Af portkonum, guðspjöllum og íslenskum Óskarsverðlaunahafa

Um daginn sá ég full af fólki tala um “sex workers” á Twitter. Ég er ekkert rosalegur aðdáandi þess að nota þetta enska hugtak. Einfaldast væri að tala um kynlífsvinnu og kynlífsverkafólk. En það varð til þess að ég fór að pæla í eldri orðum um þetta fyrirbæri á íslensku.

Þegar ég var í áttunda eða níunda bekk sagði íslenskukennarinn okkur sögu af Halldóri Laxness. Ég myndi giska að hún væri flökkusaga en hún hefur allavega tvisvar komið fyrir á prenti. Gísli Jónsson endurtók hana í pistli um íslenskt mál árið 1999.

Frá því er að segja, að á ofanverðum dögum Halldórs Kiljans Laxness var portkona ekki tíðhaft orð. Í elli sinni dvaldist hann í sæmd og æru á Reykjalundi, og einn sunnudag vinnur honum beina ung kona, í pilsum varla niður á þykkvalær og í opinskárri blússu. Verður þá öldunginum að orði: “Fyrirgefið þér fröken, eruð þér portkona?” Frammistöðustúlkan rýkur fram í eldhús, rétt eins og bitin væri af sel, og spyr matseljuna, lífsreynda og ráðsetta: “Hvað þýðir þetta orð portkona? Karlinn sem fékk Óskarinn, sagði þetta við mig.” Ráðskonan skýrði orð Nóbelskáldsins vandlega fyrir hinni ófróðu stúlku.

Ég verð að játa að eftir á þykir mér þetta skrýtin saga til að segja unglingum. En mörgum þótti þetta sniðug athugasemd hjá Halldóri og skemmtilegt skot á unga fólkið sem skortir orðaforða og þekkingu. Í dag myndu margir frekar sjá þetta sem drusluskömmun.

Orðið portkona er áhugavert. Ég held að ég geti fullyrt að almennt skilur fólk orðið þannig að það sé vísun í að þessar konur stunduðu iðju sína í t.d. húsasundum. Ég held að ég hafi fyrst skilið það þannig. En þegar ég fór að hugsa málið þótti mér líklegra að umrætt port væri höfn. Ég sá fyrir mér íslenska sjómenn, á flutninga- eða fiskiskipum, koma við í höfn og hitta umræddar portkonur fyrir þar.

Ég hafði rétt og rangt fyrir mér. Portið er vissulega höfn. Það er hins vegar miklu eldra en ég bjóst við. Fyrsta dæmið sem við eigum um þetta orð á íslensku er úr Nýja Testamenti Odds Gottskálkssonar, fyrst prentað 1540, nánar tiltekið í Lúkasarguðspjalli. Þið kannist kannski við söguna.

En nú eð þessi þinn sonur kom, hver út hafði svælt sínu góssi meður portkonum, þá slátraðir þú honum alinkálf.

Eða, samkvæmt ritmálssafni Árnastofnunar.

… huer vt hafdi suælt sinu godzi medr port konum.

Orðaforði Odds var samt fjölbreyttari þannig að í Matteusarguðspjalli notaði hann annað orð.

Sannlega segi eg yður að tollheimtarar og pútur munu fyrri komast í Guðs ríki en þér.

Það kom mér á óvart að sjá orðið “púta”. Mér hafði ekki dottið í hug að það hefði verið notað í íslensku fyrr á öldum. Ég tengi orðið helst við spænsku þó ég hafi ekki lagst í neina orðsifjafræði beint.

Heiðna-Biblian frá árinu 1908 notar síðan orðið skækja í stað pútu.

… en er þessi sonur þinn, sem sóað hefir eigum þínum með skækjum, er kominn, þá slátraðir þú fyrir hann alikálfinum.

Biblía 21. aldar, umdeild vegna þýðinga sem löguðu til siðfræði hinnar helgu ritningar, hélt sig við orðið skækja.

En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.

Ég verð reyndar að taka fram að það er ótrúlegt metnaðarleysi hjá Hinu íslenska biblíufélagi í framsetningu á texta á vefnum. Það ætti að vera auðvelt að hoppa á milli ólíkra þýðinga í stað þess að smella fram og til baka.

