Af portkonum, guðspjöllum og íslenskum Óskarsverðlaunahafa

Um daginn sá ég full af fólki tala um “sex workers” á Twitter. Ég er ekkert rosalegur aðdáandi þess að nota þetta enska hugtak. Einfaldast væri að tala um kynlífsvinnu og kynlífsverkafólk. En það varð til þess að ég fór að pæla í eldri orðum um þetta fyrirbæri á íslensku.

Þegar ég var í áttunda eða níunda bekk sagði íslenskukennarinn okkur sögu af Halldóri Laxness. Ég myndi giska að hún væri flökkusaga en hún hefur allavega tvisvar komið fyrir á prenti. Gísli Jónsson endurtók hana í pistli um íslenskt mál árið 1999.

Frá því er að segja, að á ofanverðum dögum Halldórs Kiljans Laxness var portkona ekki tíðhaft orð. Í elli sinni dvaldist hann í sæmd og æru á Reykjalundi, og einn sunnudag vinnur honum beina ung kona, í pilsum varla niður á þykkvalær og í opinskárri blússu. Verður þá öldunginum að orði: “Fyrirgefið þér fröken, eruð þér portkona?” Frammistöðustúlkan rýkur fram í eldhús, rétt eins og bitin væri af sel, og spyr matseljuna, lífsreynda og ráðsetta: “Hvað þýðir þetta orð portkona? Karlinn sem fékk Óskarinn, sagði þetta við mig.” Ráðskonan skýrði orð Nóbelskáldsins vandlega fyrir hinni ófróðu stúlku.

Ég verð að játa að eftir á þykir mér þetta skrýtin saga til að segja unglingum. En mörgum þótti þetta sniðug athugasemd hjá Halldóri og skemmtilegt skot á unga fólkið sem skortir orðaforða og þekkingu. Í dag myndu margir frekar sjá þetta sem drusluskömmun.

Orðið portkona er áhugavert. Ég held að ég geti fullyrt að almennt skilur fólk orðið þannig að það sé vísun í að þessar konur stunduðu iðju sína í t.d. húsasundum. Ég held að ég hafi fyrst skilið það þannig. En þegar ég fór að hugsa málið þótti mér líklegra að umrætt port væri höfn. Ég sá fyrir mér íslenska sjómenn, á flutninga- eða fiskiskipum, koma við í höfn og hitta umræddar portkonur fyrir þar.

Ég hafði rétt og rangt fyrir mér. Portið er vissulega höfn. Það er hins vegar miklu eldra en ég bjóst við. Fyrsta dæmið sem við eigum um þetta orð á íslensku er úr Nýja Testamenti Odds Gottskálkssonar, fyrst prentað 1540, nánar tiltekið í Lúkasarguðspjalli. Þið kannist kannski við söguna.

En nú eð þessi þinn sonur kom, hver út hafði svælt sínu góssi meður portkonum, þá slátraðir þú honum alinkálf.

Eða, samkvæmt ritmálssafni Árnastofnunar.

… huer vt hafdi suælt sinu godzi medr port konum.

Orðaforði Odds var samt fjölbreyttari þannig að í Matteusarguðspjalli notaði hann annað orð.

Sannlega segi eg yður að tollheimtarar og pútur munu fyrri komast í Guðs ríki en þér.

Það kom mér á óvart að sjá orðið “púta”. Mér hafði ekki dottið í hug að það hefði verið notað í íslensku fyrr á öldum. Ég tengi orðið helst við spænsku þó ég hafi ekki lagst í neina orðsifjafræði beint.

Heiðna-Biblian frá árinu 1908 notar síðan orðið skækja í stað pútu.

… en er þessi sonur þinn, sem sóað hefir eigum þínum með skækjum, er kominn, þá slátraðir þú fyrir hann alikálfinum.

Biblía 21. aldar, umdeild vegna þýðinga sem löguðu til siðfræði hinnar helgu ritningar, hélt sig við orðið skækja.

En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.

Ég verð reyndar að taka fram að það er ótrúlegt metnaðarleysi hjá Hinu íslenska biblíufélagi í framsetningu á texta á vefnum. Það ætti að vera auðvelt að hoppa á milli ólíkra þýðinga í stað þess að smella fram og til baka.

Það sem mér þótti einna áhugaverðast við portkonuna er að það orð þekkist í eldri Biblíuþýðingu. Guðspjöllin frá Lindisfarne eru áhugaverð heimild. Í grunninn er textinn á Latínu en um árið 970 kemur til fræðimaður að nafni Aldred og krassar (eða lét aðra krassa) í handritið. Ef ég tæki mig til og glósaði inn á forn handrit í dag þá yrði ég ekki vinsæll. En Aldred er hálfgerð hetja fyrir sitt uppátæki. Hann var nefnilega að skrifa þýðingar á fornensku.

Í umræddum kafla úr Lúkasi segir hann að glataði sonurinn hafi verið eyða peningum sínum í portcuoene. Þar sem það var engin stöðluð stafsetning á fornenska þá er orðið t.d. líka skrifað port-cwén. Ég held að þetta sé nokkuð skýrt. Kona eða kvenmaður. Ég vildi að ég gæti sýnt ykkar mynd af umræddri orðnotkun úr þessu fræga Lindisfarne-handriti en, talandi um metnaðarleysi, þá virðist það ekki til á stafrænu formi nema einstakar síður. Það er þó hægt að sjá hvernig setningin er umrituð í prentuðum útgáfum.

Ég efast um að Oddur Gottskálksson hafi haft aðgengi að fornenskum þýðingum guðspjallanna. Þannig að við getum ímyndað okkur að portkona hafi verið nokkuð vel þekkt orð. Við höfum þarna rúm fimmhundruð ár á milli. Mér sýnist að í þessu tilfelli sé samt nokkur sátt meðal fræðimanna um að íslenska orðið hafi komið úr enskunni frekar en enska orðið úr norrænu.

