Ella. Í förinni voru leiðtogi fararinnar Björn hreppstjóri, Björn læknir Blöndal og setti dómarinn Einar skáld Benediktsson ásamt fylgdarmanni sínum Ólafi Sveinar Hauk. Er ólíklegt að í annan tíma séu sagnir af að fríðari eða tignari fylking hafi kvatt dyra á Smjörhóli.

Ekki er mér kunnugt um hvað þar hefur gerzt, þó sjálfsagt geymist eitthvað um það í réttarskjölum frá þeim tíma, ef þau eru þá ekki glötuð. En fundi Kritu hafa þeir að sjálfsögðu náð. Bárust fréttir um það eftir lækninum, að langt myndi þess enn að bíða að Krita yrði léttari.

Skjöplast þótt skýr sé, segir gamalt máltæki, og mátti heimfæra það upp á Björn lækni, því ekki var heimsókninni fyrr lokið og menn riðnir úr garði, en Krita tók joðsótt og ól barnið, sem svo mikið tilstand hafði verið út af. Það var meybarn, sem síðar hlaut í skírninni nafnið Jóhanna, fædd 21. júlí 1893.

Ævisaga Kritu varð ekki löng úr þessu, því hún lézt á Smjörhóli sama ár, þann 7. október. Varð það með þeim hætti að hún fór út á hlað til að sækja barnarýur, sem breiddar höfðu verið til þerris upp á snúru. Þegar dvaldist að hún kæmi inn aftur og farið var að gá að, lá hún örend á hlaðinu.

Talin hafa orðið bráðkvödd. Vitnaðist þó síðar, þó aldrei yrði það hljóðbært, að banameinið var engu að síður „hor og ófeiti“, eins og það er orðað í kirkjubók Skinnastaðasóknar, um þá sem létust í móðuharðindunum 1785.

Mikið höfðu yfirvöldin garfað í þessum málaferlum og sýnt mikinn dugnað, en í öllum þessum önnum virðist hafa gleymzt að athuga um að barnsmóðirin hefði sæmilegt fæði og aðhlynningu, annars hefði Krita sennilega ekki orðið hordauð.

Samkvæmt dómsniðurstöðu réttvísinnar átti Elli að afplána sök sína með eins mánaðar fangelsisvist við venjulegt fanga viðurværi og greiða allan málskostnað.

Fangelsi var þá ekki nær en á Akureyri og þangað fór Elli, en ekki lifði hann eingöngu upp á vatn og brauð, eftir því sem honum sagðist sjálfum frá. Hann lét hið bezta yfir verunni. Mat hefði hann fengið að borða, bæði mikinn og góðan, þann sama og sýslumaðurinn borðaði sjálfur og allir voru honum góðir. Ekkert þurfti hann að gera á daginn, en rólaði sér í hengirúminu eins og hann hafði löngun til. Er ekki að efa að Elli sagði satt frá. Mun almennt hafa verið litið svo á, að hann hefði ekki með sök sinni unnið til þeirrar harkalegu meðferðar, sem réttvísin ákvað honum. Aldrei fyr á ævi sinni hafði Elli farið eins langa ferð eða séð sig eins mikið um, svo þó hann væri alla daga manna yfirlætislausastur, þá hafði hann séð svo margt nýstárlegt í þessari ferð, að hann vitnaði stundum síðar á ævinni til hennar og hóf þá venjulega mál sitt eitthvað á þessa leið: „Það var þegar eg fór inneftir“.

Langt um verra en tugthúsið var þó það, að missa allar eigur sínar. En þær voru allar teknar af Ella upp í málskostnaðinn, svo þegar hann vorið eftir (1894) fluttist frá Ærlæk ofan í Kelduhverfi í vinnumennsku til Þórðar Flóventssonar bónda í Krossdal, var hann slyppur og snauður. Átti þá ekki annað en fötin sín og vasaúrið sitt, sem yfirvöldunum hafði láðst að taka af honum. Um úrið sitt þótti Ella fjarskalega vænt, sem von var, enda var það honum svo nauðsynlegt, þar sem hann ætíð var einangraður frá öðrum og fjarri bæ við kindurnar; lét hann sér líka mjög ant um það og hafði í úrkassa, sem hann svo vafði vasaklút eða einhverju öðru utan um og bar það þannig í vasanum á vestinu sínu. En lánið getur verið hverfult og í þetta sinn reyndist það svo.