Það sem mér þótti einna áhugaverðast við portkonuna er að það orð þekkist í eldri Biblíuþýðingu. Guðspjöllin frá Lindisfarne eru áhugaverð heimild. Í grunninn er textinn á Latínu en um árið 970 kemur til fræðimaður að nafni Aldred og krassar (eða lét aðra krassa) í handritið. Ef ég tæki mig til og glósaði inn á forn handrit í dag þá yrði ég ekki vinsæll. En Aldred er hálfgerð hetja fyrir sitt uppátæki. Hann var nefnilega að skrifa þýðingar á fornensku.

Í umræddum kafla úr Lúkasi segir hann að glataði sonurinn hafi verið eyða peningum sínum í portcuoene. Þar sem það var engin stöðluð stafsetning á fornenska þá er orðið t.d. líka skrifað port-cwén. Ég held að þetta sé nokkuð skýrt. Kona eða kvenmaður. Ég vildi að ég gæti sýnt ykkar mynd af umræddri orðnotkun úr þessu fræga Lindisfarne-handriti en, talandi um metnaðarleysi, þá virðist það ekki til á stafrænu formi nema einstakar síður. Það er þó hægt að sjá hvernig setningin er umrituð í prentuðum útgáfum.

Ég efast um að Oddur Gottskálksson hafi haft aðgengi að fornenskum þýðingum guðspjallanna. Þannig að við getum ímyndað okkur að portkona hafi verið nokkuð vel þekkt orð. Við höfum þarna rúm fimmhundruð ár á milli. Mér sýnist að í þessu tilfelli sé samt nokkur sátt meðal fræðimanna um að íslenska orðið hafi komið úr enskunni frekar en enska orðið úr norrænu.

Þannig að, ef ég leyfa mér að giska óhóflega í eyðurnar, getum við ímyndað okkur að það hafi verið íslenskir sjómenn sem fluttu orðið með sér eftir að hafa hitt fyrir portkonur. En það gerðist bara miklu fyrr en ég hugsaði mér. Við getum jafnvel séð fyrir okkur víkinga sem hittu fyrir portkonur og víkkuðu um leið orðaforða sinn.

Reyndar liggja leiðir Norrænna manna við Lindisfarne guðspjöllin ekki bara saman í orðaforða. Bókin sjálf er ríkulega myndskreytt en kápan sjálf var bókstaflega verðmæt enda skreytt með gimsteinum. Það er talið líklegt að víkingar hafi stolið þeim fjársjóði líkt og gerðist með Bókina frá Kells. Það er líka rétt að minnast á að árásin á Lindisfarne árið 793 er almennt sögð marka upphaf víkingaaldar.

Filippus og kónganöfn

Vegna fréttaflutnings af andláti og útför Filippusar drottningarmanns þá hefur mikið verið rætt um nafnið hans. Það eru margir sem kvarta yfir því að það sé verið að þýða það á íslensku og segja að það eina rétt sé að kalla hann Philip.

Nú verð ég að taka fram að mér er alveg sama hvort fólk segir Philip eða Filippus. Mér finnst það hins vegar kjánalegt að halda því fram að það eigi að skrifa og segja Philip.

Mig grunar að hér sé fólk ranglega að tengja íslenskar útgáfur af kónganöfnum við ósanngjörn íslensk nafnalög sem neyddu innflytjendur til að taka upp íslensk nöfn eða grínþýðingar á nöfnum erlendra poppstjarna sem voru gjarnan notaðar í æsku minni. Þetta er ekki einhver séríslenskur siður heldur eitthvað sem hefur fylgt kóngafólki í gegnum aldirnar.

Í dag tengjum við kóngafólk oft við þjóðir og, um leið, tungumál. En í sögu Evrópu þá hefur það alls ekki verið reglan. Kóngar og drottningar ríktu yfir mörgum þjóðum. Einn af fylgifiskum þess var að kóngafólkið notaði mismunandi útgáfur af nöfnum sínum. Þetta voru allra þjóða kvikyndi.

Það er ágætt að hafa í huga er að kóngafólkið flakkaði um, allavega dæturnar. Þegar Maria Antonia fór til Frakklands var hún kölluð Marie Antoinette. Þetta var franska útgáfan af nafninu hennar.

Viðhorfið var sumsé að nöfn hefðu hliðstæður í mismunandi tungumálum. Þannig var ekki hugsað um þetta sem þýðingar heldur útgáfur af sama nafninu. Nöfnin voru líka oftast til í latínu og, sérstaklega innan kaþólskra ríkja, þá var hægt að líta á sem latínunafnið sem formlegu útgáfuna. Þó breska útgáfan af kónganafninu hafi verið James þá kölluðu fylgismenn kóngsins sig Jakobíta. Frá þeim sjónarhólki er auðvelt að skilja hvers vegna það er eðlilegt að kalla þessa kónga Jakob á íslensku.

