Heimsveldi

Ég horfði á heimildaþáttaröðina Empire (2012) með Jeremy Paxman. Þar fjallar hann um breska heimsveldið og arfleifð þess.

Það sem vakti strax athygli mína á fyrstu mínútunum er hvernig skjátextinn var. Aðaltungumál þáttanna var enska en það var tekið viðtal við ýmsa þegna heimsveldisins sem töluðu oft eigin tungumál. Sama hvert tungumálið var þá stóð bara í skjátextanum “talandi útlent tungumál”. Ég veit ekki hverjir sáu um þessa textun en framleiðendurnir hefðu átt að tryggja að hún væri í lagi. Það að endalaust um útlend tungumál virkar voðalega heimsveldis- og/eða nýlendusinnað.

Annað dæmi frá fyrstu mínútunum var frá pólóleik á Indlandi. Þar heyrist í lýsingu á leiknum sem er á ensku. Það er allt þýtt vel og vandlega þar til nöfn leikmanna koma fram. Þá stendur bara “(mumbles)”. Nafnið var ekki muldrað – það var bara “útlenskt”. Ég öfunda skjáskrifarann ekki að þurfa að reyna að rita nöfn á tungumáli sem hann skilur ekki (kannski það hefði verið hægt að finna Indverja sem talar ensku til að skrifa skjátextann?) en þetta er voðalega aumt.

Af þáttunum sjálfum er það að segja að þeir líta út eins og þeir séu gagnrýnir á breska heimsveldið svo lengi sem þú þekkir ekki sögu þess. Þá tekurðu eftir að heilu þjóðarmorðin eru hunsuð eða fljótafgreidd á sama tíma og mikil áhersla er lögð á uppreisnir og hefndaraðgerðir innfæddra gegn breskum yfirráðum.

Paxman eyðir líka töluverðri orku í að benda á góð áhrif sem breska heimsveldið hafði. Fyrst virkar það bara eins og hálfgert grín en síðan verður það bara aumkunarvert.

Ég lærði alveg eitthvað af þessum þáttum en ég get varla mælt með þeim. Þetta virðist helst ætlað að reyna að útskýra fyrir Bretum, sem ekki þekkja söguna, að breska heimsveldið hafi ekki verið frábær hugmynd án þess þó að ögra þeim um of.

Nasistar eru trúðar (Jojo Rabbit – höskuldar)

Um daginn fór ég í bíó og sá Jojo Rabbit. Mér fannst myndin frábær og ég held að flestir séu sammála mér. En ekki allir. Eftir að hafa séð myndina rakst ég á gagnrýni á myndina sem fór voðalega í taugarnar á mér. Í nýjustu Stundinni er síðan grein þar sem vísað er í mjög svipaða gagnrýni.

Jojo Rabbit fjallar um tíu ára strák, Jojo, í Þýskalandi nasismans. Áróður nasismans hefur virkað svo vel að hann tilbiður Hitler. Síðan komumst við að því að mamma hans er andfasísk í meira lagi og hefur tekið að sér að fela gyðingastúlku (Elsa) í húsinu.

Það sem fólk hefur helst út á myndina er þrennt:

  1. Nasistarnar eru sagðir vera of kjánalegir.
  2. Of mikil áhersla á góða nasista.
  3. Elsa ber þess lítil merki að vera gyðingur.

Það að nasistarnir í myndinni séu of kjánalegir byggir á falskri valklemmu. Það er nefnilega hægt að vera bæði trúður og skrýmsli. Þegar nasistar voru að komast til valda þá var auðvelt að sjá að þeir voru hlægilegir. Gæsagangandi hálfvitar. Ef við horfum á fréttamyndir í dag með drungalegri hljóðrás þá gleymum við oft hvað þetta var bjánalegt. Þegar við sjáum ris fasista í samtíð okkar þá er auðvelt að segja að þeir séu bara trúðar því að þó þeir séu vissulega trúðar þá geta þeir verið stórhættulegir. Myndin gerir þetta alveg frábærlega. Við fáum Gestapóliða í heimsókn og þeir líta út eins og fávitar en síðan verður ógnin skyndilega raunveruleg af því að þeir hafa vald og vilja til þess að framfylgja sinni heimskulegu heimssýn.