Yfirvöldin uppgötvuðu fljótlega yfirsjón sína og fundu ráð sem dugði. Þeim hugkvæmdist það, að Elli myndi einhvern tíma koma í orlofsferð austur í Öxarfjörð til að finna kunningjana og sjá litlu dóttur sína. Ef svo færi, var ferjumaðurinn á Ferjubakka fenginn til að ná úrinu af honum. Þessi ráðagerð heppnaðist. Ferjumaðurinn náði úrinu af Ella og það komst í hendur hreppsnefndaroddvitans, sem falið hafði verið að koma því í verð. Er ekki að orðlengja það, að oddvitinn hampaði úrinu framan í hvern sem var og bauð til kaups fyrir eitthvað, hvað lítið sem væri, en enginn vildi kaupa. Virtist svo sem menn hefðu einkennilega litla löngun til að eignast þetta úr. Varð endirinn sá, að nokkru seinna átti Þórður Flóventsson, húsbóndi Ella, ferð hér austur yfir Jökulsá og keypti þá úrið á 4 krónur og færði Ella það.

Eftir þetta fluttist Elli aldrei úr Kelduhverfi. Var vinnumaður á ýmsum bæjum, þangað til ævinni lauk í hárri elli. Munu allir ljúka upp einum munni um það, að Elli hafi verið maður meinhægur, grandvar, trúr og hollur sínum húsbændum, enda þurfti réttvísin aldrei að hafa hendur í hári hans, utan þetta eina sinn.

Jóhanna Elíasdóttir ólst upp á góðu heimili, þar sem hún naut sömu ástar og umhyggju eins og hún hefði verið ein af fjölskyldunni, enda mat hún það að verðleikum. Hún var svo trygglynd, að hún batzt vináttuböndum við. fjölskylduna, sem entust ævina út.

Meðal annars heimsótti hún þetta vinafólk sitt einu sinni á ári allt fram á síðustu ár. Alla ævi var Jóhanna veikbyggð og heilsutæp.

Naut hún sín þess vegna miður en skyldi. Jóhanna giftist og bjó með manni sínum á jörð í Kelduhverfi um tugi ára, eða allt til dánardægurs.

Með manni sínum eignaðist hún tvö börn, sem bæði eru á lífi, pilt og stúlku. Þeim gekk vel að læra og eru mannvænleg, engu síður en fólk er almennt. Bæði eru þau flutt úr fæðingarsveit sinni. Hann er búfræðingur að menntun. Hún er húsfreya í sveit.

Hatur mitt á AirBnB

Ég held að við ættum einfaldlega að banna AirBnB. Þetta er, eins og svo margt annað sem hefur komið út úr hinu svokallaða deilihagkerfi, eitraður kapítalismi.

Áhrifin á Íslandi eru ljós. Við vitum að þetta eru að miklu leyti íbúðir sem voru áður á almenna leigumarkaðinum. Það koma engar íbúðir sjálfkrafa í staðinn. Leiguverð hækkar. Fólk lendir í hrakningum. Börn þurfa að skipta um skóla. Jafnvel oft. Fólk þarf jafnvel að flytja út á land, sem er ekkert slæmt í sjálfu sér ef fólk vill flytja. En þegar fólk neyðist til að flytja langar leiðir missir það ekki bara húsnæðið heldur líka félagslega netið í kringum sig.

Auðvitað eru áhrifin líka gríðarleg á hverfin sem verða á barðinu fyrir þessu. Þjónustan sem íbúðahverfi þarf á að halda hlýtur að minnka – enda eftirspurnin minni. Fólkið sem eftir situr þarf að búa við mikið ónæði. Ef við lítum til samgöngumála þá er verið að þrýsta fólki út af því svæði þar sem auðveldast er að lifa bíllausum lífstíl. Í staðinn byggjast upp hverfi lengst í burtu frá þessum atvinnusvæðum.