Síðan má bæta því við að kónganöfnin eru ekki nærri því alltaf persónulegu nöfn þeirra. Fólki finnst kannski asnalegt að kalla kónginn Játvarð áttunda en vinir og vandamenn kölluðu hann alltaf David. Þannig eru kónganöfnin jafnvel líkari titli heldur en eiginnafni.

Filippus drottningarmaður var grískur, danskur, breskur, þýskur og örugglega margt fleira. Hann var upprunalega grískur prins og fékk nafnið Φίλιππος eða Fílippos. Þar sem hann var tengdur fullt af kóngafjölskyldum þá hefur hann alist upp við að vita að nafnið hans væri til í ótal útgáfum. Við sjáum líka hér að íslenska útgáfan af nafninu er mun nær því upprunalega heldur en sú breska.

Mér finnst alltaf undarlegt að líta á stafsetningu nafns sem óumbreytanlega. Þegar Jóhanna Guðrún reyndi fyrir sér á erlendum vettvangi kallaði hún sig Yohanna. Fólk bókstaflega missti sig í kommentakerfunum og sagði að hún væri að breyta nafninu sínu. En hún var bókstaflega að verja nafnið sitt með því að aðlaga stafsetninguna. Fyrir henni var það greinilega mikilvægara að reyna að hafa frumburðinn réttan. Heitir fólk frekar nöfnum eins og þau eru skrifuð eða eftir því hvernig þau eru sögð? Ég held að fólk ætti að fá að ráða því sjálft.

Þegar íslenska ríkið neyddi innflytjendur til að taka upp íslensk nöfn þá var það oft vanvirðing. Reyndar má ekki gleyma innflytjendum sem gátu tekið upp íslensk nöfn sem voru hliðstæð upprunalega nafninu og voru bara glaðir. En auðvitað voru margir mjög ósáttir.

Þannig að mig grunar að margir telji það einhvers konar vanvirðingu við Filippus að nota íslenska útgáfu af nafninu hans. Ég efast stórlega um að hann hafi hugsað þannig. Það er miklu líklegra að kóngafólk telji ákveðna virðingu fólgna í því að fólk noti hliðstæð nöfn milli tungumála. Það er bara hluti af pakkanum.

Þannig að þó mér sé sama hvaða útgáfu þið notið af nafninu hans þó ættuð þið ekki að láta ykkur detta í hug að breska útgáfan sé sú eina rétta eða að það sé einhver sérstök virðing fólgin í að nota hana.

Stafsetningarvilla en ekki málvilla

Ég er hópnum Málspjall sem Eiríkur Rögnvaldsson setti af stað. Þar ákvað ég að spyrja um nokkuð sem ég hef lengi velt fyrir mér. Það er þessi tilhneiging að setja G-hljóð aftan við orð eins og þú, þau, þó og svo. Ég geri það jafnvel stundum sjálfur.

Þetta er ekki nýtt fyrirbæri. Ég man mjög sterkt eftir þessu G-hljóði hjá Guðmari afa til dæmis. Við vitum líka að þessi orð hafa gjarnan verið til vandræða þegar á að kenna börnum stafsetningu – þóg að það sé ekki jafn áberandi og áður fyrr.

Eiríkur svaraði þessu:

Ég þekki þetta úr “þaug” og “svog” en ekki úr hinum orðunum þótt mér finnist trúlegt að þau hafi fengið sambærilegar myndir. Þetta var mjög algengt áður fyrr en ég heyri það sjaldan núna – eða tek lítið eftir því a.m.k. Í Menntamálum 1947 er lögð áhersla á þjálfun sjónminnis og sagt: “Sé það gert, er alveg óhugsandi, að 12—13 ára börn skrifi þaug og þettað — o. fl. svipaðar vitleysur.” Án þess að ég hafi nokkuð skoðað þetta finnst mér líklegt að ástæðan sé sú að g-inu sé skotið inn til að forðast svokallað “hljóðgap” þar sem tvö sérhljóð koma saman. Á eftir “þau” fer mjög oft “eru” og þá koma saman tvö sérhljóð sem tilhneiging er til að forðast í framburði. Sama gildir um hin orðin. Með aukinni stafsetningarkennslu hefur sennilega dregið úr þessum framburði.