Þannig að, ef ég leyfa mér að giska óhóflega í eyðurnar, getum við ímyndað okkur að það hafi verið íslenskir sjómenn sem fluttu orðið með sér eftir að hafa hitt fyrir portkonur. En það gerðist bara miklu fyrr en ég hugsaði mér. Við getum jafnvel séð fyrir okkur víkinga sem hittu fyrir portkonur og víkkuðu um leið orðaforða sinn.

Reyndar liggja leiðir Norrænna manna við Lindisfarne guðspjöllin ekki bara saman í orðaforða. Bókin sjálf er ríkulega myndskreytt en kápan sjálf var bókstaflega verðmæt enda skreytt með gimsteinum. Það er talið líklegt að víkingar hafi stolið þeim fjársjóði líkt og gerðist með Bókina frá Kells. Það er líka rétt að minnast á að árásin á Lindisfarne árið 793 er almennt sögð marka upphaf víkingaaldar.

Filippus og kónganöfn

Vegna fréttaflutnings af andláti og útför Filippusar drottningarmanns þá hefur mikið verið rætt um nafnið hans. Það eru margir sem kvarta yfir því að það sé verið að þýða það á íslensku og segja að það eina rétt sé að kalla hann Philip.

Nú verð ég að taka fram að mér er alveg sama hvort fólk segir Philip eða Filippus. Mér finnst það hins vegar kjánalegt að halda því fram að það eigi að skrifa og segja Philip.

Mig grunar að hér sé fólk ranglega að tengja íslenskar útgáfur af kónganöfnum við ósanngjörn íslensk nafnalög sem neyddu innflytjendur til að taka upp íslensk nöfn eða grínþýðingar á nöfnum erlendra poppstjarna sem voru gjarnan notaðar í æsku minni. Þetta er ekki einhver séríslenskur siður heldur eitthvað sem hefur fylgt kóngafólki í gegnum aldirnar.

Í dag tengjum við kóngafólk oft við þjóðir og, um leið, tungumál. En í sögu Evrópu þá hefur það alls ekki verið reglan. Kóngar og drottningar ríktu yfir mörgum þjóðum. Einn af fylgifiskum þess var að kóngafólkið notaði mismunandi útgáfur af nöfnum sínum. Þetta voru allra þjóða kvikyndi.

Það er ágætt að hafa í huga er að kóngafólkið flakkaði um, allavega dæturnar. Þegar Maria Antonia fór til Frakklands var hún kölluð Marie Antoinette. Þetta var franska útgáfan af nafninu hennar.

Viðhorfið var sumsé að nöfn hefðu hliðstæður í mismunandi tungumálum. Þannig var ekki hugsað um þetta sem þýðingar heldur útgáfur af sama nafninu. Nöfnin voru líka oftast til í latínu og, sérstaklega innan kaþólskra ríkja, þá var hægt að líta á sem latínunafnið sem formlegu útgáfuna. Þó breska útgáfan af kónganafninu hafi verið James þá kölluðu fylgismenn kóngsins sig Jakobíta. Frá þeim sjónarhólki er auðvelt að skilja hvers vegna það er eðlilegt að kalla þessa kónga Jakob á íslensku.

Síðan má bæta því við að kónganöfnin eru ekki nærri því alltaf persónulegu nöfn þeirra. Fólki finnst kannski asnalegt að kalla kónginn Játvarð áttunda en vinir og vandamenn kölluðu hann alltaf David. Þannig eru kónganöfnin jafnvel líkari titli heldur en eiginnafni.

Filippus drottningarmaður var grískur, danskur, breskur, þýskur og örugglega margt fleira. Hann var upprunalega grískur prins og fékk nafnið Φίλιππος eða Fílippos. Þar sem hann var tengdur fullt af kóngafjölskyldum þá hefur hann alist upp við að vita að nafnið hans væri til í ótal útgáfum. Við sjáum líka hér að íslenska útgáfan af nafninu er mun nær því upprunalega heldur en sú breska.

Mér finnst alltaf undarlegt að líta á stafsetningu nafns sem óumbreytanlega. Þegar Jóhanna Guðrún reyndi fyrir sér á erlendum vettvangi kallaði hún sig Yohanna. Fólk bókstaflega missti sig í kommentakerfunum og sagði að hún væri að breyta nafninu sínu. En hún var bókstaflega að verja nafnið sitt með því að aðlaga stafsetninguna. Fyrir henni var það greinilega mikilvægara að reyna að hafa frumburðinn réttan. Heitir fólk frekar nöfnum eins og þau eru skrifuð eða eftir því hvernig þau eru sögð? Ég held að fólk ætti að fá að ráða því sjálft.

Þegar íslenska ríkið neyddi innflytjendur til að taka upp íslensk nöfn þá var það oft vanvirðing. Reyndar má ekki gleyma innflytjendum sem gátu tekið upp íslensk nöfn sem voru hliðstæð upprunalega nafninu og voru bara glaðir. En auðvitað voru margir mjög ósáttir.

Þannig að mig grunar að margir telji það einhvers konar vanvirðingu við Filippus að nota íslenska útgáfu af nafninu hans. Ég efast stórlega um að hann hafi hugsað þannig. Það er miklu líklegra að kóngafólk telji ákveðna virðingu fólgna í því að fólk noti hliðstæð nöfn milli tungumála. Það er bara hluti af pakkanum.

Þannig að þó mér sé sama hvaða útgáfu þið notið af nafninu hans þó ættuð þið ekki að láta ykkur detta í hug að breska útgáfan sé sú eina rétta eða að það sé einhver sérstök virðing fólgin í að nota hana.