AirBnB er einfaldlega eitrað fyrirtæki. Þetta er í raun leið til þess að reka gistiþjónustu án þess að bera sömu ábyrgð og til dæmis hótel eða gistihús. Við sjáum líka þessi eitruðu áhrif í þeim rasisma sem þrífst innan þessa kerfis. Fólk sem er ekki hvítt á hörund á miklu erfiðara með að fá gistingu innan AirBnB. Það er þessi persónulega nálgun sem gefur rasismanum útrás. Ég myndi ekki gista hjá hótelkeðju sem væri uppvís að slíkum starfsháttum – af hverju ættu aðrar reglur að gilda um AirBnB.

Talandi um rasisma þá hefur AirBnB leigt út íbúðir á stolnu landi á Vesturbakkanum. Eftir að það var gagnrýnt lofað fyrirtækið að hætta þessu en bökkuðu síðan og voru með óljós loforð um að gefa hagnað sinn til góðgerðarsamtaka. Þeir sem voru að leigja út þessi gistirými geta ennþá grætt á þýfinu með milligöngu AirBnB.

Þá eru líka ótal sögur um glæpi, svindl og annan viðbjóð sem fær að grassera vegna eftirlitsleysisins sem þrífst innan deilihagkerfisins – sem og sögur af öllum gestgjöfunum sem hafa fengið bakstungur frá AirBnB þegar eitthvað fer úrskeiðis.

Núna er rétti tíminn til aðgerða. Þessar íbúðir eru meira og minna tómar og ólíklegt að það komi straumur ferðamanna á næstunni til að fylla þær. Það væri mikið betra fyrir samfélagið ef þær færu aftur í almenna útleigu. En þá þyrftu leigjendur líka að geta treyst því að ef ferðamannabólan færi aftur að blása út þá væri þeim ekki vísað strax aftur út.

Sjónvarpsáhorf sem lestrarkennsla

Það eru margir að tala um lestrarkunnáttu* íslenskra barna. Eitt mikilvægt atriði sem fólki yfirsést almennt er textun á erlendu sjónvarpsefni og kvikmyndum.

Mín kynslóð hafði kannski ekki jafn mikinn aðgang að afþreyingarefni á ensku og kynslóð barna minna en við höfðum mun meiri aðgang en áður hafði þekkst. Það sem ég held að aðgreini okkur sé ekki fyrst og fremst magnið heldur textun.

Ástæðan fyrir því að ég lagði hart að mér að læra að lesa var ekki til að lesa bækur heldur til að lesa texta. Ég þurfti að læra að lesa nógu hratt til að missa ekki af textanum. Þetta var ótrúlegur hvati.

Í dag er hverfandi aðgangur að textuðu efni. Við erum með barnaefni á íslensku og síðan erum við með ótextað efni á ensku. Það er hverfandi aðgangur að textuðu efni fyrir krakka.

Ef við lítum framhjá lestrarþættinum og pælum í málkunnáttu þá veldur þetta auðvitað því að krakkar læra ensku fljótt og örugglega. En ég held að skortur á textun valdi um leið ákveðnu rofi milli íslenskukunnáttunnar og enskunnar. Í stað þess að læra ensku með hliðsjón af íslensku, eins og mín kynslóð gerði að miklu leyti, þá læra krakkar mörg ensk orð án tengingar við íslenskuna. Það verður til þess að sum hugtök skilja þau bara á ensku. Þau finna sumsé ekki alltaf svar á íslensku. Mig grunar að þetta verði jafnvel líka til þess að enskuskilningurinn verði ekki jafn góður og hann gæti orðið.

Þetta er reyndar ekki endilega nýtt vandamál. Það var ekki endilega stór kynslóð sem fékk mikið af textuðu barnaefni. Það kom nefnilega fljótt upp krafa um talsetningu sem var skiljanleg og jafnvel nauðsynleg fyrir yngstu börnin en olli því að krakkar sem voru að læra að lesa fengu ekki jafn mikla æfingu í að lesa – og lesa hratt. En um leið og talsetningarkynslóðin vildi horfa á eitthvað meira en barnaefni þá fékk hún textað efni.

Núna er aðgangur að ótextuðu barnaefni á ensku nær endalaus og aðgangur að textuðu barnaefni hverfandi. Þegar krakkarnir eldast þá tekur síðan við enn meira af ótextuðu efni.

Þannig að ef ráðamenn vilja efla lestur, ensku- og íslenskukunnáttu þá ættu þeir að reyna að koma íslenskum texta á sem mest af því efni sem krakkarnir okkar eru að horfa á.

