Prúðuleikarar Jason Segel

Í gær fórum við Eygló út að borða og í bíó á meðan Sóley frænka (ein af mörgum reyndar með því nafni) passaði Gunnstein. Eftir góðan mat á Ruby Tuesday fórum við í Laugarásbíó. Myndin sem varð fyrir valinu, eða myndin sem var ástæðan fyrir bíóferðinni, var Prúðuleikararnir.

Sá sem ber helst ábyrgð á nýju Prúðuleikaramyndinni er Jason Segel. Í Forgetting Sarah Marshall sá maður ástríðu hans fyrir brúðum og nú fékk hann tækifæri til að vinna með merkilegustu brúður allra tíma. Það er um leið ekki erfitt að sjá hliðstæðu milli persónunnar Walter og Jason Segel sjálfs.

Nú er ég mikill Prúðuleikaraaðdáandi þannig að ég er kannski gagnrýnni en flestir. Ég hef til dæmis fylgst vel með þeim undanfarin ár en það er mikill misskilningur að þeir hafi legið í dvala. Ýmsar sjónvarpsmyndir, styttri og lengri, hafa verið gerðar. Engin þeirra hefur verið nein snilld en oft skemmtilegar. A Muppet Christmas: Letters to Santa er væntanlega best af þeim. Þannig að í mínum huga þurfti þessi mynd helst að slá út þær myndir frekar en að vera jafn góðar og þær gömlu.

Það sem ég vissi fyrir var að söguþráðurinn er ekki frumlegur. Það sem er verst er að hann er í raun sá sami og í It’s a Very Merry Muppet Christmas Movie frá árinu 2002. Mér þótti það bara óþarfi. Fyrir utan þetta er líklega stærsti galli myndarinnar sá að það er of mikil áhersla á mannfólkið og það, sérstaklega „kærastan“, er einstaklega óspennandi. Illmennið nær sér heldur aldrei á strik og mig grunar að það sé vegna þess að söguþræðinum var breytt (það átti að koma í ljós að illmennið væri í raun Kermit í dulargervi að reyna að fá Prúðuleikarana aftur saman).

Myndin er líka endalaus „heiðrun“ á gömlu Prúðuleikaraþáttunum. Það er eiginlega of langt gengið í því öllu (og um leið hunsað flest sem gerðist eftir að þeir þættir hættu).

Ég get ekki sagt að þessi mynd hafi verið jafn mikið betri og síðustu Prúðuleikaramyndirnar. Ég hló hins vegar oft og mikið. Mest líklega að óvæntasta gestahlutverkinu (sem var haldið nokkuð leyndu). En mér fannst þetta ekki vera þannig sterk mynd að Prúðuleikararnir komist á fulla ferð. Ég vona að það verði meira gert með þá en ég veitt ekki hvort það nær að vera meira en hefur hvorteðer verið í gangi síðustu árin.

Godfather II mistök?

Það er frétt á Mogganum (sem ég sá í gegnum bloggið hans Ómars Ragnarssonar) um að Francis Ford Coppola sé á þeirri skoðun að það hafi verið mistök að gera framhald af The Godfather. Ég ákvað að leita upp viðtalið og fann það (en Mogganum þótti einmitt óþarfi að vísa á heimildir):
video platformvideo managementvideo solutionsvideo player
Ef þið getið séð viðtalið þá er það augljóst að gaurinn sem tekur það er gjörsamlega óþolandi dólgur sem helst virðist ætla að ergja leikstjórann með því að tengja myndir hans við Saddam Hussein. Ég get bara ekki tekið svörin sem Coppola gefur þarna alvarlega. Ég get ekki útilokað neitt en það er engin leið að treysta því að hann hafi meint þetta.

Avatar séð

Við fórum á Avatar í kvöld og nýttum þannig tækifærið sem gafst með því að fá tengdó í heimsókn. Ég setti líka upp linsur af þessu tilefni.