Fátæk börn verðskulda ekki neitt

Ég fann mjög persónulega fyrir valdatöku frjálshyggjunnar á Íslandi þegar ég var 12-14 ára. Ég þurfti að fara í tannréttingar. En ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Jóns Baldvins var að ráðast á kerfið. Þegar ég mætti í fyrsta tímann var ekki ljóst hvernig greiðsluþátttaka foreldra yrði. Tannréttingarfræðingurinn var ábyrgur og sagði að hann vildi ekki byrja meðferð meðan ekki væri á hreinu hve mikið það kostaði.

Síðan varð ljóst hvernig þetta yrði. Kostnaði var velt yfir á fjölskyldurnar.

Þetta var ekki góður tími í atvinnumálum sem hafði mikil áhrif á mitt heimili. Ég fann mjög sterkt fyrir þessum þrýstingi á þessum árum. Það voru ekki til miklir peningar. Ég vissi líka að tannréttingar kostuðu mikið. Þannig að í hvert skipti sem ég mætti í tíma þá fann ég fyrir blöndu af skömm og samviskubiti.

Ég talaði auðvitað ekki um þetta við neinn. Það var ekki vel séð að vera fátækur. Þegar ég mætti í skólann í skóm sem voru keyptir í Rúmfatalagernum fékk ég að heyra það. Öll föt sem ég átti voru gagnrýnd á svipaðan hátt. “Er þetta úr Hagkaup?” var lína sem ég heyrði mjög oft.

Samspil tilfinninga hjá mér á þessum aldri var flókið. Mig langaði í hitt og þetta en skammaðist mín þegar ég fékk eitthvað. Fannst það peningasóun. Sérstaklega ef það var eitthvað dýrt. Þegar ég eignaðist Nike skó var ég ánægður, ekki út af merkinu heldur af því að skórnir entust. En það var líka skömm. Þetta var sóun. Ég var auðvitað líka hræddur um að einhver myndi taka að sér að skemma þá. Mér leið eiginlega betur þegar ég fékk falsaðar Levi’s gallabuxur þó það væri hæðst að mér.

Lukkulega var ég ekki mjög lengi með spangir. Þá var ég bara með góm og víra á bak við framtennur. Ég endaði fór sjaldnar og sjaldnar í tíma til að athuga hvernig gekk. Annar vírinn losnaði og ég endaði með að fjarlægja hann alveg sjálfur. Að lokum brotnaði gómurinn ég fékk ekki af mér að mæta til að láta laga hann eða fá nýjan. Tennurnar hafa sem betur fer haldist að mestu á réttum stað.

Það sem er ótrúlegast er líklega að skömmin er ennþá til staðar. Ég reyni að gagnrýna frjálshyggju með almennum rökum en staðreyndin er sú að ég hef fundið sjálfur fyrir afleiðingum þessarar mannfyrirlitningarstefnu sem refsar ekki bara fátækum heldur börnum þeirra líka. Það að láta okkur finna fyrir að peningaskortur þýði að við verðskuldum ekki neitt.

Það að ég sé langt til vinstri á pólitíska skalanum er auðvitað nátengt því að ég upplifði að heimili mitt var selt á nauðungaruppboði. Ég vil ekki að önnur börn upplifi það sama og ég. Þessi skömm eitrar mann fyrir lífstíð. Það verður aldrei auðvelt að fátækari stéttum en við ættum að stefna að kerfi sem er mannúðlegt.

Ég get ekki fyrirgefið stjórnmálamönnum sem leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda. Ekki þá og ekki núna. Efnahagsstefna flokksins er gjaldþrota. Keisarinn er berrassaður. Það ætti öllum að vera ljóst að flokkurinn hefur ekkert fram að færa annað en græðgi og þjónkun við hina ríku.

Stafsetningarvilla en ekki málvilla

Ég er hópnum Málspjall sem Eiríkur Rögnvaldsson setti af stað. Þar ákvað ég að spyrja um nokkuð sem ég hef lengi velt fyrir mér. Það er þessi tilhneiging að setja G-hljóð aftan við orð eins og þú, þau, þó og svo. Ég geri það jafnvel stundum sjálfur.

Þetta er ekki nýtt fyrirbæri. Ég man mjög sterkt eftir þessu G-hljóði hjá Guðmari afa til dæmis. Við vitum líka að þessi orð hafa gjarnan verið til vandræða þegar á að kenna börnum stafsetningu – þóg að það sé ekki jafn áberandi og áður fyrr.

Eiríkur svaraði þessu:

Ég þekki þetta úr “þaug” og “svog” en ekki úr hinum orðunum þótt mér finnist trúlegt að þau hafi fengið sambærilegar myndir. Þetta var mjög algengt áður fyrr en ég heyri það sjaldan núna – eða tek lítið eftir því a.m.k. Í Menntamálum 1947 er lögð áhersla á þjálfun sjónminnis og sagt: “Sé það gert, er alveg óhugsandi, að 12—13 ára börn skrifi þaug og þettað — o. fl. svipaðar vitleysur.” Án þess að ég hafi nokkuð skoðað þetta finnst mér líklegt að ástæðan sé sú að g-inu sé skotið inn til að forðast svokallað “hljóðgap” þar sem tvö sérhljóð koma saman. Á eftir “þau” fer mjög oft “eru” og þá koma saman tvö sérhljóð sem tilhneiging er til að forðast í framburði. Sama gildir um hin orðin. Með aukinni stafsetningarkennslu hefur sennilega dregið úr þessum framburði.

Þegar ég var í þjóðfræðinni lagði ég töluverða áherslu á kenningar um munnlega hefð. Þessar hugmyndir áttu upprunalega að vera upplagið í meistararitgerðinni minni. En þetta varð líka til þess að ég fór að skilja þá gjá sem er milli ritaðs máls og talaðs.