* Það þarf auðvitað að auka fjárframlög til bókaútgáfu, bókasafna og skóla. Það eiga allir að vita. Ég held hins vegar að færri átti sig á mikilvægi textunnar.

Lyfjaskorturinn og kerfið sem virkar ekki

Það að lyfjaskortur sé landlægur mun m.a. valda því að fólk mun reyna að kaupa lyf eins fljótt og það getur þegar þau eru til.

Segjum að maður sé á lyfi sem dugar í 40 daga en lyfseðillinn endurnýjast á 30 daga fresti. Ef maður getur treyst því að lyfið sé alltaf til þá hefur maður tíu daga glugga og notar hann bara eftir hentugleika. Ef maður treystir ekki lyfið sé alltaf til þá mætir maður um leið og maður getur til þess að hámarka líkurnar á að maður nái í lyfið. Maður mun líklega endurtaka það næsta mánuð og svo framvegis þar til maður er jafnvel kominn með góðar byrgðir af lyfinu.

Síðan getur auðvitað gerst að maður hætti að fari að taka annað lyf í staðinn eða bara að hætta að taka lyfið og þá munu lyfin aldrei nýtast neinum. Þá hefur ríkið líka verið að sóa peningum.

Nú gæti verið að einhverjir fari að reikna að það sé allra best að fólk hafi sem stystan glugga frá því að hægt er að sækja lyf þar til lyfjaskammturinn klárast. En auðvitað er það enginn lausn.

Lausnin er að hafa andskotans lyfin til. Þá þarf fólk ekki að vera í endalausu stressi og veseni.

Eitt skref gæti verið að sekta apótek eða heildsala þegar lyfin eru ekki til. Síðan gæti ríkið bara tekið yfir þennan bransa. Jafnvel opnað lyfjaverksmiðju. Kerfið er ekki að virka og við þurfum greinilega að breyta því. Frjálsi markaðurinn er ekki að höndla þetta. Við eigum ekkert að venjast lyfjaskorti. Það er galin hugmynd.

YouTube sökkar og Disney rokkar – fyrir íslensku

Fyrir íslenskt tungumál þá er YouTube hræðilegt fyrirbæri. Þó að á yfirborðinu þá sé jafnræði tækifæri þar þá er það ekki í raun. Stóra ástæðan er ekki (bara) sú að þarna er mikill aðgangur að efni á ensku heldur að aðgengið fyrir íslenskt efni er lélegt. Lengst af þá var ekki möguleiki á því fyrir framleiðendur að græða peninga fyrir að setja inn efni á íslensku. Jútúbarar græða með því að láta birta auglýsingar með efni sínu en það var ekki hægt með efni á íslensku. Því var breytt tiltölulega nýlega en það hjálpar ekki mikið þar sem…

YouTube krefst þess að það komi ákveðið mikið grunnáhorf á efni áður en hægt sé að fá nokkurn pening fyrir auglýsingar. Það sem er verra er að þessi mörk er færð ár frá ári. Þannig að áhorf sem dugðu í fyrra til að komast á auglýsingasamning duga ekki lengur og við vitum ekkert hvernig þessi mörk verða á næsta ári. Á sama tíma henda mörg íslensk fyrirtæki peningum í auglýsingar á YouTube. Þannig að YouTube sýgur peninga frá Íslandi og gefur lítið til baka.

Þetta er auðvitað sama vandamál og íslenskt efni glímir alltaf við. Tónlistarveitur borga oft ekkert út fyrr en hlustun hefur farið yfir mörk sem fæstir tónlistarmenn sem flytja efni á íslensku ná í.

Á sama tíma þá er Disney dásamlegt fyrirbæri. Ég fer á Pixar/Disney myndir í bíó og þá er ekki bara talmálið á íslensku heldur líka ritmálið. Þannig eru skilti oft á tíðum með íslenskum orðum.

Þetta skapar þá undarlegu stöðu að YouTube sem virðist vera lýðræðislegt og opið lokar fyrir íslenskuna en Disney sem virðist oft hálffasískt fyrirbæri opnar dyrnar fyrir íslensku.