Þegar þessir gagnrýnendur segja að það sé of mikil áhersla í myndinni að það hafi verið til góðir nasistar þá virðist það byggja á mjög undarlegum skilningi á því hvað nasisti sé. Þetta sést helst á Klenzendorf höfuðsmanni sem leikinn er af Sam Rockwell. Hann sýnir í myndinni að hann sé góð manneskja en það sem gerir hann að góðri manneskju er að hann er ekki nasisti. Um leið og hann kemur fram á sviðið þá er manni ljóst að hann hefur enga trú á leiðtogum landsins. Það er ekki hægt að setja samasemmerki milli þess að vera þýskur hermaður og að vera nasisti. En hann er ekkert fullkominn. Hann berst fyrir landið sitt, og þar með nasista, þó hann ætti að vita betur.

Persóna Jojo sjálfs hefur líka verið nefnd sem dæmi um góðan nasista. Slíkt finnst mér varla svaravert. Slíkt byggir á því að misskilja myndina. Tíu ára börn geta ekki verið nasistar. Tíu ár börn sem alla ævi hafa fengið innrætingu úr öllum áttum hafa engan grunn til að taka slíka afstöðu.

Varðandi Elsu og skort á því að persóna hennar beri einhver merki þess að vera gyðingur þá finnst mér það í raun frábært. Það voru ótalmargir gyðingar í Þýskalandi sem höfðu aðlagað sig nær fullkomlega að samfélaginu. Þeir höfðu jafnvel tekið kristna trú. Stundum var þessi aðlögun varnarviðbrögð gegn mögulegum ofsóknum en hún var líka merki þessi að margir gyðingar litu fyrst og fremst á sig sem Þjóðverja. Sem dæmi um þetta er að ákaflega margir gyðingar börðust fyrir Þýskaland í Fyrri heimsstyrjöldinni. Þetta er að mörgu sambærilegt við þá Vestur-Íslendinga sem börðust í sama stríði. Þeir vildu sýna þjóðhollustu sína. Þeir töldu að með því að berjast fyrir landið sitt þá yrðu þeir metnir að verðleikum, sem fullgildir borgarar. En Hitler ofsótti ekki bara þá gyðinga sem skáru sig úr hópnum. Hann ofsótti gyðinga sem aldrei sóttu samkunduhús sem og þá er sóttu kirkjur. Hann ofsótti gyðinga sem höfðu aðlagað sig svo vel að þýsku samfélagi að þeir gáfu börnum sínum germönsk nöfn eins og Elsa.

Mér finnst Jojo Rabbit vera frábært innlegg nú þegar við sjáum ris fasista um víða veröld. Við megum hlæja að þessum bjánum en við þurfum að taka þá nógu alvarlega til þess að geta barist gegn þeim.

Netflix: I Am Your Father

Myndin I Am Your Father fær varla mjög háa einkunn en hún er samt áhugaverð. Umfjöllunarefni hennar er David Prowse, maðurinn sem var Svarthöfði undir grímunni en hvorki rödd hans né andlit sáust – aðrir leikarar fengu þau verkefni.

Í myndinni er fjallað um feril Prowse og aðkomu hans að Star Wars. Það kemur í ljós að þetta er ekki sérstaklega falleg saga og, samkvæmt þeirri söguskoðun sem kynnt þarna, er það ekki honum að kenna. Það er einstaka sinnum sem menn eru ósammála honum um hvað hefði gerst en bæði ná kvikmyndargerðarmennirnir að finna gögn sem styðja útgáfu Prowse og þeir fá einhverjar sögur staðfestar af sökudólgunum sjálfum.