Ritað mál verður alltaf mjög einfölduð útgáfa af töluðu máli. Stafsetning endurómar þetta með því að staðla orð sem eru borin fram á marga ólíka vegu. Við skrifum banki en ekki bánki af því að íslenskufræðingar ákváðu að það væri réttara. Þetta er auðvitað ekki sér-íslenskt og í öðrum tungumálum eru til miklu ýktari dæmi.

Stundum gerist síðan það sem Eiríkur bendir á hér að ofan. Stöðluð stafsetning fer að breyta frumburði. Það er rangt að skrifa þaug þannig að fólk hættir að bera fram þetta G-hljóð. En samt er þetta ekki málvilla í sjálfu sér – bara stafsetningarvilla. Það er ekki það sama.

Við gætum alveg ímyndað okkur þróun á íslensku sem hefði orðið til þess að við myndum bera orðið banki fram eins og það er skrifað. Kannski ef Jón Baldvin hefði verið vinsælli stjórnmálamaður og fólk hefði apað upp eftir honum framburðinn í stað þess að afskrifa hann sem tilgerðarlegan eða ef Halldór Laxness hefði ekki gert uppreisn gegn stafsetningarreglunum.

Ég er ekki að segja að það sé gott eða slæmt að stöðluð stafsetning hafi áhrif á talað mál en ég held að það sé gott að hafa þetta í huga.

Ella-málið: Úr lífi alþýðunnar

Ég rakst á eftirfarandi grein á Tímarit.is. Þetta eru undir fyrirsögninni “Úr lífi alþýðunnar” í Lesbókinni. Smjörhól hennar ömmu kemur við sögu en það er þó tveimur árum eða svo áður en forfeður mínir fluttu þangað.

Ég veit ekkert um höfundinn (Jón Sigfússon) en ég á erfitt með að skilja þetta öðruvísi en að þarna sé reiður og kaldhæðinn tónn vegna aðfarar yfirvalda að þessu fátæka fólki. Ég varð reiður að lesa þetta og gat ekki annað en deilt þessu.

ELLA-MÁLIÐ

Eftir Jón Sigfússon, Ærlæk

FRÁ VORI 1892—94, var vinnumaður á Ærlæk hjá þeim hjónum Sigfúsi Einarssyni og Oddnýju Jóhannesdóttur, er þá bjuggu þar. Hét hann Elías og var Jónsson.

Mun hafa verið fæddur á Árholti, í kringum 1870 [11. júlí 1866 – 23. jan. 1941]. Hjá foreldrum sínum ólst hann upp og síðar vandalausum, í sárri fátækt og mun í æsku hafa verið með beinkröm, sem hann bar menjar um alla ævi síðan, því hann var með knýttar og bæklaðar hendur. Var hann því aldrei fullfær til allrar vinnu eða neinn afkastamaður. En natinn var hann við að gæta kinda og góður yfirstöðumaður, en í þá daga tíðkaðist að standa hjá fé í haga, ef beitt var og nokkuð að veðri. Elías var því frekar eftirsótt hjú, enda húsbóndahollur, notinvirkur og trúr í bezta lagi.

Eignir átti Elías litlar nema kindur, sem hann hafði á kaupi sínu og gáfu honum dálitlar tekjur. Þær munu hafa verið um 20 alls.

Almennt var Elli, en svo var hann oftast nefndur, talinn fremur einfeldningur, en þó er mér næst að halda, að hann hafi verið í meðallagi gefinn, ef hann hefði hlotið sæmilegt uppeldi, en því var ekki að heilsa, því engrar hafði hann notið uppfræðslu nema aðeins það allra minnsta, sem komist var af með til að ná fermingu.

Þegar hér var komið sögu, var Elli rúmlega hálfþrítugur og vinnumaður á Ærlæk, eins og áður segir. Samtíða honum þar var kvenmaður einn á bezta aldri, er Kristín hét og var Gunnarsdóttir, kölluð Krita. Ævi hennar hafði verið svipuð og Ella, nema ef til vill enn hörmulegri, ef verra gat verið. Ung hafði hún misst móður sína. Var umkomuleysið sárt, en fátækt og allsleysi fram úr hófi, en uppfræðsla engin. Enda var hún á hrepp eftir að faðir hennar, Gunnar á Smjörhóli lézt, og sjálfsagt haft misjafna aðbúð.

Fram að þessu höfðu menn gjört sér lítið títt um hagi þeirra Ella og Kritu, og saga þeirra lítið skráð á bókfell. En nú verður snögg breyting á þessu. Það sem sé gerist sá atburður, sem bæði fyrr og síðar hefir átt sér hliðstæður, án þess að allt hafi verið sett á annan endann. En það var það, að Krita verður þunguð af völdum Ella. Eins og ærlegum og góðum föður sómdi, hafði Elli nauðsynlegan undirbúning vegna þessarar væntanlegu barnsfæðingar. Meðal annars var hann búinn að útvega dvalarstað handa barninu o. s. frv., enda hefði Elli vel haft sig fram úr því, að ala upp barnið af sjálfsdáðum. En þetta átti ekki þannig að fara. Réttvísin tók ráðin af Ella og stjórnaði af meiri vizku og líklega réttlæti.

Einhvern nasaþef fékk hreppstjórinn, sem þá var Björn Jónsson í Sandfellshaga, af því hvernig komið væri, og hans fyrstu viðbrögð voru þau, að skipa ljósmóðurinni í sveitinni að rannsaka málið. Man eg að ljósmóðirin kom að Ærlæk og sló sér fljótlega á tal við Kritu og lét talið berast að klæðnaði hennar; spurði meðal annars hvort hún væri í vaðmálsskyrtu, en Krita sagðist vera í léreftsskyrtu næst sér. Því vildi yfirsetukonan ekki trúa og þráttuðu þær um þetta nokkra stund, þangað til Krita stóðst ekki mátið lengur og til að sanna mál sitt reif skyrturnar upp um sig. En yfirsetukonan athugaði það sem yfirvaldið hafði fyrirskipað.