Ég hef oft sagt að okkur vanti fleiri Jútúbara á Íslandi en kannski að það þurfi frekar einhvers konar íslenska útgáfu af slíkri veitu sem myndi höfða bæði til auglýsingakaupenda og til framleiðenda efnis. Það hefur aldrei verið auðveldara að framleiða efni, hvort sem það eru hlaðvörp, grínmyndbönd eða fræðsla en það er mun erfiðara að græða á slíku.

Ég er með podcast á ensku* og þó ég sé ekki enn farinn að setja auglýsingar þar inn þá gæti ég með lítilli fyrirhöfn gengið inn í samning hjá hlaðvarpsveitu og fengið borgað ákveðið mikið fyrir hvert niðurhal. Ég hef ekki ennþá farið þá leið af því að ég veit að ég get fengið meira borgað fyrir að selja auglýsingar sjálfur – þó það sé erfiðara.

Það þarf að vera svona möguleiki fyrir íslenskt efni. Einhver milliliður sem kemur saman framleiðendum og auglýsendum. En það er ekkert svoleiðis í dag þannig að ef framleiðendur eru ekki líka góðir sölumenn þá er lítið að græða á íslenskunni.

* Stories of Iceland. Í síðasta mánuði þá voru um þúsund niðurhöl á hvern þátt þó ég hafi ekki sett nýjan þátt í loftið frá desember fram í febrúar.

Fröken Fix – heilasprengja upprunans

Í hversdagslegu dúlli mínu á Tímarit.is þá rakst ég á nokkuð sem sprengdi heilann minn, en þó ekki bókstaflega. Svo virðist sem að meðfylgjandi mynd sýni hina upprunalega Fröken Fix. Hún var persónugerving þvottaefnis.

Þessi auglýsing er frá árinu 1939 en þvottaefnið Fix var fyrst auglýst árið 1935 með frasanum „Fröken Fix“. Elstu auglýsingarnar má t.d. finna í Kirkjuritinu, Sovétvininum og nasistablaðinu Íslandi. Myndin fylgdi þó ekki með fyrr en seinna.

Nasistar (þjóðernis)hreinsa með aðstoð Fröken Fix

Fröken Fix

Ég er rasisti en…

Það er nær alltaf þannig að ef einhver byrjar setningu á „ég er ekki rasisti en“ þá er seinni hlutinn af setningunni rasismi. Sjálfur held ég að rasismi sé í okkur flestum. Þá er ég ekki að tala um rasisma í skilningnum kynþáttahatur heldur tilhneiging til að flokka fólk eftir húðlit og öðru slíku. Ég man ekki hvað ég var gamall þegar ég sá fyrst fullorðinn svartan karlmann en ég man að mér þótti það mjög óvenjulegt. Mér finnst allavega ekki erfitt að skilja hvers vegna „Negri í Þistilfirði“ varð frétt á sínum tíma. Ekki kynþáttahatur. En samt svona „við og hinir“.

Ég man ennþá þessa skrýtnu tilfinningu þegar ég kom upp úr neðanjarðarlestinni í Brixton í London árið 2005 og sá ekki einn einasta hvítan mann. Þetta var ekki hræðsla eða andúð eða neitt þannig. Þetta var bara sterk tilfinning að vera öðruvísi. Það er ákaflega hollt að upplifa það af því að maður býr í samfélagi þar sem maður tilheyrir útlitslega meirihlutanum. Í New York fékk ég síðan notalega tilfinningu þar sem maður sá engan meirihluta. Á augnabliki sá maður meiri fjölbreytni í útliti fólks heldur en ég hef séð flesta daga, ef ekki ár, ævi minnar.

Ef ég ætti að botna fyrirsögnina mína þá væri það kannski svona: Ég er rasisti en ég reyni að vera meðvitaður um (meðfæddar?) tilhneigingar mínar til að flokka fólk og passa upp á að það hafi ekki áhrif á dómgreind mína eða það hvernig ég kem fram við fólk. Þetta „við og hinir“ á auðvitað líka við um hluti eins og kyn og trú sem og almennt uppruna. Þegar ég hitti Vestmannaeying þá reyni ég  að muna að það er fyrst og fremst einstaklingur en ekki staðalmynd. Það gæti vel verið að einstaklingurinn hafi ekkert gaman af sprangi og vilji ekki fá Árna Johnsen aftur á þing.