En myndin er slöpp. Hún hefði mátt vera svona klukkutíma styttri án þess að missa nokkuð sem skipti máli. Of langar skógarhoppsenur og of langar bardagasenur.

Ég var svoltlið spenntur að sjá hvort HHG hefði haft rétt fyrir sér og að þarna væri verið að predika gegn tækni. Svo var alls ekki. Tæknin í myndinni er hlutlaus og þar að auki eru vísindamennirnir einfaldlega góðir. Það er bara spurning hvernig menn nota tæknina. Þetta gladdi mig.

Boðskapurinn er fínn. Það er umhverfisvernd og and-heimsveldisstefna. Eitthvað fór það framhjá Hannesi.

Það sem er að vissu leyti rétt hjá HHG að þarna er lifandi kominn hinn göfugi villimaður. Blámennirnir í myndinni eru eiginlega indíánasvertingjar og þarna eru innlimaðar ótal bjánalegar steríótýpur um villimenn. Þeim er síðan bjargað af hvítum manni. Að sjálfsögðu er þetta bara rasismi.

Jólasaga Dickens, Carrey og Zemeckis

Ég skrapp i bíó með Eggerti í gær. Það var Christmas Carol í þrívídd. Hún var alveg ágæt. Það var hins vegar ýmislegt sem fór í taugarnar á mér. Ég held að best hefði verið að Carrey hefði sleppt því að leika andana tvo. Fyrsti andinn var sérstaklega mislukkaður og þá fór lélegi írski hreimurinn verulega í taugarnar á mér. Sama átti við um vonda skoska hreiminn hjá anda númer tvö. Síðan var of mikið slappstikk. Ég fatta líka ekki þörfina á að hafa Skrögg svona ljótan.

Það er því ljóst að uppáhaldsútgáfan mín af þessari sögu er með Prúðuleikurunum.

Sögufölsun í auglýsingu

Um daginn þegar ég fór með Halla á Inglourious Basterds rifjaðist upp fyrir mér að ég sat í sama sal fyrir um fimmtán árum og sá þá Pulp Fiction. Nokkrum dögum seinna sá ég TM auglýsingu sem hefur verið í gangi undanfarið þar sem sýndur er vinskapur tveggja náunga um árabil. Þar eru þeir sýndir koma af sýningu á Pulp Fiction í Háskólabíó (eða allavega er stór auglýsing fyrir Pulp Fiction á bíóveggnum). Það er gróf sögufölsun. Ég man skýrt að sú mynd var sýnd í Regnboganum en Forrest Gump var sýnd í Háskólabíó. Svona á ekki að líðast.

Star Trek ellefu cirkabát

Í gær fór ég á Nexus forsýningu á nýju Star Trek myndinni. Ég reyndi að fá einhvern með mér en fólk svarar ekki, er í prófum eða er ekki hrifið af Star Trek þá það sé eftirmynd nýja Spock.

En ég gerði líka fastlega ráð fyrir að ef ég myndi mæta þá væri einhver sem ég þekkti á staðnum. Vinir mínir eru slíkir nördar. Þegar ég mætti var röðin orðin endalaus en sem betur fer var Erlendur þarna og hann tók frá fyrir mig sæti. Á meðan hann beið keypti ég mér stóra kók og stóran popp. Stóra kókið var ekkert sérstaklega stórt en stóri poppinn var miklu stærri en mér hafði sýnst og endaði í mesta lagi hálfkláraður í ruslinu.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á Star Trek mynd í bíó. Það gladdi mig að þarna var allavega einn í búningi og þar að auki nokkrir með svona stjörnuflotamerki.

Myndin sjálf var alveg frábær. Hún hélt manni frá upphafi til enda. Hún náði líka að gera það án þess að vera með fullt af klæmöxum. Hún náði að gera góðlegt grín að gamla Star Trek og þó um leið vera nokkuð trygg anda þess. Ég á erfitt með að ímynda mér að gamlir aðdáendur verði ekki hrifnir. Allir þeir sem hafa nokkuð gaman af Star Trek ættu líka að kíkja. Ég veit ekki með rest. Gefið henni allavega séns. Þetta er mikið betri mynd en þær eldri.