Hér kemur útdráttur úr dómsmálabók Þingeyjarsýslu, frá þeim tíma, um þetta Ella-mál:

Árið 1893, þriðjudaginn 18. júlí, var réttarhald að Ærlæk, til að hefja rannsókn í tilefni af bréfi hreppstjórans í Skinnastaðahreppi, dags. 15. júní sama ár. Segir þar að Elías sé 27 ára gamall, hafi flutzt vistferlum í Ærlæk 1892. Játar Elías að hafa haft samræði við Kristínu: Að réttarhaldinu loknu er Elíasi bannað að hreyfa sig nokkuð af heimilinu fyrst um sinn, en vera alltaf til staðar þangað til ráðstafanir verði gjörðar.

Árið 1893, föstudaginn 21. júlí, var lögregluréttur settur og haldinn að Ærlæk af settum rannsóknardómara Einari Benediktssyni, til að halda fram rannsókn þeirri er hafin var með réttarhaldi að Ærlæk. Ber Elías allt það sama um samræði við Kristínu. Þess er getið að Elías sé einfaldur og svari spurningum bjánalega. Sjálfur játar hann að hann hafi oft fundið til þekkingarleysis síns og einfeldni, enda aðrir notað sér það í viðskiptum við hann.

Einnig er Sigfúsi Einarssyni húsbónda Elíasar uppálagt að láta ekki Elías ganga úr greipum réttvísinnar.

Þennan sama dag var héraðslæknirinn, Björn Blöndal á Sjávarlandi, kvaddur til að rannsaka og gefa vottorð um andlegt ástand Elíasar og Kristínar.

Árið 1893, mánudaginn 28. ágúst, var settur aukaréttur af Einari Benediktssyni á Skinnastöðum.

Réttvísin gegn Elíasi Jónssyni frá Ærlæk.

Verjandi málsins var sr. Þorleifur, sem þá skilaði aftur skjölum málsins, sem voru mörg og ýmiskonar, um hegðun og andlegt ástand Elíasar og Kristínar, og ennfremur skírnar- og fermingarvottorð.

Eftir að skjöl öll höfðu verið lesin upp, lýsti sr. Þorleifur því að hann hefði ekki fleira fram að færa, en það varnarskjal, sem hann hefði lagt fram.

Var þá málið tekið upp til dóms.

Árið 1893, mánudaginn 2. okt., var — aukaréttur Þingeyarsýslu settur og haldinn á skrifstofu Þingeyarsýslu að Húsavík, af sýslumanni Benedikt Sveinssyni [faðir Einars].

Réttvísin gegn Elíasi Jónssyni frá Ærlæk.

Dómurinn:

Það er löglega sannað í máli þessu með skýlausri eigin játningu ákærða í sambandi við önnur rök, sem upplýst eru, að hann hefur tvívegis á síðastliðnu og yfirstandandi ári framið holdlegt samræði með hreppsómaganum Kristínu Gunnarsdóttur, sem þá ásamt honum var til heimilis á Ærlæk.

Eftir langt mál var svo dómurinn uppkveðinn.

Því dæmist rétt vera:

Hinn ákærði, Elías Jónsson, vinnumaður frá Ærlæk, á að sæta eins mánaðar fangelsisvist við venjulegt fanga viðurværi. Einnig á hann að borga allan af máli þessu löglega leiðandi kostnað, þar á meðal 4 krónur til hins skipaða talsmanns, Þorleifs prests Jónssonar á Skinnastað.

Dóminum ber að fullnægja með aðför að lögum.

Ben. Sveinsson.

Víkur nú sögunni aftur til dagsins 21. júlí. Eftir að hinn setti rannsóknardómari, Einar Benediktsson, hafði lokið yfirheyrslunni yfir Ella og Björn Blöndal athugað andlegt ástand hans, var ferðinni beint að Smjörhóli. En þar höfðu hreppsyfirvöldin komið Kristínu fyrir til dvalar, til að fjarlægja hana frá Ella. Í förinni voru leiðtogi fararinnar Björn hreppstjóri, Björn læknir Blöndal og setti dómarinn Einar skáld Benediktsson ásamt fylgdarmanni sínum Ólafi Sveinar Hauk. Er ólíklegt að í annan tíma séu sagnir af að fríðari eða tignari fylking hafi kvatt dyra á Smjörhóli.

Ekki er mér kunnugt um hvað þar hefur gerzt, þó sjálfsagt geymist eitthvað um það í réttarskjölum frá þeim tíma, ef þau eru þá ekki glötuð. En fundi Kritu hafa þeir að sjálfsögðu náð. Bárust fréttir um það eftir lækninum, að langt myndi þess enn að bíða að Krita yrði léttari.

Skjöplast þótt skýr sé, segir gamalt máltæki, og mátti heimfæra það upp á Björn lækni, því ekki var heimsókninni fyrr lokið og menn riðnir úr garði, en Krita tók joðsótt og ól barnið, sem svo mikið tilstand hafði verið út af. Það var meybarn, sem síðar hlaut í skírninni nafnið Jóhanna, fædd 21. júlí 1893.

Ævisaga Kritu varð ekki löng úr þessu, því hún lézt á Smjörhóli sama ár, þann 7. október. Varð það með þeim hætti að hún fór út á hlað til að sækja barnarýur, sem breiddar höfðu verið til þerris upp á snúru. Þegar dvaldist að hún kæmi inn aftur og farið var að gá að, lá hún örend á hlaðinu.