Kannski að dæmið um Vestmannaeyinginn hljómi kjánalegt en það er ágætt af því að við könnumst við landshlutaríg – eða jafnvel bæjarhlutaríg. Í grunnskólum Akureyrar lögðum við nemendur okkar eigið landshlutabundna sjibbólet fyrir kennara til að komast að því hvort þeir væru hræðilegir Reykvíkingar.

Það er einhver þörf fyrir að sjá sig sem hluta af hópi og geta litið niður á annan hóp. Sumt er aðallega í nösunum á fólki. Það á reyndar jafnvel við um ákveðna rasista sem maður hefur rekist á í gegnum tíðina. Þeir geta úthúðað ákveðnum hópum sem óalandi og óferjandi en síðan komið manneskjulega fram við einstaklinga sem tilheyra þessum hópum. Svoleiðis fólki er líklega viðbjargandi en það þarf að tala við það.

Ég veit síðan ekki hvort ég á að gráta eða hlæja þegar ég sé fólk sem fyrir fimmtán árum var alveg miður sín yfir Pólverjum sem voru að koma hingað en eru núna farnir að tala um að Pólverjar séu í lagi og vilja helst fá þá í lið með sér gegn múslimunum. Þetta fólk hefur lært eitthvað, líklega með því að kynnast nógu mörgum einstaklingum til að átta sig á að það getur ekki dæmt þennan hóp í heild sinni, en því hefur mistekist að átta sig á því þetta eru allt bara manneskjur. Góðar, slæmar en aðallega bara venjulegar manneskjur. Ekki hópur til að alhæfa um.

Ísland og Íslam

Á Íslandi má enn finna fólk sem er sárt yfir Tyrkjaráninu. Það er svo sárt að því finnst ómögulegt að múslimar komi til Íslands. Það eru næstum fjögurhundruð ára sárindi. Í því samhengi er ágætt að líta til þess að á Íslandi er til brandari um að konur á Íslandi séu fallegar en konur í Bretlandi séu ljótar af því að víkingar hafi rænt öllum fallegu bresku konunum. Nú munar nokkur hundruð árum á þessum atburðum en ef maður ætlar yfirhöfuð að vera sár svona langt aftur í tímann þá skiptir það ekki öll máli. Íslendingar hafa ekki allir verið blindir á þetta. Mig minnir að einhverjir samtímamenn hafi kallað „Tyrkina“ víkinga.

Fyrir þrettán árum studdi íslenska ríkisstjórnin innrás í Írak. Sú innrás er ein af rótum þess flóttamannavanda sem nú stendur yfir. Getum við hunsað þetta þegar kemur að því að meta hvernig við ættum að bregðast við núverandi vanda? Mega Sýrlendingar vera sárir yfir einhverju sem íslensk ríkisstjórn gerði fyrir rúmum áratug? Maður myndi halda það, sérstaklega í ljósi þess að umrædd ríkisstjórn var endurkjörin strax í kjölfarið. Það má jafnvel segja að þetta sér enn frekar viðeigandi þar sem sömu stjórnmálaflokkar eru við stjórn í dag.

Undir oki amerískrar siðmenningar og feðraveldisins

Þegar Kanasjónvarpið kom til voru margir sem töldu að hér væri kominn banabiti íslenskrar menningar. Þegar hæðst er að þessu þá gleymist hið augljósa að þetta var eiginlega bara rétt. Við tökum meira og minna við menningu okkar frá Bandaríkjunum eða frá öðrum svæðum sem eru undir áhrifum bandarískrar menningar. Ég elska margt af þessu innilega og ég held að margt af því sem við höfðum hér áður fyrr hafi mátt tapast. En ekki allt.

Eitt sem hefur komið á yfirborðið eftir að geirvartan var frelsuð er að viðhorfið sem er að berjast gegn er ekkert endilega svo gamalt á Íslandi. Mér sýnist nefnilega að við höfum verið að taka við bandarískum viðhorfum til geirvörtunnar. Nýjasta leiðin á innleiðingunni er það að Facebook ritskoðar geirvörturnar fyrir okkur. Knúz og Grapevine lentu á svörtum listum. Facebook hefur gríðarlegt og óeðlilegt vald yfir íslenskri umræðu. Ég benti á það í kaldhæðnislegum tón þegar Knúzið birti grein með mynd af konu í búrku að þar væri kominn mynd sem væri Facebook að skapi.

