Íslandsvinurinn Neil Gaiman

Neil Gaiman er að vonast til að stoppa á Íslandi í einn dag á leið sinni til London. Það er bara ein búð á Íslandi sem hefur viðskiptavini sem almennt meta Gaiman og það er Nexus, vonum að þeir hafi vit á að reyna að fá hann í stutt stopp (þó það gæti verið erfitt að koma því í kring í svona snöggri heimsókn).

Ég nota hér hið ofurmisnotaða orð Íslandsvinur en Neil Gaiman er að sjálfssögðu raunverulegur vinur Íslands. Landið hefur komið fram í bók eftir hann, íslensk menningararfleið heillar hann og hann notaði meiraðsegja íslensku í bókinni sem ég minntist hér á að ofan.

Maðurinn er brilljant. Lesið bækurnar hans.

Snorri rugludallur

Hann pirrar mig hann Snorri grínframbjóðandi. Ég hef ekkert á móti grínframboðum, sjálfur hef ég farið í slíkt framboð. Mín skoðun er nú samt að grínframboð eigi að vera fyndin, Snorri er ekki fyndinn. Snorri mætir í bjánalegum fötum og það er hápunktur kímnigáfu hans.

Fyndið grínframboð er til að mynda Daninn sem lofaði meðvindi þegar maður hjólar og svoleiðis, ekki sköllóttur ræfill sem finnst nógu fyndið að auli einsog hann skuli fara í framboð.

Könnun VR

Könnun VR á viðhorfi starfsfólks til fyrirtækisins sem það vinnur hjá er nokkuð heillandi. Fyrirtækið mitt er nokkuð fyrir ofan meðallag á þessum lista. Það kom mér svoltið á óvart að það kemur ekki há einkunn fyrir starfsanda miðað við að flestir hafa tekið mér vel. Einnig finnst mér það til marks um góðan starfsanda að í kaffitímum og mat þá sest fólk við nær hvaða borð sem er í stað þess að vera eltast við ákveðna klíku. Útlendingarnir halda sig að vísu svoltið saman (þó er það enginn regla, oft eru þeir bara með okkur hinum) en þeir eru líka þarna sameinaðir í tungumálum sínum, eldra fólk og hið yngra er einnig yfirleitt í sitt hvoru lagi. Stolt af fyrirtækinu er ekki mikið og sveigjanleiki vinnutíma er greinilega ekki mikill.

Aco Tæknival hefur ekki stolt starfsfólk og maður er hissa að starfsmenn gangi ekki með skíðagrímur, einkunn fyrir stolt er 1 af 100. Ekki sækja um vinnu hjá Fossberg (en farðu þangað að kaupa skrúfur) eða Útfaraþjónustu kirkjugarðanna sem fá aðeins 7% í starfsanda.

Samsærið Ónýtt

Hjörvar virðist ekki hafa vitað að í mörg ár hef verið í gangi viðamikið samsæri meðal vinstri manna um að reyna að sannfæra Davíð Oddsson um að hann sé góður rithöfundur. Augljóslega hefur þetta verið gert til þess að fá einræðisherra krúnunnar til að afsala sér völdum með það í huga að nota tímann í skriftirnar. Afleiðing þessa yrði að sjálfsögðu allsherjar stríð meðal kjölturakka hans sem hingað til hafa verið þægir og ánægðir með það sem hrekkur af borði meistarans.

Vonum að Davíð lesi ekki blogg né að Hannes lesi þau ekki fyrir hann.

Bíðandi eftir kraftaverki

Það var verið að segja mér frá því að Tryggingastofnun trúi á kraftaverk. Svo virðist sem blindir og heyrnalausir þurfi að fara á tveggja ára fresti í skoðun til að athuga hvort þeir séu ennþá blindir og heyrnalausir. Mig grunar reyndar að þetta hljóti að ganga yfir flesta sem eru á einhvern hátt fatlaðir. Fólk sem hefur misst útlimi þarf að öllum líkindum að fara reglulega til að athuga hvort það hafi froskagen sem valda því að nýjir útlimir vaxi á það. Það hlyti að spara gríðarlega fjármuni á hverju ári ef það væri bara hægt að merkja við fólk „Þetta er varanlegt, þurfum ekki að tjékka þetta aftur“.