Talin hafa orðið bráðkvödd. Vitnaðist þó síðar, þó aldrei yrði það hljóðbært, að banameinið var engu að síður „hor og ófeiti“, eins og það er orðað í kirkjubók Skinnastaðasóknar, um þá sem létust í móðuharðindunum 1785.

Mikið höfðu yfirvöldin garfað í þessum málaferlum og sýnt mikinn dugnað, en í öllum þessum önnum virðist hafa gleymzt að athuga um að barnsmóðirin hefði sæmilegt fæði og aðhlynningu, annars hefði Krita sennilega ekki orðið hordauð.

Samkvæmt dómsniðurstöðu réttvísinnar átti Elli að afplána sök sína með eins mánaðar fangelsisvist við venjulegt fanga viðurværi og greiða allan málskostnað.

Fangelsi var þá ekki nær en á Akureyri og þangað fór Elli, en ekki lifði hann eingöngu upp á vatn og brauð, eftir því sem honum sagðist sjálfum frá. Hann lét hið bezta yfir verunni. Mat hefði hann fengið að borða, bæði mikinn og góðan, þann sama og sýslumaðurinn borðaði sjálfur og allir voru honum góðir. Ekkert þurfti hann að gera á daginn, en rólaði sér í hengirúminu eins og hann hafði löngun til. Er ekki að efa að Elli sagði satt frá. Mun almennt hafa verið litið svo á, að hann hefði ekki með sök sinni unnið til þeirrar harkalegu meðferðar, sem réttvísin ákvað honum. Aldrei fyr á ævi sinni hafði Elli farið eins langa ferð eða séð sig eins mikið um, svo þó hann væri alla daga manna yfirlætislausastur, þá hafði hann séð svo margt nýstárlegt í þessari ferð, að hann vitnaði stundum síðar á ævinni til hennar og hóf þá venjulega mál sitt eitthvað á þessa leið: „Það var þegar eg fór inneftir“.

Langt um verra en tugthúsið var þó það, að missa allar eigur sínar. En þær voru allar teknar af Ella upp í málskostnaðinn, svo þegar hann vorið eftir (1894) fluttist frá Ærlæk ofan í Kelduhverfi í vinnumennsku til Þórðar Flóventssonar bónda í Krossdal, var hann slyppur og snauður. Átti þá ekki annað en fötin sín og vasaúrið sitt, sem yfirvöldunum hafði láðst að taka af honum. Um úrið sitt þótti Ella fjarskalega vænt, sem von var, enda var það honum svo nauðsynlegt, þar sem hann ætíð var einangraður frá öðrum og fjarri bæ við kindurnar; lét hann sér líka mjög ant um það og hafði í úrkassa, sem hann svo vafði vasaklút eða einhverju öðru utan um og bar það þannig í vasanum á vestinu sínu. En lánið getur verið hverfult og í þetta sinn reyndist það svo.

Yfirvöldin uppgötvuðu fljótlega yfirsjón sína og fundu ráð sem dugði. Þeim hugkvæmdist það, að Elli myndi einhvern tíma koma í orlofsferð austur í Öxarfjörð til að finna kunningjana og sjá litlu dóttur sína. Ef svo færi, var ferjumaðurinn á Ferjubakka fenginn til að ná úrinu af honum. Þessi ráðagerð heppnaðist. Ferjumaðurinn náði úrinu af Ella og það komst í hendur hreppsnefndaroddvitans, sem falið hafði verið að koma því í verð. Er ekki að orðlengja það, að oddvitinn hampaði úrinu framan í hvern sem var og bauð til kaups fyrir eitthvað, hvað lítið sem væri, en enginn vildi kaupa. Virtist svo sem menn hefðu einkennilega litla löngun til að eignast þetta úr. Varð endirinn sá, að nokkru seinna átti Þórður Flóventsson, húsbóndi Ella, ferð hér austur yfir Jökulsá og keypti þá úrið á 4 krónur og færði Ella það.

Eftir þetta fluttist Elli aldrei úr Kelduhverfi. Var vinnumaður á ýmsum bæjum, þangað til ævinni lauk í hárri elli. Munu allir ljúka upp einum munni um það, að Elli hafi verið maður meinhægur, grandvar, trúr og hollur sínum húsbændum, enda þurfti réttvísin aldrei að hafa hendur í hári hans, utan þetta eina sinn.

Jóhanna Elíasdóttir ólst upp á góðu heimili, þar sem hún naut sömu ástar og umhyggju eins og hún hefði verið ein af fjölskyldunni, enda mat hún það að verðleikum. Hún var svo trygglynd, að hún batzt vináttuböndum við. fjölskylduna, sem entust ævina út.

Meðal annars heimsótti hún þetta vinafólk sitt einu sinni á ári allt fram á síðustu ár. Alla ævi var Jóhanna veikbyggð og heilsutæp.

Naut hún sín þess vegna miður en skyldi. Jóhanna giftist og bjó með manni sínum á jörð í Kelduhverfi um tugi ára, eða allt til dánardægurs.

Með manni sínum eignaðist hún tvö börn, sem bæði eru á lífi, pilt og stúlku. Þeim gekk vel að læra og eru mannvænleg, engu síður en fólk er almennt. Bæði eru þau flutt úr fæðingarsveit sinni. Hann er búfræðingur að menntun. Hún er húsfreya í sveit.

Hatur mitt á AirBnB

Ég held að við ættum einfaldlega að banna AirBnB. Þetta er, eins og svo margt annað sem hefur komið út úr hinu svokallaða deilihagkerfi, eitraður kapítalismi.

Áhrifin á Íslandi eru ljós. Við vitum að þetta eru að miklu leyti íbúðir sem voru áður á almenna leigumarkaðinum. Það koma engar íbúðir sjálfkrafa í staðinn. Leiguverð hækkar. Fólk lendir í hrakningum. Börn þurfa að skipta um skóla. Jafnvel oft. Fólk þarf jafnvel að flytja út á land, sem er ekkert slæmt í sjálfu sér ef fólk vill flytja. En þegar fólk neyðist til að flytja langar leiðir missir það ekki bara húsnæðið heldur líka félagslega netið í kringum sig.