Helsti galli myndarinnar er hve mikið annar leikstjórinn er að trana sér fram í myndinni. Það er yfirleitt bæði óþarft og endurtekningarsamt. Myndin er líka teygð alltof mikið. Hún hefði virkað betur ef hún hefði verið stytt um svona hálftíma.

En ég sá ekki eftir því að hafa horft á hana. Það er samt leiðinlegt að Lucasfilm hafi komið í veg fyrir að við gætum séð það sem hefði verið hápunktur myndarinnar.

Vídeóspólan og heimildarmyndagerð

Orion Xenon VHSÞað að ég hafi ákveðið að gera heimildarmynd um vídeóspóluna frekar en skrifa grein eða bók er kannski dæmi það þar sem efnið stjórnar miðluninni. Ég hef aldrei áður gert heimildarmynd þó ég hafi oft spáð í því. Ég held að það hafi verið 2003 sem ég fékk hugmynd um að gera heimildarmynd um Helga Hóseasson. Við Siggi vinur minn ræddum hugmyndina  en það varð ekkert úr því en af tilviljun var gerð myndin Mótmælandi Íslands sama ár. Stundum virðast hugmyndir liggja í loftinu.

Þegar ég fór af stað með meistararitgerðina mína í þjóðfræði, sem fjallaði um Eve Online, þá spurði ég fyrst væntanlega viðmælendur mína um hvort ég mætti taka um viðtölin með myndbandstökuvél í von um að vinna heimildarmynd úr efninu. Þar sem fyrstu viðmælendur mínir voru myndavélafeimnir gerði ég ekkert í því.

Þjálfun mín í að taka viðtöl er samt mest úr meistaraverkefninu. Mig minnir að ég hafi tekið 16 viðtöl. Ég lærði ótrúlega margt á því. Ég hef auðvitað líka gert útvarpsþætti sem byggja á viðtölum.

Nálgun mín á efnið verður svipuð og þegar ég skrifaði meistararitgerðina í þjóðfræði. Ég kynnti mér efnið vel fyrst og fékk síðan viðmælendur mína til að dýpka þekkingu mína. Ritgerðin var síðan keyrð eins mikið áfram og mögulegt er á orðum viðmælenda minna. Ég geri ráð fyrir að gera það sama núna en taka skref í viðbót.

Ég ætla að reyna eftir fremsta megni að sleppa því að hafa einhvern þul í hlutverki sögumanns, raddar guðs eins og það er stundum kallað (eða bara rödd Guðna Kolbeinssonar). Ef það er mögulega hægt ætla ég að láta viðmælendur mína segja söguna frá upphafi til enda. Sjálfur ætla ég að halda mig til hliðar eins og ég get. Ég verð ósýnilegur og helst vil ég ekki einu sinni láta spurningar mínar heyrast. Ég ætla ekki einu sinni að vera með hljóðnema.

Til þess að lífga upp á myndina ætla ég að nýta mér ljósmyndir og upptökur (endilega sendið mér eða látið mig vita ef þið eigið eitthvað). Þá er ég kominn með mikið magn af efni úr dagblöðum og tímaritum sem mun án efa gera mikið til að skreyta myndina.

Þegar ég fór í hagnýta menningarmiðlun á sínum tíma þá var það meðal annars af því að ég var spenntur fyrir heimildarmyndagerð. Ég lærði ótalmargt þar, bæði varðandi upptöku og klippingu. Ég las líka mikið um kenningar um efnið. Ég var nálægt því að gera heimildarmynd um vídeóspóluna þá en það sem stoppaði mig var að ég hefði þurft að deila tækjum og tólum með öðrum.