Ég hef alltaf verið hrifnari af þáttunum en myndunum. Ég hef þó aldrei náð að horfa á  upprunalegu seríuna í gegn. Hún var aðeins of asnaleg. Ég hef nennt að horfa á slatta af öllum hinum seríunum og haft gaman af.

Ofmetinn Batman

Við fórum í bíó. Dark Knight hefur verið mikið hæpaður en ég var samt frekar efins vegna þess að mér fannst Batman Begins vera ofmetin. Ég held reyndar að þessi hafi verið betri. Hún hefur hins vegar marga galla. Aðalgallinn er að það komu of margir klæmaxar. Ég held jafnvel að þetta hefði getað verið betra ef þetta hefðu verið tvær myndir en ekki bara ein. Það er margt sem ég myndi vilja segja en mér er illa við að segja of mikið. Núna langar mig aðallega bara að sjá Batman Tim Burtons og bera saman Jack og Heath. Mig grunar að sá síðarnefndi hafi fengið meira hól en hann á skilið. En augljóslega er þetta líka bara smekksatriði.

Þessi mynd á fráleitt skilið þá stöðu sína að hafa hoppað beint á topp lista Internet Movie Database.

Indiana Jones númer fjögur

Ég fór á Indiana Jones í gær. Númer fjögur. Með Eygló. Ég er haldinn andúð á því að segja fólki of mikið frá myndum þannig að ég læt duga að segja að ég hafi verið sáttur. Mig grunar að eina leiðin til þess að verða sérstaklega óánægður með þetta sem bíóreynslu sé að ímynda sér að fyrstu þrjár hafi verið betri eða, öllu heldur, dýpri og innihaldsmeiri en þær voru í raun. Ég held samt að ég þurfi að sjá þessa aftur til að geta metið hana almennilega og hvernig hún passar inn í fjórleikinn.

Ég fór með hattinn í bíó eftir að hafa verið með hann í vinnu frá því að ég náði í hann. Fékk reyndar fáar athugasemdir miðað við hve kjánalegur mér fannst ég vera. Hvernig gengur fólk annars með hatta á Íslandi í þessum vindi öllum?
Hitti Bessa og Helga í bíó sem ég kynntist á G!Fest um árið. Ég á reyndar ennþá eftir að fullþakka þeim fyrir að taka að sér bakpokann minn þegar ég húkkaði far til Þórshafnar. Bessi var með hatt sem hann vann og svipu líka. Við Eygló sátum annars við hliðina á spjallgjörnu fólki sem þótti allt í lagi að rökræða hvað var að gerast á skjánum upphátt í stað þess að hvíslast eða bara þegja. Þau sem voru við hliðina á Eygló voru svona 9-10 ára gömul en fullorðið fólk hjá mér. Kannski er það helsta gæðamerki myndarinnar að ég lét þetta ekki fara neitt óhóflega í taugarnar á mér.

Ég var fullungur til að fara á Raiders og Temple en á ellefu ára afmælinu mínu (1990 fyrir þá sem vita ekki hvað ég er gamall) fór ég með Heiðari vini mínum á Last Crusade. Það var töluvert sport þar sem myndin var bönnuð innan tólf ára.

Við Eygló horfðum á myndirnar allar til að hita upp fyrir bíóferðina. Það sem kom eiginlega mest á óvart var að Temple of Doom hefur elst betur en ég hélt. Það sem böggaði mig mest við myndirnar voru öll þessi tilgangslausu dráp. Ég er greinilega orðinn viðkvæmur í elli minni.

En hvað um það. Farið endilega í bíó, þið skulið bara ekki ætlast til þess að myndin sé jafn góð og ykkur minnir að Raiders hafi verið fyrst þegar þið sáuð hana ung að árum.