Ég myndi aldrei vilja banna neinni konu að ganga í búrku en ég er efins um að valfrelsið sé raunverulega til staðar. Samfélag þar sem konum leyfðist jafnt að stripplast og að ganga í búrkum væri gott en bara ef við værum viss um að valið væri raunverulega þeirra. Það sem við getum kallað feðraveldið er yfirleitt of sterkt (en það væri einföldun að segja að það væru bara karlmenn sem pössuðu upp á reglur þess).

Sem leiðir okkur að neikvæðu viðbrögðunum sem við höfum séð. Af hverju ætti karlmaður sem hrífst af kvenmannslíkömum að taka því illa að konur séu að sýna meira hold? Ættu þeir ekki bara að gleðjast? Af hverju kemur þess þörf að gera lítið úr þeim? Af hverju er verið að setja upp vef þar sem maður getur gefið geirvörtunum einkunn?
Þetta er augljóslega sama eðlis og að karlmenn og strákar sem vilja komast í bólið með konum taka þátt í að kalla konur eða stúlkur sem sofa hjá, þeim eða öðrum, „druslur“ (og auðvitað eru konur líka sekar um þetta). Ef þú vilt að konur sofi frekar hjá þér þá væri þér augljóslega í hag að vinna að viðhorfi þar sem konum er ekki refsað á nokkurn hátt fyrir slíkt.

Eru þá þessir karlmenn sjálfir svo blindaðir af feðraveldinu að þeir vinna gegn eigin „hag“? Þeir setja sig nær bókstaflega í hlutverk hins refsandi föðurs sem á að sjá um að litlu stelpurnar fari ekki út af strikinu. Er það ekki óbærileg heimska? Vilja þeir skipta konum í druslur sem þeir sofa hjá og jómfrúr sem þeir kvænast (og eignast)?
Stelpurnar sem frelsuðu geirvörturnar voru fyrst og fremst að frelsa hug sinn. Strákarnir sem setja upp vef þar sem hægt er að gefa þeim einkunn eru ekki bara að reyna að setja þær aftur í hlekki. Þeir eru líka að festa sjálfa sig í fangelsi hugans.

Þar sem ég hef ekki enn birt geirvörtumynd hér þá finnst Facebook allt í lagi að þú deilir færslunni minni þar.

#Frelsaðu hugann

Ég man þegar ég var í skiptinámi á Írlandi þá fór ég á ferðalag með þýskum vinum mínum. Við gistum öll í sama herbergi á farfuglaheimili. Þegar við vorum að fara í rúmið þá tók ein stelpan og vippaði sér úr öllu að ofan og klæddi sig síðan í einhvern þægilegan bol til að sofa í. Það var innilega ókynferðislegt af hennar hálfu. Í mínum reynsluheimi gerðu stelpur og konur ekki svona. Það var alveg smá menningarsjokk.

Á miðvikudagskvöldið datt ég inn á Twitter og sá #FreeTheNipple taka yfir. Ég vissi ekki hvað ég ætti að halda. Það var eitthvað meiriháttar að gerast sem ég fattaði bara ekki. Ég játa alveg að það kom yfir mig smá „hvað eru þær gamlar?“ og fleiri hugsanir sem menn voru óhræddir við að tjá í gær. En ég er ekki pabbi (feðraveldið) þeirra. Ég á ekki að hafa vit fyrir þeim. Síðan gerði ég svolítið mikilvægt – ég fór að lesa skilaboðin sem fylgdu #FreeTheNipple. Þá áttaði ég mig á að þetta snerist um völd. Mig langaði innilega að vera með í #FreeTheNipple en ég áttaði mig fljótt á að ég yrði aldrei meira en klappstýra þeirra sem tóku völdin.