Það eru fjögur ár frá því að ég útskrifaðist úr hagnýtri menningarmiðlun. Ég á sjálfur myndavél sem er nógu góð til að taka upp viðtöl. Ég þarf reyndar sérstakt hljóðupptökutæki en ég hef einmitt aðgang að svoleiðis og vona að ég geti keypt eitt slíkt sjálfur. Hljóðnemi til að nota í viðtölunum er á leiðinni til mín. Þá má nefna að frjáls hugbúnaður er orðinn nógu góður til þess að ég get klippt myndina á minni eigin tölvu (sem var reyndar keypt sérstaklega út frá því hve vel hún gæti keyrt svona hugbúnað). Ég get sumsé verið sjálfum mér nægur í flestu. Það hentar minni þjóðfræðilegu (eða etnógrafísku) nálgun ákaflega vel. Ég vona að með söfnuninni á Karolina Fund geti ég keypt mér fleiri tæki og tól til að auðvelda mér verkin en í raun gæti ég farið að taka viðtöl á morgun.

Ef þið viljið vita hvaða heimildarmyndir eru í uppáhaldi hjá mér þá finnst mér serían Seven Up! alveg dásamleg. Síðan er þáttaröð Ken Burns um þrælastríðið í Bandaríkjunum alltaf föst í mér. Það kemur því örugglega engum, sem þekkir yfirhöfuð stíl hans, á óvart hvernig ég mun nota ljósmyndir og annað myndefni.

Söfnunin á Karolina Fund gengur ekki hratt en ég er reyndar ákaflega bjartsýnn að ég nái markmiðinu. Það er því líklega fátt sem kemur í veg fyrir að myndin verði gerð en þið getið gert mér verkið auðveldara með því að styrkja verkefnið. Það er rétt rúm vika eftir.

Vídeóspólan til útvarps

Ég fór alveg tvisvar í útvarpið að tala um Vídeóspóluna (farið og styrkjið verkefnið!). Fyrst fór ég til hans Tóta í Badabing á Hringbraut. Það viðtal er frekar langt. Ég kem inn um það bil 9:38.


Síðan er hérna styttra spjall á Rás 2.

Vídeóspólan – heimildarmynd

VídeóspólanFyrir fimm árum síðan fékk ég hugmynd að heimildarmynd sem ég hef gælt við að gera síðan. Umfjöllunarefnið er vídeóspólan og áhrif hennar á íslenskt samfélag. Þegar ég fékk hugmyndina þá var hugsunin að myndin yrði lokaverkefni mitt í hagnýtri menningarmiðlun og ég man að ég ræddi hugmyndina bæði við Eggert Þór og samnemendur mína. En það fór svo að ég gerði Rafbókavefinn í staðinn. Í fyrra endurvakti ég hugmyndina en þá tók #Kommentakerfið yfir líf mitt.

Núna hef ég ákveðið að fara af stað með verkefnið. Ég er kominn með söfnunarsíðu á Karolina Fund þar sem ég kynni verkefnið. Ástæðan fyrir því að ég er að safna fyrir þessu verkefni er aðallega að ég þarf að fjárfesta í betri tækjum. Það er aðallega það sem snýr að hljóðupptöku en síðan vantar mig helst einhvern ljósabúnað.

Ég held að hugmyndin sjálf sé mjög góð. Vídeóspólan olli byltingu á Íslandi. Menningin varð aldrei söm aftur. En vídeóspólan er kominn á endapunkt núna. Glæsileg kvikmyndasöfn fara beina leið í endurvinnsluna. Myndbandaleigur eru nær útdauðar og þar finnast varla spólur lengur.

Ég bjó til smá kynningarmyndband um verkefnið.

Kuldahrollurinn mikli eða kælingin mikla

The Big Chill er mín eftirlætismynd. Ég var lengi að fatta það. En ég fór einhverju sinni að pæla hvað það væri sem gæti réttlætt það að kalla mynd eftirlætis eða uppáhaldsmynd. Þarf sú mynd ekki að vera þannig að hún höfðar til manns ekki bara til styttri tíma heldur lengri. Er það ekki mynd sem maður fær alltaf eitthvað nýtt út úr?
Ég held að ég hafi búið í Búðasíðu þegar ég sá myndina fyrst. Það er þó alls ekki víst. Ég hef þá líklega verið 11 ára. Hvað hafði hún að segja mér þá? Kannski af því að hún fjallaði um hippakynslóðina sem var auðvitað fólkið allt í kringum mig. Og þá fann ég líklega helst til samkenndar með börnunum þegar ég sá hana. Síðan gæti verið að ég hafi bara verið svona skotinn í Meg Tilly.