Auðvitað eru áhrifin líka gríðarleg á hverfin sem verða á barðinu fyrir þessu. Þjónustan sem íbúðahverfi þarf á að halda hlýtur að minnka – enda eftirspurnin minni. Fólkið sem eftir situr þarf að búa við mikið ónæði. Ef við lítum til samgöngumála þá er verið að þrýsta fólki út af því svæði þar sem auðveldast er að lifa bíllausum lífstíl. Í staðinn byggjast upp hverfi lengst í burtu frá þessum atvinnusvæðum.

AirBnB er einfaldlega eitrað fyrirtæki. Þetta er í raun leið til þess að reka gistiþjónustu án þess að bera sömu ábyrgð og til dæmis hótel eða gistihús. Við sjáum líka þessi eitruðu áhrif í þeim rasisma sem þrífst innan þessa kerfis. Fólk sem er ekki hvítt á hörund á miklu erfiðara með að fá gistingu innan AirBnB. Það er þessi persónulega nálgun sem gefur rasismanum útrás. Ég myndi ekki gista hjá hótelkeðju sem væri uppvís að slíkum starfsháttum – af hverju ættu aðrar reglur að gilda um AirBnB.

Talandi um rasisma þá hefur AirBnB leigt út íbúðir á stolnu landi á Vesturbakkanum. Eftir að það var gagnrýnt lofað fyrirtækið að hætta þessu en bökkuðu síðan og voru með óljós loforð um að gefa hagnað sinn til góðgerðarsamtaka. Þeir sem voru að leigja út þessi gistirými geta ennþá grætt á þýfinu með milligöngu AirBnB.

Þá eru líka ótal sögur um glæpi, svindl og annan viðbjóð sem fær að grassera vegna eftirlitsleysisins sem þrífst innan deilihagkerfisins – sem og sögur af öllum gestgjöfunum sem hafa fengið bakstungur frá AirBnB þegar eitthvað fer úrskeiðis.

Núna er rétti tíminn til aðgerða. Þessar íbúðir eru meira og minna tómar og ólíklegt að það komi straumur ferðamanna á næstunni til að fylla þær. Það væri mikið betra fyrir samfélagið ef þær færu aftur í almenna útleigu. En þá þyrftu leigjendur líka að geta treyst því að ef ferðamannabólan færi aftur að blása út þá væri þeim ekki vísað strax aftur út.

Sjónvarpsáhorf sem lestrarkennsla

Það eru margir að tala um lestrarkunnáttu* íslenskra barna. Eitt mikilvægt atriði sem fólki yfirsést almennt er textun á erlendu sjónvarpsefni og kvikmyndum.

Mín kynslóð hafði kannski ekki jafn mikinn aðgang að afþreyingarefni á ensku og kynslóð barna minna en við höfðum mun meiri aðgang en áður hafði þekkst. Það sem ég held að aðgreini okkur sé ekki fyrst og fremst magnið heldur textun.

Ástæðan fyrir því að ég lagði hart að mér að læra að lesa var ekki til að lesa bækur heldur til að lesa texta. Ég þurfti að læra að lesa nógu hratt til að missa ekki af textanum. Þetta var ótrúlegur hvati.

Í dag er hverfandi aðgangur að textuðu efni. Við erum með barnaefni á íslensku og síðan erum við með ótextað efni á ensku. Það er hverfandi aðgangur að textuðu efni fyrir krakka.

Ef við lítum framhjá lestrarþættinum og pælum í málkunnáttu þá veldur þetta auðvitað því að krakkar læra ensku fljótt og örugglega. En ég held að skortur á textun valdi um leið ákveðnu rofi milli íslenskukunnáttunnar og enskunnar. Í stað þess að læra ensku með hliðsjón af íslensku, eins og mín kynslóð gerði að miklu leyti, þá læra krakkar mörg ensk orð án tengingar við íslenskuna. Það verður til þess að sum hugtök skilja þau bara á ensku. Þau finna sumsé ekki alltaf svar á íslensku. Mig grunar að þetta verði jafnvel líka til þess að enskuskilningurinn verði ekki jafn góður og hann gæti orðið.

Þetta er reyndar ekki endilega nýtt vandamál. Það var ekki endilega stór kynslóð sem fékk mikið af textuðu barnaefni. Það kom nefnilega fljótt upp krafa um talsetningu sem var skiljanleg og jafnvel nauðsynleg fyrir yngstu börnin en olli því að krakkar sem voru að læra að lesa fengu ekki jafn mikla æfingu í að lesa – og lesa hratt. En um leið og talsetningarkynslóðin vildi horfa á eitthvað meira en barnaefni þá fékk hún textað efni.

Núna er aðgangur að ótextuðu barnaefni á ensku nær endalaus og aðgangur að textuðu barnaefni hverfandi. Þegar krakkarnir eldast þá tekur síðan við enn meira af ótextuðu efni.

Þannig að ef ráðamenn vilja efla lestur, ensku- og íslenskukunnáttu þá ættu þeir að reyna að koma íslenskum texta á sem mest af því efni sem krakkarnir okkar eru að horfa á.

* Það þarf auðvitað að auka fjárframlög til bókaútgáfu, bókasafna og skóla. Það eiga allir að vita. Ég held hins vegar að færri átti sig á mikilvægi textunnar.

Lyfjaskorturinn og kerfið sem virkar ekki

Það að lyfjaskortur sé landlægur mun m.a. valda því að fólk mun reyna að kaupa lyf eins fljótt og það getur þegar þau eru til.