Með því að birta myndir af sér voru stúlkurnar að segja að valdið væri þeirra. Það hvort einhverjum karlmönnum þarna úti þyki myndirnar æsandi er bara ekki þeirra vandamál. Ekki frekar en ef pilsið þeirra er of stutt, buxurnar of þröngar eða brjóstaskorann of áberandi. Það er gott að muna að það er ekki einu sinni sammannlegt að hylja brjóst. Kynferðislega spennan er tengd því að hylja frekar en því að sjá – það er ekkert spennandi að sjá það sem er aldrei hulið. Ef konur og stúlkur ættu að setja það sem sitt aðalmarkmið að æsa aldrei neinn karlmann þá eru búrkur fyrirtaks, og afburða heimskuleg, lausn.

Ef það skiptir fólk svona rosalegu máli að æsa ekki neinn þá hlýtur það að vera rökrétt að banna samkynhneigðum, og auðvitað tvíkynhneigðum, að nota skiptiaðstöðu (fata, ekki bleyjuskipti) með fólki af sama kyni. En af einhverjum ástæðum þá eru held ég flestir þannig að þeir jafna sig mjög fljótt á hugmyndinni að fara í sturtu „með“ einhverjum sem gæti mögulega þótt æsandi að sjá kroppinn – ef sá er af sama kyni. Þá hef ég ekki tekið eftir því að samkynhneigðir einstaklingar hafi sérstakan áhuga á því að eyða miklum tíma í búningsklefum slefandi yfir kroppunum sem þar sjást. Þegar ég reyni að setja mig í þær aðstæður held ég einfaldlega að það væri bara ekkert spennandi til lengdar.

Það er líka þannig að einhverjir strákar höfðu orð á því á Twitter að það væri alveg hætt að vera spennandi að sjá þessar geirvörtur. Þeir eru hættulega nálægt því að fatta punktinn. Sumir telja að það sé hlutverk kvenna að viðhalda einhverri kynferðislegri dulúð. Það er það bara ekki..

Brjóst eru ekki kynfæri hefur ítrekað verið sagt. Það hefur líka verið sagt í gegnum tíðina að heilinn sé stærsti kynfærið en við hyljum hann ekki til að viðhalda einhverri dulúð. Það er meira líffræðileg nauðsyn. Það er enginn glæpur að finnast geirvörtur, hvort sem það er á karl- eða kvenfólki, æsandi. Ekki frekar en það er glæpur að finnast varir, ökklar eða læri æsandi. En það er aðfinnsluvert að reyna að nota slíkt til að stjórnast í öðrum. Það hvað þér finnst æsandi er þitt mál og þú ættir ekki að gera það að vandamáli annarra.

Í samhengi hefndarkláms hefur oft verið sagt að stelpur eigi ekki að vera senda neinum myndir af sér fáklæddar. Það er innilega ekki vandamálið. Stóra vandamálið er að þeir sem fá þessar myndir skuli vera að deila þeim án leyfis. Stærsta vandamálið er að það sé einhvern veginn túlkað stúlkum í óhag að þær hafi tekið af sér myndir eða látið taka af sér myndir eða gefið einhverjum myndir af sér. Ef stúlkur lenda í því að myndum af þeim er dreift án þeirra leyfis ættu þær að geta borið höfuðið hátt og sagt frá því að það hafi verið fíflið hann Jói sem dreifði myndunum og við hin ættum að segja við Jóa að hann eigi að hætta að vera fífl.

Ef einhver lesandi hefur áhyggjur af því að í framtíðinni muni geirvörturnar koma í bakið á þeim sem tóku þátt í frelsun þeirra þá er lausnin einföld: Ákveddu að þú munir berjast gegn því. Í hópi þeirra sem sýndu geirvörturnar eru ráðherrar, forstjórar og forsetar framtíðarinnar. Þetta eru líka kennarar, hjúkrunarfræðingar og rafvirkjar. Þetta skiptir engu máli í því samhengi. Nema ef okkur þykir hugrekki til að storka órökréttum viðmiðum samfélagsins aðdáunarvert – ég veit að mér finnst það.

Sem þjóðfræðingur velti ég fyrir mér hvort að geirvörtuhátíðin mikla hafi verið jaðartími, ígildi kjötkveðjuhátíðar þar sem öllu er snúið á hvolf, eða upphaf af nýjum viðmiðum. Það skiptir ekki öllu máli. Hver sem niðurstaðan er þá var þetta jákvætt framtak og ég dáist að þátttakendum og lít ekkert niður á þær sem ekki sáu sér fært að vera með. Það sem skiptir máli er að þær eiga sjálfar valið.