Þegar ég var í þjóðfræðinni lagði ég töluverða áherslu á kenningar um munnlega hefð. Þessar hugmyndir áttu upprunalega að vera upplagið í meistararitgerðinni minni. En þetta varð líka til þess að ég fór að skilja þá gjá sem er milli ritaðs máls og talaðs.

Ritað mál verður alltaf mjög einfölduð útgáfa af töluðu máli. Stafsetning endurómar þetta með því að staðla orð sem eru borin fram á marga ólíka vegu. Við skrifum banki en ekki bánki af því að íslenskufræðingar ákváðu að það væri réttara. Þetta er auðvitað ekki sér-íslenskt og í öðrum tungumálum eru til miklu ýktari dæmi.

Stundum gerist síðan það sem Eiríkur bendir á hér að ofan. Stöðluð stafsetning fer að breyta frumburði. Það er rangt að skrifa þaug þannig að fólk hættir að bera fram þetta G-hljóð. En samt er þetta ekki málvilla í sjálfu sér – bara stafsetningarvilla. Það er ekki það sama.

Við gætum alveg ímyndað okkur þróun á íslensku sem hefði orðið til þess að við myndum bera orðið banki fram eins og það er skrifað. Kannski ef Jón Baldvin hefði verið vinsælli stjórnmálamaður og fólk hefði apað upp eftir honum framburðinn í stað þess að afskrifa hann sem tilgerðarlegan eða ef Halldór Laxness hefði ekki gert uppreisn gegn stafsetningarreglunum.

Ég er ekki að segja að það sé gott eða slæmt að stöðluð stafsetning hafi áhrif á talað mál en ég held að það sé gott að hafa þetta í huga.

Sjónvarpsáhorf sem lestrarkennsla

Það eru margir að tala um lestrarkunnáttu* íslenskra barna. Eitt mikilvægt atriði sem fólki yfirsést almennt er textun á erlendu sjónvarpsefni og kvikmyndum.

Mín kynslóð hafði kannski ekki jafn mikinn aðgang að afþreyingarefni á ensku og kynslóð barna minna en við höfðum mun meiri aðgang en áður hafði þekkst. Það sem ég held að aðgreini okkur sé ekki fyrst og fremst magnið heldur textun.

Ástæðan fyrir því að ég lagði hart að mér að læra að lesa var ekki til að lesa bækur heldur til að lesa texta. Ég þurfti að læra að lesa nógu hratt til að missa ekki af textanum. Þetta var ótrúlegur hvati.

Í dag er hverfandi aðgangur að textuðu efni. Við erum með barnaefni á íslensku og síðan erum við með ótextað efni á ensku. Það er hverfandi aðgangur að textuðu efni fyrir krakka.

Ef við lítum framhjá lestrarþættinum og pælum í málkunnáttu þá veldur þetta auðvitað því að krakkar læra ensku fljótt og örugglega. En ég held að skortur á textun valdi um leið ákveðnu rofi milli íslenskukunnáttunnar og enskunnar. Í stað þess að læra ensku með hliðsjón af íslensku, eins og mín kynslóð gerði að miklu leyti, þá læra krakkar mörg ensk orð án tengingar við íslenskuna. Það verður til þess að sum hugtök skilja þau bara á ensku. Þau finna sumsé ekki alltaf svar á íslensku. Mig grunar að þetta verði jafnvel líka til þess að enskuskilningurinn verði ekki jafn góður og hann gæti orðið.

Þetta er reyndar ekki endilega nýtt vandamál. Það var ekki endilega stór kynslóð sem fékk mikið af textuðu barnaefni. Það kom nefnilega fljótt upp krafa um talsetningu sem var skiljanleg og jafnvel nauðsynleg fyrir yngstu börnin en olli því að krakkar sem voru að læra að lesa fengu ekki jafn mikla æfingu í að lesa – og lesa hratt. En um leið og talsetningarkynslóðin vildi horfa á eitthvað meira en barnaefni þá fékk hún textað efni.

Núna er aðgangur að ótextuðu barnaefni á ensku nær endalaus og aðgangur að textuðu barnaefni hverfandi. Þegar krakkarnir eldast þá tekur síðan við enn meira af ótextuðu efni.

Þannig að ef ráðamenn vilja efla lestur, ensku- og íslenskukunnáttu þá ættu þeir að reyna að koma íslenskum texta á sem mest af því efni sem krakkarnir okkar eru að horfa á.

* Það þarf auðvitað að auka fjárframlög til bókaútgáfu, bókasafna og skóla. Það eiga allir að vita. Ég held hins vegar að færri átti sig á mikilvægi textunnar.