Segjum að maður sé á lyfi sem dugar í 40 daga en lyfseðillinn endurnýjast á 30 daga fresti. Ef maður getur treyst því að lyfið sé alltaf til þá hefur maður tíu daga glugga og notar hann bara eftir hentugleika. Ef maður treystir ekki lyfið sé alltaf til þá mætir maður um leið og maður getur til þess að hámarka líkurnar á að maður nái í lyfið. Maður mun líklega endurtaka það næsta mánuð og svo framvegis þar til maður er jafnvel kominn með góðar byrgðir af lyfinu.

Síðan getur auðvitað gerst að maður hætti að fari að taka annað lyf í staðinn eða bara að hætta að taka lyfið og þá munu lyfin aldrei nýtast neinum. Þá hefur ríkið líka verið að sóa peningum.

Nú gæti verið að einhverjir fari að reikna að það sé allra best að fólk hafi sem stystan glugga frá því að hægt er að sækja lyf þar til lyfjaskammturinn klárast. En auðvitað er það enginn lausn.

Lausnin er að hafa andskotans lyfin til. Þá þarf fólk ekki að vera í endalausu stressi og veseni.

Eitt skref gæti verið að sekta apótek eða heildsala þegar lyfin eru ekki til. Síðan gæti ríkið bara tekið yfir þennan bransa. Jafnvel opnað lyfjaverksmiðju. Kerfið er ekki að virka og við þurfum greinilega að breyta því. Frjálsi markaðurinn er ekki að höndla þetta. Við eigum ekkert að venjast lyfjaskorti. Það er galin hugmynd.

YouTube sökkar og Disney rokkar – fyrir íslensku

Fyrir íslenskt tungumál þá er YouTube hræðilegt fyrirbæri. Þó að á yfirborðinu þá sé jafnræði tækifæri þar þá er það ekki í raun. Stóra ástæðan er ekki (bara) sú að þarna er mikill aðgangur að efni á ensku heldur að aðgengið fyrir íslenskt efni er lélegt. Lengst af þá var ekki möguleiki á því fyrir framleiðendur að græða peninga fyrir að setja inn efni á íslensku. Jútúbarar græða með því að láta birta auglýsingar með efni sínu en það var ekki hægt með efni á íslensku. Því var breytt tiltölulega nýlega en það hjálpar ekki mikið þar sem…

YouTube krefst þess að það komi ákveðið mikið grunnáhorf á efni áður en hægt sé að fá nokkurn pening fyrir auglýsingar. Það sem er verra er að þessi mörk er færð ár frá ári. Þannig að áhorf sem dugðu í fyrra til að komast á auglýsingasamning duga ekki lengur og við vitum ekkert hvernig þessi mörk verða á næsta ári. Á sama tíma henda mörg íslensk fyrirtæki peningum í auglýsingar á YouTube. Þannig að YouTube sýgur peninga frá Íslandi og gefur lítið til baka.

Þetta er auðvitað sama vandamál og íslenskt efni glímir alltaf við. Tónlistarveitur borga oft ekkert út fyrr en hlustun hefur farið yfir mörk sem fæstir tónlistarmenn sem flytja efni á íslensku ná í.

Á sama tíma þá er Disney dásamlegt fyrirbæri. Ég fer á Pixar/Disney myndir í bíó og þá er ekki bara talmálið á íslensku heldur líka ritmálið. Þannig eru skilti oft á tíðum með íslenskum orðum.

Þetta skapar þá undarlegu stöðu að YouTube sem virðist vera lýðræðislegt og opið lokar fyrir íslenskuna en Disney sem virðist oft hálffasískt fyrirbæri opnar dyrnar fyrir íslensku.

Ég hef oft sagt að okkur vanti fleiri Jútúbara á Íslandi en kannski að það þurfi frekar einhvers konar íslenska útgáfu af slíkri veitu sem myndi höfða bæði til auglýsingakaupenda og til framleiðenda efnis. Það hefur aldrei verið auðveldara að framleiða efni, hvort sem það eru hlaðvörp, grínmyndbönd eða fræðsla en það er mun erfiðara að græða á slíku.

Ég er með podcast á ensku* og þó ég sé ekki enn farinn að setja auglýsingar þar inn þá gæti ég með lítilli fyrirhöfn gengið inn í samning hjá hlaðvarpsveitu og fengið borgað ákveðið mikið fyrir hvert niðurhal. Ég hef ekki ennþá farið þá leið af því að ég veit að ég get fengið meira borgað fyrir að selja auglýsingar sjálfur – þó það sé erfiðara.

Það þarf að vera svona möguleiki fyrir íslenskt efni. Einhver milliliður sem kemur saman framleiðendum og auglýsendum. En það er ekkert svoleiðis í dag þannig að ef framleiðendur eru ekki líka góðir sölumenn þá er lítið að græða á íslenskunni.

* Stories of Iceland. Í síðasta mánuði þá voru um þúsund niðurhöl á hvern þátt þó ég hafi ekki sett nýjan þátt í loftið frá desember fram í febrúar.

Fröken Fix – heilasprengja upprunans

Í hversdagslegu dúlli mínu á Tímarit.is þá rakst ég á nokkuð sem sprengdi heilann minn, en þó ekki bókstaflega. Svo virðist sem að meðfylgjandi mynd sýni hina upprunalega Fröken Fix. Hún var persónugerving þvottaefnis.

Þessi auglýsing er frá árinu 1939 en þvottaefnið Fix var fyrst auglýst árið 1935 með frasanum “Fröken Fix”. Elstu auglýsingarnar má t.d. finna í Kirkjuritinu, Sovétvininum og nasistablaðinu Íslandi. Myndin fylgdi þó ekki með fyrr en seinna.

Nasistar (þjóðernis)hreinsa með aðstoð Fröken Fix

Fröken Fix