Á framhaldsskóla- og háskólaárum mínum fann ég til augljósrar samkenndar með fólkinu eins og það var þegar það kynntist. Vinstrisinnað lið. Friðarsinnar. Maður sá sjálfan sig og aðra í persónunum. Enginn er einhver einn, allir eru allir.

Í dag er maður bara kominn í samtíð myndarinnar. Persónurnar eiga börn. Þær hafa farið leiðir í lífinu sem samræmast ekki draumum og vonum þeirra. Þá eru persónurnar ósáttar við þær leiðir sem vinirnir hafa valið. Hugmyndin um að selja sig eða sætta sig eða aðlaga sig of mikið. Að nota ekki hæfileika sína.

Þessar hugmyndir og þemu eru auðvitað nátengdar því að dauðinn er lykilatriði í myndinni. Lífið er ekki það sem þú vildir eða vonaðir en dauðinn er verri því hann er tilgangslausari en allt hitt.

Lawrence Kasdan leikstýrði og skrifaði handritið. Hann skýrir titil myndarinnar svona:

The Big Chill is about a cooling process that takes place for every generation when they move from the outward-directed, more idealistic concerns of their youth to a kind of self-absorption, a self-interest which places their personal desires above those of the society or even an ideal.

Spurningin er hvort þessi kæling sé nauðsynleg. Munu allir ganga í gegnum í hana? Ég hef lengi skoðað sjálfan mig með hliðsjón af myndinni. Ég vissi vel af því hvernig hippakynslóðin seldi sig og sætti sig við samfélagið. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort “mín” kynslóð myndi gera það. Og hún gerði það og hún gerði það ekki. Ekkert er eins. En myndin er ágætur spegill.

Kaldhæðnasta persóna myndarinnar leggur til ákaflega góða ræðu um siðfræði. Hún gengur út á nauðsyn þess að geta réttlætt sjálfan sig við sjálfan sig. Eða við aðra svo sem.  Og það er það sem persónurnar eru að gera alla myndina. Síðan er maður að réttlæta sjálfan sig með því að horfa á hana.

Grand Budapest Hotel

Ég fékk gefins miða á Grand Budapest Hotel frá Svarthöfða og við Eygló fórum á myndina í gærkvöldi. Við hefðum væntanlega farið hvort eð er enda höfum við gaman af Wes Anderson myndum. Þær eru að minnsta kosti fallegar.

Við tókum reyndar fyrst kvöldmat á TGI Fridays (ákaflega þægilegt þegar maður er að fara í Smárabíó) þó þjónustan hefði mátt vera sneggri. Ég fékk steik (óvanalegt fyrir mig) og var bara sáttur við hana þó hún hafi verið hrárri en ég bað um. Meðlætið var hins vegar frábært, sérstaklega sætu kartöflurnar.

Myndin var auðvitað falleg eins og við var að búast. Það sem mér fannst rosalega áberandi við hana er hve minnti mig á teiknimyndasögu. Lykilatriði voru römmuð inn eins og þau væri á blaðsíðu teiknimyndasögu. Persónurnar voru teiknimyndasögulegar. Fötin þeirra voru í afgerandi litum og útlit þeirra að öðru leyti eins og það væri teiknað.

Auðvitað dugar ekki eitt og sér að mynd sé fallega. Mér fannst t.d. alltaf vanta eitthvað í Life Aquatic. Ég fann ekki fyrir því núna. Ef maður vill aftur tengja við teiknimyndasögur þá fannst mér söguþráðurinn vera eins og Tinnasaga (eða ætti maður að segja Svalur og Valur út frá vikapiltstengingunni?) og, það sem meira er, vel gerð Tinnasaga (mun betri en Tinnamyndin sem mér þótti þó ágæt). Allavega mæli ég með henni.

Lagði peninga í kvikmyndaframleiðslu

Fyrir rúmum mánuði komu fréttir um að aðdáendur Veronica Mars þáttanna hefðu á innan við sólarhring lagt fram þær tvær milljónir sem framleiðendurnir þurftu til að fjármagna kvikmynd. Þegar söfnuninni lauk var þetta komið í nær sex milljónir. Ég lagði reyndar ekki fram peninga þá enda voru þá einhver takmörk fyrir því hvaða lönd mættu taka þátt.

Í dag tók ég í fyrsta skipti þátt í Kickstarter verkefni. Hann Zach Braff sem lék í Scrubs ætlar að gera mynd. Hann hefur áður gert mynd sem hét Garden State og var æði. Hann gæti raunar fengið fjármagn frá fjárfestum sem vilja fá að stjórnast í myndinni hans en það hugnast honum Zach ekki.

Zach þarf allavega tvær milljónir til að gera myndina og ég lagði fram 40$. Ég borgaði reyndar 10$ aukalega til að fá bolinn minn sendann hingað til Íslands. Það fylgja oft einhverjar gjafir fyrir framlög í svona verkefnum. Fyrir 10 þúsund dollara var hægt að kaupa sér aukahlutverk í myndinni – það fór greinilega fljótt.

Verkefni og safnanir af þessu tagi eru áhugaverðar og eru raunar ekki glænýjar en þegar Veronica Mars náði sinni fjármögnum svona fljótt þá sást að þetta er eitthvað sem gæti raunverulega haft áhrif á það hvernig kvikmyndir eru framleiddar. Hvernig hefði kvikmyndasagan orðið ef Orson Welles hefði getað treyst á almenning í stað peningamanna? Það er líka spurning hvort þetta muni þrýsta á peningamennina til þess að gefa leikstjórum meira frelsi. Það mun án efa hafa áhrif á önnur svið en kvikmyndageirann. Þó þetta sé ekki nýtt þá erum við rétt að fá smjörþefinn af möguleikunum.

Reyndar verð ég að segja að mér finnst Kickstarter módelið ekki endilega best. Ég hefði jafnvel frekar viljað forborga dvd-disk eða bíómiða frekar en að fá einhvern bol. Svoleiðis má víst ekki hjá Kickstarter. Það mætti líka hugsa sér bókstaflegar fjölda-fjárfestingar þar sem maður getur hagnast á svona framlagi. Það er allt mögulegt.

Það er um sólarhringur síðan Zach byrjaði að safna og allar líkur eru á að þegar fólk les færsluna mína þá verður hann væntanlega kominn með milljón. Hann ætti að hafa efni á fjandi góðri mynd eftir 29 daga söfnun.

Spes bíóferð

Við fórum í bíó í gær. Myndin er To Rome With Love eftir Woody Allen. Ég bjóst ekki við miklu þar sem hún hefur fengið frekar slaka dóma. Ég varð hins vegar stórhrifinn og hló alveg rosalega á köflum. Fáránleikinn minnti mig barasta á fyrstu myndirnar hans.

En það var ekki myndin sem gerði ferðina spes. Salurinn var fullur. Það hef ég ekki upplifað áður á Woody Allen mynd. Þessu til viðbótar virtist næsti salur líka vera fullur af fólki sem var að horfa á Intouchables.

Ætli bíóhúsafólk fari ekki að átta sig á að hægt sé að græða á myndum sem eru framleiddar fyrir aðeins eldri markhópa? Fólk sem nýtir sér ekki þjónustu jafningjadeilingar. Allavega fer Ísleifur á Grænu ljósi hlæjandi alla leið í bankann.